Manchester United byrjaði tímabilið í Meistaradeildinni eins vel og hægt er með þremur mörkum og þremur stigum á útivelli. Andstæðingurinn var vissulega að öllum líkindum sá slakasti í riðlinum en einmitt þess vegna var mikilvægt að lenda ekki í neinu veseni í þessum útileik.
Í aðdraganda leiksins hafði verið talað töluvert um það að nýi hægri bakvörðurinn í liðinu, Diogo Dalot, gæti fengið sénsinn. Hann var búinn að jafna sig eftir meiðsli og ekki þótt ástæða til að taka séns á að láta Valencia spila á þessu gervigrasi sem er á Stade de Suisse. Hann reyndist svo vera í byrjunarliðinu ásamt nokkrum öðrum sem fengu þarna séns til að sýna sig og minna á sig.
Byrjunarlið Manchester United í þessum leik var svona:
Varamenn: Romero, Bailly, Young, Fellaini, A. Pereira, Mata, Sánchez.
Lið heimamanna í Young Boys var þannig skipað:
Varamenn: Wölfli, Bertone, Ngamaleu, Nsame, Schick, Aebischer, García.
Leikurinn sjálfur
Manchester United kom inn í þennan leik af ákveðinni varkárni, hélt boltanum töluvert meira en heimamenn og freistuðu þess að ná tökum á leiknum. Liðið var ekki beint að keyra á Young Boys, fyrir utan reyndar Diogo Dalot sem byrjaði manna sprækastur. Hann virtist staðráðinn í að standa sig og alls ekki smeykur við að láta taka til sín þrátt fyrir að þetta væri hans fyrsti leikur með Manchester United.
Að sama skapi var Young Boys liðið með skýrt plan. Verjast aftarlega og þétt, reyna svo að refsa með gríðarlega snöggum skyndisóknum þegar þeir náðu að vinna boltann. Þrátt fyrir að Young Boys sé alls ekki öflugt á Meistaradeildarmælikvarða þá eru athyglisverðir leikmenn þarna innanborðs. Hægri bakvörðurinn Mbabu er virkilega sterkur og snöggur leikmaður, hann byrjaði strax að láta finna fyrir sér upp og niður eftir öllum hægri kantinum. Fyrsta almennilega færi leiksins kom eftir fyrirgjöf frá honum sem framherjinn Hoarau skallaði naumlega framhjá.
Young Boys náði þó nokkrum álitlegum sóknum fyrsta hálftíma leiksins. Miðjan hjá United virkaði óörugg á þeim tíma, fundu sig ekki almennilega á gervigrasinu og höndluðu ekki vel ef andstæðingurinn pressaði á þá. Fred fann sig aldrei almennilega í leiknum en hinir tveir áttu nú eftir að braggast eftir því sem leið á leikinn, sérstaklega þó Pogba. Stundum munaði ekki nema hársbreidd að skyndisókn yrði að dauðafæri en ýmist náði vörnin að bjarga fyrir horn eða útfærslan var ekki nógu góð frá þeim svissnesku.
United náði líka að skapa sér færi. Dalot var, eins og áður segir, öflugur í að sækja upp hægri kantinn. Kom með fínar fyrirgjafir og almennt leit vel út. Lukaku fékk boltann inn í teignum, með varnarmann í bakinu, náði að snúa sér og skjóta en þá var færið orðið þröngt og skotið endaði framhjá. Luke Shaw var líka flottur að vanda í vinstri bakverðinum, þurfti að vera á tánum varnarlega út af Mbabu og félögum og skapaði svo oft usla fram á við. Hann átti flotta fyrirgjöf meðfram jörðinni beint í hlaupaleiðina hjá Rashford sem sneiddi boltann í stöngina.
Eftir um hálftíma leik komust Young Boys í gott færi eftir að Dalot rann á gervigrasinu. Alls ekki í eina skiptið sem leikmaður United rann á þessum velli, gerðist hins vegar ekki hjá Young Boys enda þeirra leikmenn vanir því að spila á þessu gervigrasi. Það kom þó ekki að sök þótt Dalot rynni því Lindelöf náði að henda sér fyrir skotið, boltinn barst út á miðjumann Young Boys en skot hans fór töluvert framhjá markinu.
Stuttu síðar náði United upp mjög góðu spili. Fáar snertingar, góðar sendingar inn að miðjunni þar sem Pogba fann Fred við vítateiginn. Fred gaf aftur á Pogba sem dansaði framhjá varnarsinnuðum miðjumanni Young Boys og lét svo vaða með vinstri. Boltinn hafnaði efst í markvinklinum, stórglæsilegt mark og United komið yfir.
Eftir þetta mark breyttist yfirbragð leiksins töluvert og Manchester United náði meiri yfirburðum. United fékk horn stuttu síðar, Lindelöf náði fínum skalla að marki sem skapaði töluverðan usla. Rétt fyrir hálfleik fékk United svo vítaspyrnu. Pogba kom þá með frábæra skiptingu hægra megin á miðjunni, alla leið yfir á vinstri kantinn þar sem Luke Shaw var kominn alveg að vítateig heimamanna. Shaw tók boltann í fyrsta og gaf fyrir markið þar sem hann hafnaði í handlegg Mbabu. Dómarinn mat það þannig að Mbabu hafi vísvitandi tekið boltann með hendinni og dæmdi víti. Það verður nú bara að viðurkennast að þetta var rangur dómur, Mbabu gerði sig ekki breiðan eða hreyfði hendina að boltanum, þetta var snögg fyrirgjöf og alltaf óvart. En víti dæmt engu að síður.
Paul Pogba brenndi af síðasta víti en hann sneri samt aftur á punktinn til að taka þetta víti. Og aftur tók hann þetta langa, hæga tilhlaup sitt áður en hann lét vaða. Í þetta skipti átti markmaðurinn þó ekki séns þar sem Pogba setti boltann uppi, hægra megin frá sér séð. Öruggt mark og United komið með þægilega forystu.
Anthony Martial hafði ekki átt neitt sérstakan leik í fyrri hálfleiknum en hann kom mjög sprækur út í seinni hálfleiknum og lét strax að sér kveða. Hann fékk sendingu á kantinum þar sem hann var með varnarmann í bakinu en einn léttur snúningur skilaði því að Martial komst einn í gegn. Hann átti góðan sprett inn í teiginn og náði skoti þegar hinir varnarmennirnir voru að nálgast hann. Því miður skoppaði boltinn illa á gervigrasinu þegar Martial var að fara að skjóta svo hann náði ekki nógu góðu skoti. En snúningurinn og spretturinn voru frábærir.
United var með öll tök á vellinum á þessum tímapunkti, þrátt fyrir að Young Boys minnti á sig af og til með skyndisóknum. Engin þeirra olli þó neinum teljandi vandræðum. Á 65. mínútu snerist þó taflið við þegar Manchester United hélt í afskaplega huggulega skyndisókn. United vann boltann aftarlega á vinstri kanti. Fred fékk boltann og gaf beint á Pogba sem skeiðaði upp miðjan völlinn alla leið að vítateig Young Boys. Hann hafði þrjá samherja fyrir framan sig sem komu með mismunandi hlaup og líkt og Óli Stef í hraðaupphlaupi með íslenska landsliðinu bar Pogba boltann upp af öryggi og valdi svo akkúrat réttu sendinguna. Hann fann Martial vinstra megin í teignum, manninn sem var opnastur af leikmönnum United. Martial tók við boltann, lagði hann fyrir sig og lét vaða. Hann hafði hugsað sér að leggja boltann í fjærhornið en boltinn hrökk af varnarmanni og í nærhornið. Mark engu að síður og það vel huggulegt mark. Martial fagnaði og klappaði Manchester United merkið á treyjunni. Hans fyrsta mark síðan í janúar.
Stuttu eftir þetta mark var hægt að fara að hvíla menn. Mata og Fellaini komu inn á fyrir Rashford og Fred. Pogba fékk síðan að hvíla síðasta korterið og Andreas Pereira kom inn á í staðinn. Bæði lið vissu að þetta var búið svo síðasti kaflinn var frekar rólegur. Young Boys fékk að vísu dauðafæri eftir hornspyrnu þegar Fellaini missti illa af Camara sem náði að setja boltann framhjá af mjög stuttu færi. Juan Mata fékk svo tvö áþekk færi utarlega í teignum þegar hann kom á ferðinni. Fyrst eftir flotta sendingu frá Shaw, svo eftir álíka fína sendingu frá Martial, hvort tveggja fastar sendingar meðfram jörðinni. Í fyrra skiptið setti Mata boltann framhjá, í seinna yfir markið.
Í uppbótartíma virtist sem Dalot hefði nælt sér í sína fyrstu stoðsendingu fyrir félagið þegar hann sendi flotta fyrirgjöf fyrir markið sem Lukaku skoraði úr. En Belginn var réttilega dæmdur rangstæður svo það taldi ekki. 3-0 sigur þó staðreynd. Mjög verðskuldaður og margt gott í þessu.
Pælingar eftir leik
Diogo Dalot var besti maður leiksins í fyrri hálfleik. Hann var kannski ekki alveg jafn áberandi fram á við í seinni hálfleik en heilt yfir verulega flottur leikur hjá honum, bæði fram á við og varnarlega. Það var alls ekki að sjá á honum að þetta væri aðeins 9. leikur hans með aðalliði á ferlinum. Það er líka merkilegt að þótt hann sé vissulega að upplagi hægri bakvörður þá var þetta hans fyrsti leikur í hægri bakverði með aðalliði. Hann fékk sénsinn með Porto vegna meiðsla hjá vinstri bakvörðum liðsins. En hann lét það ekkert á sig fá heldur spilaði eins og maður með reynslu.
Luke Shaw kom aftur í liðið og hélt áfram þar sem frá var horfið. Enn einn flotti leikurinn hjá honum. Vex ásmegin með hverjum leiknum og er orðinn mjög mikilvægur hlekkur í sóknarleik liðsins.
Pogba byrjaði rólega en steig verulega upp eftir því sem á leið. Tók eiginlega leikinn yfir. Skilaði flottri tölfræði bæði sóknarlega og varnarlega, skoraði tvö glæsileg mörk og lagði það þriðja upp. Mikil og flott barátta í honum.
Frábært að sjá þennan seinni hálfleik hjá Anthony Martial. Flott að sjá hann skora þetta mark, hann lagði sig vel fram og sýndi gott hugarfar. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut.
Fred átti alls ekki góðan leik. Kom samt nálægt tveimur mörkum en vonandi fer hann að finna sig betur.
Mourinho og co. höfðu áhyggjur af gervigrasinu fyrir leik. Það var talað um að það væri harðara en menn áttu von á og ekki eins gott. Það sást líka vel í byrjun leiks og á nokkrum tímapunktum í leiknum að það hafði áhrif, hafði meiri áhrif á leikmenn Manchester United. En sem betur fer kom það ekki að sök. Mourinho sagði líka fyrir leik í fjölmiðlum að hann vildi ekki tala um gervigrasið til að gefa engum afsökun fyrirfram. Það getur þó tekið lengri tíma að jafna sig af svona leikjum, sérstaklega fyrir þá sem eru óvanir gervigrasinu. Það er vonandi að það hafi ekki áhrif á leikmenn í næsta leik.
Staðan í riðlinum
Í hinum leik riðilsins vann Juventus 2-0 sigur á Valencia. Cristiano Ronaldo fékk beint rautt spjald fyrir litlar sakir. Það ætti þó varla að þýða að hann missi af leiknum gegn okkar mönnum. Beint rautt er sjálfkrafa einn leikur í bann, svo þarf sérstaklega að bæta við leikjum ef þörf þykir. Það væri frekar að UEFA myndi fella þennan eina leik í banni niður vegna þess hversu strangur dómur þetta var.
Staðan í riðlinum eftir fyrstu umferð er því svona:
Framundan
Næsti leikur liðsins er deildarleikur gegn Wolves á laugardaginn. Hann fer fram á Old Trafford og hefst klukkan 14:00. Í næstu viku er svo deildarbikarleikur gegn Derby County.
Næstu leikir í H-riðli Meistaradeildarinnar verða spilaðir þriðjudaginn 2. október. Klukkan 16:55 mætast þá Juventus og Young Boys á Ítalíu en klukkan 19:00 spila Manchester United og Valencia á Old Trafford.
Þess má þó geta að annað kvöld (fimmtudaginn 20. september) mætir kvennalið Manchester United Sheffield Women í öðrum leik þeirra í deildinni. Sheffield United tapaði sínum fyrsta leik á meðan Manchester United gjörsigraði sinn. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og verður í beinni útsendingu á MUtv.
Eftir þann leik ætlum við að taka upp annað Djöflavarp. Ef þið hafið einhverjar extra góðar spurningar þá getið þið laumað þeim í komment hér fyrir neðan og við sjáum hvort við getum tekið þær inn í podkastið.
bjarni says
Flott lið, UTD young boys, vonandi stendur það undir mínum væntingum og kjöldregur mótherjann.
Bjarni says
Fred og gervigras eiga ekki samleið. Nýr hægri bakvörður er loksins kominn í sviðsljósið, frábært.
EgillG says
Það ætti að banna gervigras í meistaradeildinni
Cantona no 7 says
Góður sigur á erfiðum útivelli.
Liðið að spila vel.
Pogba loksins með stórleik.
Wolves næstir.
G G M U
Rúnar P says
Enn og aftur sannar portugalska deildin sig og færir okkur eitt mesta framtíðar efnir fyrr og síðar #20 Dalot
Bjarni says
Miðað við frumraun Dalot í aðalliðinu þá óska ég þess heitast að hann haldi dampi, greinilega mikið efni þar á ferð og hreyf mig frá fyrstu snertingu. Nauðsynlegt að taka við af Valencia sem hvorki getur gefið fyrir né tekið menn á lengur. Gaman verður að fylgjast með honum í framtíðinni. Annars var leikurinn nokkuð góður, stóðum af okkur hressilega byrjun heimaliðsins og tókum svo völdin eftir fyrsta markið. Nú þarf liðið hinsvegar að stíga á bensíngjöfina í næstu leikjum og halda áfram að sækja sigra.
GGMU