Loksins er komið að því. Dagurinn þegar við reynum að gleyma öllu veseni vetrarins, setjum allar vangaveltur um ráðningarmál og leikmannakaup til hliðar, þó ekki nema næsta sólarhringinn eða svo (já, þrátt fyrir fyrirsagnir í morgun) og einbeitum okkur að því að styðja okkar menn til sigurs í tólfta skipti í ensku bikarkeppninni.
Við fórum yfir ellefu sæta sigra á miðvikudaginn, og þó að mörg, ef ekki öll, okkar mundu, ef beitt er ísköldu mati 21. aldar knattspyrnu, frekar vilja vinna Wenger bikarinn og komast í Meistaradeildina þá munu öll okkar fagna vel og innilega annað kvöld ef þetta tímabil endar með því að við jöfnum Arsenal í fjölda bikarsigra. Á morgun skiljum við eftir vonbrigðin, þau eru hvort sem er að baki, og vonumst eftir indælum sigri í elstu knattspyrnukeppni heims.
Leiðin á Wembley
Manchester United 1:0 Sheffield United
Derby County 1:3 Manchester United
Shrewsbury Town 0:3 Manchester United
Manchester United 1:1 West Ham United
West Ham United 1:2 Manchester United
Everton 1:2 Manchester United
Leið United á Wembley var þokkalega greið í þetta sinn, neðri deildar lið í fyrstu leikjunum þangað til að West Ham varð erfiðari ljár í þúfu. Loks var það auðveldur sigur á Everton á Wembley sem sendi United í úrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í níu ár.
Lið United
Á morgun spái ég því að eftirfarandi lið fái það verkefni að gera tímabilið eftirminnilegra fyrir sig en ella, og eftirminnilegra en þó United hefði náð fjórða sætinu, því þrátt fyrir allt þá er það enn svo að þó að fjórða sætið gefi meira í aðra hönd og Meistaradeild á næsta ári, þá er meira en sannleikskorn í því sem Louis van Gaal segir að leikmenn muni aldrei gleyma bikarsigri, en vonbrigðin að ná ekki fjórða sæti munu gleymast.
Morgan Schneiderlin og Marcos Rojo eru heilir, en Schneiderlin hefur ekki byrjað í bikarnum síðan gegn Shrewsbury og Marouane Fellaini er tilbúinn eftir að hafa afplánað þriggja leikja bann. Fellaini er treyst til skítverkanna gegn minni liðum og sannast sagna var hans nokkuð saknað í undanförnum leikjum. Hann mun því byrja þennan leik á morgun, jafnvel þó Van Gaal sé tíðrætt um leikæfingu.
Þegar Fellaini spilar er því allt undir þróun leiksins komið hvort um er að ræða tvo djúpa miðjumenn eða ekki, Fellaini getur leikið hvort sem þarf. Ég vona innilega að United byrji þennan leik af sókndirfsku frekar en hitt og sýni það í uppstillingunni.
Besti markvörður á Englandi verður í markinu og það er engin spurning um miðvarðarparið.
Cameron Borthwick-Jackson ætti að byrja vinstra megin. Hann er ekki einasta búinn að sýna að hann sé prýðilegur varnarmaður heldur eru fyrirgjafir hans þær skæðustu sem varnarmaður United hefur komið með í áraraðir. Honum er fyllilega treystandi fyrir þessu verkefni. Það eina sem mælir móti honum er að í sigrinum á Palace í apríl átti Matteo Darmian flottan leik gegn Zaha og stakk honum í vasann. Það er því möguleiki að Van Gaal horfi til þess og líti framhjá mörgum döprum frammistöðum Darmian, eins og t.d. gegn Zaha í 0-0 jafnteflinu í október.
Hægra megin verður Antonio Valencia. Hann er traustur og á meira að segja stöku góða fyrirgjöf og getur því aukið enn á sóknarþungann
Michael Carrick mun á morgun leika að öllum líkindum sinn síðasta leik gegn United. Ég verð jafn glaður og hann ef hann fær framlengingu á samningi en ef ekki verður þetta vonandi viðeigandi kveðjustund, þó að alltaf sé skemmtilegra að vita að einhver sé að kveðja
Framlínan velur sig sjálf. Rooney spilar framar en hann gerði á móti Bournemouth, Martial verður auðvitað á kantinum sem og Mata hægra megin og Marcus Rashford fær tækifæri til að kóróna tímabil sitt og gera það að ógleymanlegasta frumraunartímabili United leikmanns í langan tíma.
Þegar Will Keane kom inn á sem varamaður í leiknum gegn Shrewsbury hélt ég, og fleiri að nú væri ungur framherji að fara að fá það tækifæri sem hann átti skilið og myndi nýta. En það fór á þann veg sem engan grunaði. Keane meiddist nær strax og á bekkinn í næsta leik gegn Midtjylland settist Rashford, framherji sem jafnvel rauðustu unglingaliðsstuðningsmenn bjuggust ekki við miklu af. Og þegar Martial meiddist kortéri fyrir leik var Marcus Rashford allt í einu í byrjunarliði United.
En tækifærin eru til að grípa þau. Það gerði Rashford svo sannarlega.
Hann hefur skorað fimm mörk í ellefu deildarleikjum, 1 í þrem bikarleikjum og tvö í þremur Evrópudeildarleikjum, bæði í sigrinum á Midtjylland.
Verður morgundagurinn dagur Marcus Rashford? Eða kannske verður það dagur Anthony Martial, dýrasta unglings knattspyrnusögunnar?
50 million down the drain
as Tony Martial scores again.
Því það má segja hvað sem er um þetta tímabil en ef að þessir tveir knáu ungu drengir sjá til þess að Wayne Rooney verði tíundi United fyrirliðinn sem lyfir enska bikarnum þá mun ég fagna þessu tímabili, gleyma því slæma og horfa fram á veginn.
En það er víst alltaf þannig að það eru ellefu aðrir á vellinum sem ætlast ekki til að við verðum þau sem fögnum í lok leiks.
Crystal Palace
Mótherji okkar á laugardaginn er Crystal Palace sem hefur átt gríðarlega kaflaskipt tímabil sem kemur kannski ekki á óvart um leið og menn sjá að að hinn kaflaskipti Alan Pardew er sá sem stýrir skútunni.
Hann tók við liðinu um áramótin 2014/15 þegar liðið sat í 18. sæti undir stjórn Neil Warnock. Pardew hafði rokkað upp og niður deildina með Newcastle í nokkur ár en var líklega kominn á algjöra endastöð með þá og því hafa vistaskiptin yfir til Crystal Palace líklega verið kærkomin fyrir hann enda er hann fyrrverandi leikmaður Palace og spilaði til að mynda í báðum úrslitaleikjunum árið 1990 þegar United hafði betur gegn Palace í bikarnum það árið.
Undir stjórn Pardew snerist gengi Palace alveg við og liðið nældi sér í 31 stig í þeim 18 leikjum sem eftir voru af tímabilinu. Ansi vel af sér vikið og menn voru heldur betur klárir í bátana fyrir tímabilið sem lýkur nú á laugardaginn. Menn ætluðu sér stóra hluti og fátt sýnir það betur en þegar liðið keypti Yohan Cabaye [footnote]Sem eitt sinn var sterklega orðaður við United[/footnote]frá PSG fyrir 10 milljónir punda. Það er sjaldan sem minni liðin ná að landa svo feitum bitum.
Palace byrjaði líka af krafti og vann fyrstu þrjá af fjórum leikjum sínum, þar á meðal 1-2 sigur gegn meisturum Chelsea á útivelli. Gott gengi liðsins hélt áfram og það vann síðan Liverpool á Anfield. Þegar jólin mættu á svæðið var það aðeins markahlutfallið sem hélt liðinu frá meistaradeildarsætunum.
Hvað var það sem Pardew gerði til þess að breyta leikstíl liðsins eftir að hann tók við liðinu af Neil Warnock?
Þegar lið Palace er skoðað, bæði fyrir síðasta tímabil og fyrir þetta, stendur upp úr hvað liðið er með marga spræka, snögga og leikna kantmenn á borð við Dwight Gayle, Jason Puncheon, Wilfried Zaha, Yanick Bolasie og svona mætti telja áfram.
Warnock hafði að einhverju leyti stílað inn á þetta en varfærinn 4-1-2-3 uppstilling hans með var engan veginn að virka fyrir liðið. Pardew var klókur og gerði engar risastórar breytingar á liðinu en þær breytingar sem hann gerði spiluðu mun betur inn á styrkleika liðsins í stað þess að reyna að bæta upp fyrir veikleikana líkt og Warnock hafði gert.
Í stað fyrrum United-leikmannsins Frazier Campbell kom hinn stóri og stæðilegi Glenn Murray inn í liðið. Ledley og McArthur voru settir djúpir á miðjuna til þess að vernda vörnina, halda boltanum betur innan liðsins og til þess að finna hina skapandi leikmenn sem fyrir framan þá voru. Kantmönnunum var að sama skapi skipað að faðma hliðarlínuna, taka menn á og dæla boltum á Murray inn í teiginn. Murray var á láni í fyrstu deildinni en sneri aftur til Palace um það leyti sem Pardew tók við og reyndist vera lykilmaður í viðsnúningi Palace undir stjórn Palace.
Þetta var í raun ekki flókið. Kantmennirnir dældu boltum á Murray sem annaðhvort vann skallaeinvígið og skallaði að marki eða truflaði varnarmenn það mikið að hinn leikni Jason Puncheon sem færður var í holuna gat nýtt sér allt svæðið sem skapaðist þegar varnarmenn andstæðingana glímdu við Murray.
Pardew tók einnig til í vörninni án þess þó að gera miklar breytingar og þar munaði helst um það að hann endurskipulagði hvernig liðið varðist föstum leikatriðum en liðið hafði bókstaflega lekið inn mörkum eftir horn og aukaspyrnur. Undir stjórn Pardew fékk liðið aðeins eitt mark á sig eftir fast leikatriði á síðasta tímabili. Tiltekt Pardew í föstum leikatriðum náði ekki bara til varnarinnar heldur einnig til sóknarinnar. Á þessu tímabili er Palace það lið sem skorað hefur hæst hlutfall marka sinna úr föstum leikatriðum.
Þetta svínvirkaði og Pardew reif Palace-liðið upp úr lægð án þess að gera drastískar breytingar á leikstíl liðsins og svo virðist sem að planið hjá Pardew fyrir tímabilið sem nú er að ljúka hafi verið eitthvað á þessa leið: Meira af því sama nema með betri leikmönnum.
Yohan Cabaye kom til liðsins til þess að stýra miðjuspilinu og Connor Wickham kom til liðsins til þess að gegna hlutverki Glenn Murray sem fór frá félaginu. Bakary Sako, enn einn snöggi og leikni kantmaðurinn gekk einnig til liðs við Palace auk þess sem að Adebayor mætti á svæðið í janúar. Það var því augljóst að Pardew ætlaði sér ekki að breyta sigurformúlunni sinni.
En þrátt fyrir þessa frábæru stöðu í deild um jólin átti Adam (eða Alan) þó ekki eftir að vera lengi í Paradís. Af einhverjum ástæðum hrundi gengi liðsins eftir áramót og liðið vann heila tvo leiki í deildinni á árinu 2016! Liðið endaði í 15. sæti með 42 stig, fimm stigum frá falli.
Pardew til varnar lenti liðið í miklum meiðslavandræðum þegar hver annar lykilmaður liðsins meiddist frá áramótum. Leikmenn eins og Cabaye, Jedinak, Wickham og fleiri voru mikið frá og þetta bitnaði á leik liðsins. Að sama skapi vill þetta oft gerast með Pardew. Hann nær góðum árangri til þess að byrja með en svo fjarar undan öllu hjá honum líkt og gerðist með Newcastle undir hans stjórn.
Hann missti mikið af þeim leikmönnum sem voru að virka vel fyrir hann og þá taktík sem hann lagði upp með og svo virðist sem að Pardew hafi hreinlega ekki haft svarið við því hvernig breyta ætti leik liðsins til hins betra án leikmanna á borð við Zaha, Cabaye og Wickham.
Liðinu gekk þó vel í bikarnum og mörkin sem liðið skoraði gegn Watford í undanúrslitunum eru í raun skólabókar dæmi um hvernig liðið sækir.
Fyrsta markið kemur eftir hornspyrnu, það síðara frá kantinum og ef menn horfa á allt myndbandið sést að öll færi liðsins koma eftir hratt uppspil upp kantana.
Meiðslalisti Palace hefur líka styst allverulega og það er aðeins Joe Ledley sem verður frá. Cabaye verður með og sömuleiðis Conor Wickham sem skoraði sigurmarkið gegn Watford í undanúrslitunum. Líka er búist við að Zaha verði klár og liðinu er spáð svona
Þetta er aðeins breytt frá því sem við sáum á myndinni að ofan fyrir liðið í fyrra og búast má við að Palace muni spila þétt á móti United. Liðið getur alltaf breytt um gír og nýtt kantana sem fyrr segir. Þá reynir á bakverðina.
Leið Palace í úrslitin
Southampton 1:2 Crystal Palace
Crystal Palace 1:0 Stoke City
Tottenham Hotspur 0:1 Crystal Palace
Reading 0:2 Crystal Palace
Crystal Palace 2:1 Watford
Sannarlega ekki auðveldasta leiðin og bikarleikir hljóta að hafa verið kærkomin hvíld frá deildarstreðinu. Palace hefur ekki unnið í síðustu fimm útileikjum en sigurinn á Watford á Wembley telst ekki með.
Crystal Palace eru sýnd veiði en ekki gefin á morgun, ekki síst fyrir United lið sem hefur hvað eftir annað í vetur verið ósannfærandi. United þarf að spila eins og í seinni hálfleiknum á móti Bournemouth á þriðjudaginn og sýna að liðið á skilið að vinna enska bikarinn og bæta einu medalíunni sem vantar í söfn þeirra Rooney og Carrick.
Þá getum við stuðningsmenn gengið glöð frá borði þessa keppnistímabils og tekist á við sumarið með bros á vör!
Björn Friðgeir says
Samkvæmt MEN er Rojo í hópnum en Borthwick-Jackson ekki! Þar fór okkar spá.
Memphis ekki í hóp heldur.