Manchester United hefði svo mikið þurft að ná í þrjú stig í síðasta deildarleik, það verður alltaf strembnara og strembnara að komast í baráttu um Meistaradeildarsæti, hvað þá meira. Liðið náði vissulega að halda hreinu, sem gerist alltof sjaldan, en það var því miður of andlaust fyrir framan mark andstæðinganna, eitthvað sem gerist of oft.
En nú er komið að öðrum leik í annarri keppni. Eftir frábæran sigur á stórliði Juventus á erfiðum útivelli í síðustu umferð er Manchester United komið í kjörstöðu að komast upp úr riðlinum og vera jafnvel búnir að tryggja það fyrir lokaumferðina. Það væri ljómandi fínt því ekki aðeins er lokaleikurinn útileikur gegn Valencia heldur kemur hann inn á milli stórleikja í deildinni í desember. Það myndi því muna miklu að geta sparað orku og hvílt leikmenn í þeim leik.
Andstæðingurinn í þessum leik er Young Boys frá Bern, leikurinn verður annað kvöld, klukkan 20:00, og dómarinn í leiknum verður Þjóðverjinn Felix Brych.
Manchester United
Það voru alls ekki góðar fréttir að sjá Lindelöf klára leikinn gegn Crystal Palace hálfpartinn á annarri löppinni. Haldandi um lærið á sér og haltrandi en náði samt sem áður að sýna virkilega góða takta í vörninni. Hann hefur tekið miklum framförum upp á síðkastið og var til dæmis frábær í útileiknum gegn Juventus. Virkilega mikil synd að missa hann út í einhvern tíma. Hvað pjúra knattspyrnuhæfileika snertir er hann líklega besti miðvörður liðsins, allavega þegar hann finnur sig vel.
Það er þá spurning hvort Mourinho noti tækifærið og hvíli Chris Smalling fyrst hann þarf hvort sem er að rótera hjá miðvarðaparinu. Ekki getur hann reyndar notað Marcos Rojo, sá piltur er meiddur sem eru með ó-óvæntustu fréttum ársins. En það mætti nota þá Phil Jones og Eric Bailly. Annar þeirra þarf að vinna sér stöðu við hlið Chris Smalling í aðalvarnarlínu liðsins.
Luke Shaw var saknað í sóknaruppbyggingunni gegn Crystal Palace, hann má endilega detta aftur inn í liðið. Svo er spurning hvort fyrirliðinn Valencia haldi áfram að vera úti í kuldanum eða fái að spila eitthvað í þessum leik. Persónulega er ég mun spenntari fyrir því að leyfa Diogo Dalot að fá mínútur í þessum leik en við sjáum hvað Mourinho gerir.
Það bara hlýtur, hlýtur, hlýýýýýtur að vera hægt að hvíla Nemanja Matic í þessum leik. Ég trúi ekki öðru. Væri mjög til í að sjá Fred á miðjunni, jafnvel Pereira líka. Ander Herrera gæti líka verið þarna. Nú, eða góðvinur þáttarins, belgíska undrið Marouane Fellaini. Er ég sá eini sem sakna Fellaini-afrósins? Það snýr vonandi aftur áður en kappinn yfirgefur félagið, eða leggur skóna á hilluna, miklu meira swagger yfir fróinu.
Ætla að spá því að byrjunarliðið verði á þessa leið:
Það væri líka fínt að spila t.d. Alexis Sánchez upp á topp, reyna enn einu sinni að blása lífi í hans spilamennsku hjá Manchester United.
Young Boys
Við fórum nokkuð vel yfir Young Boys í upphitun fyrir fyrri leik liðanna í riðlinum. Sá leikur endaði með öruggum sigri Manchester United, þar sem Dalot vakti hvað mesta lukku. En kíkjum á hvað Young Boys hafa verið að gera síðan þá.
Young Boys heldur áfram að sigla yfir svissnesku úrvalsdeildina, eru núna með 16 stiga forskot eftir 15 umferðir. Liðið hefur unnið 13 leiki, gert 1 jafntefli og tapað aðeins einum. Markatalan þeirra er sömuleiðis sú langbesta, 47 mörk skoruð í 15 leikjum en aðeins 16 fengin á sig. Liðið á líka 2 af 4 markahæstu leikmönnum deildarinnar. Guillaume Hoarau er næst markahæstur með 10 mörk, einu á eftir Dejan Sorgic úr Thun. Jean-Pierre Nsame er svo í fjórða sætinu í deildinni með 7 mörk. Young Boys á líka 5 leikmenn sem hafa skorað 4-6 mörk í deildinni.
Young Boys á líka stoðsendingakóng deildarinnar, Serbinn Miralem Sulejmani hefur gefið 9 stoðsendingar í þeim 14 deildarleikjum sem hann hefur spilað. Roger Assalé er næstur hjá Young Boys, með 5 stoðsendingar. Þeir Thorsten Schick og Sékou Sanogo hafa svo báðir gefið 4 stoðsendingar og bakverðirnir Kevin Mbabu og Loris Benito hafa báðir gefið 3 stoðsendingar í deildinni.
Þeim hefur ekki gengið alveg jafn vel í Meistaradeildinni og í deildinni heima fyrir. Liðið hefur tapað 3 leikjum af fjórum og fengið á sig þrjú mörk í þeim öllum. Fyrst var það 3-0 tap á heimavelli gegn okkar mönnum, svo kom 0-3 tap gegn Juventus í Tórínó áður en þeir náðu reyndar í gott 1-1 jafntefli gegn Valencia á eigin heimavelli. Mjög gott fyrir okkur. En þeir fylgdu því eftir með 1-3 tapi gegn Valencia á Spáni. Svissneska liðið náði reyndar að jafna þann leik í 1-1 en það dugði þó ekki. Liðið hefur því misst endanlega af tækifærinu til að komast upp úr riðlinum en á þó enn séns á að komast í Evrópudeildina eftir áramót.
Í þessum leik verður Young Boys án Sékou Sanogo en hann fékk rautt spjald gegn Valencia, annar leikmaður Young Boys til að fá rautt spjald í þessum 4 leikjum sem liðið hefur spilað í H-riðli Meistaradeildarinnar. Að auki er þeirra hættulegasti sóknarmaður, Réunionmaðurinn Guillaume Hoarau, tæpur vegna meiðsla. Munar töluvert um það ef hann nær leiknum ekki.
Það er reiknað með að þeir stilli upp byrjunarliði í þessa áttina:
H-riðillinn
Staðan í riðlinum fyrir 5. umferðina er svona:
- Juventus – 9 stig
- Manchester United – 7 stig
- Valencia – 5 stig
- Young Boys – 1 stig
Á sama tíma og United tekur á móti Young Boys munu Juventus og Valencia eigast við í Tórínó. Ef Juventus og United vinna sína leiki þá eru bæði lið komin áfram.
Skildu eftir svar