Eftir síðasta sumar bjóst maður við því að United yrði búið að kaupa alla þá leikmenn sem liðið þyrfti fyrir 1. júlí. Sérstaklega í ljósi þess að José Mourinho sagði að Ed Woodward hefði haft óskalistann sinn í um það bil tvo mánuði þegar tímabilinu lauk. Það virðist þó sem sumarið 2017 ætli að verða töluvert flóknara en sumarið 2016.
Ástæðurnar eru margar og eflaust er Ed Woodward búinn að vera í yfirvinnu við að reyna koma þeim leikmönnum sem Mourinho vill til félagsins. Samkvæmt ESPN þá virðist sem Mourinho og Woodward hafi verið undirbúnir undir erfitt sumar. Auknar tekjur enskra liða í gegnum nýjan sjónvarpssamning gerir það að verkum að verðbólgan á leikmönnum innan Englands er enn meiri en undanfarin ár og lið utan Englands selja ekki leikmenn þangað nema fyrir hæsta mögulega verð.
Eins og síðasta sumar er reiknað með því að Mourinho vilji fjóra lykilleikmenn í sumar. Hann minnkaði hópinn töluvert í vetur og því er ljóst að liðið þarf að kaupa leikmenn – sérstaklega miðjumenn. Sem stendur er aðeins varnarmaðurinn Victor Lindelöf kominn og því ljóst að Mourinho er langt frá því að vera sáttur með hópinn eins og hann er í dag.
Skattamál Cristiano Ronaldo
Til að byrja með þá breyttist allt varðandi Alvaro Morata þegar Cristiano Ronaldo ákvað að fara í fýlu af því hann skuldar skattayfirvöldum á Spáni um það bil einn og hálfan milljarð til eða frá. Svo virðist sem Real Madrid sé ekki tilbúið að leyfa Morata að fara á meðan framtíð Ronaldo er í óvissu.
Morata er sem stendur fyrsti kostur United í framlínuna sem stendur en framherjinn á að hafa farið úr brúðkaupsferð sinni til þess að reyna koma sölunni áleiðis. Morata virðist mjög spenntur fyrir því að koma til United og eflaust spilar spænski kjarni United liðsins þar inn í ásamt virðingunni sem Morata hefur fyrir Mourinho. Sá síðarnefndi gaf nefnilega Morata sénsinn með Real Madrid þegar hann var þjálfari liðsins árið 2010.
Slúðrið segir sömuleiðis að Real sé með leiðindi þar sem þeir eru að reyna þvinga United til að samþykkja tilboð í David De Gea en það virðist frekar vera slúður en eitthvað staðfest.
Þriðji valkostur United ku vera Ítalinn Andrea Belotti en það hefur lítið heyrst um möguleg kaup á honum. Ef líkurnar á því að Morata komi fara minnkandi má reikna með að áhugi United á Belotti muni aukast.
Nainggolan, Matuidi, Matic, Fabinho?
Samkvæmt einhverjum slúður miðlum á Eric Dier að hafa verið fyrsti kostur á miðjuna hjá United, svo kom Radja Nainggolan og að lokum Nemanja Matic. Ég persónulega leyfi mér að efast um að Mourinho hafi einhvern tímann viljað fá Dier en hann heillar mig lítið sem miðjumaður – ef Mourinho var spenntur þá hefur það horfið þegar Pogba lék sér að Dier í æfingaleik Englands og Frakklands á dögunum.
Nemanja Matic hefur eflaust verið fyrsti kostur hjá Mourinho enda þekkjast þeir ágætlega eftir að hafa unnið deildina árið 2015. Matic hefur neitað að skrifa undir nýjan samning við Chelsea en svo virðist sem Antonio Conte ætli sér að kaupa miðjumann Monaco, Tiemoue Bakayoko, og við það myndi tækifærum Matic hjá Chelsea fækka.
Það er vissulega undarlegt að Chelsea sé að selja leikmann til Manchester United en mögulega spila Financial Fairplay reglurnar hér inn í og Chelsea vita að United er eina liðið sem getur borgað uppsett verð fyrir Matic.
Fyrir þá sem efast um gæði Matic þá er vert að benda á að hann var lykilmaður þegar Chelsea vann deildina í vetur og þegar liðið vann deildina 2014-2015. Í tveimur mismunandi leikkerfum. Ofan á allt þá lagði hann upp sjö mörk í vetur. Hjá United yrði hann eflaust í aðeins varnarsinnaðra hlutverki en með komu Matic væri eflaust hægt að gefa Paul Pogba lausan tauminn. Það er allavega ljóst að Matic styrkir United liðið sama hvort liðið ætli sér að spila 4-3-3 eða 4-2-3-1 leikkerfi í vetur.
Hvort Nemanja Matic fái hið gífurlega fallega númer #21 hjá Manchester United er óvíst en framtíðar fyrirliði United er auðvitað sem stendur í treyju númer #21.
Blaise Matuidi, miðjumaður PSG, og Fabinho, miðjumaður Monaco, hafa sömuleiðis verið orðaðir við United enda kæmi það lítið á óvart ef Mourinho myndi vilja fá tvo miðjumenn til liðsins í sumar. Michael Carrick er árinu eldri og Mourinho losaði sig við bæði Bastian Schweinsteiger og Morgan Schneiderlin í vetur.
Matuidi er eflaust töluvert ódýrari en hann á aðeins ár eftir af samning að ég held. Þó Matuidi sé að detta í þrítugt þá myndi hann gefa United aukna breidd á miðsvæðinu en hann getur bæði leyst teig-í-teig stöðuna sem og djúpan varnarsinnaðan miðjumann. Hvað varðar Fabinho þá er hann töluvert yngri og töluvert dýrari. Það jákvæða við hann er að hann á að vera flinkur bakvörður þó hann spili aðallega á miðjunni. Þannig gæti Mourinho notað Fabinho bæði á miðsvæðinu eða í hægri bakverðinum þegar Antonio Valencia þarf á hvíld að halda.
Perisic?
Það virðist sömuleiðis sem Inter ætli að draga vistaskipti Ivan Perisic á langinn en United neitar að borga þær 50 milljónir sem Inter vill. Sagan segir að Inter þurfi 30 milljónir í kassann til að standast FFP reglur. Það er því einfaldlega spurning hvort félagið gefst upp á endanum en Mourinho vill helst vera kominn með alla sína leikmenn fyrir 9. júlí þegar liðið hittist. Hann vill forðast sama vesen og United lenti í þegar Pogba kom til liðsins rétt fyrir lokun gluggans á síðasta tímabili.
Björn Friðgeir says
Stuðull á að Morata, Perisic og Matic kæmu allir var fyrir 1-2 vikum síðan 5/1 (leggja 1 undir, fá 6 tilbaka, þe. græða 5) en er núna 1,42/1. Ein helsta ástæðan er að Matic er kominn í 1/12, þú þarft að leggja 12 undir til að græða 1.
Þetta segir auðvitað bara til um hvað viðskiptavinir Sk* B*t halda um málið, en ég held að þetta sé nokkuð ljóst. Hugsa að Inter beygi sig fyrir mánaðarmótin, svo kemur hitt í ljós.
Þau sem ekki eru spennt fyrir Perisic geta því fagnað á laugardaginn, ef hann er ekki kominn þá tel ég líklegt að farið verði í aðra valkosti.
SHS says
Getur einhver sagt mér afhverju við erum ekkert að eltast við Aubemanyang?
Það er enginn að segja mér að við getum ekki borgað manninum ásættanleg laun. Kannski ekki alveg Kínarugllaun en samt.
Annars líst mér vel á þá sem eru orðaðir við okkur, hópurinn myndi allavega styrkjast mikið við Perisic, Matic, Morata og jafnvel Fabinho.
Björn Friðgeir says
Auba vill greinilega Kínarugllaun. Sýnist að öllum öðrum liðum sé líka sama um hann. Kannske finnst fæstum hann ekki þess virði. 28 ára með 3 sterk ár að baki. Veit ekki hvað mér finnst.
Arnar Kjartansson says
Nei Aub er að vonast til að fara til Real ef ég man rétt, sá ehv um það á Sky fyrr í sumar.
Þótt að l’pool séu að eltast við hann þá er hann aldreiii að fara þangað.
Björn Friðgeir says
Já OK.
Hann á ekki séns í Real. Þeir taka Mbappé.
Auðunn says
Já það er hægt að taka undir það að leikmannakaup sumarsins eru amk enn sem komið er undir væntingum.
Því miður er staða United í leikmannamálum heimatilbúið vandamál sem rekja má til nokkra þátta eins og of tíðum stjóraskiptum síðan Sir Alex hætti sem og hefur komið til vegna slakrar ákvörðunartökum stjórnar þegar kemur að ráðningu eftirmanna hans.
Undafarnir stjórar hafa svo í kjölfarið tekið of margar vondar ákvarðanir í leikmanna kaupum sem og sölum.
Allt þetta og meira til hefur búið til þá stöðu sem uppi er í dag sem er sú að liðið þarf nauðsinlega að fjárfesta í of mörgum hágæða leikmönnum til að vera samkeppnishæfir meðal bestu liða í Evrópu.
Ekki bara að það kosti liðið stjarnfræðilegar upphæðir að versla gæða leikmenn heldur er orðið miklu erfiðara að fá þá til liðsins í dag en fyrir nokkrum árum.
Ef það væri árið 2005 þá væri liðið m.a búið að versla bæði Kane og Dele Ali svo einhverjir séu nefndir .
Í dag á United nánast engan séns á að fá svoleiðis menn, þannig að staða liðsins er ekki eins góð og áður.
Þetta ásamt fleiri atriðum sem talað er um í þessum pistli hjálpast að við þá stöðu sem við erum að horfa á þessa dagana.
Ég vill samt taka það fram að ég er ekki ennþá orðinn svartsýnn á að sumarið verði ekki þolanlega gott fyrir klúbbinn, held að United nái að landa einhverjum af þeim leikmönnum sem hafa verið orðaðir við klúbbinn síðan í Maí.
Hinsvegar fá þau nöfn mig ekkert til að missa mig úr gleði, ég missi ekki svefn úr spenningi yfir þessum nöfnum þótt ég efist í sjálfu sér ekkert um að þeir leikmenn eigi eftir að styrkja liðið töluvert. Spurning er hvort sú styrking nægi til að liðið komist aftur í hóp þeirra bestu, það verður bara að koma í ljós.
Auðunn says
Að því sögðu þá væri ágætt ef einhver nennti að hafa samband við Mourinho og segja honum að versla Goretzka.
Hann lúkkar ansi vel.
Minnir mig svolítið á Carrick.
Halldór Marteins says
Goretzka er góð pæling. Hann virðist hins vegar vera á leið til Bayern í sumar eða næsta sumar. Vissulega væri skemmtilegt að takast á við Bayern í góðu samningastríði en það er yfirleitt þannig að þegar þýskir leikmenn heyra að Bayern hafi áhuga þá kemst fátt annað að hjá þeim.
Auðunn says
Já það er rétt hjá þér Halldór og því er Bayern liðið þar sem þeir eru og hafa verið mjög lengi meðal bestu félagsliða í heimi.
United ætti að mér finnst að vera í nákvæmlega sömu stöðu á Englandi.
Halldór Marteins says
Já, ég er alveg sammála því. Vonandi er ekki langt í það að Manchester United verði aftur með yfirburðar aðdráttarafl enskra liða fyrir leikmenn með metnað.
Samt er reyndar eitthvað við þessa samkeppni stærstu félaganna á Englandi sem mér finnst spennandi. Það að United (eða Chelsea eða Man City) geti ekkert endilega gengið að því vísu að kaupa leikmenn í liði eins og Tottenham. Enska deildin verður áhugaverðari fyrir vikið. Kannski verða ensku liðin samkeppnishæfari í Evrópukeppnum eftir því sem líður á, kannski gengur það einfaldlega ekki upp að hafa svona mikla innanlandssamkeppni til að geta orðið besta liðið í Evrópu líka.
United virðist þó ekki ætla að setja öll eggin í sömu körfu. Það er verið að byggja upp geggjaðslega spennandi unglingalið og svo var ráðningin á yfirskátanum frá Juventus afar áhugavert og metnaðarfullt skref.
DMS says
Hvernig er með skuldirnar hjá United – ættu þær ekki að lækka við þetta?
http://www.vb.is/frettir/breska-pundid-styrkist-enn/139263/
Voru ekki skuldirnar alltaf í dollurum?
Björn Friðgeir says
Jú eitthvað lagast skuldirnar. Nema auðvitað þau hafi ákveðið að byrja að verja þær :)