Fljótlega eftir að tilkynnt var um ráðninguna á José Mourinho fengum við þessa spurningu frá dyggum aðdáenda síðunnar:
Einlæg forvitni: mig langar að vita hvað ritstjórn @raududjoflarnir finnst um ráðningu Mourinho. Að menn geri grein fyrir atkvæði sínu.
— Kristján Atli (@kristjanatli) May 27, 2016
Sjálfsagt mál, Kristján Atli, sjálfsagt mál. Göngum á línunna:
Spaki maðurinn
1. Hvað finnst þér um ráðningu United á José Mourinho?
Fyrir þremur árum gerðist það að Sir Alex Ferguson tilkynnti að hann ætlaði að hætta sem stjóri United og fór maður þá ósjálfrátt í miklar hugleiðingar um hver gæti orðið verðugur arftaki hans. Í þeim hugleiðingum komst ég þeirri niðurstöðu að Mourinho væri það einfaldlega ekki. Persónulega vildi ég sjá hinn brosmilda og heillandi stjóra Dortmund, herra Jurgen Klopp, taka við keflinu. Mínar helstu ástæður fyrir að vilja ekki sjá Mourinho hjá United voru:
- …að hann væri hrokagikkur sem hugsaði bara um sjálfan sig
- …að hann kynni einungis að láta liðin sín „leggja rútunni“
- …að hann gæfi aldrei unglingum tækifæri
Í dag er ég er lítið smeykur fyrir fyrstu ástæðunni. Af hverju? Jú því það hefur sýnt sig og sannað að það þarf hrokagikk til að taka við klúbbi eins og United, látum ekki eins og Ferguson hafi verið eitthvað annað. Ef þú ert stjóri United sem hefur ekki fullkomið sjálfstraust og trú á því sem þú ert að gera, þá endar þú eins og David Moyes.
Varðandi ástæðu nr.2. Eftir að hafa lesið greinar eins og þessa frá Adam Bate (Sky Sports) og svo þessa hér frá Michael Cox (Guardian) þá er ég einfaldlega kominn á þá skoðun að ég hafði rangt fyrir mér. Hvernig getur maður, sem samkvæmt orðspori sífellt „leggur rútunni“, stjórnað markahæstu deildarliðum (oftar en einu sinni) á Spáni, Englandi, Ítalíu og Portúgal? Það stemmir ekki alveg, ekki satt? Mourinho, líkt og Ferguson, er einfaldlega afskaplega góður í að stilla liðum sínum rétt upp og koma leikmönnum í réttan gír fyrir leiki. Ef þú ert stjóri United sem nær ekki að peppa upp mannskapinn og ekki tilbúinn að aðlaga þinn leikstíl og stjórnunarhætti, þá endar þú eins og Louis Van Gaal.
Svo varðandi síðasta punktinn þá get ég ekki neitað því að þetta er ennþá eitthvað sem hræðir mig. Mourinho sá t.d. ekki hversu góðir leikmenn De Bruyne og Lukaku gætu hafa orðið fyrir Chelsea. En á sama tíma er hægt að gefa honum kredit fyrir að spila John Terry reglulega, þegar hann var á sama aldri og Jesse Lingard, ásamt því að nota mikið unga leikmenn eins og Zouma, Varane, Hazard og Carlos Alberto (sem var þriðji yngsti markaskorari í sögu úrslitaleikja meistaradeildarinnar þegar hann skoraði fyrir Porto gegn Mónakó). En þetta verður seint talið eitthvað sérstaklega glæsilegur árangur á hans sextán ára ferli. Mourinho þarf að mínu mati svo sannarlega að bæta sig hvað þetta varðar og finnst mér nú ansi líklegt að þetta hafi verið rætt áður en skrifað var undir ráðningarsamninginn við United.
En burtséð frá þeim þremur ástæðum sem hræddu mig fyrir þremur árum þá er núna komið eitthvað glænýtt sem trompar rest. Ég er skíthræddur við að sjá einhvers konar fíaskó eins og við sáum gerast á milli Mourinho og Eva Carneiro hjá Chelsea á síðasta tímabili. Það er svo auðvelt að klúðra þessu starfi og get ég alveg séð fyrir mér margar aðstæður þar sem José gæti hreinlega misst tökin. En svo er hægt að líta á þetta frá öðru sjónarhóli og benda á að hann hefur nú reynslu að stjórna risastórum klúbbum sem hafa mörg augu og gagnrýnendur (*hóst* Real Madrid*hóst*) þannig að ég vona að síðasta tímabil hafi verið algjör undantekning á hans ferli hvað þetta varðar (þá á ég við að missa algjörlega tökin. Þori ekki að fara út í að ræða atvik eins og að pota í augun á öðrum stjórum).
Bottomlænið hjá mér er að þessi ráðning gerir mig aftur spenntan fyrir að horfa á United, fyrir næsta tímabili og fyrir framtíðinni. Eftir 3 ár af mestmegnist drepleiðinlegum og negatífum fótbolta með örfáum undantekningum (þið gerið ykkur ekki grein fyrir hvað það hefur verið stundum erfitt að skrifa jákvæðar leikskýrslur síðustu þrjú tímabil), þá er ég tilbúinn að taka þá áhættu sem óneitanlega fylgir ráðningu Mourinho. Ég þrái stöðuleika innan liðsins í stað rússíbanaruglsins sem við höfum horft upp á undir stjórn Moyes og Van Gaal. Ég vona bara að Mourinho sé rétti maðurinn á réttum tíma til að veita okkur hann.
Nú er stóra spurningin hvernig þessi setning mun líta út eftir nokkur ár:
„Ef þú ert stjóri United sem…, þá endar þú eins og Mourinho“.
2. Hvaða væntingar hefur þú til hans sem stjóra United?
- Að hann fái United til spila eins og lið sem getur bæði skorað mörk og varist
- Að hann láti United berjast um alla titla.
- Að hann nái að endurheimta sjálfstraustið sjá sumum leikmönnum United sem eiga helling inni (t.d. Schneiderlin og Memphis)
- Að hann haldi áfram góðu starfi United að gefa unglingum sjens
Björn Friðgeir
1. Hvað finnst þér um ráðningu United á José Mourinho?
Mourinho er klárlega besti stjórinn sem er möguleiki fyrir United á þessum tímapunkti. Hann er þaulreyndur í öllum sterkustu deildum Evrópu og hefur stjórnað toppliði og veit hvernig kröfur lið gera.
En helsti kosturinn við hann í mínum huga er að hann hefur dreymt um þetta starf lengi. Nú getur hann kórónað feril sinn og hann gerir það einungis með að vinna titla OG skila góðu búi. Þess vegna hef ég fulla trú á að hann taki nægilegt tillit til krafa félagsins og stuðningsmanna um góðan bolta og nýtingu ungu leikmannanna.
Helsti ókosturinn er auðvitað hvort hann sé kominn yfir hæðina. Hvort hann sé orðinn úreltur sem stjóri og að skapið sé orðið of stór partur sem sést af Evu Carneiro málinu sem getur hugsanlega gert honum erfitt fyrir. Síðasti stjórinn til að vinna deildina með mismunandi félögum var Kenny Dalglish aðallega af því að síðan þá hafa bara fimm félög orðið meistarar og José er fyrstur til að stjórna tveimur af þeim!
2. Hvaða væntingar hefur þú til hans sem stjóra United?
Mínar væntingar eru einfaldar: topp kaup í sumar þrátt fyrir Meistaradeildarleysið, atlaga að titlinum næsta vetur og titill og/eða Meistaradeildartitill a öðru ári. Til þess er hann fenginn á Old Trafford.
Tryggvi Páll
1. Hvað finnst þér um ráðningu United á José Mourinho?
2. Hvaða væntingar hefur þú til hans sem stjóra United?
Runólfur
1. Hvað finnst þér um ráðningu United á José Mourinho?
Ég var ekki hrifinn af því fyrst, enda finnst mér José Mourinho oftast skilja eftir sig sviðna jörð. Samanber Real Madrid og Evu Carneiro.
Að því sögðu þá held ég að United sé draumastarf Mourinho og því muni hann eflaust breyta einhverju í sínu fari, að sama skapi er mun meiri þolinmæði hjá Manchester United heldur en Chelsea eða Real Madrid.
2. Hvaða væntingar hefur þú til hans sem stjóra United?
Ég býst hreinlega við því að hann komi United aftur á toppinn. Breyti Old Trafford í virki og skilji eftir sig rosalega arfleið.
Sigurjón
1. Hvað finnst þér um ráðningu United á José Mourinho?
Ég er vægast sagt mjög spenntur yfir þessu öllu saman. Maður tók auðvitað fyrst eftir honum þegar hann gerði Porto af Evrópumeisturum, sem manni þótti magnað afrek og frá fyrsta degi með Chelsea var það ljóst að þarna var kominn maður sem fólk annað hvort hataði eða elskaði, en ólíkt mörgum öðrum hrokagikkjum þá bakkað hann allt upp með árangri. Ég get ekki sagt að maður hafi „elskað“ hann þegar hann var að vinna titla með Chelsea en ég bar alltaf mikla virðingu fyrir honum. Held að það hafi mikið til verið út af því hversu mikla virðingu hann alltaf sýndi Manchester United og Alex Ferguson.
Manchester United er ofurklúbbur, eitt verðmætasta íþróttamerki heims, og svoleiðis lið á alltaf að vera með ofurþjálfara. Því miður er ekki mikið um slíka þjálfara og að þeir séu á lausu er ennþá sjaldgjæfara. Mourinho er ofurþjálfari og það er ákveðinn léttir að vita af slíkum manni aftur í brúnni.
2. Hvaða væntingar hefur þú til hans sem stjóra United?
Byrjum á áhyggjum mínum, þær eru helst tvær:
1. Persónuleiki Mourinho. Hann hefur í gegnum tíðina sýnt furðulega hegðun í fjölmiðlum. Hvort það sé einhver sálfræðihernaður að hans hálfu [footnote]sem augljóslega hefur ekki virkað[/footnote] það veit ég ekki en mér hefur oft fundist eins og hann reyni frekar að beina athyglinni að sér [footnote]eða dómurum![/footnote] en leikmönnum sínum þegar illa gengur. Þetta hefur ekki alltaf gengið upp hjá honum en svo framarlega sem það sem hann gerir og segir hefur ekki áhrif á samheldni hópsins og spilamennsku þá er mér sama.
2. Unglingastarfið. Mourinho hefur ekki verið þekktur fyrir að gefa ungum leikmönnum mikinn séns og það er eitthvað sem er auðvitað ríkt í okkar sögu. Mér finnst það þó svolítið asnalegt þegar fólk vill að ungir leikmenn fái að spila helling „af því bara“. Að mínu mati þarf aðalliðið fyrst að vera sett up 100% áður en unglingarnir eru kynntir til leiks, slík uppbygging tekur tíma og mér finnst hreinlega eins og Mourinho hafi aldrei fengið/gefið sér tíma til að ljúka almennilega slíkri uppbyggingu. Þetta var jafnvægi sem Ferguson náði og hélt lengi vel á sínum ferli á meðan LVG var alveg í ruglinu með sitt jafnvægi, með aðalliðið mölbrotið [footnote]útaf meiðslum og sölu[/footnote] og þurfti að reiða sig alltof mikið á unglinga. Unglingastarfið er þó sterk hefð hjá Man Utd og ég hef enga trú á því að því að Mourinho komi til með að rústa því einn síns liðs.
Það sem ég er mjög spenntur yfir:
1. Leikmannamál. Í fyrsta lagi treysti ég Mourinho algjörlega á leikmannamarkaðnum. Í þetta skipti verður hann ekki með snaróðann milljarðamæring á bakvið sig sem spyr ekki um verð og kaupir leikmenn bara svo önnur lið geti ekki keypt þá. Ég held (vona!) að peningum verði eytt frekar skynsamlega í næstu gluggum og aðeins þeir leikmenn sem passa inn í hugmyndafræði Mourinho verða keyptir. Hef litla trú á því að United sé að fara að eyða í leikmenn sem verða síðan lítið sem ekkert notaðir, sem var stundum raunin hjá Chelsea. Ég hef líka ekki miklar áhyggjur af því að hann nái ekki að kreista út þeim gæðum sem liggja í hópnum. Það verður auðvitað eitthvað um það að vinsælir leikmenn hverfa á braut því þeir passa ekki inn í leikskipulagið, en þeir sem verða eftir og þeir sem bætast við, þeir munu vonandi spila á þeim standard sem við öll ætlumst til af þeim. Að lokum þá hef ég engar áhyggjur af því að Jose Mourinho og Manchester United í sömu setningu geti ekki tælt til sín topp leikmenn þrátt fyrir að liðið muni ekki spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili.
2. Ákefð og leikstíll. Það að Jose Mourinho spili hundleiðinlegan fótbolta er ein mesta goðsögn sem ég veit um, ég hef verið á þessari skoðun í mörg ár. Hann spilar skyndisóknarbolta, ekki einhvern Guardiola possession bolta og þar af leiðandi í stórum leikjum endar andstæðingurinn oftar en ekki meira með boltann. En viti menn, ofast stendur Jose uppi sem sigurvegari í þessum leikjum! Þannig að þessi „leggja rútunni“ stimpill sem hann hefur fengið á sig er bara væll frá súrum stuðningsmönnum liða eins og Liverpool og Arsenal sem hafa tapað gegn taktísku liði Mourinho. Tölfræðin sýnir að markaskorun undir hans stjórn hefur aldrei verið mikið vandamál.
Mourinho not only parks a bus but also scores a goal #Mourinho #ManUtd #goal scoring record pic.twitter.com/yysQdauVki
— John (@Mancinacan) December 22, 2015
Mesta breytingin hér fyrir mér er að núna er kominn maður í brúnna sem ég treysti 100%. Moyes treysti ég aldrei og LvG langaði mig til að treysta. Ég ætla að gefa þá kröfu á fyrsta ári að spilamennsku liðsins sem heild verði lyft á hærra plan, sem ætti að skila baráttu um topp 3 sætin, enda er það staður sem Man Utd á að vera á. Mourinho fær eins langan tíma og hann vill í mínum bókum því ég veit hverju hann getur áorkað. Endi United í 14. sæti á næsta ári, ok ekkert mál, við tæklum þetta þá bara árið 2018.
Maggi
1. Hvað finnst þér um ráðningu United á José Mourinho?
José Mourinho er sigurvegari. Hann hefur unnið flestalla titla sem eru í boði. Með Porto og Inter hefur hann unnið meistaradeildina. Unnið 3 deildartitla með Chelsea. Svo vann hann deildartitil á Spáni með Real Madrid þegar Barcelona var enn á Pep Guardiola skeiðinu.
Við sem styðjum Manchester höfum verið ofdekruð af árangri liðsins undanfarna tvo áratugi. Sir Alex Ferguson skapaði miklu sigurhefð og hungur í titla. Maðurinn var sigurvegari og það smitaði út frá sér. Þegar Alex Ferguson stjórnaði United þá bjóst stuðningsfólk alltaf við sigri algjörlega óhað mótherjum. Skipti engu hvort um var að ræða Real Madrid eða Derby County.
Þetta er það sem ég er að vonast til að Mourinho byggi upp aftur. Óbilandi sjálfstraust og trú á verkefnið sem hefur einfaldlega verið barið úr liðinu undanfarin þrjú tímabil.
Auðvitað er alltaf áhætta á að Mourinho verði ekki mörg ár við stjórnvölinn sem er kannski allt í lagi því það hefur komið í ljós að það kemur liðum oft bara í koll þegar alvaldurinn hættir sem var með allt eftir sínu höfði.
José Mourinho er hrokafullur. Og hvað með það? Hvað haldið þið að stuðningsfólk annarra liða hafi sagt um Ferguson til dæmis?
Og þetta með að hann endist aldrei hjá liðum. Ég held að enginn stjóri hafi enst jafnlengi vinnandi fyrir brjálæðinginn Roman Abramovich. Hann hætti með Inter til að taka við Real Madrid. Hann fer frá Real Madrid af því að hann dirfðist að skipta um aðalmarkvörð þegar Casillas var byrjaður að vera töluvert slakur og prímadonnurnar þoldu það ekki. Hvar er Iker Casillas í dag?
2. Hvaða væntingar hefur þú til hans sem stjóra United?
Ég ætla að leyfa mér að vera spenntur og hlakka til að horfa á Manchester United því ég hef ekki verið það í alltof langan tíma.
Egill says
De Bruyne var með heimþrá og hausinn var ekki á réttum stað, þess vegna seldi Móri hann til Þýskalands. Hann var líka með Oscar í liðinu sem var að spila vel og var ekki vælandi yfir því að mamma sín væri ekki hjá sér. Þ.a.l. var það fullkomlega eðlilegt að selja De Bruyne.
Vissulega hefði Móri átt að nota Lukaku meira, en það lenda allir stjórar í því að selja leikmenn sem urðu síðan frábærir, Pogba anyone?
Mourinho hefur allt sem þarf til að stýra Man Utd, það hefur verið draumur hans í mörg ár að koma til okkar og ég held að hann hafi aldrei ætlað að stoppa lengi hjá Chelsea.
Með ungu leikmennina þá voru Joe Cole, Damien Duff, Azpilicueta, Oscar, Hazard, Terry, Isco, Balotelli o.fl. sem fengu sénsa undir stjórn Mourinho þegar þeir voru ungir, t.d. hálft Porto liðið. Það er erfitt að búa til einhverja akademíu þegar þú stoppar aðeins í 2-3 ár hjá sama félaginu, og það er ekki eins og liðin sem hann hefur verið hjá hafi verið þekkt fyrir unglingastarfið sitt.
Dogsdieinhotcars says
Finnst menn alltof oft benda á að Lukaku hafi verið seldur frá Chelsea og það séu mistök Móra. Persónulega finnst mér Lukaku ekki vera nálægt þeim gæðum sem framherjar stórliða þurfa að hafa. Hann skorar fullt fyrir lið eins og Everton (Benteke) en hefur ekki neina boltatækni og fer þetta allt á kraftinum. Ég myndi allan daginn selja Lukaku ef ég gæti í kjölfarið valið úr öðrum framherjum.