Þá er komið að fjórðu umferð í enska boltanum en hún hófst í dag með viðureign Leicester City og Liverpool. Okkar menn mæta á Turf Moor í öðrum af síðustu tveimur leikjum umferðarinnar á morgun þar sem heimamenn í Burnley taka á móti okkur. Hvorugt liðið hefur fengið draumabyrjun á tímabilinu en stuðningsmenn beggja liða vonast eflaust eftir því að leikurinn á sunnudaginn komi til með að marka upphafið að nýjum og betri tímum. Hvort af því verði verður að koma í ljós en eitt er víst að okkar menn þurfa að átta sig á að sumarfríið er búið og menn þurfa að fara skrúfa hausinn á og byrja tímabilið.
Mikið hefur verið rætt um José Mourinho á undanförnum vikum og hversu valtur í sessi hann kunni að vera. Við settumst niður og ræddum þetta fyrr í vikunni auk þess sem hann Magnús tók saman gríðarlega áhugaverðan pistil um stöðu mála og því kannski við hæfi að sleppa allri þeirri umræðu og ótímabærum pælingum um mögulega arftaka hans. Hins vegar verður áhugavert að sjá hvernig liðið kemur til baka eftir 0-3 tap á heimavelli gegn Tottenham í síðustu viku.
Reyndar var sá leikur örlítið furðulegur því United mætti með allt annað hugarfar í þann leik en leikinn á undan (gegn Brighton á útivelli). Liðið sótti stíft og pressaði vel, nokkuð sem við höfum ekki séð mikið af í stjórnartíð Mourinho, en allt kom fyrir ekki því að inn vildi boltinn ekki. Þessi leikur var mun skemmtilegri en Brighton leikurinn og allt annað að sjá liðið þó leikurinn hafi farið eins og hann fór. Það virðist samt ekkert vera að smella hjá Mourinho þessa dagana, hvorki vörnin sem virkar eins og götóttur svissneskur ostur, né framlínan sem virðist ekki vera í takt við sjálfa sig. Það gæti því verið áhugavert að velta fyrir sér hugsanlegu byrjunarliði og uppstillingu þess.
Persónulega myndi ég vilja sjá Andreas Pereira, Marcus Rashford og Alexis Sanchez aftur inn í liðið. Þessir leikmenn eru þrælduglegir og berjast yfirleitt til síðasta blóðdropa. Luke Shaw er búinn að vera okkar besti maður það sem af er tímabilinu og Anthonio Valencia ætti að vera augljóst val í hægri bakvörðinn. Ashley Young hefur ekkert sýnt sem réttlætir það að annað hvor þeirra missi sæti sitt. Sömu söguna er ekki að segja um trúðana á milli þeirra, miðverðarfarsinn okkar virðist engan enda ætla að taka.
Það mætti taka heillangar umræður um besta mögulega miðvarðarpar okkar en í sannleika satt þá veit það enginn, ekki einu sinni Mourinho. Ég myndi vilja sjá Lindelöf og Smalling en þessir tveir ásamt öðrum miðvörðum okkar sem hafa spilað keppnisleik á þessu tímabili hafa ekki gert neitt annað en að undirstrika og feitletra þá staðreynd að okkur bráðvantar heimsklassa miðvörð með leiðtogahæfileika.
Á miðjuna vil ég sjá Fellaini, Pogba og Pereira en fram-á-við myndi ég vilja sjá Rashford vinstra meginn, Lukaku upp á topp og Sanchez væri settur á hægri kantinn sem hefur verið vandræðastaða hjá okkur og annað dæmi um hversu slakur sumarglugginn okkar var.
En það verður samt að teljast líklegast að hann haldi sig við 4-3-2-1 með Matic-Pogba-Fred miðju og Sanchez á vinstri.
Burnley F. C.
Burnley komst upp í ensku úrvalsdeildina 2014, sama ár og Leicester City, þó liðunum hafi gengið misvel eftir það. Burnley hefur hins vegar náð að halda sér upp síðan og oft verið talað um að Sean Dyche hafi unnið hálfgert kraftaverk með þessu liði þar sem hann hefur úr litlu að moða en á einhvern hátt tekist að halda liðinu í deild þeirra bestu og náði svo í evrópudeildarsæti á síðustu leiktíð. Liðið endaði í 7. sæti rétt á eftir Arsenal og komst í umspil um sæti í riðlakeppni í Evrópudeildinni en það er í fyrsta sinn í meira en hálfa öld sem Burnley kemst í evrópukeppni.
Þetta tímabil hefur hins vegar ekki farið eins vel af stað þar sem liðið situr í fallsæti með einungis eitt stig úr þremur leikjum. Liðið hefur einungis gert jafntefli við Southampton en tapað svo illa fyrir Watford og Fulham og í þessum leikjum hefur liðið fengið á sig 7 mörk en liðið var frekar þekkt fyrir agaðan varnarleik og fékk ekki nema 39 mörk á sig á síðustu leiktíð, einu meira en Chelsea. Hljómar þetta ekki kunnuglega?
Burnley féll hins vegar úr leik gegn Olympiacos núna á fimmtudaginn en líklega stillir Sean Dyche upp svipuðu liði og þá enda spilaði liðið talsvert betur en gegn Watford og Fulham. Það sem reyndist koma mér á óvart var að ekkert pláss var fyrir James Tarkowski og Chris Wood þann daginn en ég hugsa að Tarkowski kominn inn í liðið þó að Wood gæti þurft að verma bekkinn. Þá held ég að Dyche haldi sig við 4-4-2, og þá gæti liðið litið út svona:
Enginn Jóhann Berg Guðmundsson var í viðureigninni gegn Olympiacos en hann meiddist í gegn leiknum Fulham og þurfti að fara útaf. Slæmar fréttir fyrir landsliðið sem er að fara að taka þátt í Þjóðadeildinni. Annars vænti ég þess að bæði lið mæti grimmari til leiks en í síðustu leikjum, Burnley hafa hingað til þótt erfiðir heim að sækja en vörnin þeirra virðist vera langt frá sínu besta svo nú er um að gera að leggja ekki árar í bát heldur þenja seglin og sækja þrjú stig til að klifra aðeins upp þessa blessuðu töflu.
Sem stendur er United í 13. sæti sem þýðir að við erum í neðri hluta deildarinnar sem er algjörlega fyrir neðan allar hellur. Mín spá er 0-2 þar sem Lukaku og Rashford deila með sér mörkunum og vörnin nær að halda hreinu þökk sé de Gea.
toggi says
ef þessi leikur tapast þá fer þetta vera erfitt að ná top 4