Í fyrra var mikið ritað og rætt um yngri lið Manchester United, u18 ára liðið eða akademían gekk í gegnum ýmsar breytingar og u21 lið félagsins vann deildina, í þriðja skiptið á fjórum árum. Í dag er Nicky Butt tekinn við af Paul McGuinness sem þjálfari akademíu liðsins ásamt því að vera yfir allri starfsemi sem við kemur unglingum félagsins, á meðan er Warren Joyce ennþá þjálfari u23 liðsins enda búinn að skila bikurum í hús og leikmönnum í aðalliðið.
Við hér á Rauðu djöflunum höfum í rauninni ekki fjallað mikið um yngri liða starf félagsins en ætlum að gera tilraun til að bæta úr því í vetur. Stefnan er að birta allavega tvær greinar í hverjum mánuði þar sem verður farið yfir leiki hjá u23 liði (deildin er núna fyrir 23 ára og yngri en ekki 21 árs) og u18 ára liði félagsins ásamt því að fjalla aðeins um einstaka leikmenn sem hafa skarað fram úr og fleira í þeim dúr.
Því miður hefur heimasíða Manchester United ekki enn uppfært leikja listann fyrir u18 ára og u23 ára liðið en bæði lið hafa þó spilað einn deildarleik hvort um sig ásamt nokkrum æfingaleikjum. Einnig tók u18 liðið þátt í Otten Cup mótinu sem er haldið í Hollandi. Þar var okkar maður Tahith Chong valinn maður mótsins þar sem United tapaði í úrslitum og Callum Gribbin skoraði þetta gullfallega mark gegn Barcelona;
Callum Gribbin nets in style v Barcelona at the Otten Cup! See more highlights on #MUTVHD tonight at 21:00 BST. https://t.co/zgsb0mbN4g
— Manchester United (@ManUtd) August 10, 2016
Sagan segir að téður Gribbin hafi neitað 11 þúsund pundum á viku frá Manchester City á síðasta tímabili en drengurinn er ekki enn orðinn 18 ára. Hann er aukaspyrnusérfræðingur mikill og skoraði úr fimm slíkum á síðasta tímabili. Eins og alltaf er mikið af nýjum leikmönnum sem koma á reynslu og spila í u18 en umræddir Chong og Gribbin eru tveir þeirra sem eru taldir vera hvað efnilegastir. Einnig gefur hárgreiðsla Chong sjálfum Marouane Fellaini ekkert eftir. Ásamt þessum tveimur er Regan Poole talinn gífurlegt efni en hann hefur meira og minna spilað með u23 ára liðinu, ásamt því að koma inn í 5-1 sigrinum gegn Midtjylland. Regan Poole kom til United frá Newport County á lokadegi félagaskipta gluggans á síðasta tímabili en þrátt fyrir ungan aldur þá hefur drengurinn spilað 15 leiki fyrir Newport County í League 2 (4. efstu deild á Englandi).
U18 ára liðið byrjaði þó tímabilið ekki vel en liðið tapaði 4-0 fyrir Derby County. Eins og áður sagði eru miklar sveiflur milli leikja á þessum aldri og mun Nicky Butt eflaust stappa stáli í sína menn fyrir komandi vetur.
U21 árs liðið byrjaði aðeins betur en það vann Leicester City 1-0 í hörkuleik þar sem markvörðusinn Sam Johnstone var maður leiksins. Allt bendir þó til þess að hann fari á lán enda hreinlega of góður fyrir u23 ára deildina. Þrátt fyrir að James Wilson, Will Keane, Andreas Pereira og Tyler Blackett hafi allir verið leikfærir þá var enginn af þeim í liðinu gegn Leicester. Má búast við því að þeir séu því allir að fara á lán. Það virðist þó ætla að vera hægara sagt en gert að lána Blackett en eftir ágætis frammistöðu í fyrstu leikjunum hjá Louis Van Gaal fékk hann nýjan samning upp á 20 þúsund pund á viku og virðist það vera að fæla lið í burtu enda liðin í neðri deildum ekki með fjárhagslegt bolmagn til að borga slíkan pakka. Að sama skapi hefur leikmaðurinn lítið sem ekkert heillað en hann spilaði til að mynda varla leik fyrir Celtic þegar hann fór þangað á láni á síðasta tímabili.
Þetta virðist vera breyting á frá stjórnartíð Van Gaal en þá spiluðu oftar en ekki þeir leikmenn aðalliðsins sem þurftu leikæfingu með u21 árs liðinu. Núna ætti að vera enn auðveldara að spila slíkum leikmönnum því það mega vera þrír útileikmenn yfir 23 ára ásamt því að markmaðurinn fær undanþágu til að spila sama hversu gamall hann er.
Vert er að minnast á að í Leicester liðinu voru þrír fyrrum United menn sem virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá Claudio Ranieri, það voru þeir Ritchie De Laet, Tom Lawrence og Matty James. Má búast við að allir þrír verði lánaðir eða seldir áður en glugginn lokar.
Helsta áhyggjuefnið eftir Leicester leikinn var nefnilega skortur á sóknarþenkjandi leikmönnum en með ofan nefndum leikmönnum er sá vandi úr sögunni. Í liðinu voru meðal annars Cameron Borthwick-Jackson, Regan Pool, Alex Tuanzebe, Joe Riley í vörninni en hinn óþreytandi James Weir spilaði í fremstu víglínu. Fyrir okkur Íslendinga væri það mögulega eins og Birkir Bjarna væri einn frammi með landsliðinu. Það er vonandi að annað hvort fái Warren Joyce að nota þá leikmenn aðalliðsins sem eru ekki að spila eða þá að liðið gæti reynt að fá leikmenn lánaða til að halda því samkeppnishæfu. Áður nefndur De Laet kom einmitt á slíku láni hér um árið sem og United fékk leikmann lánaðan frá Bolton Wanderers í sama tilgangi í fyrra, þó svo að sá ungi drengur hafi lítið sem ekkert spilað. Það gæti því verið að u21 liðið og Warren Joyce eigi langt og strembið tímabil framundan en gegn Leicester var liðið með bakvörð og miðjumann á sitt hvorum vængnum. Verður áhugavert að sjá hvað gerist ef að glugginn lokar án þess að Pereira, Wilson og Keane hafi farið á lán.
Ég veit það er ótrúlegt að trúa þessu en flestir sem fylgjast með yngri liðunum af einhverju viti eru sammála um að Tuanzebe sé í raun betri en Timothy Fosu-Mensah, hann er hins vegar ekki alveg jafn mikill skrokkur og hann Timmy okkar og því ekki búinn að fá sénsinn með aðalliðinu. Hvort það sé rétt verður framtíðin að leiða í ljós. Hann átti allavega fínan opnunarleik;
Tuanzebe impressed for our Reserves v Leicester – switch over to #MUTVHD now to see a replay of #MUFC's 1-0 win. https://t.co/RMZFffTjpO
— Manchester United (@ManUtd) August 16, 2016
Að lokum verðum við að leyfa ykkur að sjá sigurmarkið úr 1-0 sigrinum en Sam Johnstone var svo sannarlega allt í öllu;
Demi Mitchell’s goal from tonight pic.twitter.com/O00ncb1Hkn
— United Reserves (@unitedreserves_) August 15, 2016
Óli Jón says
Snilld að fá svona pistil!
Héðinn says
Líst vel á að fá svona pistla í vetur. Ég hef reynt að fylgjast svolítið með unglingaliðunum og það eru nokkrir leikmenn sem ég er spenntur fyrir, en flestir þeirra eru reyndar enn í U-18 liðinu og kannski langt í að við fáum að sjá þá með aðalliðinu. Fyrir utan Tuanzebe og Poole sem þú nefnir þá finnst mér fátt um fína drætti í U-23 ára liðinu…
Veit ekki alveg hvort ég geti tekið undir það að Tuanzebe sé betri en Fosu-Mensah, en hann er öðruvísi leikmaður. Persónulega sé ég Fosu-Mensah fyrir mér sem framtíðar miðjumann en hann getur vissulega leyst varnarstöðurnar líka á meðan Tuanzebe er pjúra hafsent.
Leikmenn í U-18 sem ég er spenntur fyrir eru aðallega Gribbin, Barlow, Angel Gomes (sóknarsinnaðir miðjumenn) og Ro-Shaun Williams (hafsent). Williams á breskt unglingamet í 100m hlaupi (u-15 ára minnir mig), sló þar 25 ára gamalt met sem enginn annar er ólympíumeistarinn fyrrverandi Darren Campbell átti.
Runólfur Trausti says
Ég var nú aðeins að vitna í menn af Twitter með Tuanzebe og Fosu-Mensah en það eru nokkrir einstaklingar sem fylgjast mikið með U18 og U23 leikjum og live tweeta oftar en ekki frá þeim.
Þar voru flestir sammála um að Tuanzebe sé efnilegri einstaklingurinn – en Fosu-Mensah búinn að fá sénsinn svo það er spurning hvað gerist. Eru nú sjaldan efnilegustu leikmennirnir sem ná lengst, snýst alltaf um smá heppni og svona.
Er sammála þér með hvað varðar gæðin í U23 ára liðinu og U18 liðinu, en það er aðallega því planið virðist vera að lána flesta þá leikmenn sem eru ekki nægilega góðir fyrir Aðalliðið en alltof góðir fyrir U23 (Januzaj, Pereira, Wilson, Keane). Ef þessir fjórir væru að spila alla leiki þar þá hefði ég litlar sem engar áhyggjur af því að Joyce myndi ekki valta yfir deildina.
Helsti gallinn við spennandi leikmenn í U18 ára liðinu er jú að þeir eru ekki orðnir 18 ára, allur fjandinn getur gerst þangað til þeir fá sénsinn. En svo geta menn vissulega horft á Marcus Rashford sem gott dæmi um hvað smá „heppni“ getur gert.
Pétur GGMU says
Frábær pistill meira svona takk fyrir.