Það er komið að fyrsta heimaleiknum hjá Manchester United í Meistaradeild Evrópu þetta tímabilið. Eftir sannfærandi sigur gegn Young Boys frá Bern í fyrstu umferðinni er komið að því að fá spænska liðið Valencia í heimsókn á Old Trafford. Manchester United er í efsta sæti riðilsins fyrir 2. umferðina, er með 3 stig ásamt Juventus en betra markahlutfall. Valencia og Young Boys eru stigalaus.
Eftir síðustu 3 leiki hjá United væri mjög vel þegið að fá almennilega frammistöðu og góðan sigur. Það er líka mikilvægt upp á framhaldið í riðlinum því framhaldið í Meistaradeildinni á eftir þessum leik eru tveir leikir gegn ansi öflugu liði Juventus.
Fyrir þetta tímabil var leiktímum breytt, Manchester United þarf þó sem betur fer ekki að spila leiki í fyrra tímaslottinu í þessari riðlakeppni. Leikurinn hefst því klukkan 19:00 að íslenskum tíma. Dómarinn í leiknum heitir Slavko Vinčić og kemur frá Slóveníu.
Í hinum leik H-riðils eigast Juventus og Young Boys við og fer sá leikur fram á Ítalíu. Hann hefst klukkan 16:55 að íslenskum tíma.
Okkar menn
Það hefur oft viðrað betur um okkar lið en þessa dagana og sífellt bætast fleiri við í hóp þeirra stuðningsmanna Manchester United sem telja hag liðsins betur borgið með því að reka stjórann og það sem fyrst. Flestir gera sér þó sömuleiðis grein fyrir því að Mourinho er langt í frá eina vandamál liðsins þessi misserin og líklega ekki það stærsta.
En hvað um það, hann hefur ekki verið rekinn ennþá, allavega ekki þegar þetta er skrifað, svo hann þarf að reyna að finna leiðir til að lægja öldurnar og fá liðið til að spila fótbolta. Í það minnsta ná í úrslit.
Manchester United hefur spilað 9 fótboltaleiki á tímabilinu og náð í þeim í 4 sigra. Aðeins einn af þessum sigrum kom á Old Trafford, það var fyrsti leikur tímabilsins gegn Leicester City. Hinir þrír sigrarnir hafa komið á útivöllum á meðan árangurinn á Old Trafford er einn sigur, eitt tap og tvö jafntefli (þar af tapaðist annar af þeim í vítaspyrnukeppni).
Eftir að Ferguson hætti þá hefur Old Trafford einfaldlega ekki verið það vígi sem við vorum orðin vön. Hvorki Moyes, van Gaal né Mourinho hafa náð að gera völlinn að alvöru heimavelli. Mourinho komst næst því en ekki nógu nálægt, lið virðast einfaldlega ekki lengur smeyk við það að mæta á Old Trafford. Jafnvel er maður farinn að velta því fyrir sér hvort leikmenn United kunni einfaldlega betur við sig á útivöllum. Er heimavöllurinn jafnvel farinn að vera ógnvænlegri staður fyrir Manchester United en gestaliðin?
Marcos Rojo er enn meiddur og Mourinho talaði um það á blaðamannafundi í dag að Ander Herrera, Ashley Young og Jesse Lingard væru líka frá. Ég ætla að spá liðinu á þessa leið:
Þrátt fyrir að ég væri mjög til í að sjá Dalot fá sem flesta sénsa þá held ég að Valencia hafi verið hvíldur um helgina fyrir þennan leik. Það myndi þó gleðja mig mikið að hafa rangt fyrir mér með það því ég er ekki frá því að Dalot sé einfaldlega þegar orðinn besti möguleikinn okkar í hægri bakvarðarstöðuna. Hann er þó ungur og lítt reyndur svo það getur borgað sig að fara ekki of geyst með hann.
Hvernig mynduð þið vilja sjá liðið gegn Valencia?
Valencia CF
Valencia endaði í 4. sætinu í spænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Liðið náði í 73 stig og var 12 stigum á undan Villareal sem endaði í 5. sæti. Valencia var hins vegar 20 stigum á eftir meistunum í Barcelona en bara 3 og 6 stigum á eftir Real Madrid í 3. sæti og Atlético Madrid í 2. sætinu.
Valencia skoraði 65 mörk á tímabilinu, aðeins þrjú lið náðu að skora meira en Valencia á síðasta tímabili. Það voru Barcelona, Real Madrid og Real Sociedad. Þá fékk Valencia á sig 38 mörk en aðeins Barcelona, Atlético Madrid og Getafe fengu færri mörk á sig.
Upphaf þessa tímabils hefur þó verið strembið hjá Valencia, liðið hefur spilað 7 leiki í deildinni og aðeins náð í einn sigur. Liðið hefur á móti aðeins tapað einum leik en 5 hafa endað með jafntefli. Þessi 8 stig skila liðinu í 14. sæti sem stendur. Eini sigur liðsins kom þó í síðasta leik um síðustu helgi þegar liðið náði í 0-1 útisigur gegn Real Sociedad.
Sóknarmaðurinn Santi Mina er meiddur en allir aðrir ættu að vera tilbúnir í þennan leik. Valencia bætti við sig áhugaverðum sóknarleikmönnum í sumar og vonast til þess að þeir fari að detta í gang. Til þessa hefur enginn leikmaður liðsins náð að skora meira en 1 mark í deild og þeir náðu ekki að skora gegn Juventus í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni.
Uppstilling þeirra gæti verið á þessa leið:
Það eru þó spennandi valkostir í boði fram á við hjá Valencia. Þeir fengu til dæmis Gonçalo Guedes frá PSG í sumar og voru fyrir með hinn brasilísk-spænska Rodrigo Moreno sem gæti einnig spilað í sókninni. Rodrigo fæddist í Brasilíu en flutti ungur til Spánar og á nokkra landsleiki að baki með A-landsliði Spánar.
Fyrri viðureignir og fróðleiksmolar
Þetta verður í níunda skipti sem þessi lið mætast á fótboltavellinum. Nokkuð jafnræði hefur verið með liðunum heilt yfir en Manchester United hefur sögulega örlítið forskot. United hefur unnið 2 leiki, Valencia 1 en 5 hafa endað með jafntefli. Samanlögð markatala er 7-4, United í vil.
Fyrsta viðureign félaganna var í UEFA bikarnum tímabilið 1982-83. Þá kom Manchester United inn í þá keppni sem bronsliðið í ensku 1.deildinni tímabilið á undan, á meðan Valencia komst í keppnina á því að hafa endað í 5. sæti í spænsku deildinni.
Fyrri leikurinn fór fram á Old Trafford 15. september og endaði með markalausu jafntefli. Seinni leikurinn var spilaður á Mestalla Stadium miðvikudaginn 29. september. Þrátt fyrir að Bryan Robson kæmi United yfir þá dugði það ekki til því eftir að David Solsona jafnaði úr víti á 70. mínútu þá skoraði Roberto Fernández sigurmarkið fimm mínútum síðar. Þessi leikur var þó merkilegur fyrir þær sakir að Manchester United notaði í fyrsta skipti fleiri en eina skiptingu í sama leiknum. Fyrst kom Steve Coppell inn á fyrir Remi Moses, svo kom Lou Macari inn á fyrir miðvörðinn knáa, Martin Buchan. Buchan var þarna á síðustu metrunum á 12 tímabila ferli sínum með félaginu en hann átti aðeins eftir að leik 3 leiki til viðbótar fyrir félagið.
Valencia fór alla leið í fjórðungsúrslit UEFA bikarsins þetta tímabil en þar var félagið slegið út af verðandi Evrópumeisturum Anderlecht.
Næst lentu liðin saman í riðli í seinni riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 1999-2000. Manchester United hafði endað í efsta sæti í D-riðli, fyrir ofan Marseille, Sturm Graz og Croatia Zagreb á meðan Valencia hafði toppað F-riðil og skákað þar Bayern Munchen, Rangers og PSV Eindhoven. Í seinni riðlakeppninni enduðu þau í B-riðli ásamt Fiorentina og Bordeaux.
Fyrri leikur liðanna fór fram á Old Trafford miðvikudagskvöldið 8. desember 1999. Fyrir leik hafði United tilkynnt það að fyrirliðinn Roy Keane hefði skrifað undir framlengingu á samningi til 4 ára. Sá samningur tryggði Íranum 52.000 pund í vikulaun og sagði Roy Keane fyrir leik að hann væri virkilega ánægður með nýja samninginn því hann sýndi að Manchester United hefði metnað í að halda áfram að vera á toppi heimsfótboltans næstu ár. Hann hélt svo upp á nýja samninginn með því að skora fyrsta markið í 3-0 sigri á Valencia. Ole Gunnar Solskjær og Paul Scholes skoruðu hin mörkin.
Seinni leikurinn fór fram á Mestalla Stadium þriðjudaginn 21. mars 2000. Sá leikur endaði með markalausu jafntefli sem dugði báðum liðum því United endaði í 1. sæti riðilsins og Valencia í 2. sætinu. Manchester United mætti þó Real Madrid í 8-liða úrslitum og tapaði þeirri viðureign. Real Madrid fór svo alla leið í úrslitaleikinn þar sem liðið mætti einmitt Valencia. Valencia hafði unnið Lazio í 8-liða úrslitum og Barcelona í undanúrslitum en réð ekki við Raúl og félaga í Real Madrid í úrslitaleiknum.
Tímabilið á eftir var enn notast við þessa seinni riðlakeppni og aftur lentu Manchester United og Valencia saman í riðli á því stigi keppninnar. Í fyrri hlutanum hafði Manchester United endað í 2. sæti H-riðils, fyrir neðan Anderlecht en ofan PSV og Dynamo Kiev. Á meðan hafði Valencia unnið C-riðil nokkuð örugglega, gegn Lyon, Olympiacos og Heerenveen. United og Valencia lentu svo saman í A-riðli í seinni riðlakeppninni, ásamt Sturm Graz og Panathinaikos.
Fyrri leikur liðanna fór fram á Valentínusardaginn, 14. febrúar 2001. Sá leikur var spilaður í Valencia en hann endaði 0-0. Seinni leikurinn var spilaður á Old Trafford vikuna eftir það, 20. febrúar 2001. Andy Cole kom United yfir á 12. mínútu en Wes Brown skoraði sjálfsmark þegar 4 mínútur voru eftir af leiknum og hann endaði 1-1. Bæði lið enduðu seinni riðlakeppnina með 12 stig en Valencia endaði í 1. sætinu af því spænska liðið var með hagstæðari markatölu sem nam einu marki (10-2 á móti 10-3 hjá United). United féll svo úr leik gegn Bayern Munchen og aftur gerðist það að liðið sem sló United út úr 8-liða úrslitum fór í úrslitaleikinn og vann þar Valencia. Í þetta skipti hafði Valencia slegið út Arsenal og Leeds á leið sinni í úrslitaleikinn.
Síðast lentu þessi lið svo saman í riðli í Meistaradeildinni tímabilið 2010-11. Þá var búið að hætta með þessa seinni riðlakeppni svo það var ekki í boði en liðin mættust á þessu hefðbundna riðlakeppnisstigi eins og við þekkjum núna. Liðin voru þá saman í C-riðlinum ásamt Rangers og Bursaspor.
Fyrri leikurinn var spilaður á Mestalla Stadium 29. september 2010. Chicharito byrjaði þann leik á bekknum en kom inn á sem varamaður á 77. mínútu fyrir Anderson. Hann skoraði svo eina mark leiksins á 85. mínútu og tryggði United öll 3 stigin.
Seinni leikurinn fór svo fram á Old Trafford 7. desember. Pablo Hernández kom Valencia yfir á 32. mínútu með fyrsta markinu sem United fékk á sig í keppninni það tímabilið. Anderson jafnaði á 62. mínútu og leikurinn endaði þannig. United vann riðilinn með 3 stiga forskoti á Valencia. Í þetta skiptið var það Manchester United sem fór alla leið í úrslitaleikinn til þess að tapa honum, eftir að hafa slegið út Marseille, Chelsea og Schalke. Valencia hafði einmitt tapað fyrir Schalke í 16-liða úrslitum.
Fróðleikspunktar um viðureignina:
- Mourinho stýrði Real Madrid 10 sinnum gegn Valencia á sínum tíma. Real vann 6 leiki en hinir 4 enduðu með jafntefli.
- Juan Mata spilaði 129 leiki fyrir Valencia á árunum 2007-11 og skoraði í þeim 33 mörk. Hann hefur núna spilað 192 leiki fyrir United og skorað í þeim 40 mörk.
- Andreas Pereira var á láni hjá Valencia á síðasta tímabili. Þar spilaði hann 23 leiki og skoraði 1 mark. Hann hefur spilað 17 leiki fyrir aðallið Manchester United og skorað í þeim 1 mark.
- Eric Bailly hefur ekki spilað fyrir Valencia en hann spilaði hins vegar undir stjórn þjálfarans þeirra, Marcelino, þegar þeir voru báðir hjá Villareal 2015-16. Bailly var þar einnig samherji Denis Cheryshev, sem nú spilar fyrir Valencia.
- Ander Herrera spilaði 9 sinnum gegn Valencia þegar hann spilaði hjá Real Zaragoza og Athletic Bilbao, í þessum 9 leikjum fékk hann tvisvar rautt spjald.
Karl Garðars says
Takk fyrir flotta upphitun.
Ætla að sleppa mér aðeins hérna í bjartsýniskasti.
Scenario A. Okkar menn byrja af miklum krafti, Pogba fer að detta í grasið og tapa boltanum í tíma og ótíma, DDG ver nokkrum sinnum stórkostlega eftir ítrekuð heimskupör miðvarðanna annars vegar og þegar Matic missir boltann eftir að hafa reynt að sóla sig út úr hápressu mótherjanna hins vegar. Lukaku klúðrar 7 sitterum, Valencia nær ekki einni fyrirgjöf og leikurinn endar í steindauðu jafntefli.
De Gea maður leiksins.
Scenario B. Til þess að gera allt ofantalið nema að Fellaini neglir einum inn með krullunum og Tony V jafnar svo leikinn fyrir nafna sína.
Björn Friðgeir says
ef ég væri veðmálamaur myndi ég setja slatta á 1-1. Skrifað í skýin.
1-0 í hálfleik auðvitað
DMS says
Ég held að klefinn sé farinn…
https://www.mbl.is/sport/enski/2018/10/02/sumir_lita_ekki_ut_fyrir_ad_hafa_verid_ad_tapa/
Spái jafntefli. Sætið undir Móra hitnar enn meira…
Jón B says
Ástandið er orðið svo slæmt að það er ekki uppselt á leikinn í kvöld. Þegar stuðningmenn eru hættir að borga sig inn á leikinn, er stutt í að eitthvað gerist.
https://www.fotbolti.net/news/02-10-2018/ekki-ordid-uppselt-a-old-trafford-i-kvold
Timbo says
Það er auðvitað leiðinda mál að fylla ekki völlinn á CL kvöldi. Það er hins vegar löngu tímabært að meðvirknin á Old Trafford taki enda.
Nú er tvennt í stöðunni fyrir liðið. Halda áfram að vorkenna sjálfum sér og furða sér á neikvæðni, eða mæta almennilega til leiks og sýna vinnuveitandanum og aðdáendum þá virðingu að vinna fyrir kaupinu sínu.
Hópurinn er ekki nógu góður og stjórinn er búinn á því. Ég sá það strax í júlí… eina sem ég bið um er fokking vinnuframlag í 90 mín.
Ingvar says
Verður því miður engin breyting á neinu, verður 0-1 tap. Verður alls ekki Móra að kenna, giska að það verði skrifað á dómarann sem dæmdi vitlaust innkast 5 mínútum fyrir mark Valencia. Við verðum í öðru sæti í allri tölfræði kvöldsins hvort sem það er possesion eða færi.
En með öðrum orðum þá bara gríðarlega bjartsýnn og jákvæður fyrir þessum leik.
Glory Glory
gummi says
Þá átti að reka Móra strax eftir Sevilla leikinn þá var hann búinn sem stjóri united