Á morgun klukkan 11:00 að íslenskum tíma, heimsækir United Vicarage Road þar sem leikmenn Walter Mazzarri í Watford vonast til að næla sér í þrjú stig gegn United liði sem hefur átt vægast sagt ömurlega viku. Að sama skapi er það von Mourinho og leikmönnum United að liðið nái að snúa þessu við og komist aftur í gírinn. Staðreyndin er sú að við megum svo sannarlega ekki við öðru en að það gerist því Pep Guardiola og leikmenn hans í City eru á svaka siglingu þessa dagana og virðist fátt geta stöðvað þá þessa dagana. Það er því gríðarlega mikilvægt að missa þá ekki of langt frá sér.
Eins og við vitum þá var þetta hreint út sagt ömurleg vika fyrir United. Fyrst var það tapleikur um síðustu helgi gegn erkifjendunum í Manchester City á Old Trafford og svo var það annar tapleikur gegn Feyenoord í Evrópudeildinni í leik þar sem Mourinho gerði þónokkrar breytingar á liðinu til að gefa leikmönnum tækifæri og til að hvíla þá sem spilað hafa mest. Eftir góða byrjun á tímabilinu hafa þessi tvö úrslit fengið flesta stuðningsmenn til að velta fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi. Runólfur gat ekki setið á sér og skrifaði niður nokkur orð þar sem hann veltir fyrir sér hvort allt sé í rugli hjá United.
Kíkjum aðeins á andstæðing morgundagsins, Watford FC.
Watford FC
Liðið er sem stendur í tólfta sæti deildarinnar með fjögur stig í fjórum leikjum. Einn sigur(West Ham), eitt jafntefli(Southampton) og tvö töp(Arsenal & Chelsea) og svo er það Manchester United í næsta leik. Þetta er alveg skelfilega erfitt byjunarprógram fyrir félagið í deildinni og vonar maður þar af leiðandi að þetta sé góð tímasetning fyrir United að mæta þeim á Vicarage Road og að sigurinn gegn West Ham hafi ekki tvíeflt þá fyrir þennan leik. Watford menn geta þó huggað sér við það að eftir leikinn gegn United fá þeir fimm andstæðinga í röð sem þeir ættu með öllu réttu að geta stolið stigum af (Burnley, Bournemouth, Middlesbrough, Swansea, Hull).
Samkvæmt fréttamiðlum er líklegt að Mazzarri muni tefla nánast sama byrjunarliði og vann West Ham 4-2 um síðustu helgi. Younes Kaboul verður metinn á morgun hvort hann sé leikhæfur sem og Sebastian Prodl sem kom inn á fyrir hann í síðasta leik. Stefano Okaka, sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið gegn West Ham, er meiddur og mun ekki spila fyrir liðið í rúman mánuð.
Hér eru leikmenn Watford sem eygja von um að spila á morgun: Gomes, Gilmartin, Pantilimon, Mariappa, Janmaat, Kaboul, Cathcart, Britos, Prodl, Holebas, Zuniga, Kabasele, Amrabat, Behrami, Capoue, Guedioura, Watson, Doucoure, Pereyra, Deeney, Success, Ighalo.
United
Rooney, Valencia og Luke Shaw eru komnir til baka eftir að hafa fengið hvíld í vikunni. Það var óvissa með hvort Bailly og Shaw myndu ferðast með liðinu fyrir þennan leik. Bailly fékk högg í leiknum gegn Feyenoord og Shaw fann fyrir einhverju í aftanlærisvöðvunum eftir leikinn gegn City. Ólíklegt er að við fáum að sjá Mkhitaryan spila eftir að hafa meiðst með landsliðinu og svo aftur í leiknum gegn City. Að auki er Phil Jones meiddur enn og aftur en það kemur nákvæmlega engum á óvart þessa dagana.
Það verður fróðlegt að sjá hvort Mourinho geri einhverjar óvæntar breytingar með byrjunarliðið eftir þessa tvo tapleiki. Persónulega finnst mér Smalling, Herrera og Schneiderlin eiga alveg sjens á komast í liðið en við sjáum til. Ég býst ekki við einhverjum drastískum breytingum og spái því liðinu svona:
Nú vonum við bara að liðið nái að rífa sig upp á morgun og komist á skrið. Við þurfum svo sannarlega á því að halda.
Skildu eftir svar