Þá er komið að þeim deildarleik sem United stuðningsmenn flestir hverjir hafa beðið eftir einna mest en það er síðari viðureignin við erkifjendurna úr Bítlaborginni. Fyrri viðureignin reyndist fallöxin fyrir fyrrum stjóra United, José Mourinho, en á þessum tíma var liðið í bullandi vandræðum og viðurkenndi portúgalinn sjálfur að það tæki kraftaverk til að skila liðinu í Meistaradeildarsæti á þessu tímabili.
Eins og frægt er orðið tók Ole Gunnar Solskjær við af honum og hefur heldur betur snúið við taflinu með 8 sigrum í 9 leikjum (furðulegt nokk þá voru einu töpuðu stigin í leik gegn Burnley á heimavelli) og núna hefur liðið skotist upp fyrir bæði Arsenal og Chelsea, bæði hvað varðar stig og markahlutfall. Bæði Lundúnar-liðin hafa verið í nokkru basli að undanförnu og sérstaklega þá Sarri og hans menn sem virðast vera að detta úr baráttunni um 4. sætið með einungis 7 stig úr síðustu 6 leikjum.
Sem stendur er United stigi á undan báðum liðum en það gæti breyst í næstu umferð. Á meðan við fáum Liverpool í heimsókn fær Arsenal Southampton í heimsókn og verður að teljast líklegt að skytturnar klári þann leik. Á meðan á Chelsea leik við Manchester City í úrslitum deildabikarsins og frestast því 27. deildarleikur þeirra. Næst leika þeir við Tottenham á og því mun eitthvert liðanna í 3. – 6. sæti tapa stigum í vikunni.
Það er því ljóst að United þarf á sigrinum að halda á sunnudaginn til að halda pressunni á liðunum í kringum sig en Liverpool hafa einungis tapað einum deildarleik á þessari leiktíð svo sá sigur verður ekki auðsóttur. Fari svo að Liverpool sigri og Arsenal og Chelsea fá stig úr sínum leikjum gæti United endað aftur í 6. sæti í miðri viku.
Liverpool
Síðasti leikur þessara liða var hrein og klár hörmung þar sem okkar menn sáu aldrei til sólar, enginn baráttuvilji né neinn bitkraftur í döpru United liði. Reyndar hefur liðið ekki riðið feitum hest frá viðureignum liðanna á Anfield en núna er leikið á Old Trafford og þar hefur United haft ágætis tak á erkifjendunum. Af síðustu 9 heimaleikjum hefur United unnið 7 en leikir þessara liða hafa verið ansi jafnir í gegnum árin.
Leikurinn gæti orðið mjög fjörugur og áhugaverður en bæði lið þurfa nauðsynlega á sigri og 3 stigum að halda, United eins og áður sagði til að halda Lundúnarliðunum fyrir neðan sig en ekki síður Liverpool til að halda pressu á Manchester City en þeir eru sem stendur jafnir að stigum en Liverpool á leik til góða. Eflaust finnast United stuðningsmenn þarna úti sem myndu fagna tækifærinu til að hefta sigurgöngu Liverpool í titilbaráttunni en fyrir aðra gæti reynst nóg að halda 4. sætinu.
Liverpool hefur verið á feiknarmikilli siglingu og hefur sigrað 20 leiki í deildinni, gert 5 jafntefli og einungis tapað gegn Manchester City. Reyndar hefur liðið tapað 7 stigum í síðustu 7 leikjum og hafa verið að hiksta en liðið er þó með 65 stig og markatölu upp á +44 mörk. Jurgen Klopp virðist vera að ná því allra besta úr hópnum og jafnvel þótt Liverpool hafi lent í miklu meiðslavandræðum upp á síðkastið hefur liðinu tekist að halda dampi og stendur í hnífjafnri titilbaráttu við Manchester City.
Klopp var á dögunum sektaður um 45 þúsund pund fyrir að gagnrýna dómarann í leik leiðsins við West Ham þar sem þeir rauðklæddur kræktu í óverðskuldað stig en bæði hann og nokkrir leikmenn Liverpool hafa látið hafa eftir sér að þeir búist við því að United mæti mun grimmari til leiks en síðast þegar liðin mættust. Sá þýski mun að öllum líkindum geta stillt upp sínu sterkasta liði en gera má ráð fyrir 4-3-3 uppstillingu sem gefist hefur vel fyrir þá á leiktíðinni.
United
Liðið gékk í endurnýjun lífdaga við stjóraskiptin og í fyrsta skiptið í langan tíma finnur pistlahöfundur fyrir eftirvæntingarhroll með tilheyrandi gæsahúð þegar United á leik framundan. Solskjær hefur sýnt okkur að hann kom með meira en bara leikgleðina með sér og taktískar breytingar og undirbúningur hefur komið flestum á óvart. Reyndar hefur heilmikið komið á óvart enda grunaði eflaust fáa að Ole Gunnar myndi vinna 11 af fyrstu 13 leikjum sínum, einungis tap gegn PSG og jafntefli við Burnley sem kemur í veg fyrir óaðfinnanleg úrslit undir hans stjórn.
Í leiknum á móti PSG í Meistaradeildinni varð liðið þó fyrir blóðtöku og verðum við hugsanlega án nokkurra lykilmanna á borð við Anthony Martial og Jesse Lingard, þó hafa verið sögusagnir þess efnis að Martial gæti verið klár í slaginn og Lingard hugsanlega líka en það verður að koma í ljós. En í síðasta leik sáum við það að Ole Gunnar getur notað menn eins og Juan Mata og Romelu Lukaku í fjarveru þeirra fyrrnefndu.
En og aftur sýndi sá norski að hann á fyllilega skilið að stýra toppliðið á borð við United þegar hann stillti upp í 4-3-1-2 með Rashford og Lukaku fremsta og Mata í holunni fyrir aftan þá. Fyrir aftan hann voru svo Ander Herrera og Paul Pogba en þeir voru frábærir í leiknum.
Það verður áhugavert að sjá hvort hann haldi sig við þessa uppstillingu eða snúi sér aftur að 4-3-3 en ég held það komi til með að fara eftir því hvort Mata spili eður ei. Galdramaðurinn (e. Wizard), eins og liðsfélagar hans kalla hann, getur því miður átt það til að týnast í leikjum þar sem honum er spilað sem hægri kantmaður en þegar hann fær að sitja í holunni eins og í leiknum á móti Chelsea á mánudaginn þá er auðvelt að sjá afhverju hann á að baki fjöldann allan af leikjum með spænska landsliðinu.
Herrera, Pogba, Rashford og de Gea velja sig sjálfir inn í liðið eftir frammistöðu þeirra undanfarið en annars geri ég ráð fyrir því að Solskjær stilli upp ekki ósvipað og í leiknum á móti Chelsea. Þó kann að vera að hann bryddi upp á einhverjum nýjungum en það verður að koma í ljós.
Auðvitað kann þetta að breytast ef Martial og Lingard verða báðir heilir en Ole Gunnar gaf það út á dögunum að það væru einhverjar líkur á að þeir yrðu tilbúnir en ég hugsa samt að engir sénsar verði teknir í jafn þýðingarmiklu leik og þessum. En það verður bara að bíða og vona.
Að lokum…
Það getur verið skemmtilegt að spá og spekúlera í tölfræði og ýmsum öðrum þáttum fyrir svona leiki en sannleikurinn er sá að þegar kemur að þessum nágrannaslag er ómögulegt að segja til um hvernig leikar munu fara. Yfirleitt ná liðið að sýna sínar bestu hliðar í svona leikjum, sérstaklega þegar svona mikið er undir eins og raunin er.
En ef litið er til síðustu leikja Liverpool þá hafa þeir ekki virkað eins stöðugir og sterkir eins og þeir gerðu á fyrri hluta tímabilsins en síðan liðið valtaði yfir Arsenal í síðasta leik sínum árið 2018 með fimm mörkum gegn einu hafa þeir gert þrjú jafntefli og tapað tveimur leikum. (LLWWDDWD)
Það ætti því að vera kjörið að mæta liðinu núna sérstaklega í ljósi þess á hve miklu flugi United-liðið hefur verið á undanfarið (W11-D1-L1). Eftir fyrsta tap liðsins undir stjórn Ole Gunnar Solskjær kom vafalaust einn allra besti leikur liðsins á undanförnum árum, þegar liðið mætti á Brúnna í Lundúnum og gjörsamlega pakkaði saman Sarri og hans lærisveinum á eigin heimavelli.
Leikmenn liðsins ættu því að fara í nágrannaslaginn fullir sjálfstrausts eftir þau úrslit og eflaust situr líka í þeim leikurinn á Anfield og hljóta okkar menn að vera staðráðnir í að svara fyrir það, kæfa titilvonir Liverpoolara í bili og um leið halda Arsenal og Chelsea fyrir neðan sig í baráttunni um Meistaradeildarsætið!
Velgengni stjórans hefur orðið til þess að á dögunum spruttu upp sögusagnir um að Ed Woodward hefði átt kvöldverð með Ole Gunnar þar sem þeir hefðu rætt framtíð þess síðarnefnda hjá félaginu en með hverri vikunni sem líður virðist sá möguleiki færast nær því að verða að raunveruleika. Það er gífurlega erfitt að horfa framhjá þeirri staðreynd að Ole Gunnar Solskjær hefur staðið sig betur en nokkur þorði að vona og ef hann skilar sigri í hús á morgun þá hefur hann sigrað öll topp lið ensku úrvalsdeildarinnar nema Manchester City og það er einungis vegna þess að við eigum eftir að spila við þá.
Honum hefur tekist að hrífa ekki bara allt liðið með sér og brosinu sínu heldur alla stuðningsmenn United um leið og ef United tekst að sigra á morgun, heldur 4. sætinu út maí mánuð og verður þess valdandi að Liverpool vinnur ekki deildina hugsa ég að það verði erfitt að finna þann United mann sem vill ekki fastráða þann norska.
Tryggvi Páll, Magnús Þór og Björn Friðgeir settust niður í vikunni og ræddu þessi stjóramál í 70. djöflavarpinu. En hvað finnst þér? Á Ole Gunnar Solskjær að taka við keflinu til frambúðar eða er Mauricio Pochettino ennþá draumastjórinn, þrátt fyrir að hann muni kosta félagið talsvert meira? Er hægt að finna nokkuð því til fyrirstöðu að ráða Solskjær að fullu nú þegar hann hefur sýnt fram á að hann er ekki bara glaðlyndur og hlýlegur stjóri sem hefur góð áhrif á leikmenn sína heldur sé í raun með gott taktískt nef og sé löngu búinn að sanna að þetta er ekki bara spurning um einhvern „feel good factor“?
Runar P says
Hvernig fá menn það út að Chelsky sé að spila við Brighton um helgina?
Friðrik Már Ævarsson says
Takk fyrir ábendinguna, fljótfærnismistök sem hafa verið leiðrétt
Auðunn says
Sögusagnir í gangi um að Matic sé ekki í hópnum.
Líst ekkert sérstaklega vel á það ef það er raunin.
Veit ekki hver ætti að geta tekið hans hlutverk í liðinu þótt maður bíði og voni að Fred stimpli sig inn í þetta lið. Efast um að þetta sé leikurinn til að taka sénsinn á því.
Danni says
Get ekki beðið eftir því að Michael Oliverpool eyðileggi þennan leik. Sé fyrir mér að Salah muni liggja meira í teig okkar manna heldur en standa og froðufellandi Klopp mun fara hamförum á hliðarlínunni. Auðtrúa dómari þessa leiks mun svo gefa Liverpool víti og reka amk 1 United mann útaf til þess að tryggja efsta sætið fyrir sína menn.
Ingvar says
Eitt er allavega 100% öruggt og það er að Liverpool fær víti í þessum leik.