Upp úr níu á mánudagskvöldið var ég alvarlega að velta því fyrir mér að borga einhverjum meðritstjóra fyrir að taka að sér leikinn sem framundan er. Að hita upp fyrir og skrifa um leik gegn Liverpool þegar United var að tapa 2-0 fyrir Crystal Palace var allt í einu versta tilhugsun sem til var.
En eins og við vitum sneri United taflinu verulega við og 3-2 sigur varð staðreynd og United er nú aftur komið í annað sætið, tveimur stigum á undan Liverpool. Andy Mitten skrifaði ágæta grein um þessar geðsveiflur sem hafa verið í gangi hjá stuðningsmönnum United í vetur.
Chelsea er níu stigum á eftir United í fimmta sæti og það er spurning hvort José er sama sinnis og í haust þegar hann sagði
It’s three points, not four. Maybe if we were in a moment of the season where it was a duel between two teams it could mean more but it’s not the case.
Ég er handviss um það að hann er það. Þessi leikur má ekki tapast frá sjónarhóli United, því þá kemst Liverpool í annað sætið og Chelsea getur nálgast enn meira. Jafntefli heldur Liverpool fyrir aftan United. Sigur United myndi síðan þýða að líkur á meistaradeildarsæti aukast enn.
En fyrir United kemur fleira til. Sevilla kemur á þriðjudaginn og það verður að horfa til þess leiks líka. Að því sögðu held ég að liðsuppstillingin verði ekki mjög flókin: Að mestu sama og síðast. Ég held að Juan Mata verði treyst til þess að vera á vinstri kantinum og að reynsla hans og útsjónarsemi ráði þar mestu. En mikið væri nú gott ef Eric Bailly er treystandi í verkið. Fellaini er heill skv. Mourinho, en hann byrjar á bekknum.
Jafntefli hefur verið niðurstaðan í síðustu fjórum leikjum þessara liða, tvisvar 1-1 og tvisvar 0-0. Í leiknum í haust þegar Liverpool kom í leikinn með frekar brothætta vörn og sókn sem var ekki orðin jafn beitt og síðar varð var niðurstaðan auðvitað núll núll. Undanfarið hefur sókn Liverpool orðið beittari jafnvel þó, og kannske vegna þess að Philippe Coutinho var seldur og ég öfunda ekkert Smalling og Lindelöf að þurfa að taka á móti Mohamed Salah, Roberto Firminho og Sadio Mané. Það er jafnvel spurning hvort við sjáum þrjá miðverði á morgun til að taka almennilega á þeim, en ég treysti mér ekki til að spá því.
Reyndar er það svo að Liverpool hefur skorað 11 mörkum fleiri en United en hefur fengið á sig 10 mörkum fleiri á móti. Fyrri viðureignir benda þó frekar til þess að markaskorunin verði á United skala. Ég verð að segja að ef markaskorunin verður mikil þá hlýtur að teljast aðeins líklegar að það verði Liverpool sem fer með sigur af hólmi.
Líklegt byrjunarlið hjá Liverpool verður einhvern veginn svona.
Alex Oxlade-Chamberlain hefur verið að stíga upp upp á síðkastið og Virgil van Dijk er ekki að gera mistök eins og í upphafi, en ég horfi á þessa miðju og vörn Liverpool og verð að hugsa að það séu góðir möguleikar fyrir United að sækja á þessa leikmenn. Hvort Liverpool mark þurfi til að það verði settur kraftur í sóknina má teljast líklegt því sem fyrr segir, þá býst ég við að stigið nægi í þessum til að Mourinho sé sáttur.
Það hafa ófá orð falli í vetur um muninn á leikskipulagi Manchester United nú og áður, að ekki sé minnst á það að margt stuðningsfólk United ber saman leik United og liða á borð við Liverpool, Manchester City og Tottenham. Tvö þessara liða eru þó (ennþá) fyrir neðan United og það er jú árangurinn sem skiptir mestu máli þó að auðvitað sé skemmtunin skammt unand.
Ég ber hins vegar saman leik og árangur United í vetur saman við leik og árangur United árin á undan og hugsa: Á meðan árangurinn batnar þá þoli ég leikskipulagið. Því ef United væri að spila skemmtilegasta bolta í heimi, þá myndi það ekki gera mig hamingjusaman ef því fylgdi að liðið væri um miðja deild.
Alveg eins og seinni hálfleikurinn gegn Crystal Palace sveiflaði stuðningsfólkinu yfir í fullkomna gleði þá geta næstu tveir leikir sveiflað okkur upp enn frekar, nú eða aftur í þunglyndi.
Spennandi tímar! Leikurinn er hádegisleikurinn á morgun og hefst kl 12:30!
Audunn says
Þegar maður horfir á þessi lið leikmann fyrir leikmann þá er United sterkara lið að mínu mati, United eru með fleiri góða leikmenn en eins og við vitum þá er það stundum bara ekki nóg.
United verður að vinna þennan leik til að fá smá andrými, vona svo innilega að Móri fari með því hugarfari inn í leikinn í stað þess að fara með því hugarfari að tapa honum ekki.
Við munum sjá það mjög snemma leiks hvor áherslan verður fyrir valinu.
Ég veit það ekki en mikið djöfull pirrar það mig að sjá Liverpool minn andstæðing nr 1 í knattspyrnuheiminum og það lið sem ég hata mest stjórna fótboltaleik á Old Trafford.
Bara þeð eitt gerir mann geðveikan á meðan á því stendur en ef United vinnur svo leikinn þá gleymir maður því ansi fljótt.
Er alltaf stressaður fyrir þessum leikjum en extra stressaður núna, hef vonda tilfinningu fyrir honum því mér finnst Liverpool spila betri fótbolta en Man.Utd í dag.
Vona líka að Móri fari ekki inn í þennan leik með því hugarfari að ætla að spara einhverja leikmenn til að hafa þá ferskari gegn Sevilla, það yrði bara glæpsamlega heimskulegt dæmi.
Það er afar afar ólíklegt að United vinni meistaradeildina í ár, það eru amk 4 lið eftir í henni sem eru öll betri lið en United í dag, eða 5 með Bayern þegar þeir verða búnir að tryggja sig áfram. þannig að deildin á að vera í algjörum forgangi.
Þetta verður mjög líklega ansi stressandi leikur, að tapa fyrir Liverpool á Old Trafford er eitt það versta sem maður tekst á í lífinu, nenni því ekki á morgun og því mun það ekki gerast…. So Fingers crossed .
Robbi Mich says
^^^
100% sammála.
Góð upphitun.
Jörgen says
Hef fullatrú á því að við getum unnið leikinn. en fyrir mína parta væri ég mest til í að hafa shaw í vinstri baka til að elta og tudda þessa gæja, hvernig er það er rojo ekki að verða heill. hann er akkurat típan til að berja á þessum liverpool krúttböngsum. Ég trúi því bara ekki að hann fari að spila þetta kerfi sem hann notaði í síðasta leik. alveg ótrúlega mátlaust kerfi bæði í sókn og vörn. Fyrir mér er þetta ekki flókið. hættu að hafa 3 nánast djúpa á miðjunni. Hafðu einn djúpan, pogba box to box og einn rólegan. Finnst leiðinlegt að heyra að menn tala um að alex sé ekki að standa sig og hann hafi verið að missa boltann í síðasta leik. En Hey hann var að reyna á meðan aðrir biðu eftir því að eitthvað gerðist. Held að okkar menn þurfi bara að fá smá spark í rassinn og gíra sig í gang og þá kemur þetta :D
Egill says
Það er mikið um meiðsli hjá okkur núna, Herrera, Pogba, Bailly, Jones, Rojo, Martial og Fellaini eru allir ýmist frá eða tæpir. Mér finnst líklegt að Móri muni spila varnarsinnaðan bolta í dag, og mér er alveg drullusama á meðan við töpum ekki þessum leik. Ég get sætt mig við jafntefli ef það þýðir að púlarar væli í nokkra mánuði í viðbót yfir varnarleik United. Það má bara ekki gerast að við töpum gegn þessu liði á Old Trafford. Það er fullkomlega eðlilegt að spila varnarsinnað þegar bæði Herrera og Pogba eru frá, þeir eru einu miðjumennirnir okkar sem geta spilað boltanum almennilega á miðjunni (þegar þeir eru í stuði), án þeirra erum við lélegir á miðjunni.
Þótt þetta verði líklegast varnarsinnaður leikur hjá okkur þá verðum við með Rashford, Sanchez og Lukaku á toppnum sem geta heldur betur sótt hratt og refsað þessari skelfilegu vörn sem Liverpool er með. Eina svekkelsið eftir fyrri leik liðanna var að ná ekki að skora gegn miðlungsvörninni hjá Liverpool.