Tuttugu leikir án taps. Ekki nema 30 leikir í að Manchester United slái metið yfir lengstu taplausu hrinuna í ensku úrvalsdeildinni. Helsti gallinn er bara að það stefnir í að 15 af þessum leikjum verði jafntefli.
Staðreyndin er þó samt að Manchester United er núna í lengstu taplausu hrinu sem lið í topp 5 deildum Evrópu hefur náð. Það er alveg eitthvað, jafnvel þótt við hefðum öll verið til í að einhver af þessum 20 leikjum hefði tapast ef við hefðum fengið fleiri sigurleiki á móti.
Næsta viðureign er gegn Sunderland. Fimm af síðustu 6 heimaleikjum Manchester United í deildinni hafa endað með jafntefli. En þessi leikur verður á útivelli og þar hefur gengið betur. Fimm af 6 síðustu útileikjum Manchester United hafa endað með sigri.
Leikurinn fer fram á Stadium of Lights og hefst klukkan 12:30 á morgun, sunnudag.
Sunderland
Sunderland er eitt af liðunum sem Manchester United hefur þegar mætt í þessari 20 leikja taplausu hrinu. Á öðrum degi jóla vann Manchester United 3-1 sigur á Sunderland á Old Trafford með mörkum frá Daley Blind, Zlatan Ibrahimovic og Henrikh Mkhitaryan. Fabio Borini skoraði mark Sunderland, hans eina mark fyrir liðið í vetur.
David Moyes er ekki algjörlega vonlaus knattspyrnustjóri. Hann átti til að mynda fínan stjóraferil með Everton og auðvitað skilur maður að hann hafi stokkið á tækifærið að koma til Manchester United. En hann réð ekki við það verkefni og hann virðist ekki hafa náð sér almennilega síðan. Að vísu hefur hann ekki beint tekið að sér auðveld verkefni síðan hann hætti hjá Manchester United.
Hann hefur þó bara alveg sérstakt lag á að orða hlutina þannig að þeir hljómi illa. Eins og þegar hann gerði mjög oft hjá Manchester United. Hann hélt því áfram þegar hann tók við Sunderland, byrjaði á því að láta alla vita að Sunderland yrði í fallbaráttu þetta tímabilið. Það var ekki beint til þess fallið að peppa leikmennina, enda er liðið í neðsta sæti deildarinnar sem stendur.
Það hefur ábyggilega ekki aukið á pepphressleikann þegar David Moyes var spurður um gengi liðsins upp á síðkastið og leikina framundan og hann svaraði:
What I hadn’t put down was a win against a Manchester United – or an Arsenal or Chelsea – in our remaining fixtures, so we now have to win at least one of those games.
Það er ekki það að hann hafi endilega rangt fyrir sér, ekki frekar en þegar hann sagði að Liverpool væru líklega sigurstranglegri þegar þeir heimsóttu Old Trafford eða að Manchester United liðið hans ætti að stefna að því að spila eins og Manchester City. Það er bara hversu ótrúlega klaufalegur hann er við að koma þessum pælingum frá sér. Oftar en ekki springa þessi orð í andlitið á honum.
Hann er samt enn þarna, á sínum stað í stjórastól Sunderland. Sunderland er eina liðið af þeim neðstu 5 sem hefur ekki enn rekið stjórann sinn. West Ham er næsta lið þar fyrir ofan og þar hafa menn m.a.s. komið með stuðningsyfirlýsingu fyrir stjórann, sem þýðir yfirleitt að stjórinn er ca. 1-3 slæmum úrslitum frá brottrekstri. En ekki hjá Sunderland, Moyes virðist skotheldur í sínu starfi. Hann hefur ekki einu sinni fengið stuðningsyfirlýsingu. Skoðum þá aðeins hvernig honum hefur gengið upp á síðkastið.
Í síðustu 10 leikjum hefur liðið aðeins náð einum sigri. Og það sem meira er, þessi eini sigurleikur er eini leikurinn af þessum 10 þar sem Sunderland hefur náð að skora fótboltamark. Þau voru reyndar 4, þeir mega eiga það. Í hinum 9 var ekkert að frétta í markaskorun þeirra megin. Tvisvar náðu þeir reyndar að landa markalausum jafnteflum.
Á heimavelli er Sunderland aðeins búið að fá 13 stig. Það er lakasti heimavallarárangur deildarinnar, ásamt Middlesbrough og Crystal Palace. Sunderland hefur aðeins skorað 14 mörk á heimavelli, bara Middlesbrough er með færri heimavallarmörk. Sunderland hefur fengið á sig 26 mörk í heimaleikjunum, aðeins Swansea og West Ham eru með fleiri.
Fyrirliði Sunderland er hinn stórkostlegi John O’Shea. Sá sami og skoraði eftirminnilegt sigurmark á Anfield, sami leikmaðurinn og kláraði eldfiman leik gegn Arsenal með einni bestu vippu sem sést hefur á knattspyrnuvellinum, hinn sami og stökk í markið gegn Tottenham og ekki bara hélt hreinu heldur fann upp spilastílinn sweeper keeper sem markmenn eins og Manuel Neuer hafa seinna leikið eftir, við erum að tala um fótboltasnillinginn sem klobbaði Figo og var lykilmaður Manchester United á sínum tíma. Hvílíkur maður!
Það er skarð fyrir skildi að Sunderland verður án fyrirliða síns í þessum leik. Jim O’Shea, faðir John O’Shea, lést nýlega svo John fór til Írlands til að vera viðstaddur jarðarförina og vera með fjölskyldu sinni. Jim O’Shea var mikill knattspyrnuunanndi sjálfur og sat m.a. í stjórn knattspyrnufélagsins Ferrybank A.F.C. í Waterford, heimabæ O’Shea fjölskyldunnar. Jim hafði unnið ötult starf fyrir klúbbinn síðan á 8. áratug síðustu aldar og John hóf einmitt sinn knattspyrnuferil með Ferrybank áður en hann endaði í yngra starfinu hjá Manchester United.
Verulega leiðinlegar fréttir og skiljanlegt að John O’Shea þurfi smá tíma frá Sunderland. Fyrirliði Sunderland í síðasta leik var miðjuakkerið Lee Cattermole. Cattermole var þar að spila sinn fyrsta leik síðan í lok september eftir að hafa verið frá vegna meiðsla. Cattermole mun líklega passa upp á fyrirliðabandið fyrir O’Shea áfram í þessum leik.
Það eru nokkrir meiddir hjá Sunderland. Paddy McNair, Duncan Watmore, Jan Kirchhoff og Steven Pienaar eru allir frá vegna meiðsla. Þá er Adnan Januzaj hjá Sunderland á láni frá Manchester United svo hann getur ekki spilað leikinn.
Moyes hefur verið að hringla mikið í uppstillingu liðsins upp á síðkastið til að reyna að hrista upp í hlutunum. Spilað 4-4-2, 4-2-3-1, 4-1-4-1 og jafnvel prófað að spila með þriggja eða fimm manna varnarlínur. Ég ætla að spá því að hann leggi þetta upp einhvern veginn svona:
Victor Anichebe er nýkominn aftur eftir nokkuð löng meiðsli. Hann náði 17 mínútum í síðasta leik svo það er spurning hvort hann sé orðinn nógu góður fyrir byrjunarliðssæti, hann gæti annars sest á bekkinn og Seb Larsson tekið plássið í hans stað. Ég set þetta upp sem 4-3-3 en það gæti farið meira út í 4-1-4-1. Í það minnsta er líklegt að Sunderland reyni að halda mjög þéttum pakka, sérstaklega á miðjunni.
Manchester United
Manchester United hefur gert jafntefli í 6 af síðustu 9 leikjum í deildinni. Það er ansi dýrt. Liðið hefur gert jafntefli í síðustu 2 deildarleikjum í röð. Lengsta jafnteflisleikjahrina liðs í efstu 5 deildum Evrópu á tímabilinu eru 5 leikir. Það var franska liðið Rennes sem náði því en það þeir í Rennes eru sannkallaðir jafntefliskóngar þar sem liðið er líka á lengstu núverandi jafnteflishrinu. Liðið hefur gert 9 jafntefli í síðustu 11 leikjum, geri aðrir betur!
Það komu jákvæðar fréttir úr herbúðum Manchester United þegar félagið staðfesti að það Jesse Big Game Lingard hefði skrifað undir nýjan samning. Það er vel séð, alltaf gaman að sjá uppalinn heimastrák standa sig vel hjá United. Lingard á nóg inni og ég hef fulla trú á að hann muni hjálpa liðinu mikið á næstu árum, jafnvel þótt hann verði seint talinn hluti af sterkasta byrjunarliði Manchester United. En það þarf líka góða menn í hóp, menn sem geta komið inn vegna róteringa, meiðsla eða fyrir ákveðna taktík og unnið gott starf.
Ashley Young meiddist í síðasta leik og bætist þar með á meiðslalistann en fyrir á honum voru Wayne Rooney, Phil Jones, Chris Smalling og Juan Mata. Munar alveg um þá en Manchester United ætti að geta fundið nógu gott byrjunarlið til að vinna Sunderland.
Mögulegt byrjunarlið:
Þetta er enn einn must win leikurinn í deildinni. Manchester United hefur verið að fá ansi mörg tækifæri til að blanda sér í almennilega baráttu um eitt af efstu 4 sætunum en hefur oftar en ekki náð að klúðra þeim með jafnteflum. Tækifærin verða ekkert mikið fleiri. Miðað við leikjadagskrá Manchester United og liðanna í kring virðist möguleikinn fara dvínandi. En hann er þó langt í frá farinn. Fyrsta skrefið er alltaf næsti leikur og þessi leikur þarf að vinnast. Ef niðurstaðan verður einhver önnur en Manchester United sigur þá er ekkert eftir í stöðunni nema leggja alla áherslu á Evrópudeildina.
Dómari í leiknum verður Craig Pawson.
Skildu eftir svar