Manchester United átti leik á þriðjudegi á meðan flest hin liðin í efstu sætunum spiluðu daginn eftir. Liðið nýtti það tækifæri vel til að næla í mjög góð 3 stig á erfiðum útivelli. Frammistaðan var heilt yfir góð og að flestu leyti það sem þurfti á þessum tímapunkti.
Fyrir leikinn kom í ljós að Fellaini hafði endað síðasta leik haltrandi af ástæðu, hann missti af þessum leik vegna meiðsla. Mkhitaryan var heldur ekki í hópnum en fyrir því lá hins vegar ekki eins góð ástæða og fyrir fjarveru Fellaini. Byrjunarlið Manchester United í þessum leik var hins vegar svona:
Varamenn: Romero, Darmian, Herrera, McTominay, Mata, Rashford, Ibrahimovic.
Byrjunarlið Watford var á þessa leið:
Varamenn: Karnezis, Janmaat, Wagué, Capoue, Carillo, Pereyra, Deeney
Leikurinn sjálfur
Í þessum leik mættust tveir portúgalskir knattspyrnustjórar sem eru þekktir fyrir að leggja mikið upp úr undirbúningsvinnu og taktískum pælingum. Það var líka ljóst frá byrjun að bæði lið lögðu upp með taktík og höfðu undirbúið leikinn vel.
Bæði lið hófu leik með þrjá miðverði, vængbakverði og þéttar miðjur. Hvorugt liðið vildi tapa miðjuspilinu, það var alveg ljóst. Bæði lið lögðu líka meiri áherslu á sókn en vörn á vængnum. Manchester United setti upp þriggja miðvarða línu með Rojo, Smalling og Lindelöf og það var ljóst að Mourinho ætlaði að treysta á þá línu, frekar en vængbakverðina, til að eiga við mögulegar afleiðingar af vængspili Watford.
Enda gafst það líka vel. Heilt yfir átti varnarlína Manchester United frábæran leik að mínu mati. Hún náði vel saman, virkaði vel samæfð og það hefði verið auðvelt að leiða að því líkum að þessir þrír miðverðir væru alvanir því að spila saman í ensku úrvalsdeildinni.
Fyrstu tæpu 20 mínúturnar af leiknum fékk Watford aðeins að leika sér með boltann, ekkert sem þurfti samt að hafa teljandi áhyggjur af. United varðist vel og hafði svo skýr markmið í skyndisóknum. Á 19. mínútu kom einmitt góð skyndisókn þar sem Lukaku sýndi styrk sinn á miðjunni, vann boltann og kom honum áfram upp völlinn, á Jesse Lingard. Lingard hélt boltanum vel og gaf hann svo fram á vængbakvörðinn Ashley Young, sem allt í einu var orðinn fremsti leikmaður United. Young tók vel við boltanum og átti svo firnasterkt skot milli fóta varnarmanns Watford og beint í bláhorn marksins án þess að Gomes kæmi þar vörnum við.
Þetta var verulega vel unnið mark af hálfu Manchester United. Miðað við það sem sást hafði af spili United til þessa og í framhaldinu þá má leiða að þvi líkum að þetta hafi einmitt verið taktíska uppleggið, að nýta vængbakverðina mikið auk þess sem Jesse Lingard átti með sinni vinnusemi og hlaupum að styðja vel við sóknina.
Fimm mínútum síðar átti Pogba frábæran sprett upp völlinn þar sem Doucouré sá sér ekki annað fært en að brjóta á honum, ekki langt fyrir utan eigin vítateig. Flestum að óvörum, ekki síst José Mourinho eins og myndbrot hafa síðar sýnt, gaf Pogba aukaspyrnuna eftir þannig að Ashley Young tók hana. Young var auðvitað sjóðheitur eftir markið fyrr í leiknum og pirraður yfir að hafa ósanngjarnt misst markið í síðasta leik þar sem það var af einhverjum ástæðum skráð sem sjálfsmark, svo hann ákvað að frímerkja bara boltann í skeytin úr aukaspyrnunni, gjörsamlega stórkostlegt mark.
Ashley Young hefur aðeins tvisvar áður skorað tvö mörk í leik fyrir Manchester United. Gegn Arsenal í 8-2 sigrinum og í 3-1 sigri gegn Tottenham Hotspur, hvort tveggja tímabilið 2011-12. Svo það var alveg kominn tími á þetta hjá Young. Þrátt fyrir að Watford hafi náð ágætis spili við og við á köntunum þá átti Young samt flottan leik, enda var hans hlutverk líklega meira að styðja við skyndisóknir og sóknarmöguleika en að eiga við kantspil Watford. Mourinho treysti miðvörðunum sínum til að eiga við hvað sem kantar Watford gætu komið með og heilt yfir gekk það plan vel upp.
Eftir rúmlega hálftíma leik var staðan orðin 3-0 fyrir Manchester United. Eftir sókn Watford kom boltinn skoppandi inn að miðju vallar þar sem Jesse Lingard vann boltann og keyrði með hann á vörn Watford. Þegar boltinn skoppaði upp í loftið þá leiddi þessi pressa Lingard af sér örvæntingarfullan skalla úr vörn Watford sem lenti beint á Lukaku. Lukaku tók við boltanum og bar hann upp áður en hann fann Martial með góðri sendingu. Martial bar boltann aðeins lengur að vörninni og átti svo gott innanfótarskot meðfram jörðinni í bláhornið og staðan orðin 3-0 fyrir Manchester United.
Þarna hafði miðja og miðvarðarvarnarlína United staðið sig mjög vel. Watford hafði alveg fengið að vera með boltann og mögulega komist upp kantinn en þeir höfðu aldrei náð að gera neitt við þær stöður. Lindelöf, Smalling og Rojo höfðu sérstaklega átt góðan dag og lesið allt sem Watford ætlaði sér að gera.
Fyrirfram hefði maður varla getað sett þetta upp betur í hálfleik, United svo gott sem búið að klára leikinn og gat því sparað orku fyrir leikinn gegn Arsenal næstu helgi. Það fór líka nánast þannig í seinni hálfleik. United leyfði Watford að vera meira með boltann, varðist heilt yfir af öryggi og ætlaði að klára leikinn í 2. gírnum.
En svo kom ansi slæmur kafli. Það versta við þennan kafla var klárlega það þegar Nemanja Matic fór út af vegna meiðsla á 54. mínútu í síðari hálfleik. Það var brútal, ef hann er það meiddur að hann missi af einhverjum leikjum þá er það svakalegur missir fyrir liðið. Sérstaklega þar sem það kom í ljós fyrir leikinn að Fellaini væri líka frá vegna meiðsla.
Watford náði síðan að minnka muninn eftir að Troy Deeney skoraði úr víti. Rojo hafði átt mjög góðan leik fram að þessu en las stöðuna aðeins vitlaust þarna, hélt hann hefði boltann með tæklingu en fékk víti á sig. Fyrst vítið var dæmt var Rojo ansi heppinn að sleppa við seinna gula spjaldið, og þar með rautt (svosem ekki í fyrsta skipti, hann virðist kunna lagið á því að komast upp með rautt). Smalling var þó á milli sóknarmanns og marks, það hefur kannski bjargað spjaldinu en það setur ákvarðanatöku Rojo með tæklinguna í aðeins verra ljós. Deeney skoraði úr vítinu en þetta gæti þó verið verra, kannski hefði Rojo tekið þennan bolta clean ef hann hefði verið í betra leikformi. Við sjáum til. Þrátt fyrir þetta þá er ég samt ánægður með að hann sé kominn aftur.
Eftir þetta hélt Watford áfram að hanga á boltanum eins mikið og United leyfði þeim það. United varðist bara áfram og reyndi að komast upp með að eyða sem minnstri orku í þennan sigurleik, alltaf mikils virði á þessu stigi móts. Á 84. mínútu endaði þó boltinn í markinu eftir sókn hjá Watford. Fyrir þá neikvæðustu þá mætti eflaustu nöldra og tuða yfir einhverju en fyrir mér þá var þetta aðallega grísamark hjá Watford. Kantmaðurinn André Carillo var þá að leika sér með boltann á hægri kantinum, með varnarmann United vel í sér. Hann náði að senda boltann utarlega í teiginn á Doucouré sem lúðraði honum einhvern veginn í fyrstu snertingu að marki og inn fór hann.
Þetta var vissulega skemmtilegt mark hjá Watford en að mínu mati þá gerðu varnarmenn Manchester United lítið rangt í þessu. Þess þá heldur De Gea. Carillo og Doucouré mega alveg fá high five, þetta var gott mark hjá þeim. En á þessu stigi leiks fannst mér 2-3 ekki gefa rétta mynd af stöðu leiks. United hafði fengið betri færi til að bæta við mörkum en Watford til þessa. Þetta var þó nóg til að fá sjónvarpsþuli til að æsa sig og neikvæðisraddir til að tuða, enda þurfa þær oftar en ekki lítið til.
United hafði þó hauk í horni, sem var Jesse Lingard. Hann kláraði leikinn með fjórða markinu þegar hann, nánast upp á sitt einsdæmi, sneri skyndisókn í mark með góðu áhlaupi. Stuttu eftir annað mark Watford fékk hann boltann á vallarhelmingi Watford, hljóp að marki og lagði boltann í netið með góðu skoti. Og fagnaði svo duglega eins og Jesse Lingard er einum lagið. Strax í kjölfarið fór hann útaf og Zlatan kom inná. Eftir það var engin alvöru hætta og United sigldi 3 stigunum í hús.
Umræðupunktar
Fyrir leik í miðri viku í ensku úrvaldeildinni, rétt fyrir desember, þá var þetta nánast fullkomin frammistaða. Liðið tryggði 3 stig með nokkuð þægilegri spilamennsku og þurfti ekkert mikið að fara upp úr 2. gír í seinni hálfleiknum. Þegar tekið er mið af því að leikið var á heldur strembnum útileik þá er þetta ansi gott.
Stóri gallinn er þó það að Matic þurfti að fara af velli meiddur. Það er hrikalegt. Fellaini missti af þessum leik vegna meiðsla (sá leikmaður hefur aðeins fengið á sig 1 mark þegar hann hefur verið inná vellinum með United, bara til að halda því til haga) og ef bæði Matic og Fellaini missa af næstu 2 deildarleikjum þá er það svakalegt skarð sem hoggið er í lið United fyrir mjög stóra leiki.
Mourinho on Matic injury: "For Matic to tell me he wants to be replaced, he does not do that if it is nothing important. It is muscular."
— Mark Ogden (@MarkOgden_) November 28, 2017
Jújú, Manchester United fékk á sig tvö mörk í þessum leik en það skiptir ekki svo miklu máli. Watford var aldrei í alvöru nálægt því að valda United vandræðum. Sem er frábært, það er mikill styrkleiki í því. En það er brútal að missa Matic.
Lindelöf fúnkeraði skemmtilega í þessari þriggja miðvarða línu, eins og ég var aðeins búinn að vangavelta um í upphituninni. Mér fannst þeir allir í öftustu línunni standa sig glimrandi vel. Það var bara þessi eina tækling hjá Rojo þegar Watford fékk víti sem maður gæti sett spurningamerki við. Annars fannst mér þeir vinna vel saman, lesa leikinn vel og almennt koma með öryggi inn í liðið. Ég gæti séð þessa þriggja miðvarða línu fyrir mér spila fleiri leiki og jafnvel gegn mun sterkari andstæðingum.
Lukaku hefur ekki verið að skora eins mikið upp á síðkastið og hann gerði til að byrja með. Engu að síður þá hef ég verið ánægður með það sem hann hefur verið að gera. Það eru ákveðnir hlutir sem hann mætti bæta, sér í lagi kannski fyrsta snerting og það að halda bolta með bakið í markið. En hann er klár leikmaður (þvert á það sem heilt yfir rasísk umræða hefur viljað telja okkur trú um varðandi hann) og mun án efa vinna í þessum hlutum á næstu árum.
Þetta var skemmtilega uppsett lið. Erum við að fara að sjá sama lið á útivelli gegn Arsenal eða viljum við frekar sjá varnarsinnaðra lið? Öðruvísi taktík? Hvernig ætlar Mourinho að tækla mögulegt Matic-leysi?
Maður leiksins
Ég var mjög ánægður með Martial, var ánægður með Lukaku og ég var ánægður með Lindelöf. En topp 3 í þessum leik hjá mér eru:
Jesse Lingard. Mikil barátta í honum og vinnusemi, studdi vel við sóknina og tók góða hápressu þegar við átti. Skoraði markið sem kláraði leikinn og var, líkt og oftast, taktískt góður.
Paul Pogba. Gaurinn er bara svo óheyrilega, fáránlega, ótrúlega, skemmtilega góður í fótbolta. Hvílíkur fótboltalegur lúxus að hafa þennan leikmann í liðinu sem maður heldur með í fótbolta.
Ashley Young. Oft vanmetinn, alltaf góður leikmaður að hafa í hóp. Fékk ekki verðskuldað mark í síðasta leik, af einhverjum fábjánalegum ástæðum, svo hann skoraði bara tvö fáránlega flott mörk í þessum leik. Mourinho virðist fíla hann og það sem hann gerði í þessum leik var líklega flest lagt upp fyrir leik. Hann hefur heilann og hæfileikann í að fylgja því sem Mourinho vill að hann geri, það er dýrmætt. Hann á meirihlutann í þessum 3 stigum.
Þetta voru frábær stig, mögulega rándýr, en gott veganesti inn í næstu leiki. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig liðið stillir upp í næstu leikjum og við krossum putta að mikilvægir leikmenn eins og Nemanja Matic og Marouane Fellaini séu ekki frá lengi vegna meiðsla.
Georg says
ASHLEY YOOOOOUUUUNG
Kallinn meðetta
Keane says
Magnað. 3-0 eftir 30 mín. Svona á að gera þetta!
Rúnar P. says
Lukaku að gera nákvæmlega það sem Móri ætlast af honum.. Slaka á, verjast og vera hann sjálfur.
EgillG says
party party!!
Hjöri says
Þetta er ekki búið svo ætli sé ekki best að slaka á. Á meðan Utd ætlar að vera í bakkgír allan seinni hálfleikinn þá er þetta ekki búið fyrr en það er búið
Turninn Pallister says
Minn maður að slútta þessu ;)
Kjartan says
Ashley auðvitað mom en Smalling fannst mér einnig koma vel út úr þessum leik.
Rúnar Þór says
Flottur sigur. Frábær fyrri hálfleikur. Lélegt að fá þessi mörk á sig… glórulaust hjá Rojo í vítinu. Ég er ekki helsti stuðningsmaður Lingard en hann á það til að koma með mikilvægar frammistöður og hann var góður í dag. Náði oft að tengja við framlínuna í spilinu og þvílíkt mark!!
Mesta syndin er að hafa ekki náð að hvíla Pogba og Lukaku fyrir Arsenal. Það má ekki ofkeyra Pogba strax eftir meiðslin.
einarb says
Þvílík skemmtun þessi leikur! Rosalega sterkur sigur, þrír helvíti erfiðir puntkar.
Fannst við setjast aftur full mikið og bjóða pressunni heim í seinni hálfleik en þetta hafðist. Unun að horfa á liðið klára svona leiki miða við árangurinn í fyrra.
Þetta var fyrsti leikurinn í helvíti erfiður prógrammi fyrir jólabrjálæðið. Þetta er kannski frekar ómarktækur samaburður en það var þessi leikur og næstu 3 leikir liðsins fóru svona í fyrra:
Watford úti – tap 3 -1
Arsenal úti – tap 2 – 0
City heima – tap 1 – 2
Bournemouth heima – jafnt 1 – 1
1 stig af 12 mögulegum sælla minninga.
Þessi útisigur gefur fögur fyrirheit og það er vonandi að þeir haldi uppteknum hætti og mæti tilbúnir á Emirates!
Na na na na na na na na na na na,
Ashley, Ashley Young,
Ashley, Young,
Ashley, Ashley Young…
Friðrik Már Ævarsson says
Mér finnst gleymast (mögulega þar sem um 6 marka leik er að ræða) að Victor Lindelöf var þrusugóður í þessum leik, hann heldur áfram að bæta sig og þó hann hafi staðið í vörn sem fékk 2 mörk á sig þá skrifast þau ekki á hann. Hann var að mínu mati runner-up á eftir Ashley Young sem átti náttúrulega frábæran dag.
Nú er maður orðinn virkilega spenntur fyrir næstu leikjum, Man City hafa verið heppnir að klára suma af síðustu leikjum sínum, það vantar bara herslumuninn hjá sumum liðum. Þeir verða búnir að tapa stigum fyrir jól, vonandi á morgun og aftur næstu tvær helgar :)
Binni says
skoraði Young ekki líka 2 mörk í slátruninni á móti Roma? eða ertu bara að tala um 2mörk í deild? :D
Binni says
neinei ég er bara að bulla :D
Valdemar Karl says
Lukaku, jæja… hmm…
Audunn says
Mikilvægur og góður sigur, í þessari erfiðu törn sem er að hefjast núna er aðal málið að safna stigum, hvernig er aukaatriði.
Bilað álag framundan og margir mjög erfiðir leikir, það verður ekkert auðvelt fyrir þessi lið að halda mannskapnum heilum og ferskum.
Ég á hinsvegar afskaplega erfitt með að skilja afhverju Man.Utd þarf að detta svona svakalega aftarlega í stöðunni 0-3 gegn liði eins og Watford.
Það er mér bara nánast óskiljanlegt.
Fyrir c.a tveimur árum var United eitt allra besta liðið í deildinni að halda bolta innan liðsins, í dag er eins og boltinn sé eitur sem menn eiga að sparka eins langt frá sér og mögulegt er og standa svo kyrrir á vítateig. Alls alls ekki pressa þegar liðið er komið með forystu.
Með svona leik leika menn sér að því að bjóða hættunni heim. Það er alveg klárt að eitthvað mun gefa sig ef lið ætla að tjalda inn í eigin vítateig.
Ég ætla rétt að vona að menn læri nú eitthvað af þessu, liðið verður að hafa meira sjálfstraust til að halda boltanum innan liðsins.
En eins og ég sagði áður þá er aðal málið að safna stigum.
Cantona no 7 says
Góður sigur á erfiðum útivelli.
Flestir að spila vel og þá sérstaklega Smalling og Young.
Nú verða menn að klára Arsenal á laugardaginn.
G G M U
Halldór Marteins says
United liðið undir stjórn van Gaal hélt boltanum oft lengi en það var af því hin liðin leyfðu þeim það iðulega nokkuð pressulaust, það var bara ljómandi fín taktík gegn liðinu þá því United hélt boltanum lengi en gerði oftast lítið hættulegt við hann.
Er samt alveg sammála því að þessa dagana mætti oft vera meiri yfirvegun og meira spil, sérstaklega þegar verið er að verja forystu.