Árið 2017 er rétt byrjað en við sem styðjum Manchester United erum strax farin að finna sætan ilm af bikar í loftinu. Í það minnsta er liðið í algjöru dauðafæri að koma sér í úrslitaleik og það er alltaf gaman. Keppnin er kannski ekki sú stærsta eða merkilegasta en sigur í henni væri yfirlýsing frá Mourinho og strákunum hans og gott búst fyrir restina af tímabilinu. Auk þess sem líklegasti sigurvegarinn í hinni undanúrslitaviðureigninni er einn helsti erkifjandi og lið sem alltaf er gaman að vinna á vellinum. Andstæðingurinn í þetta skipti er hins vegar Hull City og að venju er spilað heima og að heiman í undanúrslitum keppninnar. Fyrri leikurinn er á Old Trafford annað kvöld og hefst klukkan 20:00.
Við minnum á 30. þáttinn af Djöflavarpinu, podkasti Rauðu djöflanna.
Hull City
Þann 9. september sl. voru veitt verðlaun fyrir bestu frammistöðuna í ágústmánuði í ensku úrvalsdeildinni. Raheem Sterling skákaði þar þeim Eden Hazard, Antonio Valencia og Curtis Davies í leikmannaverðlaununum. Í flokknum besti stjóri úrvalsdeildarinnar í ágúst voru tilnefndir José Mourinho, Antonio Conte, Pep Guardiola og Mike Phelan. Phelan, sem þá var enn tímbundinn stjóri Hull, var valinn stjóri mánaðarins enda hafði Hull City komið töluvert á óvart með sterkum sigrum á Englandsmeisturum Leicester City og Swansea auk þess sem það tók Manchester United tæpar 92 mínútur að finna sigurmarkið gegn Hull í 3. umferðinni.
Í dag eru nákvæmlega 4 mánuðir síðan þetta gerðist, margt hefur gerst síðan þá en sigurganga Hull náði því miður ekki að endast. Mike Phelan var fastráðinn sem stjóri Hull um miðjan október en svo sagt upp störfum nú í ársbyrjun. Eftir góða byrjun í ágúst hefur liðið síðan aðeins náð einum sigri í deildinni, 4 jafnteflum og tapað 12 leikjum. Slíkur árangur var þó eitthvað sem margir bjuggust við fyrir tímabilið, enda eigenda- og stjórnarmál félagsins í algjöru rugli og Hull hafði engan veginn náð að styrkja sig nægilega mikið í sumar til að ráða við tímabil í úrvalsdeildinni. En nú er kominn nýr stjóri, kannski nær hann að gera einhvers konar kraftaverk og bæta upp fyrir getuleysi eigendanna.
En okkar menn eru nú ekki að fara að mæta Hull í deildinni alveg strax. Þetta er bikarleikur. Og Hull City hefur verið í þó nokkru bikarstuði á þessu tímabili hvað sem slökum árangri í deildinni líður. Fyrsti leikurinn eftir að nýr stjóri tók við var leikur í FA bikarnum og Hull vann þar góðan sigur á Gylfa og félögum í Swansea, 2-0. Og í deildarbikarnum hefur liðið sýnt mikinn karakter.
Hull hóf þátttöku í deildarbikarnum í 2. umferðinni, mætti þar Exeter City úr League Two (fjórða efsta deild) 23. ágúst á St. James Park í Exeter. Heimamenn komust yfir á 24. mínútu með marki frá Jake Taylor en Adama Diomandé jafnaði metin strax mínútu síðar. Hann var svo aftur á ferð á 77. mínútu og kom Hull yfir. Robert Snodgrass tryggði svo sigurinn með þriðja marki Hull 9 mínútum fyrir leikslok.
Mótherji Hull í 3. umferð var Stoke City, aftur þurfti Hull að spila á útivelli. Líkt og í umferðinni á undan lenti Hull undir á 24. mínútu, í þetta skipti var það Marko Arnautovic sem skoraði. Það tók Hull aðeins lengri tíma að jafna metin í þessum leik en það var Ryan Mason sem náði því á 45. mínútu. Norðmaðurinn Markus Henriksen skoraði svo sigurmark Hull í uppbótartíma og sendi Hull í 4. umferð. Hull sigraði Bristol City á útivelli í 4. umferð. Hull komst í 2-0 með mörkum frá Harry Maguire og Michael Dawson og sigurinn var öruggur þrátt fyrir að Bristol hafi náð inn sárabótarmarki í uppbótartíma.
Í 5. umferð fékk Hull sinn fyrsta heimaleik í keppninni þegar Newcastle United kom í heimsókn. Eftir venjulegan leiktíma var markalaust en Hull manni færri eftir að Dieumerci Mbokani hafði fengið rautt spjald á 89. mínútu. Mohamed Diamé kom Newcastle yfir á 98. mínútu en Robert Snodgrass jafnaði strax fyrir Hull. Enn var jafnt eftir framlengingu og því þurfti vítaspyrnukeppni. Snodgrass, Dawson og Huddlestone skoruðu allir úr sínum spyrnum þar en Christian Atsu var sá eini frá Newcastle sem nýtti sína á meðan Shelvey, Gayle og Gouffran klikkuðu.
Hingað eru þeir svo mættir, í undanúrslit á Old Trafford með nesti og nýjan stjóra. Marco Silva hinn portúgalski er mættur. Hann hefur ekki mikla stjórareynslu en þó náð góðum árangri í fyrri störfum. Síðast stýrði hann Olympiacos til sigurs í grísku deildinni þar sem hann setti m.a. met með 17 sigurleikjum í röð. Liðið náði einnig í góðan útisigur á Arsenal í Meistaradeildinni þar sem Alfreð Finnbogason skoraði sigurmarkið. Á undan hafði Silva stýrt Sporting CP í Portúgal. Hann gerði liðið að portúgölskum bikarmeisturum á sínu fyrsta tímabili en náði bara að klára 1 ár af 4 ára samningi því hann var rekinn frá liðinu 4 dögum eftir bikarsigurinn. Félagið notaði það sem afsökun að Silva hefði ekki klæðst opinberum jakkafötum Sporting í bikarleik gegn Vizela. Hljómar eins og heldur þunn afsökun, sérstaklega þegar haft er í huga að þessi tiltekni leikur var spilaður um miðjan desember en Silva var ekki rekinn fyrr en í júní. Svo kannski var eitthvað annað í gangi á bak við tjöldin.
Hull hefur upp á síðkastið verið að spila mikið með 3 miðverði í 3-5-1-1 uppstillingu. Það gekk þó ekki neitt glimrandi vel eins og sést á árangrinum í deildinni. Það er því ekkert ólíklegt að Marco Silva vilji breyta til. Helstu tölfræði- og greiningarsíðurnar í boltanum hafa ekkert haft fyrir því að setja inn uppstillingu Hull í bikarsigrinum gegn Swansea. Þó fann ég eina síðu sem vildi meina að Hull hefði í þeim leik spilað með 4-4-1-1 uppstillingu. Það gekk vel svo líklega verður liðið eitthvað svipað þessu:
Þetta er byrjunarliðið eins og það var gegn Swansea. Miðvörðurinn Dawson þurfti þó að fara af velli og er líklega meiddur. Kannski fær hinn 17 ára gamli Josh Tymon séns í þessum leik. Tymon kom einmitt inn á í leiknum gegn Swansea en hann er fæddur 22. maí 1999, sama dag og Manchester United vann Newcastle í úrslitum enska bikarsins og 4 dögum áður en Manchester United kláraði þrennuna með frekar eftirminnilegum hætti.
Manchester United
Manchester United er að eiga sína bestu sigurgöngu frá því í ágúst til september 2009. Á þeim tímapunkti var Ronaldo vissulega nýlega farinn til Real Madrid en Sir Alex Ferguson var samt sem áður að stýra liði sem hafði farið í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2 ár í röð og unnið ensku deildina 3 ár í röð. Það var eitt suddalega gott lið. Mourinho er núna á sinni bestu sigurgöngu með enskt lið síðan 2006. Sigrarnir hafa verið margvíslegir og hefur liðið þurft að treysta á gæði, karakter, seiglu, þolinmæði og einstaka heppni til að ná þeim. Auk fótboltahæfileika, snilligáfu og liðsheildar, auðvitað. Þetta er allt að batna til muna hjá liðinu og hefur verið gaman að fylgjast með því og verður vonandi áfram.
Manchester United er komið í undanúrslit deildarbikarsins eftir 3-1 útisigur á Northampton Town, 1-0 heimasigur á Manchester City og 4-1 heimasigur á West Ham United.
Það er mikilvægur leikur framundan næstu helgi þegar Liverpool kemur í heimsókn. Risastór leikur, bæði vegna mótherjans og vegna stöðu beggja liða í deildinni og liðanna í kring. Þessi leikur gegn Hull mætti því alveg mæta afgangi, um það held ég að við séum öll sammála. United ætti að geta nýtt allan hópinn og hvílt sterkustu leikmennina fyrir stórleik sunnudagsins án þess að það komi mikið niður á sigurlíkunum, sérstaklega yfir tveggja leikja einvígi.
En Mourinho hefur önnur plön fyrir þennan leik. Hann hefur sagt að hann ætli að nota þá leikmenn sem spiluðu ekki í síðasta leik og nefndi sérstaklega þá Zlatan, Pogba, Herrera og Valencia. Hann vill vinna þessa keppni, það er alveg ljóst.
Líklegt lið:
Þetta er í raun liðið eins og ég vil sjá það gegn Liverpool fyrir utan að Rojo má alveg endilega jafna sig af meiðslum til að spila með Jones í þeim leik og svo held ég að Blind sitji hjá í þeim leik.
Það er eitthvað við það hvernig Mourinho talar sem mér finnst jákvætt. Hvernig hann orðar þetta:
We play against Liverpool, a big match for us, but we want to be in the final. So we are going to face this Hull match with everything we have, all the power we have, as we know it’s two legs but the second leg is away. If we can do something in the first leg that gives us the advantage, so we will try to do that.
Það er hungur í þessu. Það er einbeittur sigurvilji. Það er ástríða. Er hægt að setja eitthvað út á það? Og það er ekki eins og það séu bara 2-3 dagar á milli leikja, við erum að tala um þriðjudagsleik og svo sunnudagsleik. Það ætti að gefa þessum helstu mönnum nægan tíma til að jafna sig, m.a.s. gömlu köllunum eins og Carrick og Zlatan (sem virðist reyndar aldrei þurfa mikinn tíma til að jafna sig, hvílíka maskínan!). Það væri helst hægt að setja út á þetta ef við missum mikilvæga menn í kjánaleg meiðsli í leiknum gegn Hull. En meiðslahræðsla ætti nú ekki að fá að stjórna því hvernig liðið spilar eða hvaða leikmenn.
Dregið í bikarnum
Að lokum er tilvalið að benda á að í kvöld verður dregið í 4. umferð enska bikarsins. Manchester United verður þar í pottinum, með kúlu merkta með númerinu 3 (I love this game!). Drátturinn hefst klukkan 19:10.
* Uppfært *
Nú er búið að draga í 4. umferð enska bikarsins og ljóst að Manchester United mætir Wigan Athletic. Leikurinn fer fram helgina 28.-29. janúar og verður á Old Trafford.
Warren Joyce mætir þá á sínar gömlu heimaslóðir aftur. Hjá Wigan eru líka nokkur kunnugleg nöfn, eins og Reece James, Nick Powell og hinn sífellt sjóðheiti Will Grigg. Wigan er núna í 23. sæti Championship deildarinnar.
Skildu eftir svar