Næst á dagskrá er fyrsti leikur United í deildarbikarnum og mótherjarnir að þessu sinni Burton Albion F. C. Eftir frábæra byrjun í Úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni vonumst við að sjálfsögðu til að United geti haldið uppteknum hætti og byrjað af sama krafti í deildarbikarnum.
Bikarinn, sem núna ber nafnið Carabao Cup eftir orkudrykkjaframleiðandanum, hefur ekki alltaf verið í miklum metum hjá stóru liðunum og því hefur þessi keppni oft verið vettvangur fyrir stjóra þessara liða til að leyfa yngri og sprækari leikmönnum að spreyta sig. United vann einmitt þennan bikar í fyrra við mikinn fögnuð höfundar og næsta víst að Mourinho vilji gera allt í sínu valdi til að halda honum. Það verður því fróðlegt að sjá hversu mikið Móri er tilbúinn að gefa ungu strákunum færi á að sanna sig á stóra sviðinu í þessum leikjum og það kæmi lítið á óvart að sjá minni spámenn í hópnum. Þessi leikur væri tilvalinn til þess þar sem líklega pakka Burton Albion í vörn og vona að endurtaka þurfi leikinn á heimavelli þeirra. Að auki er ekki ólíklegt að nú þegar leikjadagskráin er orðin ansi þétt að Mourinho þurfi að hvíla lykilleikmenn fyrir stærri leiki. Þar fyrir utan er meiðslalistinn búinn að lengjast við lítinn fögnuð höfundar. Nýjasta nafnið á listanum er Paul Pogba sem gæti verið út í allt að 12 vikur en aðrir á listanum eru Zlatan Ibrahimovich og Marcos Rojo en Luke Shaw, sem hefur verið á listanum, er spurningarmerki og fróðlegt að sjá hvort hann sé tilbúinn.
Það er því erfitt að segja til um hugsanlega uppstillingu Mourinho í þessum leik en líklegt er að Lindelöf, Smalling, Herrera og Fellaini fái allir byrjunarliðssæti en Bailly, Jones, Lukaku og Matic verði hvíldir í þessum leik. Að auki verður að teljast líklegt að Sergio Romero loki búrinu þar sem mikilvægt er að halda honum í leikformi á þessari leiktíð þar sem De Gea spilar bæði í deildinni og í Evrópuleikjum. Það kæmi heldur ekki á óvart ef Carrick eða Valencia myndu byrja inná enda reynsluboltar sem geta komið með ró og yfirvegun inn í liðið sem verður líklega í yngri kantinum. Þar sem þeir Luke Shaw, Alex Tuanzebe og Scott McTominay voru ekki í varaliðinu sem mætti varaliði Chelsea á mánudaginn þá má fastlega gera ráð fyrir því að þessir verði í það minnsta í hópnum fyrir Burton leikinn. Annars spái ég því að Móri stilli upp eitthvað á þennan veg en þó gætu einhverjir af táningunum okkar fengið tækifæri.
Mótherjinn
Burton Albion F. C. var stofnað árið 1950 sem utandeildarlið og var það allt til ársins 2009. Heimavöllur félagsins er Pirelli leikvangurinn sem tekur tæplega 7 þúsund manns í sæti en þangað þarf United að fara ef ekki fæst niðurstaða á Old Trafford. Bruggararnir, eins og liðið er gjarnan kallað, mættu okkur einmitt í bikarnum 2006 á sínum heimavelli þar sem leikurinn endaði með markalausu jafntefli. Það má segja að United hafi haft heppnina með sér að tapa ekki þeim leik þar sem Burton Albion reyndist sterkari aðilinn og Phil Bardsley bjargaði til að mynda á línu fyrir djöflana. Þegar síðari leikurinn fór fram virtust leikmenn United hrista sig í gang og liðið vann sannfærandi 5-0 sigur. Þó yngstu áhangendum gæti fundist ár og öld síðan og liðin búin að breytast ansi mikið síðan þá, þá er engin ástæða til að vanmeta bruggarana. Því til að komast á þann stað sem þeir eru núna í bikarnum unnu þeir góðan 2-3 útisigur á Oldham Athletic í fyrstu umferð bikarsins og síðan annan sterkan 1-2 útisigur á Cardiff City, sem þá höfðu ekki tapað leik á tímabilinu, en til gamans má geta að Aron Einar spilaði ekki þann leik.
Burton hefur verið á miklu flugi undanfarin ár en þeir unnu t.a.m. Blue Square Premier utandeildina árið 2009 og urðu um leið atvinnumannalið. Tímabilið 14/15 stýrði Jimmy Floyd Hasselbaink þeim til sigur í d-deildinni og ári seinna urðu þeir í öðru sæti í c-deildinni. Þeim tókst semsagt að fara upp um deild tvö ár í röð en á þeirra fyrsta ári í Championship deildinni landaði liðið 20. sæti og hélt því sæti sínu í deildinni en hafa ekki farið mjög vel af stað á nýju tímabili og eru í 19. sæti með 8 stig eftir 8 leiki.
Ef við lítum á leikmannahóp Burton fyrir leikinn þá er John Brayford, sterkur varnarmaður hjá Burton, ekki með leikheimild þar sem hann spilaði með Sheffield United fyrr í keppninni og Will Miller er eini leikmaðurinn hjá þeim sem er á meiðslalistanum. Nigel Clough, sem stýrir Burton Albion, er vanur að gera talsverðar breytingar á liði sínu milli deildar- og bikarleikja en ég ætla að gerast svo djarfur að spá óbreyttu liði frá þeirra sigurleik þeirra gegn Cardiff. Þess má til gamans geta að Nigel Clough stýrði þeim einmitt í báðum leikjunum 2006 en þetta verður einmitt þriðja sinn sem þessi lið mætast.
Það er því deginum ljósara að þessi leikur verður að teljast skyldusigur fyrir okkar menn en það sem er kannski skemmtilegast núna við United liðið er að ólíkt Moyes-tímabilinu, þar sem leikir United enduðu ýmist 0-0 eða 1-1 þó „liðið hafi spilað vel“, þá enda leikir 3-0 eða 4-0 núna þó að liðið sé ekki að spila sinn besta bolta. Það er því ekki nema von að stuðningsmenn liðsins finnist eins og þeir hafi fengið byr undir báða vængi með slíkri afbragðsbyrjun og séu bjartsýnir úr hófi enda langt síðan að liðið var eins sterkt og það er í dag. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig bikartitilvörnin gengur á þessari leiktíð.
Glory glory!
Halldór Marteins says
Vona innilega að Shaw byrji þennan leik og komi sterkur inn.
Svo væri ég alveg til í að sjá Carrick byrja leikinn og ef ég mætti vera með algjöra heimtufrekju þá væri Tuanzebe þriðja nafnið á listanum mínum yfir leikmenn sem dyttu inn í byrjunarliðið.
Annars er þetta klassískur fyrsti leikur í deildarbikar. Skemmtilegt að sjá svona minni lið sem maður sér annars ekki oft og vonandi að leikurinn verði ekki of dýr hvað orkunotkun og sér í lagi meiðsli snertir.
Kjartan says
Prófa tigul miðju:
——-martial-fellaini
————–lindg
———blind—herrera
————-carrick
Shaw-linde-small-darm
Romero
Væri gaman að sjá Gomes fá að koma inn á snemma í seinni
Rauðhaus says
Held að Axel Tuanzebe sé meiddur og komi þar af leiðandi ekki til greina í þennan leik, því miður. Ég væri hins vegar til í að sjá McTominay fá amk einhverjar mínútur í þessum leik, það er mjög spennandi strákur.
Mest af öllu óska ég þess þó að þessi leikur marki endurkomu Luke Shaw, eins efnilegasta leikmanns liðsins.
Halldór Marteins says
Já, fréttirnar af Tuanzebe komu einmitt inn eftir að ég kommentaði. Mikil vonbrigði, held hann hefði annars líklega tekið einhvern þátt í leiknum. Vonandi að þessi bakmeiðsli verði ekki erfið. Bara koma liðinu áfram í þessari keppni svo Tuanzebe geti tekið næsta leik!