Að mörgu leyti er apríl skemmtilegasti mánuðurinn í boltanum. Þar ræðst svo margt hvernig tímabilið endar. Evrópukeppnirnar eru í fullum gangi og hver leikur í deildinni skiptir öllu máli um hvernig niðurstaðan verður í maí. Tap í einum leik getur sett allt úr skorðum. Það eru ekki töpin sem hafa sett tímabilið okkar úr skorðum, þvert á móti, liðið tapar varla leik. Nei, það eru jafnteflin sem hafa komið í bakið á okkur.
Á morgum getum við þó haldið þeim möguleika á lífi að tímabilið verði bara hið ágætasta. Átta-liða úrslit Evrópudeildarinnar klárast á morgun. Okkar besti möguleiki á Meistaradeildarsæti, bakdyraleiðin, sem endar þó með bikar.
Seinni leikurinn gegn Anderlecht bíður okkar eftir enn eitt jafnteflið í fyrri leiknum. Fátt nema klaufaskapur gerði það að verkum að United er ekki að fara að spila við Anderlecht með þægilega tveggja til þriggja marka forystu. Við þekkjum þetta þó, þetta er saga tímabilsins til þessa.
Það er reyndar ansi létt yfir okkur þessa dagana eftir stórkostlegan sigur United á Chelsea um síðustu helgi þar sem við urðum líklega vitni að bestu frammistöðu liðsins frá því að Sir Alex Ferguson lét af stöfum. Menn eru því væntanlega ansi kátir á æfingarsvæðinu að undirbúa sig fyrir þennan leik. Lappirnar eru vissulega margar orðnar ansu þreyttar enda verður leikurinn gegn Anderlecht 54. leikur United á tímabilinu.
Smá sögustund
Viðureign United og Anderlecht er sú þriðja sem liðin spila í einhverskonar útsláttarkeppni. Það er óhætt að segja að viðskipti United við Belgana hafi verið ansi einhliða.
Fyrst mættust liðin í forkeppni Evrópukeppni Meistaraliða, forvera Meistaradeildarinnar, árið 1956. United vann fyrri viðureignina í Belgíu 2-0 og ef marka má minningu Manutd.com um leikinn bjóst Matt Busby, stjóri liðsins við erfiðum leik í síðari leiknum sem fór reyndar fram á Maine Road, fyrrverandi heimavelli Manchester City en ekki var búið að setja upp flóðljós á Old Trafford.
Það er skemmst frá því að segja að United hafði 10-0 sigur gegn Belgunum, sem enn þann dag í dag er stærsti sigur United frá upphafi. Það var falleg uppröðun á markaskorurunum en Dennis Viollet skoraði fjögur mörk, Tommy Taylor setti þrennu, Liam Whelan skoraði tvö og Johnny Berry náði að pota inn einu.
Matt Busby minntist leiksins síðar með hlýhug og þótti afrekið mikið enda hafi Anderlecht ekki verið neitt smálið frá Íslandi, eins og hann orðaði það.
„Strákarnir unnu 10-0, ótrúlegar lokatölur sem gerði það að verkum að margir töldu Anderlecht vera slakt lið. En þetta var ekkert smálið frá Möltu eða Íslandi. Belgía var sterk knattspyrnuþjóð og Anderlecht voru ríkjandi meistarar,“ sagði Busby um leikinn.
Þar hafið þið það, ekkert smálið frá Íslandi, takk fyrir takk.
Anderlecht var einnig eitt af liðunum sem United sló út árið 1968 á leið sinni að fyrsta Evróputitlinum en myndir frá leiknum á Old Trafford má sjá hér að neðan. United slapp reyndar naumlega í gegnum viðureignina, 3-4 samtals, og aðeins mark frá Carlo Sartori í síðari viðureigninni kom United áfram í átt að fyrirheitna landinu.
Liðin mættust svo í riðlakeppni Meistaradeild Evrópu árið 2000 og þá gerði Anderlecht sér reyndar lítið fyrir og sigraði okkar menn á heimavelli, 2-1 en United hafði unnið fyrri viðureignina 5-1 á Old Trafford. Þess má til gamans geta að United lenti í öðru sæti riðilsins, á eftir Anderlecht í fyrsta sætinu.
En hvað með Anderlecht í dag?
Liðið er á góðri leið með að endurheimta belgíska titilinn úr greipum Club Brugge, sem eru ríkjandi meistarar. Þegar 30 umferðir eru búnar sitja andstæðingar okkar á morgun á toppi belgísku A-deildarinnar með tveggja stiga forystu á Club Brugge.
Það er enginn miskunn í belgísku deildinni, líkt og þeirri ensku, og þurfti Anderlecht að spila á sunnudaginn, eins og United. Liðið spilaði við Oostende, sem er í fimmta sæti deildarinnar, og hafði Anderlecht góðan 0-1 útisigur. Ef við berum saman liðið sem René Weiler stillti upp gegn Oostende, samanborið við liðið sem spilaði gegn United fyrir rétt tæpri viku þá gerði hann sex breytingar.
Bakverðirnir tveir, annar miðvörðurinn auk Tielemans og markaskorarinn Dendoncker á miðjunni héldu sætum sínum, aðrir voru látnir víkja. Nú þekki ég ekki Anderlecht né belgísku deildina út í þaula þannig að ég ætla bara að gera ráð fyrir því að þeir leikmenn hafi verið hvíldir fyrir átökin á morgun og séu því ferskir.
Það vekur athygli mína að á sunnudaginn næsta spilar liðið algjöran toppslag við Club Brugge og ljóst að það er afar mikilvægur leikur fyrir liðið, enda liðin í bullandi baráttu um belgíska titilinn. Það má því ef til vill velta því fyrir sér hvort að minnsta kosti annað augað verði ekki á þeim leik, í undirbúningi fyrir þennan leik.
Við sáum þó á fimmtudaginn var að þetta lið er ágætis fótboltalið, sem er þar að auki í bullandi formi eftir gott gengi í deildinni. Þeir eru með einn eftirsóttasta unga leikmann í Evrópu þessa dagana í Tielemans og hraða kantmenn sem geta alveg gert okkur erfitt fyrir. Þeir eru því algjörlega sýnd veiði en ekki gefin.
Þetta er mikilvægasti leikur tímabilsins, hingað til
Það veltur ansi mikið á þessum leik enda Evrópudeildin besta leið United inn í Meistaradeildina að ári. Þrátt fyrir að United hafi náð í magnaðan sigur gegn Chelsea og eigi nóg af leikjum inni til þess að jafna Liverpool að stigum er það bara staðreynd að miðað við liðin sem eftir eru í Evrópudeildinni ætti United einfaldlega að bæta þessum titli í safnið.
Það væri nefnilega alveg skelfilegt að þurfa að fara í þessa keppni aftur enda má færa fyrir því ágætlega sannfærandi rök að keppnin beri að stórum hluta ábyrgð á því að United hefur ekki verið að blanda sér í titilbaráttuna að ári. Keppninni fylgja fleiri leikir og það hefur bara sýnt sig að keppnin er orkusuga, mun meiri en Meistaradeildin, líkt og Phil Neville fjallaði skilmerkilega um fyrir BBC árið 2015.
Það er því algjört lykilatriði að United endurtaki ekki leikinn á ári og drulli sér nú í Meistaradeildina, og eins og ég hef komið inn á, erum við í dauðafæri að tryggja okkur þangað með sigri í þessari ágætu keppni.
En til þess þarf að fara í gegnum Anderlecht og það er rosa fínt að það sé á Old Trafford sem hefur verið, ólíkt deildinni, sannkallað vígi í þessari keppni. Okkar menn hafa nælt í sigur í öllum heimaleikjunum í Evrópudeildinni til þessa og það er alveg tilgangslaust að hætta því núna.
Hverjir eru klárir?
Mourinho var auðvitað mættur á blaðamannafund í dag þar sem hann fór yfir stöðu mála fyrir leikinn. Hann var spurður um stöðu Anthony Martial sem var settur í frystikistuna gegn Chelsea um helgina.
„Do I think Anthony is a player with great potential? Yes. Do I think he can play successfully for me? Yes. But he needs to give me things that I like very much.“
Meiðslalega séð eru meiðslapésarnir Smalling og Jones frá, auk Mata sem spilar líklega ekki meira á tímabilinu. Þá styttist í endurkomu fyrirliðans okkar sem verið hefur frá að undanförnu með einhverskonar óræð meiðsli. Hann verður líkast til á bekknum á morgun.
Leikplanið á morgun virðist ekki vera flókið ef marka má orð Mourinho. Halda hreinu og ná í sigurinn sem þeytir liðinu í undanúrslit Evrópudeildarinnar.
„First of all, if you don’t concede, you go through, and that’s important for us to know. At the same time, Anderlecht know that if they don’t score, they’re out. Let’s see what happens. We play at home and I know our record there in the Premier League is not the best, but in the Europa League we’ve won every match at home. Are we going to play for a 0-0? No.“
Annað áhugavert sem kom fram á fundinum var að Romero byrjar á morgun, eins og í flestum bikarleikjum til þessa á tímabilinu en komist liðið alla leið í úrslitaleikinn er Romero ekki öruggur með sæti í byrjunarliðinu. Svekkjandi.
Halldór Marteins says
Maður er orðinn helvíti spenntur fyrir restinni af tímabilinu. Bara vonandi að liðið geti byggt ofan á þessa frábæru frammistöðu gegn Chelsea. Hlýtur að hafa verið ansi gott búst fyrir sjálfstraustið hjá þeim sem spiluðu þann leik. Plús það að þetta hefur aukið traustið milli stjóra og liðs, þeir sjá hvað gerist þegar þeir gera það sem hann segir þeim að gera og Móri sér betur hverjum hann getur treyst.
Algjörlega sammála því að þetta er mikilvægasti leikurinn á tímabilinu. Hingað til.
silli says
Æðislegur pistill. Takk fyrir!
Egill says
Takk fyrir þessa upphitun. Ég er sammála þessu byrjunarliði held ég, Rashford var gjörsamlega búinn á því í Chelsea leiknum og fullkomlega eðlilegt að hann fái smá pásu eftir frábæra frammistöðu þar. Helst myndi ég vilja fá Herrera eða Pogba á vinstri kanntinn og leyfa Lingard að djöflast frammi með Zlatan þegar við sækjum í 4-4-2, en skipta svo yfir í 5-4-1 þegar við verjumst. Annars hef ég fulla trú á að Móri sé búinn að kortleggja þetta lið, núna þarf sóknin bara að standa sig.