Það eru tvær vikur síðan einn af uppáhaldsfótboltaskríbentum ritstjórnar, Íslandsvinurinn Jonathan Wilson skrifaði grein fyrir grannaslag Arsenal og Tottenham sem fékk yfirskriftina „The gulf between Arsenal and Tottenham is big – and it is getting bigger“. Það er ekki hægt að segja að þessi fyrirsögn hafi elst vel. Arsenal vann Tottenham og Spurs hefur gengið illa og er nú í 7. sæti en Arsenal hefur gengið jafn vel og rústaði nú síðast Huddersfield á miðvikdaginn, 5-0.
Engu að síður er United fjórum stigum á undan þeim og heimsóknin á Emirates er fyrri leikur af tveimur stórprófum sem verða lögð fyrir José Mourinho og United liðið. Manchester City kemur á Old Trafford um aðra helgi og við vöknum á mánudagsmorgun með ansi miklu betri hugmynd um hvernig tímabilið mun halda áfram. Aðspurður sagði Arsène Wenger að hann byggist ekki við að Mourinho rútan myndi sýna sig á morgun, því United myndi sækja og verjast. Það þarf samt enginn að velkjast í vafa um að José er ekki að fara í erfiðan útileik með það fyrir augum að taka of mikla áhættu.
Leikurinn á þriðjudaginn sýndi hvað United liðið getur í sókninni en um leið var þriggja manna vörnin traust og leyfði vængvörðunum frelsið sem þeir þurfa enda bæði Young og Valencia frekar sóknarmenn en hitt.
Stærsta spurningarmerkið verður við það hvort Nemanja Matic verður heill og miðað við það sem við vitum er það frekar ólíklegt. Þá verður gott ef Fellaini er heill til að takast á við miðjuna. Jesse Lingard hlýtur að hafa spilað sig inn í liðið eftir flotta frammistöðu á þriðjudaginn.
Ég er á Martial vagninum sem stendur, það er ekki líklegt að það sé vænlegt að reyn að spila með hann vinstra megin og Rashford hægra megin þannig að Rashford fær að hvíla.
En að andstæðingnum aftur. Eftir 3-1 tap á útivelli gegn Manchester City hafa þeir unnið þrjá leiki í röð í deild, fyrst fyrrnefndan leik gegn Tottenham, 2-0, síðan Barnsley 1-0 og loks Huddersfield. Þetta er vissulega ágætur árangur en það er samt ekki ástæða til að óttast um of. Einn besti leikmaður þeirra undanfarið hefur verið Mesut Özil og á morgun er spurning hvort hann ætli að sýna José Mourinho hvers vegna José eigi að kaupa hann í janúar eins og hávært slúður vill meina að sé raunhæfur möguleiki enda er samningur Özil að renna út og eins og með Alexis Sanchez þá eru engar líkur á að Özil verði áfram. Það er hins vegar vonandi að Özil standi ekki undir þessu stressi, og eins að Mourinho sem þekkir hann vel frá Real árunum eigi einhver brögð uppi í erminni til að hefta leik hans.
Alexandre Lacazette verður ekki með vegna meiðsla en annars er þetta Arsenal lið víst nokkuð öruggt. Ég efast um að Danny Welbeck fái sénsinn frekar en Giroud. Miðja Ramsey og Xhaka er ekki kannske sú sterkasta og ef leikurinn væri á Old Trafford þá væri alveg möguleiki að sjá frekar 4-2-1-3 frá United til að herja á þeim. En þetta er á Emirates og því verður þriggja manna vörnin fyrir valinu.
United er í góðri stöðu í öðru sætinu og við værum mun glaðari ef City væri ekki á svona mikilli siglingu. Liðið hefur bætt við sig 8 stigum frá viðureignum við sömu lið í fyrra og 11 stigum ef miðað er við fjölda umferða. Þrátt fyrir þetta hafa verið óánægjuraddir, aðallega vegna meintrar leiðinlegrar spilamennsku. Á morgun gefst tækifæri til að hækka fyrrgreinda tölu úr 8 í 11 enda tapaði liðið á Emirates í fyrra, og gleðja enn frekar þau okkar sem vilja fyrst og fremst að United gangi vel og komist á meiri sigurbraut en raunin hefur verið síðustu ár. Og það má alveg gerast með sterkum og öguðum varnarleiks
Björn Friðgeir says
Fellaini verður ekki með og vafi er um Matic…
Karl Garðars says
Þá er þetta slétt búið að vera. Líka mjög slæmt að Matic skuli vera frá..
Robbi Mich says
Þá verðum við að vona að minn maður Herrera eigi stórleik og tækli menn og annan í herðar niður.