Eftir gríðarlega góðan sigur á erkifjendunum í Arsenal í síðasta leik Wenger á Old Trafford situr Manchester United þægilega í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á undan Liverpool og á inni leik til góða. Tvö stig úr síðustu þremur leikjunum okkar nægja okkur til að gera tölfræðilega út um vonir Liverpool til að ná okkur og það verður að teljast ansi líklegt að þau skili sér í hús, jafnvel þótt ungir og efnilegir leikmenn fái að spreyta sig í þessum leikjum. Liðið hefur sigrað fjóra af síðustu fimm leikjum sínum í deild og hafa leikmenn virkilega tekið sig á eftir hörmungarnar gegn West Brom í síðasta mánuði.
En annað kvöld mætir United til Brighton í 37. umferð og jafnframt þriðja síðasta leik United í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Þetta verður í fyrsta skiptið í 36 ár sem United sækir Brighton heim í deildarleik en þann leik vann Brighton með einu marki gegn engu. Sem betur fer er það eini leikurinn sem hefur tapast í viðureign þessarra liða en alls hafa þau mæst í 18 skipti.
Brighton and Hove Albion
Brighton and Hove Albion komst, undir stjórn Chris Hughton, upp í deild þeirra bestu á síðustu leiktíð eftir að hafa endað í öðru sæti í Championship deildinni, rétt á eftir Newcastle. Brighton byrjaði þá leiktíð af miklu kappi og einungis tvö töp á fyrri hluta leiktíðar sköpuðu sterkan grundvöll fyrir alvöru titilbaráttu í ensku b-deildinni. Úrvalsdeildin hefur svo aftur gengið örlítið brösuglega hjá Hughton og félögum en liðið situr sem er í 14. sæti með 37 stig og er svo gott sem búið að tryggja stöðu sína í deildinni.
Liðið hefur þó einungis náð í 3 stig úr þremur jafnteflum í síðustu fimm leikjum en liðið sigraði síðast Arsenal á heimavelli í byrjun mars. Mávarnir hafa verið sterkir á heimavelli í vetur og einungis tapað 4 leikjum þar sem verður að teljast gott miðað við hina nýliðana sem hvor um sig hafa tapað 7 heimaleikjum. Munar þar mestu um Glenn nokkurn Murray og Pascal Groß en sá fyrrnefndi hefur verið iðinn við kolann í vetur og er kominn með 12 mörk í deildinni á meðan hinn hefur verið allt í öllu á miðsvæðinu hjá Mávunum. Þar að auki eru hér um bil allir heilir hjá Brighton, að undanskyldum Steve Sidwell, svo að Chris Hughton og hans menn mæta líklega með sitt sterkasta lið á morgun en svona gæti liðið litið út á morgun.
Hins vegar hafa þeir ekki unnið í síðustu sex deildarleikjum sínum og einungis einu sinni haldið hreinu í síðustu fjórtán leikjum. Þar að auki er gengi Chris Hughton gegn Manchester United ekkert til þess að stæra sig af en að undanskildum einum 1-0 sigri með Norwich hefur hann tapað öllum sex leikjunum með markatölunni 15-0. United tapaði hins vegar á útivelli gegn bæði Newcastle og Huddersfield og takist Brighton að sigra á morgun væri það í fyrsta sinn sem Manchester United tapaði gegn öllum þremur nýliðunum síðan Úrvalsdeildin var stofnuð.
United
Okkar menn hafa verið á skriði undanfarið ef við lítum framhjá versta leik tímabilsins en sigrar gegn Liverpool, City og svo Arsenal hafa gefið góð merki þess að liðið sé á réttri leið og um leið farið langt með að tryggja okkur 2. sætið. Það gerist með sigri auk þess að þá fer liðið í 80 stig sem er talsvert betri árangur en David Moyes tímabilið og bæði tímabilin hjá Louis van Gaal og samt tveir leikir eftir, á móti West Ham og Watford. Ef United klárar þessa síðustu þrjá leiki með þremur sigrum endar liðið með 86 stig, einum sigri frá sama stiga fjölda og sir Alex Ferguson náði þegar við urðum síðast meistarar. Þá sigruðum við deildina með 11 stigum. Ef og hefði.
Það verður spennandi að sjá hvernig Mourinho mun stilla upp á móti Brighton, en það hefur verið venjan að leyfa kjúklingunum úr akademíunni að spreyta sig í síðustu leikjum tímabilsins og sérstaklega þegar svo lítið er að keppa að eins og raun ber vitni. Að sama skapi styttist í „silly-season“ og orðrómarnir um hverjir séu að fara og koma verða sífellt fleiri og háværari.
Ander Herrera hefur verið flottur í síðustu leikjum en margir töldu hann vera svo gott sem farinn. Svo er sagan endalausa með Fellaini sem vill spila meira en Mourinho er gríðarlega hrifinn af honum sem plan B þegar annað klikkar. Matteo Darmian og Daley Blind virðist hins vegar vera á öruggri útleið í sumarglugganum.
Sergio Romero er enn meiddur eftir síðasta landsleikjahlé og Romelu Lukaku bættist á meiðslalistann núna í fyrradag eftir ökklameiðsl. Það verður því áhugavert að sjá hver fær tækifærið sem fremsti maður í fjarveru belgans. Það verður hægar sagt en gert enda er Lukaku búinn að vera frábær í vetur með 26 mörk í öllum keppnum og 7 stoðsendingar. Hugsanlega verður það Rashford sem fær það ábyrgðarhlutverk en Martial hlýtur að koma til greina líka.
Annars býst ég fastlega við að Mourinho haldi sig við saman kjarnann og róteri ekki miklu í byrjunarliðinu en það verður spennandi að sjá bekkinn hins vegar. Paul Pogba í byrjunarliðið ætti ekki að koma neinum á óvart enda er hann með 3 mörk og stoðsendingu í síðustu 4 leikjum. David de Gea er augljós kostur í markið eftir að hafa verið valinn „Players’ Player of the Year“ auk þess að vinna „sir Matt Busby Player of the Year“. Nemanja Matic, sem átti mark ársins fyrir United, verður að öllum líkindum á sínum stað líka og sama má segja um Sanchez, Smalling, Young og Valencia.
Þó að bæði lið hafi ekki til mikils að vinna í þessum leik reikna ég samt með að hvorugt liðið vilji tapa honum, sérstaklega í ljósi þess að tölfræðilega þarf Brighton a.m.k. eitt til tvö stig úr síðustu leikjum sínum til að gulltryggja veru sína í deild þeirra bestu á næsta tímabili. José Mourinho hefur einnig notað þá taktík að undanförnu að hvetja leikmenn til að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu fyrir stóra leiki eins og úrslitaleikinn í FA bikarnum sem er 19. maí n.k. Það í bland við að sjá mögulega minna þekkt andlit en franska undrið og serbneska stálið á miðjunni gerir ívið meira fyrir leik sem annars ætti á hættu að falla í skuggann af öðrum leikjum.
Craig Pawson verður á flautunni á morgun en leikurinn hefst kl 19:00 að íslenskum tíma.
Skildu eftir svar