Í gær voru fréttir þess efnis að tilboði Lyon í Memphis Depay hafi verið samþykkt, hann ætti aðeins eftir að semja um kaup og kjör og gangast undir læknisskoðun. Talið er að United fái 16 milljónir punda í sinn vasa, en sú upphæð gæti endað í tæpum 22 milljónum. Er þetta annar leikmaðurinn sem José Mourinho selur núna í janúarglugganum, sá fyrri var auðvitað Morgan Schneiderlin sem Everton borgaði 20 milljónir fyrir en gæti þurft þurft að reiða fram 4 milljónir í viðbót ef Morgan stendur sig vel, sem mun eflaust gerast.
Það er greinilega að undir Mourinho hefur átt sér stað ákveðin stefnubreyting varðandi leikmannasölur. Áður fyrr, þá sérstaklega í tíma Louis Van Gaal, virðist vera mikið kapp lagt á að losa sig við leikmenn sem þjálfarinn taldi sig ekki not fyrir. Þetta gerði það að verkum að menn voru seldur á algjörri brunaútsölu. Nokkur dæmi:
Leikmaður | Verð (£m) |
---|---|
Chicharito | 7,3 |
Nani | 4,3 |
Robin van Persie | 3,8 |
Rafael | 3,0 |
Shinji Kagawa | 6,9 |
Wilfried Zaha | 3,2 |
Patrice Evra | 1,6 |
Alls: | 30,1 |
Oft á tíðum var nánast enginn keyptur í staðinn sem síðar leiddi til þess að auka álag myndaðist á þeim leikmönnum sem eftir stóðu og úr varð ein hrikalegasta meiðslahrina við höfum séð hjá Manchester United. Það var eins og æsingurinn í Van Gaal að umturna leikmannahópnum hafi verið mikilvægari en allt annað og sú aðgerð hafi verið sett á stað löngu áður en vinnan hafi verið fullunnin, svolítið eins og að senda bók í prentun sem er hálf skrifuð.
Þeir sjö leikmenn sem ég nefndi hér að ofan voru semsagt seldir fyrir samtals 30 milljónir punda, sumir þeirra fengu litla sénsa til að sýnda hvað þær gátu á meðan öðrum var hreinlega ýtt út úr liðinu án frekari útskýringa. Það hefur því töluvert vatn runnið til sjávar þegar Mourinho fær a.m.k 36 milljónir (hugsanlega 45.7 milljónir) fyrir tvo leikmenn sem, tja sumir vilja meina að hafa ekki heldur fengið tækifæri, en hafa allavega verið langt frá því að standa undir þeim væntingum sem voru gerðar. Það verður svo sem líka að kasta fram þeirri hugmynd að kannski sé Ed Woodward líka að slípast aðeins til í sínu starfi.
Það er augljóst að hjá José Mourinho eru þessi mál afgreitt af meiri yfirvegun. Hann talaði um það fyrir áramót að hann hefði engin plön um að selja leikmenn í janúar, en ef menn væru ósáttir og vildu fara þá myndi hann ekki standa í vegi fyrir þeim ef rétt tilboð bærist.
Þessi nálgun gerir tvennt: Þeir leikmenn sem eru kannski ekki reglulega í hóp er gert ljóst að þeir eiga enn möguleika á því að vinna sér sæti í liðinu. Sumir taka þeirri áskorun á meðan aðrir eru bara búnir að tapa hausnum og sjá sæng sína upp reidda hjá United. En hér er þá hinn punkturinn sem akkúrat gerir stöðuna öðruvísi: Ef þjálfarinn virkar ekkert æstur í að losna við þessa leikmenn, færist sú vinnan sem felst í því að koma félagsskiptum af stað yfir á umboðsmann leikmannsins, en ekki framkvæmdarstjóra United. Umboðsmaðurinn þarf því að nálgast önnur félög og sannfæra þau um að gera tilboð í sinn leikmann. Ef United virkar ekki æst í að selja þá er aðeins ein leið fær til að fá leikmanninn og það er að borga uppsett verð!
Stefán says
þetta eru bara góðar fréttir, að mínu mati hefur United alltof oft selt leikmenn fyrir of lága upphæð, alveg frá Ferguson tímanum líka, ekki bara undanfarin ár. Þetta hlýtur bara að skila sér í stærri upphæð fyrir Mourinho til að „leika“ sér með. Sem sagt fleiri risa kaup eins og Pogba :)
Audunn says
Veit ekki hvort það sé hægt að tala um stefnubreytingu í leikmannasölum eftir þessar tvær sölur Mourinho núna í jan.
Í fyrsta lagi þá var hann með ansi góða söluvöru að mér þykir þótt hann hafi ekki fengið meira en 16 milj punda fyrir Memphis Depay.
Það þykir ekki mikið fyrir efnilegan ungan leikmann í dag.
Af þessum leikmönnum sem Van Gaal seldi þá hefði ég viljað fá aðeins meira fyrir Shinji Kagawa og Zaha, hinir eru á pari að mér finnst.
Svo er spurning hversu virði Shinji Kagawa er í dag?
Heiðar says
Ágætur pistill og enn eitt merki þess að Mourinho sé á rétti leið með klúbbinn.