Þá er komið að næsta leik okkar í deildarbikarnum en að þessu sinni liggur leið United á Liberty Stadium í Wales þar sem Swansea tekur á móti okkur. Síðast þegar við mættum í heimsókn sóttum við þrjú stig og tókst að skora fjögur mörk eins og reyndar oft áður á þessu tímabili. Eftir frábæra byrjun í öllum keppnum hefur hins vegar hraðlestin hans Jose Mourinho hikstað að undanförnu.
Það var nánast skrifað í skýin að í kjölfar síðasta landsleikjahlés myndi United ekki bjóða upp á neina flugeldaveislu gegn erkifjendunum í Liverpool og sigurinn gegn Benfica í Meistaradeildinni var sömuleiðis engin stórskemmtun heldur. Fyrsta tap tímabilsins leit síðan ljós á laugardaginn síðasta en þessi leikur gegn Swansea er því tilvalinn til að rífa upp liðsandann í klefanum á ný.
Heimaliðið
Swansea hefur ekki verið að heilla marga að undanförnu en þeir hafa einungis unnið einn leik á heimavelli í vetur en það var einmitt gegn Huddersfield. United hefur engu að síður átt í erfiðleikum með Swansea upp á síðkastið, einungis fimm sigrar í síðustu tíu leikjum.
Margir tengja þetta slæma gengi United gegn Swansea við Gylfa Þór Sigurðsson enda virtist auðveldara fyrir hann að skora á Old Trafford en nokkrum öðrum velli. En nú hefur hann verið seldur og síðasti leikur fór 0-4 fyrir okkur svo er því einhver ástæða til að hræðast?
Knattspyrnustjóri Swansea, Paul Clement, hefur verið að byggja upp liðið eftir söluna á Gylfa en blóðtaka liðsins einskorðast ekki bara við hann því ásamt honum misstu þeir Fernando Llorente, Jack Cork og Bafetimbi Gomes. Í þeirra stað fékk hann Wilfried Bony, Roque Mesa, Sam Clucas, Renato Sanchez og Tammy Abrahams (þá síðastnefndu báða á láni). Af þessum fimm voru einungis Abraham og Mesa mættir til Wales síðast þegar liðin mættust.
Líklegt verður að teljast að Paul Clement stilli upp svipað og hann hefur gert undanfarið en þó gæti hann reynt að koma á óvart eins og þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Tottenham með 5-3-2 uppstillingunni en hvort sem það verður eða ekki verða einhverjar mannabreytingar frá síðasta leik.
Hugsanlega fær Mesa loksins annað tækifæri í byrjunarliðinu og þá hefur líka verið sá orðrómur í gangi að Oli McBurnie fái tækifæri en það verður fróðlegt að sjá hvort hann eða Tammy Abraham byrji fremst hjá Swansea á morgun. Einnig er líklegt að menn eins og Kristoffer Nordfeldt, Angel Rangel, Mike van der Hoorn, Sam Clucas, Ki Sung-Yueng, and Nathan Dyer verði í hópnum á morgun en Clement hefur gefið það út að hann muni gera einhverjar breytingar frá tapleiknum við Leicester City um helgina.
Við
Af hópnum hjá United er það að frétta að Phil Jones hefur bæst í hópinn á meiðslalistanum eftir að hann meiddist í upphafi leiksins gegn Huddersfield. Þá sem horfðu á þann leik hryllir eflaust við tilhugsunina að sjá Lindelöf í miðverðinum en ýmsir sparkspekingar telja svíann unga einfaldlega ekki nógu góðan fyrir ensku úrvalsdeildina.
Það skildi þó ekki afskrifa leikmanninn strax því eins og eldri stuðningsmenn United muna þá virtust leikmenn á borð við Nemanja Vidic, Patrice Evra og David de Gea á sínum tíma ekki vera góð kaup. Þeir fengu gríðarlega mikla gagnrýni en tókst að yfirstíga hana og urðu með tímanum frábærir leikmenn sem fæstir myndu telja annað en góð kaup. Ég leyfi mér því að vera passlega bjartsýnn og læt leikmanninn njóta vafans.
Lindelöf og Smalling áttu ekki góðan leik í miðju varnarinnar um helgina en þar sem við erum orðnir ansi fáliðaðir í öftustu línu er ekki ólíklegt að þeir byrji leikinn á morgun. Svipaða sögu er að segja um miðjuna en Carrick, Pogba og Fellaini eru allir fjarri góðu gamni. Herrera og Matic skipa því að öllum líkindum miðjuna og Lindgard fái tækifærið á morgun.
Hvað þarf að gera?
Til að byrja með þarf liðið að mæta með rétta hugarfarið í leikinn, nokkuð sem hefur verið ábótavant í síðustu leikjum. Í stöðunni 2-0 í leiknum gegn Huddersfield var ekkert drápseðli í okkar mönnum. Til að mynda var Rashford eini United leikmaðurinn sem var mættur í vítateiginn þegar okkur tókst loksins að skora undir loks leiks. Það sama var upp á teningnum helgina áður, þegar Mourinho sótti reyndar þokkalega gott stig á erfiðan útivöll. Lítil pressa, fátt um færi og engin sköpunargáfa að ráði.
Þessu þarf stjórinn að breyta og ef United ætlar sér langt í öllum keppnum þá verða þeir að snúa við blaðinu frá síðustu viku. við þurfum að mæta dýrvitlausir til Wales og vera grimmir frá fyrstu mínútu og sýna stuðningsmönnum, sparkspekingum og öðrum liðum að United sé tilbúið að leggja allt í sölurnar í hverjum einasta leik.
Næsti leikur í deildinni er gegn Tottenham og því er þessi bikarleikur tilvalinn til að minna fólk á hvernig United hefur verið að spila svo að lærisveinar Pochettino mæti ekki fullir sjálfstrausts á Old Trafford næstkomandi laugardag. En við skulum ekki fara fram úr okkur, en sigur í kvöld færir okkur einu skrefi nær því að verja bikarinn og það er það eina sem skiptir máli í augnablikinu.
Býst við erfiðum leik en tel okkur hafa hæfileikana og breiddina til að klára leikinn seint í síðari hálfleik eftir hetjulega baráttu Svananna.
Sverrir Fjord says
Trúi ekki að þetta verði liðið í þessum leik, hljótum að sjá menn eins og Darmian, Romero, Scott McTominay, Tuanzebe (ef hann er ekki í láni einhversstaðar) , Shaw og jafnvel einhverja fl. Mourinho verður að hvíla menn eins og t.d Matic, Valencia og Lukaku fyrir Spurs leikinn.
Þótt það séu einhverjir meiddir þá verður að nýta restina á hópnum, það er ekki hægt að keyra á sama mannskap í öllum keppnum.
Friðrik Már Ævarsson says
Ágætur punktur. Mjög líklegt að Darmian fái tækifærið í stað Young og svo gæti alveg verið að Lingard byrji líka.
Runólfur Trausti says
Ef Mourinho gerir ekki 8-9 breytingar þá er hann endanlega að skjóta sig í fótinn þar sem Matic, Lukaku og nokkrir aðrir þurfa nauðsynlega á hvíldinni að halda.
Maður ætlast bara til að Romero, Shaw, Blind, Tuanzebe, Darmian, McTominay og Lingard byrji á morgun. Vill ekki sjá Matic og Lukaku í hóp.
Með þá ferska þá vinnur liðið Tottenham. Með þá þreytta þá verða örlögin þau sömu og hjá Liverpool.
Brynjólfur Rósti says
Dreymdi ad Fellaini hefdi stigid óvænt upp úr meidslum (med tvöfalt afró á vid thad thegar vid sáum hann sídast) og leitt okkar menn til sigurs med mögnudu skallamarki frá jadri vítateigsins. Hef góda tilfinningu fyrir leiknum í kvöld.
Heiðar says
Ég neita að trúa að þetta verði liðið í kvöld. Satt best að segja tel ég að Mourinho muni heilt yfir ekki leggja áherslu á að verja þennan titil. Tek undir með Sverri.
Halldór Marteins says
Algjörlega á því að Mourinho byrji með Lukaku inná í þessum leik. Held að Lukaku muni líka græða meira á því að fara með mark/mörk á bakinu úr þessum leik inn í Tottenham leikinn frekar en að fá smávegis aukafrí.
Hvað hitt varðar þá er ég nokkuð sammála um að ég væri til í að fá að sjá fleiri leikmenn, jafnvel einhverja kjúklinga eins og McTominay og Tuanzebe. Býst samt ekki við þeim í byrjunarliðinu, frekar að þeir kæmu inn á sem varamenn.
Bjarni says
Get ekki beðið eftir leiknum, spennan alveg að fara með mig. Sé fyrir mér liðið ganga sperrta og ákveðna inná völlinn tilbúna til að hrekja af sér slyðruorðið. Þeir sem fá kallið hafa 30 mín til að sannfæra mig um hvort ég klára að horfa á leikinn. Það þýðir a.m.k 5 skot á rammann og skemmtanagildið yfir meðallagi. Ekki verra að lauma inn einu. Bjartsýnn á að vinur minn einfætti flækjufóturinn Smalling setji hann úr föstu leikatriði. Síðan verður þetta barátta út leikinn, rautt spjald og vafasöm vítaspyrna sem fer forgörðum, ekki ljóst á hvort liðið. Sem sagt drama, dauði og djöfull allan leikinn og við förum áfram. Ekta enskur bikarleikur af gamla skólanum. GGMUFEMF