Það er afskaplega skammt stórra högga á milli hjá United. Útileikur gegn Liverpool á mánudaginn var, heimaleikur gegn Chelsea á sunnudaginn og Pep kemur svo í heimsókn eftir viku. En áður en að við getum farið að huga að þessu þarf United að spila leik í Evrópudeildinni sem væri afskaplega fínt að vera laus við. Fenerbahçe er að koma á Old Trafford og með þeim kemur gamall félagi sem reyndist okkur vel. Robin van Persie.
Áður en að við rennum aðeins yfir tyrkneska liðið er við hæfi að kíkja aðeins á stöðuna í A-riðli Evrópudeildarinnar. Hún er nákvæmlega svona:
Gestirnir á morgun sitja á toppi riðilsins eftir sigur á Feyenoord í síðustu umferð. Þeir gerðu hins vegar jafntefli gegn Zorya í fyrstu umferðinni. Feyenoord lifir enn á sigrinum gegn okkur í fyrstu umferð á meðan okkar menn eru með þrjú stig eftir sigur gegn Zorya um daginn.
Ætli Mourinho sér upp úr riðlinum, sem ég er ekkert endilega viss um að sé raunin, þarf helst að vinnast sigur á morgun gegn Fenerbahçe. Eftir leikinn á morgun verða tveir heimaleikir búnir og það verður ekki sniðugt að þurfa að fara til Tyrklands og Úkraínu í seinni umferðinni með það á bakinu að þurfa að sækja stig til að tryggja sér sæti í 32-liða úrslitum.
Allir klárir á stöðunni í riðlinum? Ok. Skoðum þá aðeins söguna.
Sagan
Það er ogguponsu saga á milli þessara liða og það eru helst tveir leikir sem koma upp í hugann, báðir í Meistaradeildinni. Sá fyrri átti sér stað fyrir rétt tæpum 20 árum, 30. október 1996. Þá mættu Tyrkirnir í heimsókn á Old Trafford sem þá var óvinnandi vígi fyrir andstæðinga okkar í Evrópu. Bókstaflega því að Manchester United hafði, fyrir þann leik, aldrei áður tapað heimaleik í Evrópukeppni. Met sem hafði staðið í 40 ár og leikmenn eins og Alfredo di Stefano og Diego Maradona, lið eins og Real Madrid og Barcelona höfðu komið og farið, án sigurs.
Þangað til Fenerbahçe kom í heimsókn. Mark frá Elvir Bolic 13 mínútum fyrir leikslok tryggði fyrsta tap United á heimavelli í Evrópukeppni frá upphafi. Ótrúlega súrt.
Seinni leikurinn sem ég vil minnast hér var þó örlítið skemmtilegri. Það var í september 2004 og Sir Alex hafði nýlega splæst í einn ungan dreng sem hefur gefið okkur svo margar gleðistundir. Sú fyrsta kom gegn Fenerbahçe.
Rooney gekk til liðs við United glímandi við örlítil meiðsli sem varð til þess að fyrsti leikur hans frestaðist örlítið. Í viðtali við Manutd.com rifjaði hann leikinn upp fyrir ekki svo löngu síðan. Þar sagði hann að hann hefði verið tilbúinn að spila leikinn helgina fyrir viðureignina við Tyrkina. Sir Alex hélt nú ekki og ef ég þekki okkar mann rétt hefur það heldur betur kveikt í kallinum.
Restina þekkja menn náttúrulega. Rooney kom inn og skoraði einhverja eftirminnilegustu þrennu seinni ára. Stjarna var fædd, söguna þekkjum við mætavel.
Allir klárir á sögunni? Ok, skoðum þá aðeins Fenerbaçhe.
Fenerbahçe
Andstæðingur morgundagsins er sögufrægur klúbbur. Einn af þeim sigursælustu í Tyrklandi og er að sjálfsögðu starfandi í Istanbúl eins og allir stærstu klúbbar Tyrklands. Fenerbahçhe er í raun miklu meira en bara knattspyrnufélag en innan félagsins er starfrækt sunddeild, blakdeild, körfuboltadeild, siglingadeild og margt, margt fleira.
Félaginu gekk afskaplega vel á síðasta tímabili og lenti í öðru sæti deildarinnar, ekki nema fimm stigum frá meisturum Besiktas. Það þýddi að liðið fékk sæti í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þar datt liðið reyndar út gegn Monaco og átti það heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér.
Stjórnarmenn liðsins virðast ekki hafa verið neitt sérstaklega kátir með það og ráku þjálfara liðsins, Vitor Pereira, nánast á staðnum eftir leikinn. Við tók Dirk Advocaat sem síðast afrekaði nákvæmlega ekki neitt með Sunderland. Þeir eru ekki mikið fyrir stöðugleikann þarna í Tyrklandi líkt og nýleg byltingartilraun þar í landi vitnar um en Advocaat er 12. stjóri liðsins á síðustu 15 árum.
Þjálfaraskiptin voru þó ekki einu sviptingarnar í upphafi tímabils. Heill hellingur af leikmönnum lét sig hverfa á milli tímabil og heill hellingur af leikmönnum kom í staðinn. Meðal þeirra sem yfirgáfu bátinn voru Nani, sem fór til Valencia, Raul Meireles og Bruno Alves. Allt Portúgalar sem er ef til vill ekki tilviljun miðað við að forveri Advocaat er Portúgali.
Inn komu miklar hetjur á borð við Gregory Van der Wiel, Martin Skrtl og Jeremain Lens en skoði maður hóp liðsins undanfarin ár má alveg segja að liðið sé ákveðin ruslakista fyrir leikmenn sem muna mega sinn fífil fegri. Það er þó einn leikmaður sem stendur upp úr og það er Robin van Persie, sá mikli meistari. Hann er langbesti maður liðsins og mörkin hans komu liðinu langleiðina að titlinum á síðasta tímabili, eitthvað sem við könnumst ágætlega við.
En þrátt fyrir Van Persie hefur gengið brösuglega á tímabilinu hingað til og mögulega þjálfaraskiptin og þessar miklu breytingar á leikmannahópnum eitthvað að gera með það. Liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki í deildinni og er í níunda sæti með 9 stig eftir 7 umferðir, átta stigum á eftir toppliðunum þremur.
Að öðru leyti ætla ég ekki að þykjast vita mikið um þetta Fenerbaçhe-lið en ég get þó sagt ykkur það, lesendur góðir, að liðið stillti svona upp í síðasta leik og þeir munu án efa stilla upp á svipaðan hátt gegn okkur á morgun.
Allir klárir á Fenerbaçhe? Ok, kíkjum þá aðeins á okkar menn.
United
Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af Evrópudeildinni en hún hefur þó þann ótvíræða kost að þá ættu þeir leikmenn sem minna hafa spilað að fá séns til þess að sanna sig og gefa leikmönnunum sem meira mæðir á tækifæri til þess að hvíla sig.
Mér finnst Mourinho ekki hafa nýtt sér þetta nógu vel. Pogba hefur byrjað báða leikina til þessa og Zlatan byrjaði síðasta leik. Að mínu mati eiga þessir leikmenn að vera víðsfjarri byrjunarliðinu í þessari keppni og þá sérstaklega Zlatan.
Liðið spilaði leik á mánudaginn sem tók án efa gríðarlega á bæði á líkama og sál. United spilaði mjög agaðan leik og flestir ef ekki allir gáfu sig 100% í leikinn. Framundan er virkilega erfið leikjatörn enda Chelsea og City handan við hornið. Það er því afar mikilvægt að rótera vel á morgun. Hvað er það versta sem gæti gerst? United dottið úr Evrópudeildinni? Hræðilegt alveg hreint.
Ég vil því hvíla Zlatan, Pogba, Smalling, Blind og Ander Herrera sem átti einhvern besta leik sem ég man eftir hjá einum leikmanni gegn Liverpool. Inn mega koma leikmenn sem hafa fengið færri tækifæri á tímabilinu í bland við þá leikmenn sem hafa verið að rótera. Æskilegt byrjunarlið væri því eitthvað á þessa leið.
Umræðan í kringum United er svona í neikvæðari kantinum eftir jafnteflin tvö gegn Stoke og Liverpool og því væri ágætt að fá einn þægilegan sigur svona áður en að farið er út í leikina gegn Chelsea og City. Hvernig væri það?
Leikurinn er á morgun og hefst klukkan 19.00. Hann er í beinni á Stöð 2 Sport 2 og líklega á flestum betri öldurhúsum landsins.
Audunn says
Ég er svolítið að vona að við fáum töluvert breytt lið frá síðasta leik.
Það væri gaman að sjá menn eins og Carrick, Mkhitaryan, Schneiderlin, Depay, Darmian og svo að sjálfsögðu herra Schweinsteiger fá sénsinn í þessum leik.
Mér finnst mikilvægt að nýta hópinn svolítið og hvíla menn en svo á móti kemur að hver leikur er mikilvægur fyrir Móra til að finna sitt lið, innleiða sína hugmyndarfærði og taktík.
Ég er engin sérstakur aðdáandi þessara keppni en hún gæti nýst United vel til fínstillingar ef svo má segja.
Ási says
Það þarf að nota Mkhitaryan í þessum leik til að koma honum í gang. Þegar hann hrekkur í gang er hann rosalegur.
Audunn says
Schweinsteiger er náttl ekki gjaldgengur í þessari keppni þannig að það er útilokað að við fáum að sjá hann spila eitthvað… Var bara búinn að gleyma því.