Fyrst voru það fyrirliðarnir okkar sem sátu fyrir svörum, síðan var það rokkarinn hárprúði Þráinn Árni sem svaraði nokkrum spurningum. Þar sem við fáum nú sjaldséð frí frá keppnisleik í miðri viku er tilvalið að birta viðtal við annan góðan rokkara. Heiðar Örn Kristjánsson er þekktastur fyrir að hafa stofnað rokkhljómsveitina Botnleðju. Botnleðja vann Músíktilraunir rétt um það bil tveimur mánuðum eftir kung-fu spark Cantona. Hvort Cantona hafi verið rokkurunum í Botnleðju einhvers konar hvatning látum við liggja á milli hluta. Heiðar Örn, sem einnig er í skemmtilegum hljómsveitum á borð við Pollapönk og Þröstur upp á Heiðar, er mikill stuðningsmaður Manchester United. Hann sendi okkur þessi svör fyrir nokkru síðan en það hefur bara verið svo mikið að gera hjá okkur í því að skrifa upphitanir og leikskýrslur að við höfum ekki séð okkur fært að birta þetta fyrr en núna. Sannkallað lúxusvandamál. En gefum Heiðari orðið.
Hvort kom á undan hjá þér, fótboltaáhuginn eða tónlistin?
Tónlistaráhuginn kom á undan. Fæddist með headphone á hausnum!
Hvenær kviknaði áhuginn á Manchester United og hvað hafði mest áhrif á að þú valdir það félag?
Fótboltaáhuginn kviknaði mjög snemma. Ég æfði með FH í nokkur ár, annars vorum við félagarnir öllum stundum í fótbolta. Svo varð náttúrulega svakaleg fótboltasprenging í kringum HM í Mexíkó ’86. Þá dreymdi alla um að verða atvinnumenn í fótbolta. Ég man ekki hvar eða hvenær það gerðist að ég fór að halda með Manchester United. Það bara gerðist og kom einhvern veginn ekkert annað til greina. Sem betur fer!
Hvaða leikmenn Manchester United, núverandi og fyrrverandi, eru mestu rokkararnir?
Ef við erum að tala um tónlist þá er eitt helsta vandamál fótboltans í dag hversu lélegan tónlistarsmekk flestir atvinnumenn virðast hafa[footnote] ;) [/footnote]. Annars veit ég að De Gea er algjör rokkhundur og fær hann prik fyrir það. Annars held ég að hann George Best hafi verið mesti rokkarinn, bæði innan og sérstaklega utan vallar. Tók rokkstjörnulífernið alla leið!
Dreymdi þig einhvern tímann um að spila á Old Trafford, fótbolta eða músík?
Sem gutta dreymdi mig um að verða atvinnumaður í knattspyrnumaður eða tónlistarmaður og spila út um allan heim. Spila á Old Trafford sem og annars staðar.
Ef þú ættir að henda í þína útgáfu af einu stuðningsmannalagi Manchester United, hvaða lag yrði fyrir valinu og hverja fengirðu með þér í verkefnið?
Ég væri til í að henda í brjálaða pönk-útgáfu af Glory Glory. Plata Ragga og Halla Leðjusyni að taka þetta með mér. Það gæti reyndar orðið erfitt að fá Halla í þetta verkefni, hann spilar nebblega með hinu liðinu.
Fyrir utan þetta klassíska (Barcelona ’99 og Moskva ’08), er einhver sérstakur leikur eða atvik sem stendur upp úr í Manchester United minningabankanum þínum?
Fyrir utan þessa tvo sem ekki má nefna þá er það auðvitað undanúrslitin í FA bikarnum ’99 á móti Arsenal og þetta magnaða mark hjá meistara Giggs! SVAKALEGT!
Hvernig líst þér á Mourinho, stöðuna á liðinu þessa dagana og framtíðarhorfurnar?
Mér líst bara vel á þetta. Held að kallinn sé loksins að ná tökum á þessu jobbi. Þetta er auðvitað stærsta jobbið í fótboltanum og á ekkert að vera auðvelt. Mourinho er á réttri leið held ég.
Hefurðu farið á leik með United og á að skella sér á völlinn á þessu tímabili?
Hurðu, ég á eftir að fara á leik með United. Gott að eiga eitthvað eftir, en við í Botnleðjunni skoðuðum Old Trafford eitt sumarið þegar við vorum að spila í Manchester. Fengum svona leiðsögn um völlinn. Fórum inn í klefann og löbbuðum göngin út á völlinn og svona alls konar. Það var ekki leiðinlegt.
Hvaða leikmenn eru í mestu uppáhaldi hjá þér, núverandi og allra tíma?
Zlatan hefur alla tíð verið í miklu uppáhaldi og núna er hann hjá Manchester United! This is what dreams are made of! Ibra er uppáhalds núverandi leikmaður, ekki spurning. Uppáhalds leikmaður allra tíma, þá verð ég að segja George Best. Það þarf ekkert að ræða það frekar. Hann var bestur!
Ef þú fengir að vera DJ á Old Trafford á leikdegi, hvaða fimm lög myndirðu velja sem síðustu lög fyrir leik?
Happy Mondays – Step On
Blur – There’s No Other Way
Ride – Vapour Trail
Supergrass – Alright
The Stone Roses – This Is the One
This Is the One er lagið sem er spilað nú þegar, halda því.
Við þökkum Heiðari kærlega fyrir svörin. Vonandi hafið þið gaman af þessari viðbót við greinaflóru Rauðu djöflana, við stefnum á fleiri viðtöl í framtíðinni.
Turninn Pallister says
Flottur pistill og skemmtilegur viđmælandi. Finnst þiđ mættuđ gera meira af þessu, síđan hjá ykkur alltaf ađ eflast líkt og liđiđ sjálft.
Narfi says
Þetta er skemmtilegt. Hvenær situr Guðni Th. fyrir svörum?
Magnús Þór says
Narfi: Hvenær sem hann vill.