Slúðrið síðustu daga hefur verið rólegt í kringum United, aðallega að samningaviðræður séu í gangi vegna Perisic og Morata.
En á föstudagsmorgun kastaði A Bola í Portúgal fram sprengju
Já, Ronaldo er ekki ánægður með skattavandræðin sín og vill fara frá Spáni. Það kom fljótlega í ljós að þetta var ekki úr lausu lofti gripið hjá portúgalska blaðinu. Hvert blaðið af öðru greip þessar fréttir og virtist sem sum þeirra amk hefðu fengið staðfestingu hjá einhverjum tengdum Ronaldo. Þegar Lionel Messi var sakfelldur fyrir skattsvik lögðust blöð í Katalóníu á eitt með Barcelona í heljarmikilli herferð til varnar Messi, krossmerkið #WeAreAllLeoMessi var nýtt til að sýna að stuðningsmenn stæðu með honum sama hvað og allt var gert til að halda Messi góðum. Ætli Ronaldo sakni ekki einhvers svipaðs frá Real?
Cristiano Ronaldo kann að vera orðinn 32 ára en það þarf ekkert að hugsa lengi um hvaða lið gætu mögulega átt fyrir þeim gríðarháa verðmiða sem Real Madrid mun óhjákvæmilega setja á hann ef þetta fer lengra. Fréttir í gær nefndu upphæðina 130 milljónir punda en slúðrið nefnir allt að 180 milljónum. Þitt gisk er jafn gott mínu hvað það það varðar. PSG er alltaf fyrsta liðið sem nefnt er enda átti Ronaldo spjall við þá í fyrra. Portúgalir eru gríðarfjölmennir í París og þarf ekki að orðlengja spenninginn sem þau væru með fyrir að fá hetjuna þangað.
Og jú. Manchester United. Edward Woodward hefur dreymt um Ronaldo síðan hann tók við starfi forstjóra United. Ronaldo hætti við að koma 2013 en hefur daðrar smá við félagið af og til. Að lokum, til að reyna að nefna fleiri nöfn þá hefur verið bent á að nýir eigendur Inter hafi næg fjárráð en það er nú helst til langt seilst.
En er þetta að fara að gerast? Er Cristiano að koma heim.
Nei, er stutta svarið. Langlíklegast er auðvitað að hann verði áfram hjá Real. Frétt í Mirror í dag segir að hann bendi á að samið hafi verið um ímyndarrétt hans með Real Madrid og lögfræðingar Real beri þar ábyrgð og þar með á skattsvikunum sem eru einmitt í kringum þær greiðslur. Þannig að ef Real bjargar honum fyrir horn með að borga skattaskuldina þá verði nú allt í lagi. Ekki vera hissa þegar það gerist.
Aðeins ólíklegri frétt í sama blaði segir að Ronaldo hafi sagt Ferguson þetta fyrir sex vikum. Ef svo er hlýtur United að hafa vitað þetta jafn lengi. Er alvöru áhugi þar? Við vitum að Woddward blóðlangar í risastjörnu, en á endanum ræður Mourinho. Slúðrið undanfarna daga hefur þurft að benda á að þó að þeir Ronaldo hafi ekki alltaf verið sammála á meðan á tíma Mourinho í Madrid stóð hafi þeir samt skilið í góðu. Það er svo spurning hvort Mourinho vill Ronaldo í liðið sem hann er að byggja upp. Írska blaðið Sunday World heldur því fram að Mourinho muni ekki setja neina pressu á United að kaupa.
Niðurstaðan er því einföld. Ronaldo fer hvergi, ef hann fer þá er langlíkast að Paris Saint-Germain verði áfangastaðurinn. Við munum ekkert eyða of miklum krafti í að vona að hann komi til United, líkurnar á því voru núll fyrir viku, eru kannski núna eitt prósent, í besta falli. En þessi saga verður það sem selur blöðin, og smellina, í sumar. Dæmigert slúður um málið: samkvæmt frétt Tuttosport á Ítalíu ætlar United að bjóða 210 milljónir evra, 183,5 milljónir punda, AUK David de Gea fyrir Ronaldo OG Morata. Jahájá. Við kannske laumum einhverju í slúðrið eða á Twitter sem þið sjáið líka hér til hliðar, en látum annars staðar numið í þessum ólíklegu en vissulega smá spennandi vangaveltum.
Auðunn says
Þessi sirkus í kringum Ronaldo er farinn að líkjast verstu sápuóperu sem sögur fara af.
Ég veit ekki hvernig maður á að taka þessu rugli.
Það lítur þannig út frá mér að þarna sé á ferðinni lítill ofdekraður leikskóladrengur sem fær ekki það sem hann vill strax og neitar því að fara í leikskólann á meðan svo er.
Ronaldo er til rannsóknar vegna skattalagabrota og við það fer hann í þessa mikla fýlu að annað eins hefur varla sést. Þótt hann sé góður í fótbolta þá er hann ekki æðri en löggjafinn og ef menn hafa minnsta grun um að hann hafi brotið af sér þá er þetta eðlilegt ferli.
Hvort þetta er einhver lélegur leikur hjá honum eða ekki þá er þessi hegðun ekki til eftirbreytni og honum ekki til sóma.
Ef hann er saklaus þá þarf hann ekki að hafa neinar áhyggjur af neinu, ef hann er sekur þá skil ég kannski þessa hegðun þótt hún sé vægast sagt á mjög gráu svæði.
Væri ég til í að fá hann aftur til United? Já ef United myndi ekki borga krónu meira en 30 milj punda enda maðurinn orðin 32 ára gamall.
Karl Garðars says
Sammála.
Maður hefur samt einhvern veginn ekki alveg fyrirgefið honum hvernig hann lét gagnvart okkar mönnum eftir EM leikinn.
Rooney sagður mættur nú þegar á Carrington. Mikið væri nú gaman ef hann tæki sig til og smellti 25 mörkum í smettið á manni næstu leiktíð þó það sé aldrei að fara að gerast.
Björn Friðgeir says
Myndi taka Ronaldo til baka og á meira en Auðunn. 100m er alveg sanngjarnt. Hann á eftir að spila til fertugs.
einar_eee says
Sammála pistlahöfundi. Þetta er frekar þreytt og það hljóta allir að sjá að Ronaldo er ekki að fara neitt. Hann er fúll út í spænsk skattayfirvöld og hótar því að fara með peningana og tekjurnar sínar annað.
Hann er ekki að koma til Englands og hann er ekki að koma til United. Samskonar saga gerist um það bil einu sinni á ári með okkar ástsæla klúbb. Leikmenn fara í fýlu eða eru á leið á sinn síðasta mega-samning og nota markaðinn til að hámarka tekjurnar sínar. Hvað er langt síðan Dani Alves og svo síðar Ramos púllaði sama „trikk“, vildi fara í burtu, United líklegast og búmm, nýr samningu og eitt klassískt Hala Madrid tweet.
Same old shit. Ég skal éta hatt minn og fjóra sokka ef hann endar í rauðu treyjunni í lok sumars.
einar_eee says
Þetta summerar upp held ég tilfinningu flestra stuðningsmanna:
„First time Ronaldo led Utd on, they wasted months trying to get someone who would never move. Ended up paying more than Fellaini’s release.“
DMS says
Aldrei að fara að gerast. Voðalega rómantísk hugmynd að hann snúi aftur en þetta er bara sjónarspil og leikrit. Hann mun vera áfram í Madrid.
Hættum þessu draumarúnki og einbeitum okkur að target-um sem eru raunhæf.
Björn Friðgeir says
Nýjustu fréttir frá „blaðamanni AS sem er náinn Mendes“ er að Perez hafi talað nógu fallega og Ronaldo sé bara ánægður.
Ágætt að þetta klárast strax :D
Óli says
Ég held að þessi skattamál séu ekkert nema átylla þannig að hann geti farið frá Real og stuðningsmennirnir elski hann samt.
Ronaldo er einstakur leikmaður og hann hugsar um sjálfan sig og sitt brand á undan félaginu. Hann er búinn að gera allt sem hægt er að gera hjá Real og ég trúi því vel að hann vilji skrifa nýjan kafla – hámarka virði sitt. Væri fínt fyrir hann að fara til PSG í frábæra borg með endalausa peninga og í deild þar sem Barcelona og Atletico Madrid eru ekki að trufla (Monaco er söluklúbbur og ver ekki titilinn). Svo þegar hann er búinn í París væri lokakaflinn að fara til Bandaríkjanna sem er mikilvægt frá markaðslegu sjónarmiði.
Ég hlustaði á skemmtilega umræðu um daginn, reyndar varðandi körfuboltamenn, sem benti á það að eins liðs menn væru einfaldlega liðin tíð. Ekki vegna þess að menn væru eitthvað minna tryggir sínu félagi, heldur vegna þess að tímarnir væru einfaldlega breyttir: Fyrrum kynslóðir samanstóðu af fólki sem hélt sama starfi í áratugi, en hæfileikafólk nú til dags skiptir reglulega um starfsvettvang og heimurinn er orðinn miklu minni. Það sama gildir um framúrskarandi íþróttamenn. Mér finnst mjög ólíklegt og eiginlega útilokað að Ronaldo klári ferilinn með Real.
Björn Friðgeir says
Annars er grein í dag um að PSG ætli að gera allt til að halda Verratti og líti svo á að það sé mikilvægara að hann fari ekki en að Ronaldo komi.
Myndi setja pening á að Ronaldo verði áfram ef ég væri veðjari.