Þar sem úrslitaleikur EFL bikarsins er á sunnudag virðist sem Manchester United hafi fengið leyfi fyrir því að seinni leikurinn í rimmunni gegn St. Etienne fari fram á morgun. Leikið er miðvikudag klukkan 17:00. Smá Meistaradeildar fýlingur í því að spila ekki á fimmtudegi.
Það er í raun mjög lítið um þessa rimmu að segja. Fyrri leikurinn fór eins og allir vita 3-0 þar sem okkar albesti Zlatan Ibrahimovic skoraði léttustu þrennu sem hann mun nokkurn tímann skora. Leikurinn var þó alls ekki einstefna United og sýndu St. Etienne á sér fínar hliðar.
Í FA bikarleiknum gegn Blackburn gerði José Mourinho svo sjö breytingar á byrjunarliði sínu en endaði þó með því að setja þá félaga Zlatan og Paul Pogba inná til að bjarga leiknum. Það verða eflaust einhverjir leikmenn hvíldir í kvöld fyrir úrslitaleikinn á sunnudaginn en nokkrir í hópnum hafa gott af hvíldinni.
Hvað varðar leikmenn möguleika þá er Ander Herrera í leikbanni vegna of margra gulra spjalda ásamt því að Wayne Rooney og Phil Jones eru enn á meiðslalistanum og reiknar Mourinho ekki með þeim á morgun né gegn Southampton. Einnig er James Wilson frá en það er ef til vill óþarfi að minnast á það.
Tapið gegn United virðist hafa setið í St. Etienne um helgina en þeir töpuðu 2-1 fyrir Montpellier ásamt því að Jorge Intima fékk rautt spjald. Það má þó reikna með þeim mjög æstum til að byrja leikinn vel enda eru þeir enn að pirra sig á dómara fyrri leiksins.
Þó ég hafi ekkert fyrir mér í því ætla ég að spá því að Luke Shaw byrji leikinn á morgun og byrjunarliðið verði eitthvað á þessa leið:
Leikurinn hefst eins og áður sagði klukkan 17:00 á morgun.
Björn Friðgeir says
Shaw fékk ekki einu sinni að fara með til Frakklands. Ekki Darmian og Rooney heldur.
Borða hattinn minn ef þeir verða ennþá hjá United þegar glugginn lokar í haust.
Halldór Marteins says
Af þessum þremur þá væri það helst Darmian sem gæti fengið að vera áfram eins og staðan er núna, af því hann er fjölhæfur. En ef hann hefur metnað til að spila reglulega í byrjunarliði þá fer hann líka.
Ansi hræddur um að þetta sé búið hjá Shaw. Hann má þó alveg gjarnan afsanna það sjálfur.
Halldór Marteins says
Annars hefur tímasetningin á leiknum ekkert með EFL bikarinn að gera. Lyon á líka seinni leikinn heima og þessi lið eru of nálægt hvort öðru til að geta spilað heimaleiki sína sama kvöld. Þess vegna þurfti að færa okkar leik fram um einn dag. Hann byrjar svo klukkan 17 til að skarast ekki of mikið á við leikina í Meistaradeildinni.
Heiðar says
Ég kalla eftir því að félagið og stuðningsmenn sýni Luke Shaw þolinmæði. Við skulum ekki gleyma því að hann er aðeins 21 árs… eða jafngamall og menn eins og David Beckham var þegar hann byrjaði að spila reglulega fyrir aðalliðið. Shaw varð fyrir hrikalegum meiðslum og þrátt fyrir að vera líklega búinn að jafna sig líkamlega þá er andlega hliðin væntanlega sköðuð. Hef ekki nokkrar áhyggjur yfir því að hann muni ekki komast yfir þetta og verða sterkari en nokkru sinni fyrr.
Runólfur Trausti says
Halldór kom upp um mig. Ég studdist við Fake News þegar ég skrifaði af hverju leikurinn væri á miðvikudegi.
Mjög hentugt samt sem áður.
Hvað varðar Shaw þá græt ég í koddann í kvöld.
Rauðhaus says
Með ævintýralegum ólíkindum ef við seljum Luke Shaw frá félaginu. Langsamlega besti vinstri bakvörðurinn okkar.
Halldór Marteins says
Tjah, hann er ekki besti bakvörðurinn ef hann getur ekki gert það sem stjórinn vill að hann geri… Eitthvað er hann að gera rangt, það er nokkuð ljóst.
Vonandi nær hann að bæta úr því. Ég hallast að því að hann sé ekki með hausinn í þetta og muni fara. En vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér og hef alveg trú á að hann sé og verði fínn leikmaður. Það þarf samt að hafa karakterinn í þetta líka.
Rauðhaus says
Ef JM finnst virkilega að Rojo og Darmian séu betri vinstri bakverðir en Shaw, þá verð ég hreinlega að efast um að það mat hans sé rétt.
Blind hefur í sjálfu sér staðið sig vel og hefur til dæmis betri fyrirgjafir en Shaw (að mínu mati). Að öðru leyti finnst mér Shaw betri en hinir á flestum ef ekki öllum sviðum knattspyrnunnar. Það á augljóslega sérstaklega við hvað varðar sóknarleik, en þó líka varnarlega því Shaw er fínn varnarmaður.
Ég vona svo innilega að við höldum þessum strák hjá okkur því hann er klárlega eitt mesta efnið í deildinni. Að selja hann væru mistök á borð við þau að selja Kevin De Bruyne á sínum tíma.
Halldór Marteins (@halldorm) says
Ekkert að því að efast um mat stjórans. Hann hefur alveg tekið undarlegar ákvarðanir í vetur, sérstaklega í byrjun tímabils. Og verið duglegur að leiðrétta sín „mistök“ eftir því sem hefur liðið á tímabilið. Hann er auðvitað að læra inn á leikmennina og hópinn sinn.
Mourinho treystir Blind, Rojo og Darmian frekar til að gera það sem hann biður þá um að gera í þessari stöðu. Það er bara svo einfalt. Það að Shaw sé mögulega betri bakvörður en þeir skiptir litlu þegar kemur að þeirri staðreynd. Mourinho reif Shaw í sig eftir að sá síðarnefndi gerði mistök fyrr í vetur sem kostaði mark. Það voru harkaleg viðbrögð við einum mistökum, mér finnst líklegra að það hafi verið uppsafnaður pirringur á því að Shaw var ekki að gera það sem hann átti að vera að gera. Eða að þessi mistök hafi verið lýsandi fyrir það sem vanti upp á karakterinn.
Ég er að sjálfsögðu bara að velta upp pælingum út frá því hvernig ég sé það. Kannski er þetta eitthvað allt annað, kannski einfaldlega fílar Mourinho bara ekki Shaw sem leikmann og/eða persónu. Hver veit…
Mourinho hefur þó sýnt að það er pláss og svigrúm fyrir leikmenn að vinna sig upp úr frystikistunni. Það er það sem Luke Shaw þarf að gera. Og ef hann gerir það þá verður hann án efa betri leikmaður fyrir vikið. Ef það tekst ekki þá ættum við allavega að geta fengið ágætis pening fyrir hann.