Jæja, þar kom að því. Manchester United tapaði sínum fyrsta leik undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. Í fyrsta skipti síðan hann tók við liðinu náði það ekki að skora mark en fékk á sig tvö þar sem varnarleikur liðsins leit alls ekki vel út.
Fyrir leikinn leyfði maður sér ákveðna bjartsýni. Kannski gæti liðið púllað Solskjær á þetta, komið inn eins og í leikjunum gegn Arsenal og Tottenham og fundið einhverjar sniðugar leiðir til að koma andstæðingnum í vandræði. Kannski væri liðið með nægilegt sjálfstraust til að keppa við eitt af bestu liðum Evrópu. Kannski væri United jafnvel sigurstranglegra liðið, í það minnsta í þessum fyrri leik á Old Trafford. En öll þessi bjartsýni dugði ekki nema rétt út fyrri hálfleikinn, svo tók PSG yfir og sýndi einfaldlega meiri gæði og meiri karakter.
Byrjunarlið Manchester United var alveg eins og búist var við:
Varamenn: Romero, Jones, Dalot, Fred, Mata, Alexis, Lukaku.
Gestirnir frá París stilltu upp þessu byrjunarliði:
Varamenn: Areola, Kurzawa, Dagba, Paredes, Nkunku, Choupo-Moting, Diaby.
Leikurinn sjálfur
Manchester United byrjaði leikinn reyndar mjög vel. Martial, Rashford og Lingard voru fremstu menn og voru duglegir að setja PSG undir pressu strax frá upphafi. Það virtist fipa leikmenn franska liðsins til að byrja með og þeir voru jafnvel að senda bolta í innköst frekar en að hitta á samherja. Sjálfstraustið virkaði meira hjá þeim rauðklæddu þegar leikurinn hófst.
Framherjarnir þrír hjá United reyndu að finna hlaup og spil sín á milli. PSG gekk þó vel að loka á sóknarleik United vinstra megin og virtust einnig hafa lagt upp með að láta miðjumanninn Marquinhos einfaldlega dekka Pogba út úr leiknum, að hætti Ander Herrera. Það virkaði nokkuð vel hjá þeim en United gat samt sem áður fundið sér leiðir upp hægri kantinn og komst nokkrum sinnum í álitlegar stöður þar sem strönduðu þá á lokasendingunni.
Á 11. mínútunni fékk Rashford boltann ofarlega á eigin vallarhelmingi, sneri sér við og fékk miðvörðinn Presnel Kimpembe aftan í sig á fullri ferð. Dómarinn dæmdi að sjálfsögðu aukaspyrnu og gaf Kimpembe réttilega gult spjald. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var þetta hins vegar eina gula spjaldið sem Kimpembe fékk í leiknum.
Fimm mínútum síðar náði Pogba loksins að komast aðeins frá Marquinhos þegar hann stakk sér hægra megin og fékk boltann. Hann rykkti þá af stað upp hægri kantinn og fíflaði Kimpembe upp úr skónum þegar hann fór auðveldlega framhjá honum og upp við endamörkin inn í teiginn. Þar kom hann með fasta fyrirgjöf meðfram jörðinni sem Buffon rétt náði að handsama áður en Jesse Lingard komst í boltann. Virkilega vel gert en því miður eitt af mjög fáum skiptum sem Pogba náði að losna undan mjög stífri gæslu sem PSG setti hann í.
PSG náði tvisvar að senda hættulega stungu á Mbappé í fyrri hálfleiknum, í seinna skiptið var Di María með honum. Í bæði skiptin náði varnarlína Manchester United þó að veiða þá í rangstöður. Í hvorugt skiptið náðu þó Mbappé og Di María að skora úr færunum því De Gea lokaði markinu í bæði skiptin. Annars vegar neyddi hann Mbappé að setja boltann framhjá og hins vegar varði hann frábærlega frá Di María eftir að sá síðarnefndi hélt að hann væri kominn framhjá markverðinum knáa. Vissulega hefði hvorugt markanna talið ef þeir hefðu skorað en þetta var bara svo vel gert hjá De Gea að maður má til með að minnast á það. Mbappé var þarna líka strax búinn að minna á sig og sinn ógnvænlega hraða.
Á 33. mínútu kom fyrra atvikið þar sem dómarinn ítalski hefði með réttu átt að veifa öðru gulu spjaldi á Presnel Kimpembe. Franski miðvörðurinn hindraði þá Luke Shaw sem var á álitlegum spretti í hraðri sókn Manchester United. En dómarinn þorði ekki að dæma á þetta augljósa brot, hann vissi sem var að ef hann dæmdi brot þá yrði hann að gefa annað gult og hann var ekki tilbúinn í það. Ekki ennþá allavega.
Rashford átti einu marktilraun fyrri hálfleiksins, hjá báðum liðum, sem endaði á rammann. Og hún var ansi bjartsýn en þó merkilega öflug. Hann var með boltann úti á kantinum hægra megin, keyrði upp að endamörkum og gerði sig líklegan til að koma með fyrirgjöf. Nema í staðinn fyrir fyrirgjöf kom hann með bylmingsskot á nærstöngina hjá Buffon. Buffon er hins vegar enginn Sergio Rico heldur var tilbúinn á nærstönginni og varði skotið í horn.
Undir lok leiks gerðust tvö atvik sem höfðu líklega hvað mest áhrif á hvernig seinni hálfleikurinn spilaðist. Anthony Martial hafði verið heldur daufur vinstra megin og fór að kveinka sér í náranum. Og þegar Lingard var á leið í eina skyndisókn undir lok hálfleiksins virtist hann togna aftan í læri. Martial gat rétt svo klárað hálfleikinn en Lingard treysti sér ekki til að klára uppbótartímann. Sánchez kom inn fyrir Lingard rétt áður en dómarinn flautaði til leikhlés og rétt áður en dómarinn flautaði seinni hálfleikinn á kom Mata inn fyrir Martial. Það munaði ansi mikið um þetta.
Seinni hálfleikurinn var varla farinn af stað þegar Kimpembe var búinn að gefa dómaranum aðra ástæðu til að senda sig í sturtu. Í þetta skiptið reif hann Rashford niður sem var á góðum spretti inn að vítateig gestanna. Aftur guggnaði dómarinn á að flauta á augljóst brot því hann vissi að þá kæmist hann ekki upp með annað en að spjalda manninn.
Aðeins um fimm mínútum síðar komu þessi dómaramistök í bakið á Manchester United. PSG kom mun sterkara inn í seinni hálfleikinn. Þeir höfðu greinilega verið varkárir þegar kom að framlínu Manchester United en þegar mestur hraðinn og ógnin var farin úr þeirri framlínu með skiptingunum þá tók franska liðið að færa sig mun grimmara upp völlinn og sækja á fleiri mönnum. Það virkaði líka vel og United féll að sama skapi aftar í varnarleik sínum.
PSG fékk hornspyrnu eftir að David de Gea varði ágætis skalla Mbappé eftir fyrirgjöf frá hinum síspræka og margreynda Dani Alves. Angel Di María tók hornspyrnuna, sendi hana beint á fjærstöngina þar sem títtnefndur Presnel Kimpembe kom óvaldaður og skoraði með góðu skoti. Di María hafði fengið vægast sagt óblíðar móttökur frá áhorfendum og eina gamlaskólakveðju frá Ashley Young fyrr í leiknum, hann naut þess í botn að troða þessari stoðsendingu beint í andlitið á Old Trafford. Það var vissulega kaldhæðnislegt að maðurinn sem átti að vera farinn af velli með rautt skyldi skora markið en það verður bara að segjast að varnarleikur Manchester United í þessari hornspyrnu var alls ekki nógu góður.
Gestirnir gengu á lagið næstu mínúturnar og settu United undir virkilega pressu, hefðu getað skorað strax í kjölfarið þegar Dani Alves átti skot sem fór af Pogba og rétt framhjá. United virkaði einfaldlega algjörlega týnt. Eftir nokkrar mínútur af sjeikheitum byrjaði heimaliðið þó að reyna að sækja aftur. Mata reyndi fyrirgjafir en Thiago og Kimpembe voru eins og algjörir klettar í vörn gestanna. Herrera átti skot utan teigs en það skoppaði framhjá.
Svo kláraði PSG leikinn, og að öllum líkindum einvígið allt, með auðveldu skyndisóknarmarki. Boltinn var sendur upp vinstri kantinn á Di María, Mbappé tók sprett upp miðjan völlinn, miðverðir United náðu ekki að halda í við hann, Di María kom með fullkomna fyrirgjöf og Mbappé kláraði dæmið með innanfótarslútti. Virkilega vel gert hjá þeim.
Manchester United hélt svosem áfram að reyna eitthvað en þeim tókst aldrei að gera almennilega árás. Alexis Sánchez átti slappa innkomu. Juan Mata reyndi þó ýmislegt, það bara fór of mikið þegar það vantaði hraðann og víddina sem hinir leikmennirnir gefa. Trúin var hins vegar ekki til staðar lengur. Þegar 6 mínútur voru eftir kom Lukaku inn fyrir Rashford. Belginn náði því miður ekki að breyta neinu.
Mbappé komst næst því að skora þegar hann fékk stungu langt inn fyrir framliggjandi varnarlínu Manchester United. Hann brunaði einn að marki Manchester United en fann þar fyrir David de Gea. Þegar Mbappé ætlaði að vera sniðugur og chippa boltanum framhjá Spánverjanum þá las de Gea það eins og opna léttlestrarbók og varði mjög auðveldlega.
Undir lok leiksins fór Paul Pogba svo í glæfralega tæklingu á Dani Alves. Hann ætlaði líklega að reyna að ná boltanum en var alltof seinn og fór með takkann hátt í löpp Alves. Dómarinn hugsaði sig um og mundi svo að hann má og getur gefið leikmönnum gult þótt þeir séu þegar komnir með gult, eitthvað sem hann hefði alveg mátt fatta fyrr í leiknum. Hann rak Pogba af velli svo hann verður í leikbanni í seinni leiknum. Ekki það, ef eitthvað var þá má segja að Pogba hafi hreinlega verið heppinn að fá ekki beint rautt, svo glötuð var þessi tækling.
Leikurinn kláraðist svo og PSG tekur tveggja marka forskot með sér á sinn sterka heimavöll fyrir seinni leikinn í byrjun mars.
Pælingar eftir leik
Þar kom að því, Manchester United tapaði aftur. Nú verður mjög fróðlegt að sjá hvernig Solskjær tæklar stöðuna í kjölfarið. Sérstaklega ef Lingard og Martial verða frá eitthvað að ráði, hvað gerir þjálfarateymið þá til að ná leik liðsins upp eftir þetta.
Næstu leikir eru strembnir, það er bikarleikur á útivelli gegn Chelsea á mánudaginn og svo heimaleikur í deildinni gegn Liverpool sunnudaginn eftir það. Fleiri svona hálfleikar eins og sá seinni í kvöld eru ekki í boði í þeim leikjum því þá endar það illa.
Stebbi says
Myndi taka Young útaf í hálfleik.
Hann hefur ekkert að gera í svona leik. Alveg hræðilegur!
Bjarni Ellertsson says
Hörku leikur í gangi. PSG alltaf hættulegir með Mbappe fremstan bara spurning um hvenær vörnin klikkar. Á hinum endanum eru menn að flýta sér um of aðloturnar renna oftar en ekki út í sandinn. Nú mun reyna á hópinn, meiðsli hjá M og L. En það þarf margt að ganga upp ef við ætlum að vinna þennan leik því mér finnst við ekki alveg klárir í þessa baráttu. Sjáum til í seinni.
GGMU
Joi says
Eintómar tuskudúkkur hjá psg
Dóri says
United einfaldlega heppnir að vera ekki 0-5 undir í þessum leik svo herfilega slappir hafa þeir verið.
Ekki skapað nokkurn einasta hlut allan leikinn og eru gjörsamlega á hælunum.
Ótrúlegur munur á þessum liðum, miklu meiri munur en mig óraði fyrir.
Bjarni Ellertsson says
Kennslubókardæmi í knattspyrnu hjá PSG, erum töluvert á eftir á mörgum vígstöðvum, sérstaklega varnarlega. Svo var samið við þessa snillinga þannig að við munum kveljast áfram næstu árin.
Auðunn says
Já leikur United var ekkert spes í fyrri hálfleik en staðan var samt 0-0.
Leikur liðsins hrundi með innkomu Mata og Alexis.
Þeir tveir eru gjörsamlega týndir í þessu liði og það kemur nákvæmlega ekkert út úr þeim tveimur.
Ég ætla rétt að vona að United losi sig við þá báða í sumar.
Bjarni Ellertsson says
Sammála þér Auðunn en ég klóra mig enn í hausnum af hverju vörnin JSY fengu framhaldssamninga. Eru þeir svona góðir, kalla þetta MUTV meðvirkni enda eru þeir hypaðir þar í bak og fyrir.
Joi says
Alex lélegustu kaup allra tíma.
Rúnar Þór says
Hart gengið að okkur. Dómaraskandall! Ef að Pogba á að fá rautt spjald þá hefði Kimpembe 100% átt að fá rautt spjald þegar hann togaði niður Rashford
Af hverju var ekki VAR notað til að reka Kimpembe út af????
Rauð spjöld er eitt af því sem VAR skoðar
PSG 1 færri, Kimpembe hefði ekki skorað fyrsta markið og ALLT ANNAR leikur.
Þetta er svekkjandi! :(
Sindri says
Leiðinlegt.
Þetta er ennþá hægt í París, jafnvel án Pogba.
Heiðar says
Úff… maður vissi fyrirfram að PSG væri betra lið en United. Með Neymar og Cavani á meiðslalistanum eygði ég þó von. Því miður er munurinn á þessum liðum sjokkerandi mikill. Að því sögðu var ég óánægður með sóknaruppleggið hjá okkar mönnum í kvöld. Endalausir langir boltar sem engu skiluðu enda þurfti Buffon ekki í sturtu eftir leikinn. Ekkert plan B. PSG voru magnaðir og hentu sér fyrir alla bolta.
Nú væri auðvelt að horfa fram á við og tala í bjartsýni um tiltektina sem væntanleg er í leikmannahópnum. En neinei, þá er klúbburinn búinn að taka sig til á síðustu vikum og negla niður samninga við leikmenn sem flestir eru sammála um að séu ekki nógu góðir fyrir Manchester United. Chris Smalling (mætti halda honum sem squad leikmanni), Phil Jones, Scott McTominay og Ashley Young. Hvaða skilaboð er verið að gefa með þessu?
Audunn says
Já ég ski reyndar ekkert í því afhverju Young fékk nýjan samning. Fékk Smalling líka nýjan samning? Hefur farið framhjá mér.
Young hefur ekkert að gera í þessu liði.
Hvað varðar Jones þá er hægt að notast við hann að mínu mati í „minni“ heimaleikjum til að hvíla menn, ég af einhverjum ástæðum treysti honum betur en Smalling og Rojo.
En það er alveg deginum ljósara að það þarf að taka til í þessari vörn.
Okkur vantar alvöru hægri bakvörð og amk einn top class miðvörð ef ekki tvo.
Leikmenn eins og Smalling, Young, Rojo, Darmian og Valencia ættu allir að fara. Það eru fimm leikmenn sem eru að spila sem varnarmenn.
Enginn af þeim eru nógu góðir fyrir alvöru lið sem ætlar sér að vinna alvöru titla.
Svo var ég búinn að nefna Mata og Alexis.
Við erum að tala um sjö menn en það mun mjög líklega aldrei gerast á einu bretti þannig að þetta er langhlaup fyrir næsta stjóra liðsins hver svo sem það verður.
Bjarni Ellertsson says
Smalling fekk 5 ár í tíð JM var það ekki?. En rétt að tiltektin mun taka nokkur ár miðað við þessa þróun, ég get beðið því meira fútt er í liðinu í dag þrátt fyrir þessa rassskellingu í seinni hálfleik.
Auðunn says
Við vitum reyndar að leikmenn sem eiga stuttan samningstíma eftir fara yfirleitt á klínk þannig að kannski er pælingin sú að fá 2-4 milj meira fyrir þá?
Veit ekki en kannski er þetta Wodward master mind í viðskiptum 😎😎
Ég get ekki ímyndað mér að þessir menn séu í myndinni sem lykil leikmenn hjá næsta stjóra liðsins hver sem það verður.
En það er líka nánast útilokað mál í nútíma fótbolta að versla 4-5 topp leikmenn á sama sumrinu.
Það kostar skriljónir sem ekki eru til staðar.
Kannski 2, max 3 klassa leikmenn.
Ingvar says
Held að það sé bara ein ástæða fyrir þessum framlengingum á ensku leikmönnum og það er brexit. Held að klúbbarnir séu að halda að sér og leiða hugan að því að reglurnar komi til með að breytast með fjölda útlendinga. En vondur leikur og versnaði til muna að fá Sanchez og Mata inná.
Timbo says
Eitt stykki maður á mann dekkning á pogba og úti er ævintýri… þetta svíður meira en sevilla horbjóðurinn vegna þess að væntingarnar voru til staðar… ugh…
Óskar G Óskarsson says
Við vorum bara i alvöru að framlengja við young, hann var oftar úr stöðu en i stöðu.
Er ekki kominn tími a að fa alvöru bakvörð i þetta lið?! Og hætta að búa til bakverði ur útbrunnum könturum !
Annars þa hrundi leikur liðsins við þessar 2 skiptingar i hàlfleik og serstaklega þegar lingard meiddist, martial gerði ekki mikið.
Og þessi innkoma hja Sanchez er eitthvað það lélegasta sem eg hef séð, gangi okkur vel að losna við þennan 500þ punda launapakka i sumar 🤢
guðmundur Helgi says
Leikur PSG kom ekkert á óvart í kvöld en leikur united fór bara aldrei á flug því miður,dómarinn var ekki alveg með sitt á hreinu í kvöld því ef svo hefði verið hefði Kimpempe fokið út af eftir brotið á Rashford í síðari hálfleik.Young með glórulaust brot á Di María,vill frekar sjá Darmian eða Dalot í næsta leik.Veratti er maðurinn úr pappa eða plasti, það mátti varla anda á stráksa þá er hann féll til jarðar með tilþrifum.Seinna gula spjaldið hjá Pogba og svo rautt bull alla daga, í mesta lagi tiltal í ensku úrvalsdeildinni og varla það.Sanchez kom ekkert út úr honum og Mata sem er í miklu uppáhaldi hjá mér var frekar lítið áberandi.United vantar sterkan miðvörð og leiðtoga sem getur leitt menn áfram,þetta lítur ekkert of vel út en á meðan það er aðeins hálfleikur er alltaf von. Hefði gjarnan viljað sjá Fred spila í kvöld.Góðar stundir.
Björn Friðgeir says
Svona til að byrja á framlengingunum, það er til að fá smá meira fyrir þá, smbr Fellaini. Það er ekki stærsta vandamálið.
Annars ætla ég bara endurtaka nakvæmlega það sem Auðunn sagði enda fullkomlega sammála: Losa okkur við Smalling, young, Rojo, Darmian, Valencia, Mata og Alexis.
Nema kannske Jones, hann má vera fimmti hafsent á eftir Nýjamanni, Lindelöf, Bailly, og einhverjum unglingi.
Annars var fyrri hálfleikur bara góður. Svo má Pogba hætta að reyna að stíga út leikmenn.
Bjarni Ellertsson says
Fyrri hálfleikur var þokkalegur, við inni í leiknum en Mbappe var samt að banka á dyrnar með hraða sínum. Fáir hafa í raun roð í hann og er það varnarmönnum okkar til vorkunnar. PSG eru bara betur mannaðir en við og hafa spilað á þennan hátt lengur en við, kraftaverkin gerast ekki í hverjum leik og nú er að safna liði og berja liðið áfram. Margir leikmenn voru yfirspilaðir og PP var í vasanum á miðjumönnum PSG. Aðrir stigu bara ekki upp þegar sú staða er á borðinu og liðið náði engu flugi í sinn leik, leiknum var stjórnað í seinni hálfleik af PSG. Af mörgum lélegum sendingum í leiknum þá fannst mér ein sú slakasta er Shaw potaði boltanum til baka á Pogba með þeim afleiðingum að hann þurfti að teygja sig í hann og brjóta af sér, RAUTT. Stutta spilið var ekki gott í þessum leik enda leyfði mótherjinn ekki neitt spil en það þýðir ekki að það sé heimsendir, menn verða bara að rífa sig í gang fyrir næsta leik
GGMU
Georg says
Það sem Bjarni Ellerts sagði og eitt annað.
Annað liðið spilaði meistaradeildarfótbolta….hitt hélt að það væri að spila deildarleik í Enska boltanum.
PSG vita það að það er nóg að detta við lítið sem ekkert og fá brot dæmt.
ManU tæklaði útum allan völl og uppskar lítið sem ekkert því þeir duttu ekki útum allann völl.
Eins og Bjarni sagði þá er bara að rífa sig í gang og tækla næsta leik….væl skilar engu