Góðu fréttirnar eru þær að Manchester United hefur ekki tapað gegn Huddersfield Town síðan í mars árið 1952. Manchester United hefur haft töluverða yfirburði í síðustu viðureignum félaganna. En það er líklega ágætt að hafa það í huga að síðast þegar liðin mættust þá skoraði George Best fyrir Manchester United. Það er, með öðrum orðum, kominn töluverður tími frá því þessi lið mættust síðast á fótboltavellinum.
En úr því verður bætt á þessum klassískasta af leiktíma í enska boltanum þennan laugardaginn þegar Manchester United mætir Huddersfield á heimavelli þeirra síðarnefndu, Kirklees Stadium. Manchester United hefur aldrei áður mætt Huddersfield á þessum velli, hann var tekinn í notkun árið 1994 þegar Huddersfield Town var í þriðju efstu deild.
Síðast þegar liðin mættust þá spiluðu þau á Old Trafford. En síðast þegar liðin mættust á heimavelli Huddersfield Town þá spilaði Huddersfield á velli sem kallaðist Leeds Road. Sá völlur var heimavöllur Huddersfield frá stofnun félagsins árið 1908 til 1994. Í þessum síðasta heimaleik Huddersfield Town gegn Manchester United urðu heimamenn þess heiðurs aðnjótandi að fá að sjá mörk frá hinni heilögu knattspyrnuþrenningu; Charlton, Law og Best. Huddersfield gat engu svarað þann daginn.
En það eru rétt rúm 46 ár frá þeim leik (9. okt. 1971) og þrátt fyrir skemmtilega söguupprifjun þá hafa þessir fyrri leikir nákvæmlega ekkert að segja með stöðu liðanna núna. Liðin hafa spilað 45 leiki þar sem Manchester United vann 20, gerði 15 jafntefli og tapaði 10 leikjum, með markatölu 86-64, en það voru leikir sem fóru fram á tímabilinu 1912-1972.
Í dag er það einfaldlega þessi leikur sem skiptir máli, hann verður spilaður á Kirklees Stadium í Huddersfield, laugardaginn 21. október 2017 klukkan 14:00 að íslenskum tíma en 15:00 að staðartíma.
Heimamenn
Til að halda aðeins áfram með söguupprifjunina þá ber Huddersfield Town ákveðna ábyrgð á einum af þessum leikmönnum í heilögu þrenningunni. Það var njósnari frá Huddersfield sem uppgötvaði hinn 14 ára gamla Denis Law og kom með hann frá Skotlandi til Englands árið 1954. Seinna bauð Sir Matt Busby Huddersfield 10.000 pund fyrir Law en því tilboði var hafnað. Á þeim tíma var Bill Shankly knattspyrnustjóri Huddersfield. Þegar hann hætti hjá þeim til að taka við 2. deildarliði Liverpool vildi hann fá Law með sér en Liverpool hafði sem betur fer ekki efni á honum. Denis Law fór því til Manchester City og Torino áður en hann endaði hjá Manchester United og átti hinn prýðilegasta feril þar.
Huddesfield endaði í 5. sæti í Championshipdeildinni í fyrra, eftir að hafa endað í 16.-19. sæti tímabilin fjögur þar á undan. Fyrir þann tíma hafði liðið eytt rúmum áratug í þriðju efstu deild, með tímabilsstoppi í fjórðu efstu deild þar inní. Það var ekki mikið sem benti til þess að Huddersfield myndi gera tilkall til þess að spila í deild þeirra bestu en í nóvember 2015 réð félagið þýska knattspyrnustjórann David Wagner og það átti aldeilis eftir að skila sér.
Sumarið 2016 var mikið byltingarsumar fyrir Huddersfield. Þá fékk Wagner inn 13 nýja leikmenn sem komu víðsvegar að úr Evrópu. Hann fór líka með leikmannahópinn í hópeflisferð til Svíþjóðar þar sem hópurinn lifði í nokkra daga úti í náttúrunni og þurfti að bjarga sér saman án mikils búnaðar. Andinn í hópnum var líka frábær þegar tímabilið byrjaði og var liðið í efsta sæti deildarinnar þegar októbermánuður byrjaði. Október og nóvember voru hins vegar erfiðir þar sem Huddersfield datt alla leið niður í 8. sætið í byrjun desember.
Eftir það var liðið nokkuð stöðugt í 3.-5. sæti út tímabilið. Í umspilinu gerði Huddersfield jafntefli í öllum þremur leikjum sínum en vann bæði Sheffield Wednesday og Reading í vítaspyrnukeppni til að tryggja sætið í úrvalsdeildinni. Það er óhætt að segja að það sé karakter í þessu liði.
Það var aftur mikið að gera hjá félaginu í sumarglugganum. 12 leikmenn hurfu á braut, 10 leikmenn voru keyptir eða komu frítt til liðsins auk þess sem þrír leikmenn til viðbótar komu á láni.
Huddersfield byrjaði frábærlega og náði í sigra í fyrstu tveimur leikjunum, fyrst 3-0 á útivelli gegn Crystal Palace og síðan 1-0 heimasigur á öðrum nýliðum, Newcastle United. En Huddersfield hefur aðeins náð að skora í einum leik síðan þá og gert 3 jafntefli en tapað 3. Liðið er fyrir þessa umferð í 12. sæti deildarinnar með 9 stig og markatöluna 5-9.
Það er eitthvað um meiðsli hjá Huddersfield. Mest hefur munað um þá Aaron Mooy á miðjunni og Steve Mounie í framlínunni. Þeir hafa báðir verið að glíma við meiðsli. Mooy byrjaði síðasta leik á bekknum en það er búist við að hann komi inn í byrjunarliðið í þessum leik. Mounie er markahæstur í liðinu, hefur skorað 2 mörk. Hann er tæpur fyrir þennan leik en það myndi muna ansi miklu fyrir Huddersfield að fá hann inn aftur. Stór og sterkur, mikill skallamaður og bæði hættulegur frammi en einnig þessi klassíska, enska týpa af framherja (þótt hann sé frá Benín) sem hægt er að dúndra boltanum fram á því hann getur unnið skallabolta og haldið boltum þar til hann fær aðstoð.
Byrjunarliðið verður líklega einhvern veginn svona:
Ef Mounie nær leiknum ekki þá verður Belginn Laurent Depoitre í framlínunni. Hann hefur spilað í síðustu leikjum Huddersfield og skoraði m.a. gegn Leicester City í 1-1 jafntefli. Það er nettur Jón Daði Böðvarsson í Depoitre að því leyti að hann skorar ekki endilega mikið af mörkum en leggur mikið á sig, vinnur fyrir liðið og er duglegur í varnarvinnu gagnvart öftustu mönnum andstæðingsins.
Okkar menn
Manchester United gekk vel á útivelli gegn nýliðum síðasta tímabils. United vann Middlesbrough 3-1, Burnley 2-0 og Hull City 1-0. Reyndar kom sigurmarkið gegn Hull City í uppbótartíma en 9 stig af 9 mögulegum á útivelli var niðurstaðan. Það gekk hins vegar verra á heimavelli, þar sem bæði Burnley og Hull City náðu að hanga á markalausum jafnteflum á Old Trafford.
Varnarleikur Manchester United hefur verið til fyrirmyndar á tímabilinu. David de Gea er besti markvörður í heiminum. Þetta hefur skilað sér í því að 7 sinnum hefur liðið haldið hreinu í fyrstu 8 deildarleikjunum. Ekkert lið hefur náð að halda 8 sinnum hreinu í fyrstu 9 leikjunum í efstu deild karla á Englandi í sögunni. Engin pressa.
Sóknarleikurinn hefur þó dalað frá því sem var í frábærri byrjun liðsins. Munar auðvitað gríðarlega miklu um að Paul Pogba og Marouane Fellaini vantar inn á miðjuna. En einnig hefur Henrikh Mkhitaryan ekki alveg náð að finna sig og munar ansi mikið um það. Fréttirnar um yfirvofandi komu Mesut Özil til liðsins munu vonandi virka sem hvatning á Mkhitaryan að sanna það að hann eigi að vera aðalmaðurinn í þessari stöðu hjá Manchester United. Tilvalið að byrja bara núna.
Miðjan er enn léttmönnuð þar sem Pogba, Fellaini og Carrick eru frá vegna meiðsla. Zlatan og Rojo nálgast en hvorugur nær líklega þessum leik. Eric Bailly meiddist í landsleikjahlé, ekki gaman. Svo eru Phil Jones og Marcus Rashford tæpir eftir síðustu leiki. Þessi meiðslavandræði eru alveg hætt að vera fyndin. En við tökum meistara Mourinho okkur til fyrirmyndar og förum hreint ekki að væla yfir einhverjum meiðslum. Það er varla að við minnumst á það hvað það vantar marga út af meiðslum hjá okkar mönnum. Aðrir stjórar og stuðningsmenn mega tuða yfir meiðslum, við ætlum ekkert að gera það þótt það vanti liggur við hálfan hópinn út af meiðslum. Sumir myndu mögulega tala um meiðslakrísu en ekki við, það er alveg á hreinu. Við höldum bara áfram og gleymum öllum þessum meiðslum, einbeitum okkur bara að þeim leikmönnum sem eru ekki meiddir, það eru alveg nokkrir eftir ómeiddir ennþá. Þeir eru flottir, eiga eftir að standa sig. Áfram gakk!
Spái því að byrjunarlið Manchester United verði ca. svona:
Gætum þó fengið að sjá Blind í miðverði ef Jones nær leiknum ekki. Það mætti reyndar alveg rótera meira og spila jafnvel Jesse Lingard og/eða Luke Shaw. En finnst það misólíklegt.
Er bjartsýnn á þetta, held að Manchester United muni vinna þennan leik. Og mögulega jafnvel halda hreinu líka.
Bjarni says
Góður pistill eins og alltaf. Nú þarf að skipta um gír frá síðustu leikjum og vinna fyrir þremur stigum og sannfæra okkur um ágæti liðsins. Við getum gert ótrúlegustu hluti og þurfum slíkt í dag. Hef fulla trú á okkur en segi enn og aftur, mætum til leiks og spilum af krafti fram á við þá koma mörkin.
Georg says
Þú getur uppfært 1952 í 2017.