Áður en við byrjum á upphituninni minni ég á djöflavarp gærdagsins
Þetta hefur verið spennandi landsleikjahlé að því leyti að síðustu fjörutíu og fimm mínúturnar sem United lék gáfu einhver fyrirheit um að blaðinu hefði verið snúið og að United ætti möguleika á að komast upp úr lægðinn sem liðið hefur verið í.
Það er ekki langt að bíða þess að það komi alvöru prófsteinn á þær vonir: Fyrsti leikurinn í deildinni eftir hléið er einmitt hádegisleikur Manchester United og Chelsea á Stamford Bridge.
Chelsea mætti til leiks í haust með nýjan stjóra, Maurizio Sarri sem hafði næstum því gert Napoli að ítölskum meisturum, og nýjan miðjumann með honum frá Napoli, Jorginho.
Sarri er það þekktur fyrir leikaðferð sína að hún hefur verið kölluð Sarriball. Í stystu máli gengur hún út á að halda boltanum með stuttu, snöggu spili og hröðum breytingum í sókn. Vörnin pressar hátt upp á vellinum og lokar sendingarleiðum. Varnarmenn eiga að vera lykill að sóknaruppbyggingunni og halda boltanum sín á milli áður en sótt er hratt upp. Jorginho hefur einmitt verið lykill í þessari spilamennsku sem aftasti maður á miðjunni og er nú þegar ´buinn að brjóta sendingametið í úrvalsdeildinni tvisvar í haust. sem sýnir að hann fær boltann gríðar oft en gefur hann jafnharðan frá sér.
Það er víst alveg óhætt að segja að það hafi ekki tekið Chelsea langan tíma að aðlagast þessum breytingum, liðið hefur unnið sex leiki og gert tvö jafntefli og situr í öðru sæti deildarinnar með tuttugu stig. Eden Hazard hefur verið frábær í haust og sýnt að hann er besti leikmaðurinn í deildinni, og er markahæstur að auki. Eini nýi leikmaðurinn sem kom í sumar fyrir utan Jorginho er Mateo Kovacic og hann hefur víst staðið sig ágætlega. Chelsea er því sem næst laust við meiðsli, aðeins varnarmaðurinn Antonio Rüdiger er eitthvað meiddur. liðið verður svona:
Fyrir lesendur úr framtíðinni er víst rétt að benda á að United er í áttunda sæti, með fjórtán stig eftir fjóra sigra, jafntefli og þrjú töp.
Leikurinn á morgun verður því afskaplega erfiður okkar mönnum. Ef við skoðum liðið sem lék mestallan seinni hálfleikinn gegn Newcastle þá var það kannske einhvern veginn svona, með Pogba mjög djúpan á miðjunni, meira 3-1-3-3
Mjög óvíst er hvort Matić geti leikið, Fellaini spilaði ekki með Belgum, að vísu að sögn vegna smávægilegra meiðsla og Luke Shaw sem fékk risastóran nýjan samning í gær er líka eitthvað hnjaskaður. Scott McTominay og Ander Herrera eru líka ólíklegir og það er enn vika í Lingard. Ég þori því varla að spá liði, en býst við að það verði varnarsinnað. Smalling og Bailly í miðju varnarinnar, Valencia kemur inn aftur og Pogba, Matić og Fellaini verða allir á miðjunni ef mögulegt er. Fær Rashford séns eftir góða frammistöðu með Englandi? Martial og Sánchez eiga það alveg skilið að byrja á morgun.
Eins frábært það var að sjá hraðan sóknarbolta gegn Newcastle þá er það afskaplega lítil von á morgun, hápressa andstæðinganna leiðir yfirleitt til þess að Mourinho leggur áherslu á að verjast á móti og leyfa andstæðingunum að hafa boltann. Það hentar auðvitað Chelsea vel líka, og má alveg eins búast við nýju sendingameti Jorginho (núverandi er 180, ef þið ætlið að telja). Ef þetta er helst til svartsýnt, þá held ég að ég sé ekkert einn um það. Ég vona hins vegar að ég reynist ekki sannspár, það væri fátt betra fyrir stemminguna en að fara á Stamford Bridge og ná sigri, sem yrði þá sá fyrsti þar undir stjórn Mourinho.
Hvað um það, ég er spenntur, og vona sem fyrr segir það besta. Liðið getur þetta og stjórinn getur þetta. Leikurinn er kl 11.30 í fyrramálið!
Halldór Marteins says
Það verður mjög áhugavert að sjá uppleggið hjá Mourinho gegn Chelsea. Það er pressa á honum, þetta er erfiður útivöllur (sem hefur verið extra erfiður okkar mönnum síðustu ár) og lið sem er að spila vel.
Yfirleitt myndi maður trúa honum mest til að spila upp á það fyrst og fremst að tapa leiknum ekki. En miðað við stöðuna núna þá eiginlega verður hann að spila til sigurs.
Tveir aðalmennirnir til að pæla í hjá Chelsea eru augljóslega Hazard og Jorginho. Kæmi mér lítið á óvart ef við sæjum leikmenn sem fengju sérstök hlutverk að hafa gætur á þessum mönnum og trufla þá við hvert tækifæri. Verst að hafa ekki tvo leikfæra Herrera núna.
Það þarf þó líka að huga að því að koma boltanum í netið, hafa einhverja markvissa hugmynd um það hvernig liðið á að gera það. Draumastaðan væri líklega að skora mark og geta svo sest aftur, lokað sendingarleiðum fram á við og látið þetta Chelsea lið líta út eins og United þegar van Gaal stýrði því. Hægara sagt en gert, vissulega.
FRED says
Mér líst ekkert á þennan leik. Það segir sitt um ástand liðsins að ekki nokkur maður getur spáð fyrir um byrjunarliðið með einhverri vissu, það vantar alla festu.
Vonandi verður þetta ekki niðurlægjandi tap þar sem Chelsea yfirspila okkur, sigra okkur 2-0 og eru 75% með boltann. Þá hætti ég þessari vitleysu og fer einungis að horfa á kvenna liðið okkar.
GGMU
Runar P. says
Hvar er O’shea núna?