Þegar leikurinn hófst var ljóst að Chelsea, Liverpool og Arsenal höfðu tapað stigum í sínum leikjum. Manchester United var því í dauðafæri að láta vaða í þennan leik og taka áhættu, vitandi það að liðið væri hvort sem er með a.m.k. 3 stiga forskot á liðin fyrir neðan. Sigur gæti þýtt titilbaráttu.
En það fór því miður ekki svo vel. Þrátt fyrir að stilla upp liði sem á blaði virkaði sóknarsinnað þá gekk erfiðlega að halda bolta og spila. Manchester City á móti skoraði tvö mörk úr föstum leikatriðum og tók svo framherjann sinn út fyrir varnarmann til að klára leikinn. City jók forskot sitt á toppi deildarinnar og það verður að teljast ólíklegt að Pep púlli Keegan og kúðri forskotinu niður.
Byrjunarlið Manchester United í dag var svona:
Varamenn: Romero, Lindelöf, Jones, Shaw, McTominay, Mata, Ibrahimovic.
Byrjunarlið Manchester City:
Varamenn: Bravo, Zinchenko, Gundogan, Bernardo, Mangala, Danilo, Aguero.
Leikurinn sjálfur
Þegar það kom í ljós að Mourinho stillti þeim Rashford, Lingard og Martial öllum upp fyrir aftan Lukaku og hafði Young inn á frekar en Darmian þá átti maður von á að Mourinho ætlaði kannski að láta vaða og spila sóknarsinnað, koma á óvart, ekki leggja rútunni, láta reyna á vörn Manchester City.
En það varð fljótt ljóst að svo var ekki raunin. Manchester United var lítið í hápressu, sat djúpt og reyndi svo að keyra á skyndisóknir. Það gekk þó ekki vel framan af að komast í færi á skyndisóknum. Miðað við spilastíl Manchester United þá fékk Manchester City samt sem áður óvanalega mikinn tíma á boltann og pláss á miðjum vellinum eða vallarhelmingi Manchester United. Fyrstu 10-20 mínúturnar var Manchester City 80% með boltann.
United liðið virkaði líka stressað í hvert einasta skipti sem De Bruyne og Silva fengu boltann á miðjunni. Rojo fékk höfuðhögg á 36. mínútu eftir að hafa farið full harkalega í skallaeinvígi við David Silva. Mourinho virtist fá bendingar um að hann þyrfti að koma strax af velli en Argentínumaðurinn harkaði þó af sér, skipti um treyju og hélt leik áfram. Það var ekki beint til þess fallið að minnka stressið en Rojo hafði ekki virkað traustur fram að höfuðhögginu. Hann kláraði hálfleikinn en skipti svo við Lindelöf í hlénu.
Áður en til þess kom skoruðu bæði lið þó hvort sitt markið. Manchester City átti fyrirgjöf frá vinstri sem Young misreiknaði og missti yfir sig, beint á Leroy Sané. Sané náði að koma sér í þröngt færi og lét vaða en De Gea varði boltann yfir markið. Upp úr hornspyrnunni skoraði David Silva svo eftir að boltinn hrökk af Lukaku þar sem hann fór upp í skallaeinvígi við Otamendi. Verulega slakur varnarleikur.
Martial hafði byrjað leikinn á hægri kantinum á meðan Rashford spilaði á þeim vinstri. Undir lok hálfleiksins skiptu þeir um kant og þá fór eitthvað að gerast. Martial átti fyrstu marktilraun United í leiknum þegar hann átti skot á markið á 46. mínútu. Mínútu síðar hafði Rashford jafnað af hinum kantinum eftir að hann nýtti sér slæm mistök Delph í City-vörninni, sem mistókst að hreinsa langa fyrirgjöf frá Rojo. Rashford var yfirvegaður og kláraði færið vel. 1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var ekki sama einstefna og sá fyrri hafði verði. Það var ívið meira jafnræði með liðunum en Manchester City þó áfram meira með boltann. Eftir 10 mínútur fékk City aukaspyrnu úti á kanti. Sú aukaspyrna fór inn í teiginn en náði ekki á neinn leikmann fyrr en Lukaku ætlaði að hreinsa boltann á fjærstönginni. Þrátt fyrir að vera ekki undir mikilli pressu þá panikkaði hann og átti hörmulega hreinsun, beint í Smalling. Þaðan skoppaði boltinn á gapandi frían Otamendi sem skoraði sigurmark leiksins. Aftur hrikalegur varnarleikur og verulega slakt hjá Lukaku í þetta skiptið.
Rúmlega 10 mínútum síðar fékk Lukaku fína stungusendingu inn fyrir vörnina frá Lingard, kom sér í skotfæri en skotið var slakt og yfir. Stuttu seinna náði United annarri góðri skyndisókn þar sem Martial var hlaupinn niður en City slapp við spjald (ekki í eina skipti í leiknum sem Oliver var linur við að spjalda leikmenn Manchester City). Rashford tók aukaspyrnuna, úr fínu skotfæri, en setti boltann yfir markið.
Besti leikmaður deildarinnar til þessa, Kevin De Bruyne, minnti svo á sig mínútú síðar þegar hann átti flottan sprett upp völlinn og náði góðu skoti í D-boganum sem De Gea gerði mjög vel í að verja. Fast og lágt skot, út við horn.
Mourinho tók svo sénsinn og sendi Zlatan inn á fyrir Lingard, spilaði þar á eftir í 4-4-2. Zlatan kom einmitt inn á þegar United átti hornspyrnu, eftir að Rashford hafði aftur hirt boltann af Delph en Ederson varið frá honum í þetta skiptið. Ekkert varð þó úr horninu.
Á 79. mínútu gerðist svo umdeilt atvik. Þá náði Herrera boltanum á undan Otamendi og fór svo niður. Það var sannarlega snerting en það má deila um hvort Herrera hafi samt sem áður verið að láta sig falla. Hann fékk þó spjald frá Oliver, sem fyrr í leiknum hafði sleppt því að spjalda Gabriel Jesus þegar hann henti sér niður án nokkurrar snertingar í vítateig United. Ekki sama hver er, það er ljóst.
Undir lokin tók Mourinho Herrera út af og setti Juan Mata inn á miðjuna í hans stað. Aðeins 2 mínútum síðar fékk Manchester United tvöfalt dauðafæri eftir gott uppspil. Fyrst fékk Lukaku dauðafæri eftir góða fyrirgjöf en hann setti boltann beint í hausinn á Ederson. Juan Mata náði frákastinu og skaut að marki en aftur varði Ederson. Virkilega vel gert hjá Ederson, ekki nógu vel gert hjá Lukaku og Mata.
United náði því miður ekki að láta kné fylgja kviði þaðan og skapaði sér ekki fleiri góð færi. Manchester City fékk síðasta góða færi leiksins, þegar Bernardo Silva slapp í gegnum vörnina eftir góða sendingu frá De Bruyne. Hann spilaði sig hins vegar í ansi þröngt færi og De Gea náði að loka vel á hann. City þraukaði svo restina án mikilla vandræða og tryggði sér sigur í leiknum.
Eftir leik
Þetta var alls ekki nógu gott. Þrátt fyrir einstaka gott færi og mögulega vítaspyrnu þá var United slakara liðið í þessum leik, það er bara einfaldlega þannig. Manchester City átti þennan sigur meira skilið.
Mér hefur fundist Lukaku fá heldur óvægna gagnrýni upp á síðkastið. Að mínu mati hefur hann verið að sinna fínni vinnu fyrir liðið í flestum leikjum, jafnvel þótt hann hafi ekki verið að skora mikið. Hann átti þó alls ekki góðan leik í kvöld. Mér finnst of strangt að skrifa fyrra mark City á hann en seinna markið skrifast að stórum hluta á hann. Að auki fór hann illa með tækifærin sóknarlega, sérstaklega dauðafærið sem hann fékk. Hann á að geta betur.
Liðið saknaði Pogba og Fellaini heilmikið í þessum leik. Það vantaði leið til að geta unnið boltann og borið hann upp völlinn. Að vísu lagaðist það töluvert eftir að Lindelöf kom inn á. Það var mikill munur að hafa miðvörð sem gat pikkað út langa sendingu frekar en að dúndra bara eitthvert út í loftið og sjá til. Að auki fannst mér Lindelöf heilt yfir traustur varnarlega líka eftir að hann kom inn á.
De Gea gat lítið gert í mörkunum, þótt hann hafi verið merkilega nálægt því að taka handboltavörslu á fyrra skotið. Hann bjargaði liðinu þó nokkrum sinnum og var heilt yfir góður.
Titilbaráttan búin?
Já, ég myndi segja það. Framundan hjá Manchester United er baráttan um að halda 2. sætinu, í það minnsta þangað til annað kemur í ljós. Það eru líka bikarkeppnir sem hægt er að ná langt í og Meistaradeildin, auðvitað. En það þarf ansi mikið að gerast til að deildartitillinn endi ekki á Etihad vellinum.
einarb says
Þetta verður helvíti erfitt, sennilega sterkasti mótherji okkar hingað til á leiktímabilinu.
Ætla spá dúndur 3-3 jafntefli með glimmrandi hraða. Ég vona bara að herra Michael Oliver steli ekki öllum fyrirsögnunum einsog og svo oft þegar hann dæmir leiki United :| Hann er um það bil síðasti maðurinn á þessari jörð sem ég vill sjá dæma þennan leik.
Bjarni says
Einstefna kallast þetta og gæti endað illa.
Kjartan says
Sklefilega er þetta lélegt, erum við örugglega á Old Trafford? Gjörsamlega óásættanlegt!!!
Það hlaut að koma að þessu, Man City er gjörsamlega búið að stjórna leiknum. Er Man Utd svo mikið sem búið skjóta á markið? Fyrsta skotið á markið í uppbótartíma fyrri hálfleiks, frábært!!!
Rúnar Þór says
Sjáiði þetta?? Það er alveg ótrúlegt hvað spilamennska liðsins hrynur án Pogba!! Það kemur ekkert ekkert spil frá miðjunni og þá negla bara varnarmennirnir fram á ekki neitt… guð minn góður
Rúnar P. says
Nákvælega þess vegna var ég ekki hrifinn af Lukaku kaupunum!
Kjartan says
65 mínúta og Man Utd er ekki ná að skríða upp í 30% possession, pathetic!!!
Það er yfirleitt ekki gott að taka út markahæsta manninn þegar maður er 2-1 undir en út af með Lukaku, þetta er orðið gott. Eins góður og Lingard hefur verið þá er hann ekki að virka í dag.
Hvað er Ashley Young búinn að þruma boltanum oft fram í dag beint á ljósbláa treyju?
Bjarni says
20 mín eftir og þvi miður eru City nokkrum klössum ofar en við í þessum leik. Getum við jafnað, held ekki það þarf mikið til.
Kjartan says
Það versta við þetta tap er hve Shitty sýndi miklu meiri ástríðu heldur en Utd. City er með betra fótboltalið, það er ekki hægt að segja annað eftir þetta tap.
Dómarinn var næstum því jafn hörmulegur og heimamenn í dag, þú spjaldar ekki fyrir dýfu nema þú sért 110% viss.
Sindri Þ says
Mikið ofboðslega, rosalega, hrikalega er maður ósáttur með Lukaku. Ekki bara í mörkum City.. hann er eitthvað ekki með þetta upp við mark andstæðingsins. Einu sinni átti hann að skjóta miklu fyrr og svo var þetta alveg dæmigert í darraðadansinum þegar hann skaut í hálsinn á Ederson. Hefur gott af því að setjast á bekkinn.
Jákvætt: Innkoma Juan Mata. Var einnig góður síðasta þriðjudag. Hann má alveg stimpla sig inn af krafti á miðvikudaginn. Bournemouth heima.. Vinnum það, og sannfærandi. Takk!
Rúnar Þór says
Kyle Walker var á gulu spjaldi frá 2 mínútu!! En það var ekki einu sinni reynt á hann!! Bara negla framm og ekkert spil. Herrera vinnur ekki 1 tæklingu og Lukaku getur ekki einu sinni hreinsað frá marki. Þetta er svo lélegt…. æji ég nenni þessu ekki!
Joi says
Lukaku latur og heimsku boltatagtik hjá Móra mislukkaða.
Bjarni says
Jæja skýrara getur það ekki verið hvað er besta liðið í deildinni að þessu sinni. Til að teljast annað besta liðið þurfum við heldur betur að halda vel á spöðunum fram á vor í það minnsta. Þetta var lélegt en samt ekki versta frammistaðan til þessa.
Rúnar P says
David Blaine is said to be fuming after his record of doing nothing in the box for 44 days is smashed Romelu Lukaku.
DMS says
Lukaku er kaldur at the moment, það er bara þannig. Hann var heitur í upphafi móts, allir framherjar lenda í þessu. Hinsvegar er leikaðferðin ekkert að hjálpa honum heldur. Án Pogba í liðinu er hann bara eins og hauslaus hæna þarna frammi. Miðað við að sitja til baka og treysta á skyndisóknir þætti mér í raun nær að stilla upp Martial eða Rashford sem fremsta manni. Það að boltanum sé sparkað langt á Lukaku í von um skyndisókn þýðir bara að hann flikkar honum áfram á engan. Hann virðist ekki geta sparkað boltanum í augnablikinu, hvorki frá marki sín megin né í markið á hinum endanum. Það er ágætis merki um skort á sjálfstrausti. Þvílíka lúðrið beint í fésið á Ederson fyrir opnu marki, smá yfirvegun og þetta hefði verið mark. Sama má segja um hreinsunina í öðru marki City.
Við erum rosalega háðir Pogba finnst mér. Spilamennskan er á öðru leveli með hann innanborðs á miðjunni.
Vonandi að Luke Shaw fái sénsinn aftur í næsta leik, hann var flottur í síðasta leik. Hann er að spila upp á framtíð sína hjá United.
Audunn says
Langar að benda ykkur á það að fyrirsögning er röng. Þessi leikur endaði 1-2.
Manni er bara íllt í maganum eftir þennan leik.
Að Man.Utd sé kominn í þessi knattspyrnuleg spor er þyngra en tárum taki, gjórsamlega glórulaus fótbolti sem þjálfarinn býður okkur uppá og það á heimavelli.
United var 35% með boltann og um 20% á löngum köflum, sérstaklega í fyrrihálfleik.
Það er bara ekki boðlegt fyrir svona klúbb, gjörsamlega galin taktík.
Hvað leikinn varðar þá vann það lið sem spilaði fótbolta og það verðskuldað, hitt liðið spilaði 3 deildar fótbolta sem kallast kick and run á góðri ensku og uppskar það sem það átti skilið.
Það er alveg deginum ljósara í mínum huga að ef þetta er taktíkin sem Móri ætlar að bjóða manni uppá í framtíðinni þá má hann fara að pakka ofan í töskur.
Ekki séns í helvíti að stuðningsmenn liðsins sætti sig við þetta rusl sem boðið var uppá í gær.
Maður skilur að lið eins og Stoke og WBA spili svona gegn City en það á ekki að líðast að Man.Utd geri það á sínum eigin heimavelli.
Maður hélt í alvöru að Móri væri með meiri pung en þetta en annað kom heldur betur á daginn.
Helv djöfull að þurfa að sitja uppi með þetta og horfa svo á hvað Guardiola er að gera með City liðið.
Joi says
Djöfull er ég sammála þér Auðunn hef aldrei filað Móra
Helgi P says
þetta er bara fáránlegt að spila svona hvað þá á heimavelli og hvað er málið með Lukaku er hann bara orðinn ósnertanlegur í þessu United lið
Halldór Marteins says
Takk fyrir leiðréttinguna, Auðunn. Ég er búinn að laga þetta. Maður dettur stundum í netta eftiráóskhyggju :P
Heiðar says
Það sem einkennir stjóraráðningar United eftir Ferguson tímann er hvað fótboltinn er gamaldags.
Moyes gerði mikið út á kantspil og fyrirgjafir. Þegar það virkaði ekki var ekki neitt plan B í kortunum.
van Gaal lagði alla áherslu á að halda boltanum (posession) sem grundvelli góðs árangurs. Skipti þá ekki máli þó liðið skapaði sér ekki færi þrjá leiki í röð.
Mourinho leggur áherslu á sterka vörn og skyndisóknir. Eitthvað sem heimsklassalið hafa ekki beitt mikið síðustu árin, einfandlega vegna þess að það virkar ekki nógu vel í nútímafótbolta. Einn útisigur í síðustu 13 leikjum Móra gegn top 6 andstæðingum segir sína sögu.
Þrátt fyrir þetta allt verð ég að segja að enn sem komið er finnst mér Móri vera hægt og bítandi á réttri leið með liðið. Ef við höldum 2. sætinu væri það besti árangur liðsins síðan að Ferguson hætti. Man.City er sérlega vel mannað lið þar sem allt gengur upp þessa stundina. Engin meiddur, engin bönn – ólíkt stöðunni í okkar herbúðum.
Ég hinsvegar held að ég tali fyrir hönd allra United stuðningsmanna þegar ég segi að það sé ekki lagi að United sé dóminerað í posession á Old Trafford. Það er einfandlega vandræðalegt. Þetta verður Móri að laga ef hann á að vera trúverðugur í stólnum og kandídat sem leiðir liðið næstu árin.
Kári says
Dises kræst hvað þið getið vælt maður, City er a svakalegu rönni og Móri gerði það sem hann helt að hann þyrfti að gera til að vinna leikinn sem hefði alveg getað gengið upp. City skapaði ekkert að viti og þessi mörk voru ekkert tengd eh mögnuðum gæðum City. Lukaku hefur ekkert skorað af viti upp a siðkastið en hinsvegar hefur hann verið mjög duglegur og verið mikill partur af flestum mörkum United upp á síðkastið enda hafa eiginlega allir leikir unnist sl mánuð. Hann er með 13 mörk og 4 stoðsendingar sem er með þvi besta i Evrópu. Þó það se aðeins siðan hann var að raða mörkum inn(11 i fyrstu 10) þa eru það hans mörk og án þeirra marka þa værum við kannski með 5-7 stigum minna amk. Við erum með besta þjalfara sem hægt er að finna (serial winner) og að fá einhvern “sexy þjalfara” eins og Simone eða Allegri er fyrsta lagi ekki hægt og svo alls alls engin askrift að pakka öllum keppnum saman. Keppnin er rosaleg, Guardiola er buinn að eyða rumum 400m punda í 2 helvitis gluggum og samt var hann með td De Bruyne Silva Aguero og Sterling fyrir. Lukaku og Mourinho eru gæjar sem hafa sýnt að þeir vita hvað þeir eru að gera svo stöndum a bak við þá. Þetta gengur vel á flestan hátt og svo getur City blaðran alveg sprungið.
Blue Moon says
Kæri Heiðar!
John Stones og Mendy meiddir hjá City svo það er ekki rétt að City hafi verið með alla sína leikmenn.
Munurinn á liðunum er að City vildi sækja, en United verjast. Sama hundleiðinlega Móra taktíkin sem ekki passar við United. United var þekkt fyrir frábæran sóknarleik, en hvarf með Ferguson.
United búið að eyða rúmlega 300m punda eftir að Móri tók við og getur samt ekki spilað sóknarbolta. Það er sorglegt.