Flestir íþróttamenn vilja keppa strax eftir slaka frammistöðu og reyna þannig að bæta upp fyrir téða frammistöðu með sigri og góðum leik. Leikmenn Manchester United fá það tækifæri annað kvöld eftir jafnteflið gegn WBA á laugardaginn. Everton kemur inn í leikinn með sama hugarfari en þeir töpuðu enn og aftur fyrir Liverpool um helgina.
Old Trafford í vetur
Þegar José Mourinho tók við United þá bjóst maður við því að liðið yrði nær ósigrandi á heimavelli enda Mourinho ekki þekktur fyrir að tapa mörgum heimaleikjum. Fyrir utan mjög súrt tap í grannaslag gegn Manchester City í byrjun tímabils þá hefur það gengið eftir og er liðið taplaust í 19 leikjum í deild að ég held.
Að því sögðu þá hefur frammistaða liðsins í deildinni á Old Trafford oftar en ekki verið hrein og bein skelfing. Í raun er þetta stundum eins og beint framhald af leikjum undir stjórn Louis Van Gaal, nema þegar kemur að Evrópukeppninni.
Heimaleikir Manchester United í öllum keppnum:
- Southampton (Úrvalsdeild): Þægilegur 2-0 sigur.
- Manchester City (Úrvalsdeild): Ósanngjarnt 1-2 tap.
- Leicester City (Úrvalsdeild): Góður 4-1 sigur.
- Zorya Luhansk (Evrópudeild): Tæpur 1-0 sigur.
- Stoke City (Úrvalsdeild): Ógeðfelld 1-1 jafntefli.
- Fenerbahce (Evrópudeild): Frábær 4-1 sigur.
- Manchester City (Deildarbikar): Sanngjarn 1-0 sigur.
- Burnley (Úrvalsdeild): Leiðinlegt 0-0 jafntefli.
- Arsenal (Úrvalsdeild): Ósanngjarnt 1-1 jafntefli.
- Feyenoord (Evrópudeild): Góður 4-0 sigur.
- West Ham (Úrvalsdeild): Þreytt 1-1 jafntefli.
- West Ham (Deildarbikar): Þægilegur 4-1 sigur.
- Tottenham (Úrvalsdeild): 1-0 iðnaðarsigur.
- Sunderland (Úrvalsdeild): 3-1 skyldusigur.
- Middlesbrough (Úrvalsdeild): Tæpur 2-1 sigur.
- Reading (FA bikar): Þægilegur 4-0 sigur.
- Hull City (Deildarbikar): Erfiður 2-0 sigur.
- Liverpool (Úrvalsdeild): Enn eitt 1-1 jafnteflið.
- Wigan Athletic (FA bikar): Þægilegur 4-0 sigur.
- Hull City (Úrvalsdeild): Leiðinlegt 0-0 jafntefli.
- Watford (Úrvalsdeild): Þægilegur 2-0 sigur.
- Saint-Etíenne (Evrópudeild): Þægilegur 3-0 sigur.
- Bournemouth (Úrvalsdeild): Ógeðfellt 1-1 jafntefli, enn og aftur!
- FC Rostov (Evrópudeild): 1-0 iðnaðarsigur.
- West Bromwich Albion: Sanngjarnt 0-0 jafntefli.
Í 25 heimaleikjum er liðið meðmeð 16 sigra, 8 jafntefli og 1 tap. Það magnaða við þetter að ÖLL jafnteflin koma í deildinni enda hefur liðið aðeins unnið fimm deildarleiki á Old Trafford í vetur.
Ástæðan er augljóslega ekki sú að vörnin lekur heldur að liðið getur ómögulega klárað þau færi sem það fær en á móti kemur að í sumum leikjum hefur liðinu sömuleiðis gengið bölvanlega að skapa sér færi. Það er eins og margir hverjir séu ennþá með Van Gaal hugmyndafræðina fasta í kollinum á sér. Eða þá að Mourinho er ekki að gefa mönnum nægilegt svigrúm sóknarlega.
Samkvæmt tölfræði síðunni Squawka er United vissulega að skapa sér nægilega mikið af færum – þeir eru bara ekki að setja boltann í netið! Fyrir leikinn gegn WBA var liðið í þriðja sæti í deildinni þegar kom að því að skapa sér færi, sömuleiðis voru þeir í þriðja sæti yfir fjölda skota á markið. Hins vegar er færanýting liðsins það slök að þeir eru í 17 sæti hvað það varðar með 14.3% nýtingu en meðaltalið í deildinni er 17.7%.
Þegar kemur að fjölda góðra færa þar sem sóknarmaður er einn á einn gegn markverði mótherja eða í færi þar sem hann á allajafna að þenja netmöskvana úr þá hafa aðeins Liverpool og Manchester City skapað sér fleiri slík. Hins vegar er United NEÐST í allri deildinni hvað varðar nýtingu á slíkum færum með aðeins 35.19% nýtingu á meðan meðaltal deildarinnar er 58.76%.
Það er því nokkuð ljóst að United er ekki í vandræðum þegar kemur að varnarleik né þegar kemur að því að skapa sér færi en að setja boltann í netið virðist vera allt annað mál! Auðvitað beinast spjótin aðallega að Zlatan Ibrahimovic en þrátt fyrir að vera lang markahæsti leikmaður liðsins og sá fyrsti leikmaðurinn til að fara yfir 20 mörk síðan 2013 þá hefur hann klúðrað sínum skerf af færum.
Það er hins vegar spurning hvort að félag eins og Manchester United eigi yfir höfuð að þurfa treysta á 35 ára leikmann til að ná árangri.
Leikurinn á morgun
Everton
Eins og áður sagði þá kemur Everton inn í þennan leik eftir 3-1 ósigur gegn erkifjendunum í Liverpool, þeir eru því hungraði í betri frammistöðu. Það er spurning hvort það hungur geri þá enn grófari en þeir voru um helgina en Ross Barkley var til að mynda heppinn að hanga inn á vellinum á laugardaginn.
Frammistöður Everton undanfarið hafa þó verið góðar en þeir pökkuðu til að mynda Hull City saman 4-0, unnu WBA 3-0 en töpuðu 3-2 fyrir Tottenham. Þeim virðist ganga ágætlega með liðin sem eru fyrir neðan þá í töflunni en brösuglega með liðin fyrir ofan sig. Sem stendur sitja þeir í sjöunda sæti deildarinnar, aðeins þremur stigum á eftir okkar mönnum en United liðið á þó tvo leiki til góða.
Hvað varðar meiðslalistann hjá Everton þá getum við lítið kvartað yfir því að það vanti leikmenn í United liðið. Seamus Coleman fótbrotnaði auðvitað í landsleik nú á dögunum og verður ekki meira með í vetur. Ásamt honum eru Yannick Bolasie sömuleiðis frá út tímabilið sem og James McCarthy, Muhamed Besic, Funes Mori og okkar fyrrum leikmaður Morgan Schneiderlin eru allir meiddir.
Það er eflaust ástæðan fyrir því að gegn Liverpool byrjuðu leikmenn á borð við Matthew Pennington, Mason Holgate, Tom Davies og Dominic Calvert-Lewin.
Manchester United
Enn og aftur hefur Mourinho gagnrýnt Luke Shaw opinberlega en hann sagðist hreinlega ekki geta valið hann í hópinn fyrir leikinn gegn WBA þar sem hann geti ekki borið saman það hvernig hann æfi, hversu einbeittur hann er eða metnað hans við leikmenn á borð við Daley Blind, Matteo Darmian og Ashley Young.
Hann ku vera langt á eftir þeim í öllum þessum flokkum en það er líklega ástæðan fyrir því að Young byrjaði sem vinstri bakvörður gegn WBA um helgina.
Þar sem það er stutt á milli leikja má búast við einhverjum breytingum á United liðinu. Að öllum líkindum koma Ander Herrera og Zlatan Ibrahimovic inn í liðið. Mig grunar að það verði á kostnað Anthony Martial (sem þýðir að Marcus Rashford færist niður á vinstri vænginn) og svo Henrikh Mkhitaryan sem var átakanlega slakur um helgina.
Það myndi þá þýða að Marouane Fellaini færi hærra upp á völlinn. Sömuleiðis grunar mig að Ashley Young gæti farið á bekkinn fyrir Blind eða Darmian. Sömuleiðis held ég að Mourinho gæti sett Wayne Rooney í byrjunarliðið gegn Everton.
Hvað varðar meiðslalistann þá hefur United orðið fyrir þó nokkrum áföllum undanfarið en hrakfallabálkurinn Phil Jones meiddist á landsliðsæfingu eftir að hafa lent í árekstri við Chris Smalling. Hversu týpískt?
Samkvæmt Mourinho eru þeir félagar mögulega frá í langan tíma og eru orðrómar um að hann sé í raun búinn að gefast upp á þeim og vilji selja þá báða í sumar sökum þess hversu óáreiðanlegir þeir eru. Svo fór Juan Mata í aðgerð á nára og gæti verið frá í langan tíma en það er þó búist við því að hann komi til baka í apríl.
Svo er það auðvitað Paul Pogba en hann tók þátt í 10 manna æfingu eftir WBA leikinn en Mourinho er þó þögull sem gröfin um hvort hann geti spilað gegn Everton.
Mourinho hefur neitað því að hann muni leggja áherslu á Evrópudeildina og hvíla lykilmenn í deildinni nema að það sé orðið stærðfræðilega ómögulegt fyrir liðið að ná Meistaradeildarsæti. Að því sögðu þá er deildarleikurinn gegn Chelsea mitt á milli leikjanna gegn Anderlecht og má reikna með að Mourinho stilli upp liði sem sættir sig við stig á Old Trafford gegn verðandi Englandsmeisturum í Chelsea.
Fyrst er það þó Everton á morgun, klukkan 20:00.
Bjartsýnis spáin er góður 2-0 heimasigur.
Neikvæða spáin er þreytt og pirrandi 0-0 jafntefli.
Silli says
Flott upphitun!
Ein athugasemd þó – nú er brostið á með sumartíma í Evrópu, svo leikurinn hefst kl 19 á okkar og enskum tíma.
GGMU!
Moore says
Þvílíkir brandarakallar :)
Voruð sundurspilaðir af City á Old Trafford í haust og skrifið „Ósanngjarnt 1-2 tap“.
Voruð heppnir að tapa ekki stærra.