Síðasti leikur Manchester United fyrir landsleikjahlé vorsins verður útileikur gegn Middlesbrough í hádeginu á sunnudegi. Síðasti fimmtudagur var mjög ólíkur fyrir þessi félög, á meðan Manchester United komst áfram í fjórðungsúrslit Evrópudeildarinnar þá rak Middlesbrough stjóra sinn, Aitor Karanka. Middlesbrough er ekki fyrsta félagið af þeim neðstu sem grípur til þessa ráðs til að reyna að hressa upp á spilamennsku síns liðs. Stundum virkar það hvetjandi á leikmenn, ekki síst í fyrsta leik eftir breytingar. Vonum að það taki Middlesbrough í það minnsta 90 mínútur að hressast.
Í fyrri leik liðanna í deildinni á tímabilinu náði Manchester United að snúa leiknum við á lokamínútunum og vinna 2-1 sigur eftir að hafa, gegn gangi leiksins, lent undir. Það var mikill karakter og seigla í þeirri endurkomu. Nú reynir á þessa seiglu.
Leikurinn fer fram á morgun og hefst klukkan 12:00.
Middlesbrough
Middlesbrough er að spila í úrvalsdeildinni í fyrsta skiptið síðan tímabilið 2008-09. Félagið var í raun ekki nálægt því að komast aftur í efstu deild fyrr en það réð Aitor Karanka árið 2013. Helsta breytingin sem Karanka gerði á liðinu var að stórbæta varnarleikinn. Tímabilið 2012-13 endaði Middlesbrough í 16. sæti Championship deildarinnar eftir að hafa fengið á sig 70 mörk í 46 leikjum. Karanka tók síðan við í nóvember 2013. Á fyrsta heila tímabili liðsins undir stjórn Karanka endaði liðið í 4. sæti deildarinnar eftir að hafa fengið á sig 37 mörk, besta vörn deildarinnar. Liðið bætti svo þann árangur árið eftir þegar það fékk aðeins á sig 31 mark og endaði í 2. sæti deildarinnar, aftur með bestu vörnina.
Enda er það svo að varnarleikur hefur ekki orðið liðinu beint að falli í vetur, þrátt fyrir að liðið sé nú komið í fallsæti. Middlesbrough hefur aðeins fengið á sig 30 mörk á tímabilinu. Eingöngu Chelsea, Tottenham, Manchester United og Manchester City hafa fengið færri mörk á sig. En Middlesbrough hefur verið að klikka á markaskoruninni, liðið hefur skorað minnst allra liða í deildinni. Liðið hefur aðeins skorað 19 mörk, sem er jafn mikið og Lukaku og Harry Kane hafa skorað einir fyrir sín lið.
Middlesbrough byrjaði tímabilið ágætlega, náði í 5 stig úr fyrstu 3 leikjunum og voru svo að sigla í kringum 15. sætið vel framyfir áramót. En síðustu 10 deildarleikir hafa verið hrikalegir fyrir liðið, það náði aðeins í 4 jafntefli en tapaði 6 leikjum. Af þessum 4 jafnteflum voru þrjú þeirra markalaus. Í síðustu 10 leikjum hefur Middlesbrough aðeins skorað 3 mörk, í síðustu 4 hefur liðið ekki náð að skora. Í heildina í vetur hefur Middlesbrough aðeins fjórum sinnum náð að skora fleiri en 1 mark í sama leiknum. Á móti hefur liðið spilað 13 leiki af 27 án þess að ná að skora mark.
Það má segja að janúargluggi Middlesbrough hafi angað af örvæntingu, það var vægast sagt mikið um að vera hjá þeim. Alls fóru 17 leikmenn frá þeim, ýmist að láni eða seldir. Sex leikmenn komu til liðsins, þar af þrír sóknarmenn. En þegar helsta hugmyndin um að styrkja sóknarleikinn felst í að fá Rudy Gestede, mann sem var á tímabilinu búinn að skora 4 mörk í 18 leikjum með Aston Villa í Championship deildinni, þá er kannski ekki mikið eftir. Gestede hefur það helst á ferilskránni í efstu deild að hafa spilað 41 leik fyrir þrjú mismunandi félög, af þeim hefur hann aðeins spilað í einum sigurleik. En hann hefur þó reyndar þegar skorað fyrir Middlesbrough síðan hann kom til liðsins. Það var í bikarleik gegn Oxford.
Karanka er mjög stjórnsamur og smámunasamur knattspyrnustjóri. Þeir eiginleikar hafa hjálpað Middlesbrough að spila gríðarlega agaðan og flottan varnarleik. En þessir sömu eiginleikar urðu einnig til þess að Karanka missti starfið sitt, vegna vaxandi óánægju leikmanna, stuðningsmanna og stjórnarmanna með stirðan sóknarleik liðsins. Að lokum fór svo að Karanka tapaði klefanum.
Aðstoðarþjálfari Karanka, Steve Agnew, hefur verið fenginn til að stýra liðinu tímabundið. Það er ekki í fyrsta skipti sem hann er fenginn til þess en hann stýrði liðinu í tvo leiki árið 2010 eftir að Gordon Strachan var rekinn. Middlesbrough tapaði báðum leikjunum í það skiptið og er það eina reynslan sem Agnew hefur af knattspyrnustjórastöðunni. Fyrir ári síðan lá við að Middlesbrough ræki Karanka eftir rifrildi. Þá var Spánverjinn sendur heim og Agnew stýrði liðinu í leik gegn Charlton. Sá leikur endaði líka með tapi Middlesbrough. Annars hefur hann verið aðstoðarstjóri, aðstoðarþjálfari og þjálfari varaliða og yngri liða hjá hinum og þessum félögum.
Það er því erfitt að ætla að lesa eitthvað í Agnew eða hvað hann mun gera við liðið fyrir þennan leik. Það er ekki ólíklegt að liðið fái eitthvað meira frjálsræði og leyfi til að reyna að spila sóknarbolta. En samt hefur liðið alltaf þennan þétta varnarleik til að byggja á.
Mögulegt byrjunarlið:
Manchester United
Eftir leikinn gegn Rostov á fimmtudaginn skaut Mourinho föstum skotum á enska knattspyrnusambandið og kvartaði meðal annars yfir óhentugum leiktíma á þessum leik:
It is difficult to play Monday with 10 men, it is difficult to play now, it is difficult to play at 12 o’clock on a Sunday. We will probably lose at Middlesbrough now. Fatigue has a price.
Það er mikið til í þessu hjá Mourinho. Leikurinn gegn Middlesbrough verður fimmti leikur liðsins á 16 dögum. Einn þeirra var í Rússlandi, sem þýddi mjög langt ferðalag, og eftir leikinn gegn Chelsea í London þurfti liðið að eyða löngum tíma í rútu til að komast heim. Það er eðlilegt að liðið finni fyrir þreytu. Mourinho benti líka réttilega á að í öðrum löndum fái lið sem taka þátt í Evrópukeppni meiri sveigjanleika með leiktíma í keppnum heimafyrir. Þannig er það hins vegar ekki á Englandi.
Mourinho veit alveg hvað hann er að gera með þessum ummælum. Fyrir utan það að hrista upp í enska knattspyrnusambandinu og fá þá sem stjórna þar til að mögulega hugsa þetta aðeins betur (langsótt, ég veit) þá eru þetta líka orð sem leikmenn liðsins geta tekið til sín. Ferguson var alltaf frábær í því að koma inn við á móti heiminum hugarfari í leikmennina sína, að gera þá brjálaða í að sanna sig gagnvart mótlætinu, að láta þá gefa hvern einasta dropa af orku til að sigra. Mourinho notar oft svipaða taktík.
Það er rétt sem hann segir, álagið hefur verið gríðarlega mikið á liðinu síðustu vikur. Og á eftir að verða meira en hjá hinum liðunum í deildinni fram að lokum tímabils. Sumir leikmenn fá pásur eftir þennan leik, aðrir þurfa að ferðast og spila með landsliðum sínum. Eftir það tekur við grimmur lokasprettur hjá Manchester United. Það eru þegar komnir 8 leikir á dagskrá í apríl og allar líkur á að sá 9. bætist við því það verður að finna tíma fyrir þessa tvo leiki sem frestuðust vegna þátttöku í bikarkeppnum. Þegar ég skrifa þetta byrja fréttirnar að flæða inn að liðin í Manchester hafi komist að samkomulagi um að spila sinn frestaða leik fimmtudaginn 27. apríl. Níu leikir á 30 dögum. Það er rosalegt!
En Manchester United er samt ennþá með í þessum keppnum. Manchester United á að vera betra en þetta Middlesbrough lið en United er með menn í meiðslum og bönnum auk þess sem restin er að glíma við þreytu og álag. Þetta verður ekki léttur leikur, þetta verður barátta.
Mögulegt lið:
Arsenal tapaði fyrir Darren Fletcher og félögum í West Brom. Sem þýðir að enn fær Manchester United tækifæri til að koma sér upp úr þessu sjötta sæti sem liðið hefur verið rótgróið við síðustu mánuði. Everton er líka farið að anda ofan í hálsmálið á okkar mönnum, margt sem getur enn gerst í þessari baráttu.
Elias says
Við erum allavegana ekki lengur í 6. sætinu…
Hjörtur says
Vinna og skreppa í 5. sæti.
Elias says
Það er bara að vona að þeir brotni ekki undan pressunni eins og gerst hefur í vetur þegar við eigum séns á því að lyfta okkur upp… Það sem gæti samt hjálpað er að hvernig sem fer á morgun þá munum við ekki vera í 6. annað kvöld
Keane says
Að öðru… Vonandi verður Moyes rekinn. Býst reyndar við því að hann geti farið að slafra í sig köldu haggis eftir tímabilið, andskotans durturinn.