Fimmtu umferð bikarsins lýkur á morgun þegar okkar menn halda á Stamford Bridge og takast á við Chelsea. Stórleikur umferðarinnar og því færður á mánudag, aðkomustuðningsmönnum til mikillar gleði enda varla hægt að komast aftur til Manchester um kvöldið ef leikurinn fer í framlengingu.
Eftir erfiðan seinni hálfleik gegn PSG á þriðjudaginn verður þetta prófraun fyrir Ole Gunnar að vinna án Jesse Lingard og Anthony Martial sem hafa verið lykilmenn í góðu gengi liðsins undir stjórn hans. Þrátt fyrir að Tahith Chong og Angel Gomes verði í hóp er óvarlegt að ætla annað en að Alexis Sánchez og Romelu Lukaku komi inn í liðið en það verði síðan að mestu óbreytt.
Chelsea er sært dýr um þessar mundir, 6-0 tapið gegn City um síðustu helgi hlýtur að sitja í þeim, og naumur sigur í Malmö í vikunni er ekki öflugasta svarið við þeirri niðurlægingu. Ég veit ekki hvað Sarri getur gert á morgun til að breyta liðinu og spái því óbreyttu frá City leiknum. Það verður spennandi að vita hvort honum dettur einhvern tímann í hug að leyfa Jorginho að fá frí og láta Kanté spila í sinni bestu stöðu, en ég vona að minnsta kosti að það verði ekki á morgun. Higuain hefur verið að koma þokkalega inn í liðið, skoraði tvö á móti Huddersfield fyrir hálfum mánuði og var einna skástur Chelsea manna móti City.
Þetta verður sem sé hörkuleikur á morgun þar sem bæði lið þurfa sigur, ekki bara til að komast áfram í bikarnum heldur til að sanna að slæm úrslit undanfarið séu undantekning. Leikurinn hefst kl 19:30!
Heiðar says
Virkilega mikilvægur leikur. Það er eitt að hefna ófaranna frá því í úrslitum FA Cup í fyrra, annað er sú staðreynd að ef þessi leikur tapast losnar ákveðið spennuflæði í stuðningsmönnum sem fylgir því að eiga mögleika á bikar (meistaradeildin svo sannarlega kraftaverki háð í þeim efnum). Vissulega er mikið í húfi varðandi að enda í topp fjórum en það að keppa um titil gerir alltaf mikið fyrir stuðningsmenn.
Ég vona að Lukaku verði hafður í sama hlutverki og í útileiknum gegn Arsenal. Það gafst ótrúlega vel.