Eitt af því sem gerir fótboltann svona skemmtilegan eru stundirnar þegar rómantíkin yfirtekur raunsæið, þegar undirhundarnir sigrast á Golíötunum, þegar lið sýna seiglu og snúa tapstöðu í sigur, þegar það óvænta og fallega gerist. Ekki það, við vitum að Manchester United er alltaf Golíat frekar en Davíð, núna er liðið hins vegar í þannig stöðu að við þurfum knattspyrnurómantíkina með okkur í lið til að komast áfram. Bakið er rækilega upp að veggnum. Meiðsli hrjá hópinn og besti útivallarleikmaður liðsins er í leikbanni. Það þarf kraftaverk. En á knattspyrnuvöllunum gerast kraftaverkin reglulega, það er undir þeim leikmönnum sem þó eru heilir og ekki í leikbanni komið að gefa kraftaverkinu sénsinn.
Manchester United leikur seinni leikinn í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Parc des Princes vellinum í París. Paris Saint-Germain er með 2-0 forskot eftir fyrri leikinn en það eru allavega 90 mínútur eftir af einvíginu. Við vitum að þetta verður gríðarlega erfitt, við vitum að líkurnar eru ekki okkar mönnum í hag. En þetta er ekki búið!
Leikurinn hefst klukkan 20:00 annað kvöld. Dómari leiksins er skemmtilega kunnuglegt nafn, Damir nokkur Skomina frá Slóveníu.
PSG
PSG hefur spilað fimm leiki síðan liðið mætti á Old Trafford í febrúar. Fjórir þeirra voru í deildinni og einn var bikarleikur gegn Rúnari Alex og félögum í Dijon. Parísarliðið vann alla þessa fimm leiki, með markatölunni 14-3.
Á meðan Manchester United hefur orðið fyrir sífellt nýjum skakkaföllum á síðustu vikum þá hefur PSG verið að endurheimta sína leikmenn úr meiðslum. Af þeim sem vantaði síðast þá hefur Meunier spilað síðustu leiki og Edinson Cavani er aftur byrjaður að æfa með liðinu eftir sín meiðsli.
Það hefur að vísu verið einhver umræða um það að Mbappé sé farinn að sýna þreytumerki eftir að hafa þurft að bera sóknarleik liðsins að miklu leyti uppi í fjarveru Neymar og Cavani. En þreytumerkin hafa allavega ekki skilað sér í slakari frammistöðu fyrir framan markið því Mbappé hefur skorað 6 mörk í síðustu 4 deildarleikjum með PSG. Hann fékk að hvíla í bikarleiknum og þá steig einfaldlega Angel Di María upp og skoraði 2 mörk auk þess sem áðurnefndur Meunier bætti við því þriðja.
Þótt Mbappé hafi fengið að hvíla í bikarleiknum þá er engin ástæða til að telja að hann sitji þennan leik af sér. Cavani er sennilega ekki alveg tilbúinn í að byrja leikinn en gæti náð bekknum og kannski komið inn á ef þarf.
Hér er ekki ósennilegt byrjunarlið hjá heimamönnum:
Manchester United
Á meðan PSG hafa spilað 5 leiki síðan síðast hefur Manchester United „aðeins“ spilað fjóra leiki. En líkt og hjá PSG var einn þeirra bikarleikur og hinir í deildinni. United byrjaði á bikarleiknum og landaði þar frábærum sigri á útivelli gegn Chelsea. Eftir það fylgdi erfiður leikur gegn Liverpool þar sem United lenti í miklum meiðslahremmingum en náði þó fyllilega að halda aftur af sóknarleik Liverpool og var mun nær því að taka sigurinn í leiknum en Liverpool nokkurn tímann. Síðan hafa komið tveir sigurleikir þar sem meiðslin gerðu liðinu miserfitt fyrir en karakterinn dró vagninn og hjálpaði liðinu að landa 3 stigum í leikjunum gegn Crystal Palace og Southampton.
Það hefði mögulega verið hægt að taka séns með Anthony Martial en þjálfara- og læknateymið ákvað að taka enga sénsa með hann heldur spara hann fyrir leikinn á sunnudaginn gegn Arsenal í deildinni. Mikil skynsemi í því þar sem leikurinn gegn Arsenal er algjör sex stiga leikur í baráttunni um sæti 3 og 4 í deildinni. Samkvæmt nýjustu fréttum verður Alexis Sánchez frá í 6-8 vikur. Það er varla hægt að segja að það muni veikja hópinn mikið, eins og hann hefur verið að spila. Jújú, hann leggur á sig ákveðna vinnu og getur poppað upp með einhver gæði við og við en heilt yfir hefur hann ekki verið að spila þannig að hans verði mikið saknað á næstu vikum.
Þegar ferðahópurinn var tilkynntur sást samt vel hversu mikið vantar í hópinn. Vörnin er svosem þokkalega vel mönnuð, það lítur út fyrir að Solskjær geti stillt upp þeim öftustu 5 sem hafa verið hvað öflugastir síðan hann tók við. En miðjan, óboj sem hún er ekki upp á sitt besta. Miðjumennirnir í hópnum eru Fred, James Garner, Angel Gomes, Scott McTominay og Andreas Pereira. Það má því jafnvel búast við einhverjum tilfæringum eins og að fá að sjá Diogo Dalot taka kantstöðu eða eitthvað því um líkt. Ekki það, Dalot hefur virkað mjög sprækur í þeirri stöðu þegar hann hefur þurft að leysa hana.
Það verður áhugavert að sjá hvernig liðinu verður stillt upp og hvort einhverjir kjúklingar fái sénsinn í starti eða komi inn á og fái mínútur og virkilega dýrmæta reynslu með aðalliðinu. Hér er allavega ein hugmynd að byrjunarliði:
Gleymum því ekki að Manchester United hefur auðvitað áður sýnt snilli sína þegar kemur að endurkomum í þessari keppni. Flestir héldu nú að liðið væri úr leik þegar það lenti undir gegn Juventus á útivelli, bæði 1999 og líka bara fyrr á þessu tímabili. En þá sýndi liðið seiglu sína og karakter. Auk þess sem Manchester United á auðvitað líka bestu endurkomu í sögu Meistaradeildarinnar á sinni ferilsskrá. Það er ýmislegt hægt í fótboltanum.
Dómarinn
Knattspyrnudómarinn Damir Skomina fæddist í borginni Koper í suðvesturhluta Slóveníu (sem þá var hluti af Júgóslavíu) í ágúst 1976. Hann hefur verið alþjóðlegur FIFA dómari frá árinu 2003 og dæmt á mörgum stórmótum frá þeim tíma. Hann dæmdi til dæmis nokkra leiki á EM 2016, sælla minninga.
Það er líka áhugavert að skoða síðasta leik sem Skomina dæmdi hjá Manchester United. Þá einmitt fór liðið okkar upp á meginland Evrópu og vann þar góðan 2-0 sigur á andstæðingi sínum. Það væri ekkert amalegt að sjá það endurtaka sig á 90 mínútum og sjá svo hvert það tæki okkur eftir það.
Sigurður E Guðbrandsson says
PSG mun fara í 8 liða úrslitum, en það er allt í lagi því við vinnum hana á næsta ári 😁
Red says
Það er alltaf næsta ár