Núna er annað hvort einn eða tveir fótboltaleikir eftir hjá Manchester United á þessu tímabili sem skipta nokkru máli. Það er annars vegar bikarleikurinn gegn Tottenham á laugardaginn og svo kannski úrslitaleikur bikarsins í maí.
Vissulega á Manchester United enn eftir 5 leiki í deildinni en þeir skipta harla litlu máli úr þessu, allavega fyrir það sem verið er að keppa um. United getur tapað einum leik án þess að missa 2. sætið og það þarf þrjú töp áður en liðið þarf að byrja að stressa sig eitthvað á að missa af Meistaradeildarsæti.
En það er ekki þar með sagt að þessi tiltekni leikur annað kvöld, á útivelli gegn Bournemouth, sé algjörlega gagnslaus. Síðasti leikur var algjör hörmung og þessi leikur bæði gefur leikmönnum tækifæri til að bæta fyrir þá frammistöðu og taka þá eitthvað jákvæðara með sér í leikinn gegn gríðarsterku Tottenham-liði um helgina. Ekki veitir af.
Leikurinn fer fram á morgun, síðasta dag vetrar, og hefst klukkan 18:45. Dómari í leiknum verður Graham Scott. Sá dæmdi einnig fyrri leik þessara liða á tímabilinu, sem Manchester United vann með einu marki gegn engu. Að auki dæmdi hann deildarbikarleik United gegn Burton, sem United vann með fjórum mörkum gegn einu.
Bournemouth
Bournemouth byrjaði tímabilið heldur illa, eftir 10 umferðir var liðið í næstneðsta sæti eftir að hafa eytt flestum umferðum fram að því í fallsæti. Rétt eftir það náði liðið í nokkur góð úrslit og reif sig upp úr fallsætunum. En hins vegar entist það ekki mjög lengi og eftir 20 umferðir var liðið aftur í fallsæti, í þetta skiptið 18. sæti. 12 stig í næstu 6 leikjum komu liðinu hins vegar alla leið upp í 9. sæti og það hefur ekki fallið neitt sérstaklega mikið niður töfluna síðan þá, er núna í 11. sætinu með 38 stig eftir 34 leiki.
Markaskorun er nokkuð vel dreifð hjá Bournemouth. Liðið hefur skorað 41 mark í deildinni og alls hafa 14 leikmann tekið þar þátt í markaskorun. Markahæstu leikmenn Bournemouth eru Callum Wilson með 7 mörk, Joshua King með 6 og Junior Stanislas með 5. Stoðsendingarnar hafa dreifst álíka vel, alls hafa 12 leikmenn liðsins komið með 32 stoðsendingar. Þeirra duglegastur hefur verið Jordon Ibe með 6 stoðsendingar. Þar á eftir koma Andrew Surman með 4 og síðan Adam Smith, Joshua King, Nathan Aké og Ryan Fraser, allir með 3 stoðsendingar.
Bournemouth er næstum jafn langt frá fallsæti núna og United er frá Chelsea og 5. sætinu. Bournemouth er 10 stigum fyrir ofan Southampton. Southampton á reyndar leik inni en það verður þó að teljast ólíklegt að Bournemouth dragist í mikla fallbaráttu úr þessu. Og uppfyrir sig getur liðið í mesta bjartsýniskasti séð fyrir sér að berjast um 8. sætið. Það er því ekki mikið eftir hjá Bournemouth að keppa að heldur í lok þessa tímabils.
Bournemouth náði þó í sterk úrslit í upphafi árs, t.a.m. heimasigur gegn Arsenal og flottan stórsigur á útivelli gegn Chelsea. Hins vegar steinlá Bournemouth fyrir Liverpool í síðasta leik (0-3) og tapaði einnig illa fyrir Tottenham um daginn (1-4 á heimavelli).
Bournemouth hefur skorað í 15 af síðustu 17 deildarleikjum sínum. Þeir náðu ekki að skora á Anfield í síðasta leik en höfðu þar áður skorað 6 mörk í 3 leikjum. En að sama skapi er liðið oft að fá á sig slatta af mörkum, til dæmis fengið á sig 20 mörk í síðustu 9 leikjum. Manchester United hefur enn ekki fengið á sig 3 eða fleiri mörk í sama leiknum (í öllum keppnum), Bournemouth hefur 9 sinnum lent í því. Meðal annars gegn liðum eins og Huddersfield og Wigan.
Junior Stanislas, Adam Smith og Tyrone Mings eru meiddir hjá Bournemouth. Bournemouth stillir líklega upp í 4-4-1-1, eins og í meirihluta leikja þeirra í vetur. Það má búast við liðinu einhvern veginn svona:
Þó er aldrei að vita nema stjóranum detti í hug að rótera eitthvað þar sem liðið var að spila á laugardaginn. Bournemouth á þó ekki leik um helgina þar sem þessi leikur hefði átt að fara fram þá og Bournemouth er ekki lengur með í enska bikarnum.
Manchester United
Mourinho var að vonum ekki sáttur með frammistöðu leikmanna í síðasta leik. Til að kveikja í leikmönnum fyrir þennan leik sagði hann að leikmenn gætu, með góðri frammistöðu í þessum leik, unnið sér inn sæti í bikarleiknum gegn Tottenham. Að sama skapi væru leikmenn sem hefðu spilað gegn WBA sem ættu alls ekki sæti í liðinu gegn Tottenham.
Það verður því mjög forvitnilegt að sjá hvernig hann stillir upp liðinu. Fá leikmenn eins og Pogba og Sánchez tækifæri til að sýna almennilega hvað þeir geta eða munu þeir mögulega detta á bekkinn fyrir leikmenn sem geta unnið byrjunarliðssætin af þeim fyrir bikarleikinn um helgina?
Sergio Romero er eini leikmaðurinn á meiðslalista Manchester United. Hann hefur tekið alla fjóra bikarleikina til þessa en það er tæpt að hann nái leiknum gegn Tottenham. Það er spurning hvort Pereira fái þá þennan leik gegn Bournemouth til að reyna að sýna hvað hann getur og hvíla De Gea aðeins. Á þó reyndar ekkert sérstaklega mikið von á því.
Einhverjir munu fá séns í þessum leik til að láta ljós sitt skína. Það er alveg á hreinu. Það er þó spurning hversu margir af þeim sem spiluðu síðasta leik fái séns til að bæta fyrir þá frammistöðu. Gætum við kannski séð liðið eitthvað á þessa leið?
Það er eiginlega algjört möst að hvíla Matic, myndi ég segja. Serbinn átti ekki góðan leik gegn WBA, ekkert sérstakan leik gegn Manchester City en verður þó samt nauðsynlegur gegn Tottenham. Það kæmi mér ekkert á óvart að sjá Pogba, og mögulega Sanchez líka, fá einfaldlega sénsinn strax til að sýna sig og sanna. Hljóta í það minnsta að fá einhverjar mínútur, sama hvort þeir byrja eða ekki.
Aðrir geta unnið sig inn í liðið. Þá sérstaklega leikmenn eins og Martial, Rashford, Fellaini og miðverðirnir okkar.
Þetta er ekki leikur sem skiptir miklu máli í sjálfu sér en samt sem áður getur hann haft mikið að segja um hvernig tímabilið hjá okkar mönnum endar. Vonandi að leikmenn mæti í leikinn með rétt hugarfar og spili almennilega.
Sveinbjörn says
Galinn hugsunarháttur að halda að aðeins tveir leikir skipti máli. Það skipta allir leikir máli svo lengi sem við erum ekki öruggir með annað sætið, sérstaklega þegar liverpool er einu stigi fyrir neðan okkur.
Að því sögðu þá er þetta skyldusigur fyrir okkur, og vona ég að McTominay komi í liðið fyrir Matic vin minn.
Bjarni says
Jæja allir í stuði fyrir leikinn. Fróðlegt verður að sjá byrjunarliðið sem hleypur inn á völlinn í kvöld því erfitt er að giska á hvað stjórinn er að hugsa þessa stundina. En mögulega verða einhverjar bombur fyrir blöðin að kjamsa á. Það eru 3 stig í boði og menn verða að taka á stóra sínum til að sækja þau.
GGMU
Halldór Marteins says
Það þarf mjög mikið að gerast til að United missi af Meistaradeildarsæti úr þessu. Auðvitað ekki útilokað en það ætti að hafast jafnvel þótt fókusinn sé aðallega á að reyna að vinna einu keppnina sem liðið getur enn unnið.
Svo nei, það er ekki galið að telja þetta aðallega vera max tvo alvöru leiki sem eru eftir. Það sést greinilega á síðustu leikjum hjá bæði Liverpool og Tottenham að þeirra fókus er kominn annað núna, skiljanlega. Sæti 2 til 4 gefa nákvæmlega það sama.
Vissulega er mögulega einhver hugarfarslegur bónus fólginn í því að klára deildina vel og svo er einhver smotteríis montréttur sem fylgir því að vera í 2. sæti frekar en 3. en í stóra samhenginu skiptir það samt litlu máli.
Liverpool er einu stigi fyrir neðan United en hefur spilað leik meira. Tottenham er 4 stigum fyrir neðan. United hefur efni á að tapa einum leik án þess að missa 2. sætið.
Sveinbjörn says
Verðum víst að vera sammála um að vera ósammála og ósammála um að vera sammála. Það er einfaldlega stór hugarfarslegur bónus í því að klára deildina vel, en þó við græðum ekki titil eða rétt í aðra keppni fram yfir þá sem eru fyrir neðan okkur, þá hefðum við átt að vera jafn sáttir við 17. sætið þegar við lentum í því 7. þegar Moyes vinur okkar var við stjórn með sömu rökum.
Þar fyrir utan erum við að eyða tímanum okkar í að horfa á leikina, og satt best að segja þá er ekkert gaman að horfa á leiki sem skipta ekki máli og tapast.
Halldór Marteins says
Að sjálfsögðu vonast ég nú til þess að leikmenn mæti í hvern leik með það hugarfar að vinna leikinn. Ýmsir af þessum leikmönnum gætu líka verið að spila upp á framtíð sína og ég vona að þeir sýni það inná vellinum.
Þannig að þótt leikirnir skipti litlu máli í stóra samhenginu og gagnvart þessum tveimur aðalleikjum sem eftir eru þá vona ég sannarlega ekki að liðið sleppi því að mæta í þá deildarleiki sem eftir eru, það var alls ekki það sem ég átti við.
Fyrst og fremst er það glatað að það séu þetta margir leikir eftir af deildinni og ekkert alvöru eftir til að keppa um þar.