Í dag tók Manchester United á móti Warren Joyce og strákunum hans í Wigan Athletic. Enginn var viss um hvernig Mourinho myndi stilla upp liðinu í dag en hann var þó búinn að gefa það út að Romero, Martial og Rooney myndu spila. Hann ákvað að koma okkur meira á óvart með því að bjóða einnig Luke Shaw, Fosu Mensah og þýska kyntröllinu Bastian Schweinsteiger í byrjunarliðið. Að auki stillti hann Martial sem fremsta manni með Mkhitaryan og Mata á köntunum.
Allt í allt níu breytingar á byrjunarliðinu úr síðasta leik sem leit þá svona út:
Það er langt síðan við höfum séð Wigan spila á Old Trafford. Síðast var það í ágúst 2013 þar sem Van Persie skoraði bæði mörk United í 2:0 sigri United. Í dag var í raun ekkert annað en sigur sem kom til greina. Við vildum alls ekki detta út eða þurfa spila annan leik gegn Wigan.
Leikurinn í dag byrjaði kröftuglega, merkilega mikill hraði í liðinu og sem stjórnaði leiknum vel. Það voru skemmtilegar fimm mínútur. Eftir það varð þetta…tjahh…bara einfaldlega ansi dapurt og ekki hægt að segja að þetta hafi verið góð spilamennska. Bara alls ekki. Liðið náði litlu flæði, skapaði lítið hættulegt og það einfaldlega vantaði einhvern brodd í liðið. Liðið sótti en náði ekki að skapa eiginlega neitt af viti, menn voru ekki að fatta hlaup hjá hvorum öðrum og ótalmörg klaufamistök voru gerð. Sum sem hefðu getað verið hættuleg ef andstæðingurinn væri ekki Wigan Athletic. Mestallan tímann fannst manni eins og Wigan væri eina liðið á vellinum sem langaði að spila þennan leik í dag.
Daniel Storey orðaði ágætlega tilfinninguna sem maður var kominn með eftir uþb 30 mínútur af leiktíma:
The weird bit is not that teams are resting players, but that those who come in look so un-arsed across the board.
— Daniel Storey (@danielstorey85) January 29, 2017
Þrátt fyrir það átti United eitt dauðafæri á 31′ mín þegar United komst í skyndisókn þar sem boltinn barst til Fosu sem kom með þessa flottu lágu fyrirgjöf yfir á Mkhitaryan en skot hans endaði framhjá markinu. Illa farið með gott færi. Á 44′ mínútu voru held ég allir á Old Trafford búnir að sætta sig við markaleysi í hálfleik og var maður sjálfur persónulega byrjaður að ímynda sér pirrandi 0:0 leik í anda gömlu góðu dagana undir stjórn Van Gaal. En þá uppúr þurru ná fær Schweinsteiger hægra megin á vellinum, kemur með þessa fínu fyrirgjöf inn í teig þar sem Fellaini valtar yfir varnarmann Wigan og skallar boltann í netið. Kærkomið mark á dásamlegum tíma.
En til að ítreka aðeins tilfinninguna sem var á þessum tímapunkti:
Mourinho barely celebrating. Super cross from Schweinsteiger. The build-up was in danger of becoming a Van Gaal tribute until then. #mufc
— Samuel Luckhurst (@samuelluckhurst) January 29, 2017
Ég ítreka þennan punkt ekki til að keppast um að vera neikvæðni gæjinn. Ég geri það vegna þess að eftir fyrri hálfleikinn kom sá seinni, sem var eins og ískaldur Jack í kók eftir að hafa drukkið illa blandað Gin í tónik drasl. Mourinho nýtti þessar fimmtán mínútur vel og hefur lesið rækilega pistilinn yfir drengjunum því seinni hálfleikurinn var allt annar. Mourinho breytti liðinu þannig að Martial og Mkhitiryan voru núna á sitthvorum kanti, Rooney var settur fremst með Mata fyrir aftan.
Á 57′ mín náði liðið að drepa leikinn með því að skora sitt annað mark. Martial fékk boltann vinstra megin við vítateiginn, kom sér í góða stöðu og gaf flotta fyrirgjöf inn í teig þar sem Chris Smalling beið og skallaði boltann snyrtilega í markið. Held ég hafi sjaldan fagnað stoðsendingu jafn mikið þar sem mikilvægt var fyrir Martial að eiga góðan leik í dag.
Þetta mark þýddi það að Mourinho gat farið að gera einhverjar skiptingar til að gefa fleiri leikmönnum mínútur á vellinum. Mourinho ákvað að nýta tækifærið og á 68′ mínútu gaf hann Alex Tuanzebe, sem hefur verið að vekja á sér mikla athygli í akademíunni, sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið. Fyrir þá sem ekki þekkja Tuanzebe þá er hér grein frá MEN um drenginn.
Tveimur mínútum síðar ákvað Mourinho að skipta Fellaini út fyrir Herrera. Svo virtist vera að hann hafi meiðst eitthvað er hann settist ekki á varamannabekkinn heldur haltraði hann í gegnum göngin. Vonum að þetta hafi ekki verið eitthvað alvarlegt.
Fjórum mínútum síðar kom fallegasta mark leiksins þegar United brunaði í sókn þar sem Mkhitaryan gaf flotta sendingu á Martial sem brunaði inn í teig og þakkaði pent með því að gefa boltann til baka á Henrikh sem skoraði laglega.
En United var ekki hætt. Á 81′ mínútu gerðust tveir hlutir. Mourinho ákvað að leyfa öðrum strák úr akademíunni, Joel Pereira, að koma inn á og verja mark United síðustu 10 mínútur eða svo. Svo ákvað herra Schweinsteiger að bæta við einu marki til að hressa enn frekar upp á leikinn. United fékk hornspyrnu þar sem Herrera skallar í átt að marki og þar er Bastian tilbúinn og nær hann á skemmtilegan máta að sparka boltanum aftur fyrir sig og inn í markið.
Eftir þetta gerðist lítið markvert og urðu þetta lokatölur leiksins. Sjöunda skiptið sem United vinnur Wigan 4:0 á síðustu 12 árum og því greinilega að Wigan ákváðu ekkert að breyta út af vananum í þetta skiptið. Ég elska Wigan :)
Að öðru leyti sást alveg greinilega að bæði Martial og Shaw eru að glíma við einhvern skort á sjálfstrausti, Shaw þó sérstaklega. Í fyrri hálfleik sá maður bæði Rojo og Rooney öskra á hann að koma sér í rétta stöðu eða taka hlaupið. Á hinum endanum horfði maður hinsvegar á Fosu komast meir og meir í leikinn og verð ég hissa ef við sjáum hann ekki fá fleiri tækifæri á næstunni.
Martial þrátt fyrir að eiga að mínu mati ekkert sérstaklega góðan leik, náði að gefa tvær stoðsendingar sem ég vona að kveiki enn frekar í honum. Þessi drengur hefur allt til að verða ofurleikmaður fyrir liðið um ókomna tíð. Mikið vona ég að það verði raunin. En það er nokkuð ljóst að Martial er að festa sig í sessi sem kantmaður frekar en framherji.
Niðurstaða: Skelfilegur fyrri hálfleikur. Flottur seinni hálfleikur. Fjögur mörk skoruð. Tveir peyjar að þreyta sína frumraun fyrir liðið. Mata fékk að spila 90 mínútur. Mkhitaryan maður leiksins (að mínu mati). Zlatan, De Gea og Pogba fengu hvíld. Þrír dagar í næsta leik þegar Hull kemur í heimsókn á Old Trafford á miðvikudag þar sem við berjumst um meistaradeildarsæti.
Að lokum:
United er eina enska liðið sem er ennþá að berjast í fjórum keppnum. Pælið aðeins í því :)
Bjarni says
Ok. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessari uppstillingu. Þó spilað sé á móti lakari andstæðingi að talið er þá er óþarfi að jafna leikinn fyrirfram. Hef samt trú á þessu en þetta verður ansi fróðlegt.
Hannes says
Gaman að sjá Schweinsteiger í byrjunarliði. Verðskulduð hvíld hjá Zlatan.
Robbi Mich says
Ég var svo glaður að sjá Basta í liðinu. Þegar síminn tilkynnti mér um fjórða mark Utd þá fann ég á mér að hann hefði skorað og hoppaði hæð mína af gleði. Mark og stoðsending hjá kappanum í dag. Drullu sáttur með minn mann enda hef ég verið mikill aðdáandi hans frá því hann sló eftirminnilega í gegn á HM 2006 og vildi þá strax fá hann til okkar.
DMS says
Þvílíkur fagmaður sem Bastian Schweinsteiger er. Gott dæmi um hvernig á að takast á við mótlætið af fagmennsku og yfirvegun. Vonandi fær hann fleiri tækifæri, var mjög flottur í dag. Það verður nóg af leikjum í febrúar til að deila álaginu á milli manna.
Karl Gardars says
Þetta fór vel en hefði hæglega getað farið illa m.v herfilega spilamennsku fyrri hálfleiks. Það var eins og þeir hefðu aldrei spilað saman áður og staðsetningar sumra leikmanna voru skrautlegar t.d. Þegar Shaw hélt á kafla að hann væri orðinn framliggjandi miðjumaður.
Síðan lagaðist þetta nú og nokkrir menn fengu mikilvægt móralskt boozt. Fellaini átti sterkt mark og mér finnst eins og hann sé farinn að passa sig meira á þessum klunnalegu brotum þó hann sé auðvitað ákveðinn. Þegar hlutirnir smella almennilega hjá Mkhitaryan þá verður fjandinn laus því maðurinn er svakalegur.
Martial og Shaw koma vonandi sterkir inn ásamt Smalling og Fosu-Mensah.
Maður leiksins að mínu mati er Jose Mourinho. Hann er búinn að afsanna flestar kenningar úrtölufólks síðan hann kom til klúbbsins og hvernig hann dîlar við svona stóran hóp er aðdáunarvert.
Liðsvalið var ballsy, skiptingarnar flottar og planið gekk upp.
Mörkin voru fín og komu öll eftir mikið harðfylgi. Massívir skallar, hröð sókn og Hrafnistubakfallsspyrnan hjá Basti.
Ég vona að þessar róteringar og hvíld lykil leikmanna virki sem vítamínsprauta á liðið því nú þyngist róðurinn.
Cantona no 7 says
Góður sigur.
Fínt að leyfa sem flestum að spila.
Samt var eins og menn byrjuðu leikinn ekki fyrr en í seinni hálfleik.
Það var gott að mótherjinn var ekki sterkari í dag.
Febrúar verður erfiður en vonandi er þetta það sem koma skal eins og seinni
hálfleikurinn var.
Þar eru margir leikmenn sem eiga mikið inni fyrir komandi leiki.
G G M U
Audunn says
Allt annað að sjá spilamennskuna eftir að Fellaini fór útaf og Herrera kom inn, enda skoraði United tvö frábær mörk á umþb 6 mín kafla eftir þá skiptingu.
Góður sigur og gott að komast áfram, vona að við förum alla leið í þessum bikar.
Runar says
Hvað ætli Schweinsteiger hafi selt margar treygjur í gær?
Halldór Marteins (@halldorm) says
Annað skiptið á stuttum tíma sem Fellaini skorar frábært skallamark í bikarleik. Greinilega bikarstemningskall. Bæði mörkin mikilvæg, fyrra markið fór langt með að klára undanúrslitaeinvígið gegn Hull en markið í gær braut ísinn og gerði leikinn auðveldari í seinni hálfleik.
Hann verður líklega alltaf vanmetinn hjá ákveðnum hópi stuðningsmanna en það er um að gera að peppa hann þegar hann gerir eitthvað gott. Markið sem hann skoraði í gær var frábært og hann átti heilt yfir fínan leik. Hann hefur alveg sína kosti.