Þá er komið að fyrsta leik okkar í FA-bikarnum en að þessu sinni hefjum við leika með hádegisleik gegn hinum konunglegum í Reading (e. the Royals). Leikurinn fer fram á Old Trafford og má búast við því að Ole Gunnar Solskjær komi til með að nýta þennan leik til að leyfa þeim, sem fáar mínútur hafa fengið á vellinu, að spreyta sig. Þessi lið mættust í þriðju umferð FA-bikarsins fyrir tveimur árum síðan en þá vann United afgerandi sigur með fjórum mörkum gegn engu, sem voru í boði Wayne Rooney, Anthony Martial og Marcus Rashford (2).
Tölfræðin er sannarlega okkar mönnum í hag en af þeim 14 skiptum sem liðin hafa mæst í þessari keppni hefur United einungis tapað einu sinni en það var árið 1927. Raunar hafa United ekki tapað fyrir Reading í síðustu 16 viðureignum þessara liða í öllum keppnum. Ole Gunnar Solskjær lítur því eflaust á þetta sem kjörið tækifæri fyrir unga og efnilega leikmenn til að sýna hvað í þeim býr.
Reading
Reading F.C. eru sem fyrr segir þekktir sem „the Royals“ en það viðurnefni hafa þeir fengið eftir staðsetningu Reading sem er í Royal County of Berkshire. Liðið spilar á Madejski leikvangnum en hann tekur rúmlega 24.000 manns í sæti og verður seint talinn eitthvað slor og sæmir þeim konunglegu einkar vel. Það sama verður hins vegar ekki sagt um liðið eða spilamennsku þeirra því fátt þar getur talist mjög hefðarlegt eða sæmandi viðurnefni liðsins.
Reading eru í bullandi vandræðum en þeir sitja sem stendur í næstneðsta sæti Championship deildarinnar með 20 stig eftir 26 leiki. Í fyrra enduðu þeir í 20. sæti og rétt björguðu sér frá falli. Þá eru búnir að tapa 3 af síðustu 5 leikjum sínum, gegn Derby County, Nottingham Forrest og Bolton Wanderers og verður að segjast eins og er að Manchester United er talið mun líklegra liðið, sérstaklega í ljósi velgengni þess norska á undanförnum dögum.
Stjóri liðsins, José Manuel Gomes, tók við liðinu þann 22. desember síðast liðinn af bráðabirgðastjóranum Scott Marshall en þar áður hafði Gomes verið að þjálfa í Sádí Arabíu og Ungverjalandi. Honum hefur þó ekki tekist að rétta við skútuna en Reading stefnir hraðleið niður í c-deildina enda hefur portúgalanum ekki enn tekist að vinna leik.
Þó að íslenskir stuðningsmenn United þekki ekki marga innan raða liðsins þá ættu þeir flestir ef ekki allir að þekkja Jón Daða Böðvarsson, en framherjinn frá Selfossi hefur skorað 7 mörk fyrir Reading það sem af er tímabilinu og er þeirra markahæsti maður. Annar leikmaður sem einhverjir kannast eflaust við er varnarmaðurinn Tyler Blackett sem var á mála hjá United til 2016 þegar hann var seldur til liðsins.
Annar fyrrum United maður leynist líka í herbúðum Reading en það er hinn 37 ára gamali John O‘Shea sem spilar sem miðvörður eftir að hann kom frá Sunderland sem eins og flestum er kunnugt tóku hraðlestina niður í c-deildina. Fyrir þá sem ekki hafa horft á „Sunderland ‘till I die“ þáttaröðina á netflix þá mælir undirritaður eindregið með því sjónvarpsefni til að drepa tímann.
United
Þar sem erfitt getur reynst að spá fyrir um hugsanlega uppstillingu liðsins í FA-bikarnum gegn andstæðing sem undir venjulegum kringumstæðum ætti ekki að veita United of mikla samkeppni (á blaði) þá ætla ég frekar að tala um þá leikmenn sem ég vil sjá í leiknum á morgun og hverja ekki. Ef við byrjum á því að ræða um þá leikmenn sem ég vil síður sjá í leiknum á morgun með það fyrir augum að halda þeim frá meiðslum fyrir Tottenham viðureignina þá mætti Ole Gunnar Solskjær hvíla menn eins og Romelu Lukaku, Anthony Martial, Nemanja Matic og David de Gea. Hvort sú verður raunin verður svo bara að koma í ljós. En þá að þeim sem undirritaður vill sjá fá mínútur á vellinum gegn Reading.
Andreas Hugo Hoelgebaum Pereira, en hann heillaði marga með frammistöðu sinni á undirbúningstímabilinu og væri eflaust mjög gaman að sjá þennan tekníska brassa fá meira spilatíma, sérstaklega eftir að liðið var leyst úr portúgölsku álögunum. Pereira er yfirvegaður á boltanum og á fullt erindi í aðalliðið í leikjum eins og þessum.
José Diogo Dalot Teixeira, en þessi strákur átti frábæran leik gegn Young Boys í Meistaradeildinni, fyrr í vetur og hefur heillað marga með sóknarþekjandi hugarfari og áræðni. Einungis 19 ára en greinilega mikið efni enda fasta maður í yngri landsliðum Portúgals og vann meðal annars Evrópumót u-17 liða árið 2016.
Frederico Rodrigues de Paula Santos, þessi miðjumaður sem var keyptur til liðsins á um 50 mill evra hefur fengið gríðarlega lítinn tíma á vellinum en José Mourinho sagði að það væri vegna þess að hann gæti ekki treyst vörninni. Brassinn kemur með bæði tækni og snerpu og væri tilvalinn valkostur ætli Ole sér að hvíla eitthvað af þessum vanamönnum á miðjunni hjá okkur.
Adilson Angel Abreu de Almeida Gomes. Þessi smávaxni 18 ára gamli strákur hefur verið hjá United frá 2006, eða frá 6 ára aldri. Sóknarmiðjumaður sem hefur staðið sig gífurlega vel með yngri liðum United en hann er mjög skapandi og með góða tækni og hefur stundum verið líkt við Paul Scholes vegna leikskilnings hans. Hann hefur þó ekki fengið nema 9 mínútur það sem af er af þessu tímabili en vonandi förum við að sjá meira af ungstirninu.
Þá er einungis eftir að nefna einn leikmann, sem pottþétt mun taka einhvern þátt í leiknum á morgun eftir að Ole Gunnar Solskjær sagði það opinberlega að hann ætti að undirbúa sig fyrir þennan leik því hann myndi koma við sögu í bikarleiknum. Það er Mason Greenwood sem er gjörsamlega búinn að fara hamförum með yngri liðum United á síðustu misserum.
Þessi 17 ára leikmaður byrjaði sem miðjumaður en var færður framar og spilar nú sem framherji en hann er með 17 mörk í 17 leikjum fyrir United. Hann var markahæstur í u-17 Úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð jafnvel þótt hann væri tveimur árum yngri en þeir elstu í þeirri deild. Þó að hér sé auðvitað um yngri flokka að ræða þá er mark að meðaltali í leik í 17 leikjum alls ekki slæm tölfræði og verður gaman að sjá hvort unglingurinn hafi heillað Ole nógu mikið til að öðlast byrjunarliðssæti.
Annars er það að frétta af hópnum hjá United að Smalling, Rojo og McTominay eru allir meiddir og Eric Bailly í leikbanni eftir eina sirkustæklingu. Alexis Sanchez kom inná í leiknum gegn Newcastle og sömuleiðis Romelu Lukaku en báðir áttu stóran þátt í sigri liðsins, líklega koma þeir eitthvað við sögu í leiknum þó þeir verði kannski ekki í byrjunarliðinu.
Ole Gunnar Solskjær á góðar minningar úr viðureignum gegn Reading en þann 30. desember 2006 skoraði hann gegn þeim í 3-2 sigri en við vonum að hann haldi áfram að safna góðum minningum um þær með því að sigra í fyrsta bikarleik sínum sem knattspyrnustjóri Manchester United og jafni þar með met Matt Busby (sem vann fyrstu 5 leiki sína með Manchester United – í deild og bikar).
Leikurinn hefst stundvíslega kl 12:30 en dómari í leiknum er Stuart Attwell sem var líka á flautunni þegar United tapaði fyrir Derby County fyrr á þessari leiktíð en nú eru aðrir tímar! Glory, glory!
Guðmundur J says
Ég segi að þetta verði liðið.
Romero:
Dalot – Jones – Lindelof – Darmian:
Fellaini – Pereira – Fred:
Lingard – Lukaku – Gomes
Bekkur: Grant, Rashford, Greenwood, Herrera, Sanchez, Young, Mata.
Karl Garðars says
Hvar er Tahith Chong?