Það er komið að úrslitaleik um fyrsta bikar tímabilsins. Þangað er Manchester United mætt og stefnir að sjálfsögðu á sigur. En það verður ekki auðvelt. Southampton er sterkt lið sem er, ólíkt Manchester United, taplaust í þessari keppni á tímabilinu. Sigur skiptir miklu, það væri sterk yfirlýsing frá Mourinho og hans mönnum að vinna fyrsta bikar vetursins auk þess sem bikarsigrar geta gefið liðum aukið sjálfstraust fyrir framhaldið, bæði á þessu tímabili og því næsta.
Leikurinn fer að sjálfsögðu fram á Wembley og hefst klukkan 16:30 á morgun. Það verður leikið til þrautar og því farið í framlengingu og vítaspyrnukeppni ef þarf.
Leiðin á Wembley
- Northampton Town 1:3 Manchester United
- Manchester United 1:0 Manchester City
- Manchester United 4:1 West Ham United
- Manchester United 2:0 Hull City
- Hull City 2:1 Manchester United
Heilt yfir hefur þetta verið nokkuð þægileg leið í úrslitin. Liðið hefur spilað vel á köflum og komist upp með að spila ekki eins vel á öðrum köflum. Seinni leikurinn gegn Hull í undanúrslitum varð þó óþarflega spennandi miðað við stöðuna eftir fyrri leikinn. En það var sterkt að vinna Manchester City og sigurinn á West Ham var stór og góður.
Manchester United
Manchester United er í úrslitaleik deildarbikarsins, komið í 8-liða úrslit enska bikarsins og 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Utan þess er liðið enn í harðri baráttu um að komast upp úr 6. sætinu í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er heilmikið álag á leikmenn liðsins. En auðvitað líka mikil skemmtun fyrir okkur stuðningsmennina. Við viljum hafa þetta svona, nóg af leikjum og titlum til að vinna.
Þegar leikjaálagið er svona mikið er nauðsynlegt að geta nýtt hópinn á sem skynsamlegastan máta. Alls hafa 28 leikmenn spilað fyrir Manchester United á þessu tímabili. Ef við skoðum dreifinguna eftir keppnum þá er hún svona:
- Evrópudeildin: 26 leikmenn notaðir í 8 leikjum
- Deildarbikarinn: 25 leikmenn notaðir í 5 leikjum
- Deildin: 24 leikmenn notaðir í 25 leikjum
- Enski bikarinn: 23 leikmenn notaðir í 3 leikjum
Tveir af þessum 28 leikmönnum fóru frá liðinu í janúar. Það er ljóst að Mourinho hefur verið að rótera á leikmönnum í þessari keppni en það hefur verið svipað mikið og í hinum keppnunum. Það eru aðeins tveir leikmenn sem hafa tekið einhvern þátt í öllum 5 leikjum United í keppninni. Annars vegar er það Ander Herrera, sem hefur byrjað alla leikina, og hins vegar Marcus Rashford, sem hefur byrjað þrisvar en tvisvar komið inn á sem varamaður. Sérstaklega athyglisvert þykir mér að Eric Bailly er einn af þeim þremur leikmönnum sem hafa ekki enn fengið mínútu í þessari keppni.
Það er gott og blessað að dreifa álagi, gefa sénsa, hvíla menn og rótera hópnum. En það er tími og staður fyrir svoleiðis, úrslitaleikur er ekki endilega sá tími. Þegar það er bikar í húfi þá er um að gera að keyra á sterkasta mögulega liði. Sem væri þá sennilega um það bil svona:
Miðað við ummæli Mourinho á blaðamannafundi helgarinnar þá er Carrick búinn að ná sér af meiðslunum sem ollu því að hann þurfti að yfirgefa völlinn í Frakklandi. Mkhitaryan er ekki svo heppinn og verður ekki með. Ástandið á Jones verður metið fyrir leik en hann er tæpur. Það er þó líklega algjör óþarfi að taka mikinn séns á því fyrst hann er tæpur. Smalling, Bailly, Rojo og Blind ættu að vera nægt kover fyrir miðvarðastöðurnar tvær fyrir þennan leik.
Mourinho sagði líka á sama blaðamannafundi að fyrirliði liðsins og markakóngur félagsins, Wayne Rooney, væri til í slaginn og myndi taka einhvern þátt í leiknum. Það myndi ekki koma á óvart að sjá hann taka stöðu í byrjunarliðinu, jafnvel í holunni sem Mkhitaryan skilur eftir sig. Það yrði þá líklega á kostnað Carrick.
Fellaini hefur skilað sínu í þessari keppni, til dæmis með frábæru skallamarki gegn Hull. Hann hefur þó enn ekki byrjað leik í deildarbikarnum og tel ég að hann verði áfram hafður á bekknum sem mögulegt leynivopn þegar líður á leikinn. Kannski mun Mourinho líta á kantmennina og hugsa að hann þurfi meiri vinnusemi þar, meiri aga og taktík til að stöðva mögulega sóknaruppbyggingu Southampton. Þá gætum við séð leikmann eins og Jesse Lingard koma inn fyrir annað hvort Mata eða Martial. Ég myndi þó alltaf vilja hafa báða M&M kallana okkar í liðinu því þeir eru bara það hættulegir fram á við. Með þriggja manna miðju af Carrick, Herrera og Pogba þá ætti að vera næg vinnusemi þar til að dekka vörnina.
Southampton
Fyrir þetta tímabil gekk Southampton í gegnum sitt hefðbundna sumargluggaferli; missti slatta af leikmönnum sínum til annarra liða og þurfti að finna nýjan knattspyrnustjóra. Ronald Koeman hélt á vit nýrra ævintýra og í stað hans kom Frakkinn Claude Puel. Puel hafði 17 ára stjórareynslu í Frakklandi þar sem hann stýrði Monaco, Lille, Lyon og Nice.
Gengi Southampton í hinum ýmsu keppnum vetrarins hefur verið misjafnt. Í deildinni siglir liðið lygnan sjó og er sem stendur í 11. sæti með 8 sigra, 6 jafntefli og 11 tapleiki. Í enska bikarnum þurfti liðið endurtekinn leik til að sigra Norwich eftir 2-2 jafntefli í fyrri leiknum og steinlá svo fyrir Arsenal, 0-5 á heimavelli, í 4. umferðinni. Southampton var í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en klúðraði því að komast upp úr riðlinum með því að gera 1-1 jafntefli á heimavelli við ísraelska liðið Hapoel Be’er Sheva.
En í deildarbikarnum hefur liðið staðið sig mjög vel. Enda komið alla leið í úrslitaleikinn. Leið Southampton á Wembley var svona:
- Southampton 2:0 Crystal Palace
- Southampton 1:0 Sunderland
- Arsenal 0:2 Southampton
- Southampton 1:0 Liverpool
- Liverpool 0:1 Southampton
Southampton hefur ekki farið auðveldustu leiðina í gegnum þessa keppni. Eingöngu spilað við úrvalsdeildarlið en samt sem áður haldið hreinu í öllum leikjunum og unnið frækna útisigra á bæði Arsenal og Liverpool. Lið með slíkan árangur má alls ekki vanmeta, hvað sem árangri í öðrum keppnum líður.
Eins og sést hefur vörnin átt stóran þátt í þessum árangri. En janúarmánuður var ekki góður fyrir varnarlínu Southampton. Fyrst ákvað José Fonte að fara til West Ham og aðeins nokkrum dögum síðar meiddist Virgil van Dijk illa á ökkla. Van Dijk hafði verið einn af betri leikmönnum Southampton svo það var hrikalegt fyrir liðið að missa hann og verra að geta ekki notað Fonte í hans stað. En það kom ekki að sök í seinni undanúrslitaleiknum gegn Liverpool. Þar steig Jack Stephens upp og spilaði miðvörð við hlið Maya Yoshida. Stephens stóð sig svo vel að hann var m.a. valinn maður leiksins hjá WhoScored. Southampton fékk reyndar á sig 10 mörk í 3 leikjum eftir þennan sigur gegn Liverpool en þeir koma inn í þennan leik í kjölfarið á 4-0 sigri á útivelli gegn Sunderland.
En það var ekki bara í vörninni sem Southampton lenti í meiðslavandræðum. Þeirra markahæsti leikmaður, Charlie Austin, meiddist illa í desember. Það hefur stundum gengið erfiðlega fyrir Southampton að skora og ekki batnaði það með þessum meiðslum. En í janúarglugganum virðist Southampton hafa gert ansi lunkin kaup í Manolo Gabbiadini. Þessi 25 ára gamli sóknarmaður, sem á að baki 6 A-landsleiki fyrir Ítalíu, kom frá Napoli á 14 milljón pund. Hann hefur aðeins spilað 2 leiki fyrir Southampton en virðist vera að aðlagast boltanum mjög vel hjá nýju liði því hann er búinn að skora 3 mörk í þessum leikjum. Það verður því nauðsynlegt að hafa góðar gætur á honum.
Líklegt byrjunarlið Southampton:
Þeirra hefðbundna leikplan er að vera meira með boltann en andstæðingurinn og spila honum, enda með flinka leikmenn í sínu liði. En þeir hafa líka sýnt að þeir geta alveg legið til baka og varist ef þeir þurfa. Það er ekki ólíklegt að þeir muni mæta til leiks með ákveðna taktík sem er hugsuð til að núlla út styrkleika Manchester United. Einn slíkur möguleiki væri að spila hápressu og reyna að taka Pogba úr leik með þeim hætti. Það hefur verið allur gangur á hvernig Southampton mætir stemmt til leiks, þeir geta verið frábærir og líka ömurlegir. Þeir munu væntanlega mæta mótiveraðir inn í þennan leik en það er spurning hvernig það endist.
Úrslitaleikirnir í gegnum tíðina
Southampton hefur aðeins einu sinni áður farið í úrslitaleik deildarbikarsins. Það var árið 1979 þegar þeir mættu sterku liði Nottingham Forest, sem þá var bæði ríkjandi Englandmeistari og deildarbikarmeistari. Southampton komst yfir í leiknum í fyrri hálfleik en Nottingham Forest skoraði 3 mörk í seinni hálfleik. Southampton minnkaði muninn í 3-2 undir lokin en varð að láta sér nægja silfrið.
Eini titill sem Southampton hefur unnið í sögu félagsins kom eftir sigur á Manchester United. Það var í úrslitaleik enska bikarsins árið 1976. Manchester United hafði þá nýlega endaði í 3. sæti efstu deildar á meðan Southampton endaði í 6. sæti næstefstu deildar. United var því talið mun líklegra. En Southampton hrósaði sigri með marki frá Bobby Stokes á 83. mínútu.
Það væri nú efni í sérstaka grein að fara yfir alla titlana sem Manchester United hefur unnið í sögu félagsins. Það væri mjög skemmtileg grein en hún verður að bíða betri tíma. Manchester United hefur 8 sinnum farið í úrslit deildarbikarsins. Fjórir leikjanna hafa tapast, við nennum ekkert að pæla of mikið í þeim núna. Fjórum sinnum hefur Manchester United hins vegar unnið þennan bikar.
Fyrsti sigurinn kom árið 1992. Þá skoraði Choccy sjálfur, Brian McClair, eina mark leiksins. Ryan Giggs var á sínu öðru tímabili í aðalliðinu, þessi leikur var 47. leikur hans fyrir félagið, hann átti bara eftir að spila nokkra til viðbótar eftir það. Mike Phelan var í byrjunarliðinu í leiknum. Í leikslok lyfti svo fyrirliðinn Steve Bruce bikarnum á loft, fyrstur leikmanna Manchester United.
Næsti sigur kom árið 2006. Ryan Giggs var aftur í byrjunarliðinu í þeim leik, þegar Manchester United mætti Wigan Athletic á Millennium Stadium í Cardiff. Þarna var Giggsy að spila sinn 660. leik fyrir Manchester United. Nú var enginn Brian McClair til að skora mörkin en það voru hins vegar Wayne Rooney (2), Louis Saha og Cristiano Ronaldo sem sáu um að skora 4 mörk án þess að Wigan næði að svara því. Fyrirliðinn Gary Neville lyfti bikarnum á loft í Wales.
Árið 2009 fór úrslitaleikurinn fram á Wembley en ekki í Cardiff. Andstæðingurinn var Tottenham Hotspur, sem hafði unnið deildarbikarinn árið áður. Enn var Ryan Giggs mættur með Manchester United í úrslit deildarbikars. Í þetta skipti var hann þó ekki í byrjunarliðinu heldur hóf leikinn á bekknum. Eftir markalausar 90 mínútur þurfti að framlengja, þá kom Giggs inn á í sínum 791. leik fyrir félagið. Ekkert mark var þó skorað og því var farið í vítaspyrnukeppni. Þar steig Giggs fyrstur upp og sýndi liðsfélögunum hvernig átti að slútta þessu með því að skora. Tevez, Ronaldo og Anderson fylgdu í fótspor hans og skoruðu allir á meðan aðeins einum leikmanni Tottenham tókst að skora framhjá Ben Foster í markinu. Rio Ferdinand var fyrirliði í þessum leik svo það kom í hans hlut að lyfta bikarnum og hefja fagnaðarlætin.
Ryan Giggs tók engan þátt í úrslitaleiknum árið eftir. Enda þurfti þess ekki þar sem Park Ji-sung sá um að manna vinstri kantinn gegn Aston Villa og bekkurinn var vel skipaður leikmönnum eins og Darron Gibson og Mame Biram Diouf. United lenti reyndar í vandræðum snemma leiks þegar Agbonlahor fór illa með Vidic sem endaði með að Vidic braut á Agbonlahor. James Milner, sem lék á miðjunni hjá Villa með Ashley Young á kantinum við hliðina á sér, skoraði örugglega úr vítinu. En stuttu síðar jafnaði Michael Owen metin. Wayne Rooney kom svo inn á í hálfleik og reddaði þessu með flottu sigurmarki. Patrice Evra var fyrirliði og lyfti bikarnum að leik loknum.
Steve Bruce, Gary Neville, Rio Ferdinand og Patrice Evra hafa lyft bikarnum á loft. Það verður áhugavert að sjá hver mun bera fyrirliðabandið í leikslok á morgun og verða þannig mögulega fimmti leikmaður Manchester United til að taka á móti deildarbikarnum.
Dómari leiksins
Dómari leiksins er Andre Marriner.
Marriner hefur dæmt þrjá leiki hjá Manchester United á tímabilinu. Hann dæmdi fyrsta leikinn í deildinni, 3-1 sigur á Bournemouth. Hann dæmdi 1-1 jafnteflið gegn Arsenal á Old Trafford í nóvember. Þar klikkaði hann á að dæma brot á Arsenal í aðdraganda jöfnunarmarks þeirra. Þriðji leikurinn sem hann dæmdi var 4-0 sigur Manchester United á Reading í 3. umferð enska bikarsins.
Karl Garðars says
Takk fyrir góða upphitun.
#leynivopnið 😂
Runólfur Trausti says
Má ekki gleyma því að Big Game Fellaini elskar Wembley.
Björn Friðgeir says
Bikarúrslitadagur!
Wooohooo!!!
Dolla á dag kemur skapinu í lag.