Miðað við viðbrögð margra stuðningsmanna hefði mátt halda að United hefði í vikunni tapað 4-0 á heimavelli fyrir Sevilla. En svo var nú ekki. 0-0 var raunin og þó að útvallarmark sé gríðarlega mikilvægt þá mætum við Sevilla aftur á Old Trafford eftir tvær og hálfa viku, vissir um að sigur nægir til að halda áfram í Meistaradeildinni.
Það er auðvitað enginn að mæla því í mót að leikurinn var ekki sá skemmtilegasti sem liðið hefur leikið og það hefur vissulega verið aðalsmerki United í gegnum áratugina að spila skemmtilegan fótbolta. En það er ekki hægt að horfa á einn leik án þess að líta á heildarmyndina. Manchester United hefur líklega ekki leikið skemmtilegan fótbolta trekk í trekk í hátt í áratug. Síðustu ár Sir Alex voru byggð á sterkri vörn og síðan vannst titill 2013 út á kaupin á Robin van Persie.
Sir Alex skildi eftir brothætt lið sem þurfti að endurnýja á réttan hátt og við vitum öll að David Moyes kom og braut þetta í spað. Louis van Gaal kom og átti að byggja upp, en nær öll kaup hans mistókust á ninn margvíslegasta hátt.
Þegar José Mourinho var ráðinn þá vissum við öll hvað var verið að fara út í. Það þarf ekki að fordæma hann ranglega fyrir eilífar rútulagningar þó það sé viðurkennt að hann hefur alltaf lagt megináherslu á sterkar varnir. En hann var, á þeim tímapunkti sem hann var ráðinn, því sem næst eini stjórinn á heimsmælikvarða sem var hægt að fá. Það var augljóst val. Ekkert sem hefur gerst síðan þá breytir þeirri staðreynd. Það þýðir ekkert að tala um Jürgen Klopp sem stjóra Manchester United, ekki frekar en að ræða það hvort Eric Cantona eigi að fá tækifæri með liðinu. Pochettino er vissulega góður stjóri en væri eitthvað vit í því að reka Mourinho til að reyna að fá Pocchetino? Nei, enda er það aldrei gert. Það væri alltaf búið að þreifa fyrir sér með tilvonandi stjóra. Og ég er þess fullviss að hvorki nú, né í sumar, gefi Pochettino færi á sér. (Hann fer til Real. beisik)
Þannig að, United er þar sem liðið er, með þennan stjóra og þennan hóp fram á vor. Hvað er til ráða? Svarið er einfalt: Láta stjórann um þetta. Eins og staðan er í dag eru nokkur augljós atriði sem öll stuðla að því sem við höfum verið að sjá undanfarið. Vörnin er ekki nægjanlega sterk, og verður vonandi forgangsatriði í sumar. Meiðsli lykilmanna á miðjunni hefur gert að verkum að ekki hefur verið hægt að skipta út eins og ætti að vera, Nemanja Matic er ekki svipur hjá sjón miðað við hvað hann var í haust og Pogba hefur ekki það frelsi sem hann þarf til að vera upp á sitt besta. Að lokum er það að koma í ljós að það sem sagt er að Mourinho stundi, það er að þjálfa ekki sóknina sérstaklega en láta góða sóknarleikmenn sjá um að gera hlutina upp á eigin spýtur er ekki að virka.
Það er enn langt í sumar en ef við skoðum hópinn eins og við sýnum hann hér á síðunni, þá telur hann 29 manns. Þrír (Fosu-Mensah, Tuanzebe og Wilson eru í láni) og því 26 menn. Af þeim hafa tveir misst úr nær allt tímabilið og eftir standa 24 sem José hefur talað um að sé hans uppáhaldshópstærð. En vandamálið er að af þessum 24 eru hreinlega of margir sem eru ekki nógu góðir til að standa undir því að vera að spila alla leiki, eða því sem næst. Það eru of margir leikmenn sem eru fínir í hóp og skila sínu þegar þarf, en þegar hálft liðið samanstendur af leikmönnum sem í besta falli eru 3,5 af fimm í einkunn þá er bara alveg ágætt að þeir séu að skila okkur öðru sætinu.
Það er langt í sumarið en ég kastaði upp mynd af því sem gæti gerst og skyggði út þá leikmenn sem eru að hætta eða gætu verið á förum. eftir stendur 21 leikmaður og þá þarf þrjá nýja bara til að koma hópnum í Mourinho stærð og helst fimm til að komast í hóp sem stendur vel að vígi gagnvart meiðslum og að teknu tilliti til þess að við verðum með þrjá tvítuga drengi í hópnum.
Það verða því eflaust miklar breytingar í sumar og eins og ég hef sagt í hlaðvörpunum okkar og hér á síðunni þá treysti ég Mourinho alveg fyrir því að kaupa nýja leikmenn í hópinn sem duga og gott betur og myndu, ef til þess kemur að reka José, standa sig ágætlega fyrir arftaka hans. En eftir umrót síðustu ára er það samt algjörlega ótímabært að fara út í þá vegferð að skipta up stjóra í fjórða skiptið á sex árum.
Tl;dr: Það er enginn að fara að reka Mourinho og það hefur ekkert upp á sig.
En það er Chelsea á morgun. Þar er nú lið sem kann að reka stjórana sína og eftir að José okkar potaði aðeins í Conte í desember fór liðinu að ganga hrapallega hvort sem það var því eða þakkað eða öðru og náði hámarkið þegar Watford vann þá 4-1. En síðan þá hefur Chelsea bætt sig, vann botnlið West Brom 3-0, og rústaði Hull í bikarnum 4-0. Loks gerðu þeir gott jafntefli við Barcelona í vikunni á Stamford Bridge.
Lið þeirra verður svona:
Traust lið og helst að Álvaro Morata eigi ekki sæti sitt víst, enda hefur hann dalað allverulega í vetur eftir frábæra byrjun.
Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig Mourinho stillir upp en ég held að við eigum ekkert að gera okkur grillur um að José sé með einhverja ævintýramennsku í huga.
McTominay er búinn að sýna sig að vera maðurinn sem nota á til að brjóta upp miðjuspil andstæðinganna frekar en að gera eitthvða fyrir spil United og hann á eftir að vera nauðsynlegur á morgun til að loka á Fábregas, Kanté eða það sem mér finnst líklegast: Hazard.
Vörnin er eins og hún er og það sem við verðum að vona er að Bailly sé tilbúinn að koma til baka og vera sá klettur sem við vitum að hann getur verið.
Það mun engum koma á óvart ef þessi leikur endar með jafntefli og því síður mun það koma á óvart ef José verður ánægður með það. Sigur myndi hins vegar setja okkar lið í ansi vænlega stöðu í baráttunni um meistaradeildarsæti.
Leikurinn hefst kl. 14:05 á morgun, sunnudag
A says
Þetta er nú meiri Mourinho haleljúa pistillinn.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá meiga og eiga stuðningsmenn liðsins að gera meiri kröfur þegar kemur að skemmtanargildi og knattspyrnu.
Dýrasta og ríkasta félag í heimi á að spila betri bolta en undir stjórn Mourinho og það á að spila sem stórlið ekki einsog smálið.
Hugarfar Mourinho er rangt fyrir lið eins og Manchester united.
Bjarni says
Sigur kemur ekki þessum leik nema leikið sé til sigurs. Sókn er besta vörnin en ekki vörnin besta sóknin. Það þarf að vera jafnvægi í vörn og sókn. Maður leiksins verður að sjálfsögðu DDG en ekki Smalling. Mér finnst svo vanta hjá þér, Björn, tvo skyggða leikmenn sem líklega fara miðað við rúmor, Pogba og Martial. Hvar eru þeir staddir í púsluspilinu í hausnum á stjóranum?
En allt getur gerst og við rúllum yfir Chelski og kennum þeim fótbolta. Hljómar það ekki vel.
GGMU
Björn Friðgeir says
Pogba og Martial eru ekkert að fara.
Bjarni says
Mögulega ekki en fótbolti er óútreiknanlegur.
Björn Friðgeir says
Ef þeir fara þá gerist eitthvað miklu meira. Þetta sem ég stillti upp er það sem mér finnst líklegt
Karl Garðars says
Góður pistill. Mjög sammála þér Björn.
Óli says
Mourinho hefur bara að vissu leyti misst eldmóðinn og „mójóið“. Hann er ekki lengur sá sem kom frá Portúgal til Chelsea og bjó til lið sem á pappírunum var leiðinlegt en var í rauninni óþolandi gott og ekki bara af því Mourinho fékk að kaupa hvað sem hann vildi. Þarna blómstruðu menn eins og Joe Cole, Damien Duff og Eiður Smári.
Mér finnst líka eins og Mourinho sé læstur inni í eigin velgengni. Það er svo mikil pressa á honum að vinna og blikka aldrei að hann getur aldrei leyft sér að horfa til framtíðar. United er greinilega tilbúið að eyða út í hið óendanlega, svo þegar Mourinho kom til félagsins hefði auðvitað átt að setja 2-3 ára markmið og koma félaginu aftur á sinn rétta stall. Í staðinn finnst mér hlutirnir einhvern veginn vera ómarkvissir. Kaupin á Alexis skil ég til dæmis ekki. Það var til meiri fyrirmyndar hvernig staðið var að komu Pep kom til City. Hann tók jú við mun betra búi, en hann er trúr því sem hann stendur fyrir og sýndi meiri þolinmæði.
Hjöri says
Þetta legst ekkert of vel í mig Liverpool búið að hirða annað sætið, svo það kemur ekki annað en sigur til greina sem ég er nú samt vantrúaður á, giska á jafntefli og höldum þar með þriðja sætinu. Mín skoðun á Mora er að hann einblíni alltof mikið á Lukaku hann lætur hann spila hvern einasta leik sama hvort hann leikur vel eða illa,(hver ætli sé ástæðan?) ég vil sjá meira af ungu leikmönnunum Martial, Lingard og Rashford miklu sneggri og liprari leikmenn.