Það má hugsa sér það þessi auðvelda, á pappírnum, byrjun Ole Gunnar Solskjær með Manchester United hafi verið úthugsuð, ekki einasta hafi Mourinho verið rekinn á þessum tímapunkti vegna frammistöðunnar gegn Liverpool, heldur hafi eigendur og Woodward horft á planið og hugsað hvernig staðan væri ef liðið færi í gegnum jól og áramót og næði fimm sigrum, að hætti og Mourinho og hann væri þá órekanlegur.
Hvað sem því líður þá hefur þessi byrjun verið draumabyrjun fyrir Ole Gunnar, enginn annar stjóri í efstu deild á Englandi hefur unnið fyrstu fimm leiki sína í öllum keppnum með meira en tveggja marka mun. En nú horfir hann fram á fyrstu alvöru prófraunina, United fer til London to mætir Tottenham Hotspur á Wembley. Og ekki einasta er þetta fyrsti erfiði leikurinn, heldur mætir Solskjær þar manninum sem flest búast við að fái starfið hans í vor, ef hann vill og Daniel Levy leyfir.
Mauricio Pochettino hefur svarað óhjækvæmilegum spurningum blaðamanna síðustu vikur af yfirveguðum hætti, ekkert gefið upp til eða frá um United starfið. Það ræðst enda ekki á morgun hvernig það fer þó að sigur United myndi bæta tilkall Solskjær til að fá starfið í vor.
United í Dubai
Þessari viku hefur United liðið eytt í sólinni í Dubai til að ná góðum æfingum saman í góðu veðri, hrista saman hópinn og, jú auðvitað, heimsækja Nusret Gökçe, Salt Bae sjálfan.
Auk aðalliðsins fengu fjórir unglingar að koma með, enda allir fengið tækifæri á bekknum eða í liðinu í vetur, Angel Gomes, James Garner, Mason Greenwood og Tahith Chong sem lék sinn fyrsta leik gegn Reading á laugardaginn var.
The four #MUAcademy players who joined us on our Dubai training camp. 🔴 #MUFC pic.twitter.com/7Ckg61GbGd
— Manchester United (@ManUtd) January 12, 2019
Dubai fríið virðist hafa tekist vel, Chong og Gomes spiluðu með U-23 í gærkvöldi nýkomnir heim og Chong skoraði eina mark United með glæsilegri aukaspyrnu, þó Fulham hafi unnið 3-1.
Eitt af því sem hefur gerbreytt United i þessum fimm leikjum er áherslan á sóknarboltann. Ole lýsti því yfir að hann myndi halda sig við hann og því er búist við áframhaldandi 4-3-3 uppstillingu á morgun, nokkuð sem aldrei hefði gerst undir José. Tottenham er þekkt fyrir sóknartilburði sína en eftir jólatörnina undir stjórn Ole er United aðeins þremur mörkum frá þeim.
Vandamálið er hins vegar augljóslega og auðvitað vörnin, ekkert lið í efri helmingnum hefur fengið á sig fleiri mörk og Tottenham hefur fengið á sig ellefu færri. Staða varnarinnar var það sem olli José alltaf hræðslu og skýrði ofurvarkárar uppstillingar.
Það kæmi því engu okkar á óvart þó United tapaði leiknum á morgun 3-4 eða eitthvað álíka, ef vörnin stendur sig ekki. Það væri þó skárra en 0-3 tapið á Old Trafford í ágúst.
Liðsuppstilling verður nær óbreytt, Romelu Lukaku og Alexis Sánchez hafa komið ágætlega inn í liðið af bekknum en það er ekki ástæða til að hringla mikið í liðinu frá síðustu deildarleikjum
Ole notaði tækifærið í gær og talaði um Marcus Rashford og bar hann saman við Harry Kane, en Rashford er einmitt á þeim aldri sem Kane var á þegar hann átti sitt fyrsta stóra tímabil með Spurs. Solskjær telur Rashford hafa alla burði til að gera það sem Kane gerði og stíga upp í markaskoruninni.
Paul Pogba er til í slaginn eftir meiðslin em Jonjo Shelvey olli honum á laugardaginn og munar um það. Sigur í dag færir United upp að hlið Arsenal í deildinni, eftir tap þeirra gegn West Ham í dag. 3-0 myndi gera liðin jöfn og 4-1 kæmi United í fimmta sætið. Draumórar? Kannske.
Tottenham
Spurs er að mestu með sitt sterkasta lið, Erik Dier er frá og Lucas Moura er tæpur, Liðið verður þá einhvern veginn svona
Síðasti leikur þeirra var 1-0 sigur á Chelsea í deildarbikarnum á þriðjudag og er sagt að liðið hafi virkað þreytt, en engu að síður haft baráttu sigur. Spurs hefur verið að keyra á frekar þunnum hópi í vetur og væri ekki verra ef það sýndi sig á morgun.
Leikurinn hefst kl 16.30 á morgun sunnudag!
Auðunn says
Alvöru próf á Ola Gunnar og liðið í held sinni, verður hrikalega erfiður leikur.
En ‘frétt“ eða reyndar slúður dagsins er að Gareth Southgate er orðaður við stjóra stöðu Manchester United 😂😂
Það væri þá enn ein snilldar ákvörðun hjá stjórn liðsins eða hitt þó heldur. Þá held ég svei mér þá að ég myndi frekar vilja Mourinho aftur 😀😀
Ef United getur ekki fengið einn af þremur eða fjórum bestu þjálfurum knattspyrnunnar í dag þá ættu þeir að gera tveggja ára samning við Ola Gunnar.
Algjörlega galið að fá bara einhvern og hvað þá mann sem hefur ekkert sannað á sínum ferli.
Ok Englendingar áttu fínt HM eða þangað til þeir mættu alvöru liði, þá náði það ekki lengra.
Southgate er bara fínn þar sem hann er, ætti ekki einusinni að koma í umræðuna sem stjóri félagsins á borð við Manchester United því hann er ekki réttur þjálfari í svoleiðis risa starf.
Halldór Marteins says
Er oft ósammála þér, Auðunn, en þarna er ég 100% sammála þér. Southgate-slúðrið er hlægilegt. Ef stjórn United hefur í alvöru verið að íhuga það þá er hún vonandi hætt við eftir viðbrögðin við slúðrinu.