Þótt það sé komið að tveggja mánaða pásu í Evrópudeildinni og deildarbikarinn haldi ekki áfram fyrr en í janúar þá er kominn desember og því halda áfram að hrúgast inn leikir. Að þessu sinni er komið að deildarleik í miðri viku þegar Manchester United heldur í ferðalag til höfuðborgarinnar og mætir þar Alan Pardew og heimamönnum í Crystal Palace. Síðast þegar þessi lið mættust endaði það með því að Manchester United vann bikar. Það var líka síðasti leikurinn undir stjórn Louis van Gaal. En nú er það nýr leikur á nýju tímabili og við höfum nýjan stjóra.
Þessi stjóri er þó enginn nýgræðingur í því að mæta Crystal Palace. Mourinho hefur 7 sinnum áður mætt Crystal Palace. Í 5 skipti höfðu menn Mourinho betur gegn 2 sigrum Palace-manna. Markatalan í þeim leikjum var 12-6 fyrir Mourinho.
Þessi leikur verður sá fimmtugasti milli Crystal Palace og Manchester United. United hefur unnið 32 af þessum leikjum, 10 hafa endað með jafntefli og 7 sinnum hefur Palace unnið. Á heimavelli Palace hafa liðin mæst 20 sinnum. Manchester United hefur unnið 10 af þeim leikjum, 6 hafa endað með jafntefli og 4 sinnum hefur Crystal Palace unnið. Markatalan í þessum leikjum er 32-24 fyrir Manchester United.
Áhugaverð staðreynd: þrír leikmenn Manchester United hafa fengið rautt spjald gegn Crystal Palace. Eitt af spjöldunum kom á heimavelli Crystal Palace en ekkert þeirra hefur komið á Old Trafford[footnote]Cantona fékk eina rauða spjaldið á heimavelli Palace. Eftirminnilegt spjald. Keane var svo rekinn af velli á Villa Park í bikarleik sama ár. Smalling fékk svo rautt á Wembley síðasta vor[/footnote].
Crystal Palace
Tímabilið hjá Crystal Palace hefur verið mjög gloppótt. Það byrjaði á tveimur ósigrum, síðan komu 5 leikir í röð án ósigurs og þar af 3 sigurleikir áður en á eftir fylgdu sex tapleikir í röð. Í síðustu 2 leikjum hefur liðið svo náð að rétta úr kútnum með því að skora 3 mörk í hvorum leik og ná í sigur og jafntefli. Fyrir þessa 16. umferð var liðið í 15. sæti deildarinnar með 15 stig, 27 mörk skoruð og 29 mörk fengin á sig. Palace hefur skorað 7 mörkum meira en Manchester United. En að vísu fengið á sig 13 fleiri mörk.
Crystal Palace hefur það sem af er tímabili fengið færri stig á heimavelli (7) en útivelli (8). Liðið vann þó síðasta heimaleik sinn með yfirburðum þegar það lagði Southampton með 3 mörkum gegn engu.
Bestu leikmenn Palace á tímabilinu til þessa hafa verið Wilfried Zaha og Christian Benteke. Þeir hafa hvor um sig komið að 9 mörkum liðsins. Zaha hefur skorað 3 mörk sjálfur og lagt upp 6 fyrir liðsfélaga sína. Hann átti stórleik í síðustu umferð þar sem hann náði í víti, skoraði stórgott mark og lagði upp þriðja markið. Það þarf því að passa vel upp á hann. Benteke hefur skorað 8 mörk og lagt upp 1. Hann er líka heitur, hefur skorað 4 mörk og lagt upp eitt í síðustu 3 leikjum.
Crystal Palace verður án Jason Puncheon en hann tekur út leikbann í leiknum. Auk þess er Benteke meiddur en þar sem það er Jonathan en ekki Christian þá munar líklega ekki svo miklu um það. Það er líklegt að lið Palace verði eitthvað í þessa áttina:
Okkar menn
Loksins hafðist það að hanga á eins marks forystu í deildinni. Það var mikill léttir fyrir okkur stuðningsmennina og eflaust hefur það lyft þungu fargi af leikmönnum líka. Nú þarf bara að halda áfram að byggja ofan á þetta og ná í fleiri sigurleiki í jólatörninni.
Henrikh Mkhitaryan meiddist því miður í síðasta leik eftir að hafa átt frábæra leiki fram að því. Það munar um minna en það má hugga sig við tvennt:
- Meiðslin eru sem betur fer ekki jafn alvarleg og þau litu út í fyrstu. Mourinho segist vera bjartsýnn á að Mkhitaryan gæti náð leiknum gegn Sunderland á öðrum degi jóla.
- Til að fylla skarð Mkhitaryan hefur Manchester United Juan Mata. Mata hefur staðið sig vel á tímabilinu. Svo vel raunar að það var erfitt að segja að hann ætti skilið að missa sæti sitt í liðinu en það er líklega hvað mest lýsandi fyrir það hvað Armeninn hefur komið gríðarlega vel inn í liðið á síðustu vikum.
Þannig að þrátt fyrir að þetta séu leiðinlegar fréttir og að við vildum öll sjá Mkhitaryan spila áfram þá gæti þetta nú verið verra. Öllu verra er hins vegar að Antonio Valencia fékk gult spjald í síðasta leik og verður því í leikbanni í þessum leik. Það er slæmt því bæði hefur Valencia verið öflugur á þessu tímabili og svo er enginn augljós kostur í að leysa hann af í þessa stöðu. Það er sérstaklega slæmt þegar öflugasti leikmaður andstæðinganna er vinstri kantmaðurinn þeirra.
Ætla að giska á að lið United verði á þessa leið:
Held að Mourinho noti tækifærið til að rótera hópnum aðeins. Hann talaði um það á fréttamannafundi fyrir þennan leik að hann hefði núna Bailly með Jones og Rojo og hann myndi nota þá þrjá fram til áramóta. Það væri gaman að sjá hvernig Bailly og Jones ná saman. Set Darmian í hægri bakvörðinn en það er þá eins gott að hann verði meira á tánum en í síðasta leik. Ef Zaha verður í stuði þá þýðir ekkert hálfkák gegn honum.
Leikurinn hefst klukkan 20:00.
Skildu eftir svar