Fyrir leik bárust þær fréttir að Anthony Martial væri ekki einu sinni í leikmannahópnum fyrir þennan leik. Af gömlum vana fóru einhvers staðar í gang vangaveltur um mögulegt ósætti en skýringin reyndist vera að Martial hafði veikst um jólin. Solskjær sagðist þó bjartsýnn á það að hann yrði búinn að jafna sig fyrir leikinn gegn Bournemouth um helgina.
Solskjær gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu og gaf hinum unga og bráðefnilega Angel Gomes tækifæri til að upplifa aðalliðsbolta með því að setjast á bekkinn. Byrjunarlið Manchester United í leiknum var svona:
Varamenn: Romero, Bailly, Young (fyrir Dalot á ’54), Herrera (fyrir Fred á ’54), Pereira, Fellaini, Gomes (fyrir Mata á ’80).
Gestirnir frá Huddersfield stilltu upp þessu byrjunarliði:
Varamenn: Mounie, Quaner, Löwe, Bacuna, Stankovic, Hamer, Hogg.
Dómarinn í leiknum var Jonathan Moss.
Leikurinn sjálfur
Það var mikil og góð stemning á Old Trafford þegar leikurinn byrjaði. Áhorfendur höfðu sérstaklega gaman af því að syngja hina ýmsu söngva um Ole Gunnar Solskjær. Þegar leikurinn byrjaði var áberandi að bakverðir liðsins héldu því áfram sem hafði verið svo áberandi í leiknum gegn Cardiff og voru duglegir að koma hátt upp á völlinn. Matic og Fred áttu svo að sitja aftast af miðjumönnunum og gefa Pogba færi á að spila framar, meira 4-2-3-1 en 4-3-3.
Huddersfield sýndi strax í byrjun að liðið var ekki mætt í þennna leik bara til að verjast heldur vildi líka reyna að nýta sín færi til að sækja fram á við. Gestirnir voru þó líka vissulega með skýrt upplegg um það hvernig þeir ætluðu að verjast svo þegar United náði yfirhöndinni á boltanum þá tók við þolinmæðisverk að finna glufur á vörninni hjá Huddersfield.
Huddersfield minnti þó á sig strax á 10. mínútu þegar liðið fékk hættulegt færi stutt frá marki eftir langt innkast en skotið var yfir markið.
Eins og svo oft áður síðustu vikur og mánuði fór mestur hluti sóknarleiks Manchester United upp vinstri kantinn. Dalot var mjög duglegur að keyra fram völlinn hægra megin en samherjar hans voru ekki eins duglegir að finna hann framan af. Solskjær reyndi ítrekað að benda þeim á Portúgalann unga og vildi greinilega að United nýtti báða kantana í sóknaruppbyggingu sinni.
Það sem var hins vegar áberandi var hversu mikið meiri hreyfing var á leikmönnum en við höfðum fengið að venjast fyrir stjóraskiptin. Það var eitt af því sem gerði leikinn gegn Cardiff svona skemmtilegan áhorfs og það virðist ætla að halda áfram. Það var þó ekki að skila sér í marktilraunum til að byrja með, eftir 25 mínútna leik var United aðeins komið með 2 tilraunir, báðar frekar laus langskot sem Lössl í marki Huddersfield lenti ekki í neinum vandræðum með.
Stuttu eftir það fékk United aukaspyrnu á hættulegum stað. Pogba tók þá aukaspyrnu, setti skotið í varnarvegginn og aftur fyrir í horn. Lindelöf átti þá frábært hlaup á nærstöngina, boltinn fór af varnarmanni og að marki en var varinn þar út í teig. Þar lúrði Nemanja Matic hins vegar á fjærstönginni og skoraði auðveldlega. Glæsilega gert og sérstaklega vel unnið hjá Viktor Lindelöf þarna. Það er virkilega gaman að sjá Svíann spila með svona mikið sjálfstraust eins og hann hefur verið að sýna upp á síðkastið. Matic gerði líka mjög vel að fylgja þessu svona eftir.
Huddersfield var ekki lengi að minna aftur á sig eftir markið. Þeirra hættulegustu vopn á tímabilinu hafa verið föstu leikatriðin, ekki síst löngu innköstin. Þeir voru næstum búnir að skapa sér annað gott færi eftir eitt slíkt strax eftir markið en United hélt svo áfram að byggja sóknarþunga sinn eftir það. Miklu skemmtilegra að sjá liðið þegar það er svona mikil áræðni í því og það kemur líklega ekki á óvart en Pogba virtist njóta sín mun betur í þessari rullu sem hann fékk þegar hann hafði meira frjálsræði í að sækja fram á við og reyna að opna fyrir samherja sína. Fyrir aftan hann voru Matic og Fred að ná nokkuð vel saman.
Það var líka bara meiri gleði í spilamennskunni. Marcus Rashford er einn þeirra sem kemur alltaf með mikil hlaup og vinnusemi, hann virðist hafa fundið aukagíra eftir að Solskjær tók við liðinu. Þegar um 6 mínútur voru eftir af hálfleiknum var hann kominn á vinstri kantinn, sólaði þar andstæðing með góðum kloppa og átti svo flotta fyrirgjöf inn að marki með vinstri. Þar var hægri bakvörðurinn Dalot kominn á fjærstöngina, tók boltann á lofti en því miður setti hann skotið rétt framhjá. Hefði orðið stórkostlegt mark ef þessi hefði dottið inn. Verulega gaman að sjá svona spilamennsku. Rashford var ekki einu sinni hættur í hálfleiknum, stuttu seinna var hann kominn á hægri kantinn, brunaði inn að vítateigshorninu og lét vaða þar en rétt framhjá.
Huddersfield komu sprækir inn í seinni hálfleikinn og voru nálægt því að búa sér til dauðafæri. Það vantaði hins vegar herslumuninn á að þeir næðu því, sem betur fer. Solskjær brást við þessu með því að öskra skipanir á sína menn og sendi svo Ander Herrera og Ashley Young inn á völlinn fyrir Fred og Dalot strax á 54. mínútu. Wagner svaraði því með því að setja inn Löwe fyrir Kachunga stuttu síðar og breytti aðeins uppstillingunni á Huddersfield-liðinu.
Skiptingarnar virtust ætla að færa United aftur yfirhöndina í leiknum. Huddersfield náðu þó góðri hornspyrnu þegar klukkutími var liðinn af leiknum, sendu fastan jarðarbolta út í teig þar sem Depoitre mætti honum og skaut fínasta skoti í fjærhornið en David de Gea tók frábæra markvörslu og bjargaði þarna jöfnunarmarki.
Nokkrum mínútum síðar hófst frábær sókn sem byrjaði með útsparki frá De Gea. Hann fann Rashford framarlega á vellinum sem tók boltann vel niður og fann samherja. United þræddi sig síðan upp hægri kantinn þar sem Mata, Young, Rashford og Herrera tóku allir þátt. Mata komst upp að endamörkum og gaf þar út á Herrera sem endaði á að finna Paul Pogba í vítateignum. Pogba var yfirvegaður og skoraði með þéttingsföstu innanfótarskoti. Frábær sókn!
Eftir markið var eins og slokknaði aðeins á Huddersfield og United tók öll völdin. Wagner setti Mounie inn á til að reyna að hressa aðeins upp á sína menn en það dugði skammt. United spilaði með áræðni og sjálfstrausti, sóknarlínan hélt áfram að hlaupa fyrir framan sprækan Paul Pogba og það sást langar leiðir að þeir skemmtu sér vel.
Á 78. mínútu fékk Paul Pogba boltann vel fyrir utan teig. Í stað þess að leita að álitlegum hlaupum frá Lingard, Rashford og Mata þá lét hann einfaldlega vaða með flottu langskoti og boltinn söng í netinu. Stórgott skot og Pogba svo sannarlega að sýna hvað í hann er spunnið þegar hann fær frelsi til að spila sinn fótbolta. Glæsilegt!
Viðbrögð Solskjær við þessu þriðja marki voru einnig frábær, hann notaði tækifærið og setti Angel Gomes inn á fyrir Juan Mata. Mata hafði verið frábær í leiknum og það var verulega gaman að sjá unga strákinn Gomes fá heilar 10 mínútur til að sýna sig fyrir framan syngjandi Old Trafford.
Á 88. mínútu fékk Huddersfield þó eitt sárabótarmark. Þá átti liðið aukaspyrnu aftarlega á vinstri kanti. Gáfu háan bolta inn í teiginn, Jones tapaði þar skallaeinvígi gegn Quaner og Herrera missti af Zanka á fjærstönginni sem skoraði af stuttu færi. Klaufalegt mark hjá United.
Angel Gomes sýndi þó nokkra góða takta á vinstri kantinum og átti meðal annars marktilraun í uppbótartíma en hún var nokkuð beint á Lössl í markinu. Leikurinn kláraðist svo með öruggum sigri United og áhorfendur á Old Trafford héldu áfram að syngja.
Pælingar eftir leik
Næsti leikur liðsins er strax á sunnudaginn. Það er annar heimaleikur, í þetta skiptið gegn Bournemouth. Bournemouth var að enda við að tapa stórt gegn Tottenham í London svo þeir verða líklega í gír til að bæta fyrir þann leik. Við munum vonandi sjá Martial snúa aftur í liðið. Á meðan liðið okkar spilar svona skemmtilegan og áhugaverðan sóknarbolta munu okkar bestu sóknarmenn án efa vera spenntir fyrir því að komast í byrjunarliðið og taka þátt í skemmtuninni.
Hvílík umbreyting á Paul Pogba. Allt annað að sjá hann í þessum ham. Ekki að þetta hafi svosem verið sérstaklega óvænt, þetta er það sem flest stuðningsfólk Manchester United hefur verið að kalla eftir. Það verður áhugavert að sjá bæði hvernig Solskjær leysir úr því þegar Alexis Sánchez verður orðinn heill af meiðslunum, hvort það verði vandamál að koma honum og Pogba fyrir í sama liðinu eða hvort það verði bara tvöföld skemmtun. Og svo verður einnig áhugavert að sjá hvernig Solskjær mun láta Pogba spila þegar andstæðingurinn verður mun sterkari en Cardiff og Huddersfield.
Lindelöf heldur áfram að heilla mig. Jones átti fínan leik í dag en að mínu mati er Lindelöf búinn að vera að stíga upp sem besti miðvörður United og hefur haldið því áfram eftir að Solskjær kom inn. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut.
Juan Mata var stórkostlegur. Hann og Pogba stjórnuðu þessum leik og með hlaupagikkina Lingard og Rashford með sér þá var það alltaf að fara að virka vel. Rashford var líka virkilega öflugur í leiknum og Lingard vann vel fyrir liðið eins og alltaf. Það var sérstaklega gaman að sjá United enda leikinn með fremstu mennina Rashford, Lingard, Gomes og Pogba. Allir voru þeir jú í unglingastarfinu hjá Manchester United.
Maður leiksins:
Paul Pobga
Sindri H. says
Martial ekki í hóp. Er komið upp ósætti milli hans og stjórans?
Halldór Marteins says
Martial er veikur. Solskjær segist bjartsýnn á að hann nái leiknum gegn Bournemouth um helgina
egillG says
Fred er ekki alveg í leikformi,hann verður betri eftir nokkra leiki fínt að hann fái sirka 60mins,
Mata soldið hægur,greinilega annar kostur á eftir Martial.
En mikið djöfulli er gaman að sjá Rashford hvað er hraður og flottur, Dalot klaufi að nýta ekki færið sitt. Það er bara gaman að horfa á united spila
gummi says
Var ekki hægt að skipta um stjóra fyrr
Runar P says
65% með boltann (35% meira en Móri hafði haft samanlagt í vetur) og 10 skot á rammann, sem er örugglega líka meira en Móri náði það sem er af tímabili?
Smaðurinn says
Allt annað lið undir Óla frænda en gamla Móra.
MSD says
Ótrúlegur munur á hugarfari. Þegar menn vinna boltann er farið strax af stað í hraðar sóknir og bakverðirnir koma upp og teygja á andstæðingnum. Maður sér greinilegan áherslumun þegar kemur að þessu, menn fá að sækja og reyna hluti í sókninni. Sókn er besta vörnin…sérstaklega ef varnarmennirnir eru ekkert sérstakir :D
Tony D says
Þvílík breyting á liðinu og gaman að horfa á liðið spila aftur. Það er allt of snemmt að dæma Óla en hann lofar mjög góðu. Það hafa allir stigið upp og greinilegt að menn ætla að berjast upp á líf og dauða um framtíð sína í liðinu. Lukaku er örugglega ekki að fara að fleygja Rashford á bekkinn og gaman að sjá hvernig Alexis kemur eftir meiðslin og hvort hann nái að hressa sig við. Það bjó miklu meira í liðinu en það sýndi undir stjórn Móra og gaman að síðustu tveir leikir hafa verið skemmtilegir áhorfs.
Það er gaman að sjá Gomes fá sénsinn og menn voru heilt yfir mjög flottir í dag. Lindelöf er að spila mjög flottan bolta, Dalot er frískur sóknarlega og sannarlega mikið efni og nú er Fred að stíga upp og sína hvað hann getur.