Í dag tók Manchester United á móti Reading á Old Trafford með mikið breyttu liði í fyrsta FA-bikarleik okkar á þessu tímabili. Leikurinn fór mjög hægt af stað og bæði lið virtust vera varkár en það voru gestirnir sem voru mun meira með boltann fyrstu 10 mín.
Ekki beint sú byrjun sem hvað flestir áttu von á en fyrsta alvöru færið leit ekki dagsins ljós fyrr en á 16. mínútu þegar United spilaði gífurlega skemmtilega saman, Fred, McTominay, Lukaku og Sanchez sem endaði með skoti frá sílemanninum sem fór rétt yfir markið.
Reading fengu líka skotfæri á hinum endanum en það var loksins á 20. mínútu sem hjólin fóru að snúast eftir að Sanchez átti gott hlaup upp vinstri vænginn og fann Fred fyrir utan teig sem tók boltann á kassann, framhjá varnarmanni Reading og fann Juan Mata sem ætlaði líklegast að fara sjálfur en var tekinn niður.
Fred var hins vegar fyrstur á lausa boltann og kláraði færið af yfirvegun en var rangstæður. Það var hins vegar fyrir tilstilli VAR að United fékk vítaspyrnu dæmda sem spánverjinn knái skoraði úr af miklu öryggi.
Loksins á 28. mínútu fór að hlutirnir aftur að gerast þegar Romelu Lukaku komst inn fyrir vörnina en Anssi Jaakkola sá við föstu skoti hans. Næst brunuðu gestirnir í sókn og voru skyndilega komnir tveir inn fyrir alla varnarmenn heimamanna en í stað þess að klára færið hljóp Loader út að endalínu og lét Romero ná til boltans. Gríðarlega illa farið með frábært færi, sem betur fer fyrir okkur.
Annars voru afskaplega rólegar síðustu mínútur fyrri hálfleiksins en það verður að segjast eins og er að Reading voru búnir að koma á óvart og kannski full mikið en þeir náðu að pressa heilmikið á United vörnina í uppbótartíma fyrri hálfleiksins.
Það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti, annað mark United á 4. mínútu uppbótartímans, þegar John Swift hreinlega gaf Pereira boltann sem var fljótur að átta sig og snéri vörn í sókn. Boltinn barst til Mata sem lagði boltann á Sanchez sem átti góða stungusendingu á Lukaku sem rak boltann framhjá Jakkoola í markinu og skoraði í tómt markið.
Síðari hálfleikur
Gestirnir gerðu eina breytingu í hálfleik en Thiago Illori fór meiddur útaf og inná í hans stað kom Sone Aluko. Aftur byrjuðu gestirnir betur og voru meira með boltann en United voru hættulegir í skyndisóknunum.
Hins vegar áttu Reading fyrsta hættulega færi síðari hálfleiks þegar varamaðurinn Aluko átti stungusendingu inn fyrir vörnina þar sem Harriot var einn og óvaldaður, hugsanlega rangstæður, en Romero varði mjög vel frá honum.
Lítið markvert gerðist þar til á 61. mínútu þegar Marouane Fellaini og Tahith Chong komu inná fyrir Juan Mata og Fred. Old Trafford tók vel á móti hollenska ungstirninu okkar sem var valinn ungi leikmaður ársins á síðasta tímabili. Einungis mínútu síðar varð Alexis Sanchez fyrir því óhappi að meiðast og kom því Marcus Rashford inn á í hans stað.
Stuttu síðar fengu United álitlegt færi þegar Young snéri laglega á hægri bakvörð gestanna og komst upp að endalínu og lagði boltann á Fellaini sem gerði ekkert sérstaklega vel og laflaust skot hans olli Jaakkola ekki miklu vandræðum.
Aftur var varamaðurinn Aluko á ferð þegar Reading átti gott skot sem Romero þurfti að hafa sig allan við að verja eftir að Young tapaði boltanum á vinstri kantinum. Bæði lið fóru í nokkurs konar hægagangsgír eftir þetta og engin alvöru hætta skapaðist í langan tíma þar til að Rashford komst einn inn fyrir vörn þeirra konunglegu en náði ekki að gera sér mat úr því heldur steig á boltann og rann útaf.
Rétt undir lok leiksins átti svo Andreas Pereira flott skot sem Jaakkola varði í horn. Lokaniðurstöður 2-0 skyldusigur fyrir United. Ekki beint glæsilegasti leikur sem við höfum séð síðan Ole Gunnar tók við en nú hefur hann sigrað fimm fyrstu leikina sína við stjórnvölinn hjá United sem er met hjá United.
Hugleiðingar eftir leikinn
Það eru bæði neikvæðir og jákvæðir punktar sem hægt er að taka út úr þessum leik eins og flest öllum leikjum okkar manna. En til að byrja með þá á United aldrei að vera með boltann einungis 40% tímans á heimavelli og hvað þá gegn liði sem er í fallbaráttu í næstu deild fyrir neðan.
Reading átti sömuleiðis 13 skot á móti einungis 8 skotum United en vissulega skiptir ekki máli endilega hversu mikið liðið er með boltann heldur hvað er gert við hann á meðan en þetta verður að teljast frekar slakt fyrir okkar menn.
En Reading á einnig skilið hrós fyrir hugarfarið sem þeir mættu með í þennan leik, sérstaklega í ljósi mismunandi gengi liðanna í síðustu leikjum. Þeir mættu banhungraðir og lögðu sig alla í verkefnið á meðan United virtist vera í sunnudagsgírnum þar sem úrslitin ættu að koma af sjálfu sér.
Það er líka greinilegt að B-liðs miðjan okkar (Fred–Pereira–McTominay) ætti í erfiðleikum í Championship deildinni. Þeir náðu ekki vel saman, voru oft langt frá hver öðrum, skildu eftir mikið pláss og létu miðjuna hjá Reading líta miklu betur út en hún þurfti að gera. Hugsanlega getur einn af þeim spilað með t.d. Nemanja Matic og Paul Pogba en þeir eru ekki tilbúnir til að spila þrír saman svo mikið er víst.
Þetta breyttist reyndar heilmikið með innkomu Fellaini en varnarframlag hans hefur margoft verið vanmetið. Staðsetningar hans og yfirvegun á boltanum ásamt líkamlegum styrk hans gerir heilmikið fyrir okkur varnarlega sem sást bersýnilega í síðari hálfleik. United tapaði sjaldnar boltanum, nema stöku einstaklingsmistök og leit heilt yfir mun betur út með belgann fyrir framan vörnina.
Annars var vörnin heilt yfir mjög óskipulögð og hélt ekki góðri línu oft á tíðum og gegn sterkari liðum hefðum við að öllum líkindum fengið á okkur mörk. Sóknarmenn gestanna sluppu nokkrum sinnum framhjá öllum varnarmönnum okkar og hefðu í raun átt að gera miklu betur í nokkur skiptanna.
En það þarf líka að horfa til þess að hér var mjög mikið breytt lið frá síðasta deildarleik og í raun ekki nema Lukaku og Sanchez sem teljast byrjunarliðsmenn, ásamt hugsanlega Young. Sem verður til þess að Ole Gunnar ætti nánast að geta stillt upp sínu allra sterkasta liði, óþreyttu og spræku, svo lengi sem meiðsl Sanchez séu ekki alvarleg og enginn meiðist í vikunni.
Þar að auki héldum við hreinu annan keppnisleikinn í röð sem er góðs viti sérstaklega í ljósi þess hve margir varnarmenn eru meiddir hjá okkur og að við spiluðum með bakvörð í miðverði.
Romero átti óaðfinnanlegan dag í markinu en þessi argentíski landsliðsmaður hefur stundum verið kallaður besti varamarkmaður ensku Úrvalsdeildarinnar og það kann að vera nærri lagi. Þrátt fyrir hripleka vörn þá hélt hann hreinu og stóð sig með prýði.
Tahith Chong fékk líka góðan hálftíma á vellinum sem er gríðarlega mikilvægt fyrir hann og verður líklegast enn meira spennandi að fylgjast með honum þegar hann fær að spila með betri leikmenn í kringum sig eins og Pogba, Sanchez og Martial.
Næsti leikur United er svo á sunnudaginn 13. janúar þegar við heimsækjum Tottenham kl 16:30 en þeir hafa verið á miklu flugi undanfarið fyrir utan heimaleik gegn Wolves þar sem þeir töpuðu 1-3.
Í síðustu leikjum hafa þeir skorað gríðarlega mikið, 7 mörk gegn Tranmere Rovers í FA-bikarnum í gær, 3 gegn Cardiff, 5 gegn Bournemouth, 6 gegn Everton og 2 á móti Arsenal. Þá héldu þeir líka hreinu í öllum þessum leikjum nema gegn Gylfa og félögum. Það verður því ærið verkefni fyrir Ole Gunnar Solskjær að takast á við Lundúnarliðið og greinilegt að liðið þarf að spila miklu betur en í dag.
Definitely 💯 #mufc pic.twitter.com/fHIfq0AhMZ
— ManUnitedZone (@ManUnitedZone_) January 5, 2019
Auðunn says
Spennandi að sjá þetta lið, vona að við fáum að sjá ungu strakana fá að spreyta sig.
Áhugavert að Fellaini kemst ekki einusinni í þetta byrjunarlið sem kemur mér reyndar ekki á óvart enda mjög lélegur leikmaður. Eitthvað sem klár maður eins og Ole Gunnar veit.
Verður vonandi til þess að hann fari núna í janúar sem yrði bara frábært enda er verið að sóa peningum með því að greiða honum laun.
Bíð spenntur eftir þessum leik ⚽⚽
Halldór Marteins says
Solskjær er vissulega klár og sniðugur stjóri. Og manneskja sem er ekki líkleg til að láta eigin þrjósku og afneitun koma í veg fyrir að hann viðurkenni að sumir leikmenn eru ekki lélegir í fótbolta, eins og sumir aðrir eru ítrekað að gera.
Það kom fram fyrir leik að Fellaini hefur verið að jafna sig af meiðslum. Solskjær veit líklega fullvel að Fellaini getur ýmislegt í fótbolta og getur gagnast liðinu með ýmsum hætti.
Bjarni Ellertsson says
Liðið er skipað 11 leikmönnum en því miður erum við að spila á átta og hálfum mönnum. Perrera, Mc tom langites og Darmian gera ekkert fyrir mig. Það geta allir joggað um völlinn án þess að koma við boltann og svo þegar hann loks kemur í fæturna þá gerist ekkert neitt. Í mínum huga eru þeir búnir sem utd menn og ættu að leita annað, vonandi. Vil sjá Chong inná í seinni.
Turninn Pallister says
Ekki alveg sammála síðasta ræðumanni, því McTominay er búinn að vera fínn. Pereira og Fred eru hinsvegar búnir að vera einfaldlega lélegir. Fred þarf alvarlega að fara að taka sig á, stefnir allt í að hann verði eitt mesta fluke sem klæðst hefur United treyju. Pereira verður heldur ekki mikið eldri á Old Trafford ef hann fer ekki að stíga upp. Enn sem komið er hefur Alexis valdið vonbrigðum, sýnir samt alltaf smá glimps af snilli af og til, en á móti liði eins og Reading, þá vill maður meira frá einum launahæsta manni liðsins.
Auðunn says
Fátt sem gladdi augað í þessum leik og enginn leikmaður sem átti góðan leik. Sigur jú og það er það sem skiptir máli en ég hélt og vonaðist eftir að þeir leikmenn sem hafa ekki fengið mikinn spilatíma undanfarið myndu stíga aðeins upp og nýta tækifærið en enginn gerði það að mínu mati.
Fred, Mctominay, Periera, ofl voru bara slappir.
Liðið hélt boltanum ílla, allt of mikið um feil sendingar, hægir og lélegir á boltanum.
Lukaku er heldur ekkert að heilla mann, jú jú hann skorar nokkuð reglulega en er klaufalegur og slappur með boltann.
Leikmenn virtust vera með hugann við eitthvað annað en þennan leik.
Það var þó enginn lélegri en Fellaini sem er ekki frétt enda lélegasti leikmaður Manchester United frá upphafi.
En við komumst áfram og það er það sem skiptir mestu máli ⚽⚽⚽👍👍
Halldór Marteins says
Hahaha, „lélegastur frá upphafi“ 😂
Fellaini var ekki einu sinni lélegastur í liðinu í þessum leik.
Þrjóskublindan heldur áfram hérna hjá Auðunni, það er alveg á hreinu. Krúttlegt.
Óli says
Ok Auðunn, við náum þessu og erum alveg löngu búin að ná því að þú fýlar ekki Fellaini. Allir eiga rétt á sinni skoðun og þín skoðun hefur alveg fyllilega komið í ljós. Please, move on.
Einar says
Skyldusigur og góður sem slíkur. Gott að ná að hvíla lykilmenn og komast nokkuð þægilega í gegnum þetta, engin glans en gott.
Varðandi Fellaini, hann er flottur fótboltamaður en verður aldrei lykilmaður. Við höfum haft marga svoleiðis gæðaleikmenn í gegnum tíðina. Einn kom í heimsókn í dag þó hann hafi því miður bara verið á bekknum, meistari John O’Shea. Fellaini getur verið frábær, en hann á það líka til að vera klaufskur og helvítis fauti, en hann er allavega helvítis fautinn okkar. Á meðan hann klæðist United treyjunni þá er lágmark að styðja sinn mann, algjör óþarfi að fara niður á plan púllara í þessum efnum.
Bring on Spurs á Wemble. Ég neita að trúa að hveitibrauðsdagar OGS sé á enda :)
Auðunn says
Segir allt sem segja þarf.
Yfir 90% af stuðningsmönnum United vita að Fellaini á aldrei að vera í þessu liði.
Því miður fyrir klúbbinn þá hefur það tekið United þrjá þjálfara að sjá það.. eins bilað og það nú er því það er svo ótrúlega augljóst.
https://www.manchestereveningnews.co.uk/sport/football/football-news/man-utd-fellaini-solskjaer-news-15633784
Halldór Marteins says
Einmitt, af því 9 random tíst = 90% af stuðningsmönnum.
Rosa skrýtið að Solskjær sé fimmti stjórinn í röð hjá Manchester United (ef við teljum Giggs með, það er) til að geta fundið einhvers konar not fyrir Fellaini í liðinu. Og að það séu 5-6 landsliðsþjálfarar Belgíu sömuleiðis búnir að sjá gagnsemi Fellaini fyrir sín lið á síðustu 12 árum. Af hverju eru þeir ekki löngu búnir að sjá það sem einn þrjóskur Íslendingur, sem neitar að viðurkenna nokkuð sem hallar á skoðun sem hann beit í sig fyrir 6 árum síðan, veit auðvitað betur en allir þessir þjálfarar og stjórar? Rosa furðulegt alveg hreint…
GHE says
Er ekki hægt að stofna siðu fyrir Auðunn og Halldor Marteins þar sem þeir geta deilt um gagn og getuleysi Fellaini og kannski hlift okkur hinum við þessari þrahyggju þeirra vina.