Þann 26. maí verða slétt 20 ár síðan Ole Gunnar Solskjær skoraði markið sem kom honum endanlega í sögubækur Manchester United. Þann 26. maí verða slétt 20 ár síðan Solskjær renndi sér á hnjánum í átt að stuðningsmönnum Manchester United sem hver einn og einasti í einhverri mestu sæluvímu sem fyrirfinnst. Þann 26. maí verða slétt 20 ár síðan Manchester Untied bauð upp á eina ótrúlegustu endurkomu knattspyrnusögunnar.
Leikurinn þann 26. maí árið 1999 skiptir í raun engu máli á morgun nema hvað varðar sögu Manchester United. Félagið hefur átt stórkostlegar endurkomur í gegnum árin og það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar í ár þar sem ótrúleg endurkoma liðsins gegn PSG í París tryggði farseðilinn í 8-liða úrslit. Eftir að hafa tapað fyrri leiknum 0-2 á Old Trafford þurfu leikmenn kraftaverk á Parc de Princes. Á endanum var það heimastrákurinn Marcus Rashford sem skaut Manchester United í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan Sir Alex Ferguson var við stjórnvölin.
3 points is all that matters ⚽️ pic.twitter.com/ACiplbbOwR
— Marcus Rashford (@MarcusRashford) April 13, 2019
Á morgun mun liðið þurfa á öðru kraftaverki að halda en frammistaðan gegn Barcelona á Old Trafford var allt í lagi en liðsmenn Manchester United náðu í raun aldrei að ógna marki hins þýska Marc-André ter Stegen og 0-1 tap niðurstaðan. Það er því ljóst að United verður að skora á Nývangi ásamt því að halda Lionel Messi, Luis Suarez, Philippe Coutinho og félögum niðri.
Gengi Manchester United undanfarið
Eftir að United skilaði sér heim frá París hefur gengi liðsins ekki verið upp á marga fiska. Alls hefur liðið tapað fjórum af síðustu sex leikjum sínum. Ágætis frammistaða gegn Arsenal dugði ekki til, tvö töp gegn Wolves [eitt í deild og annað í FA bikar] ásamt 0-1 tapinu gegn Barcelona. Sigrarnir sem hafa unnist hafa svo verið langt frá því fallegir en liðið rétt marði Watford á Old Trafford og það sama má segja um síðasta leik liðsins gegn West Ham United.
Það jákvæða við leikinn gegn West Ham var að liðið sýndi karakter. Paul Labile Pogba skoraði tvívegis sem þýðir að hann hefur nú alls skorað 16 mörk á leiktíðinni ásamt því að leggja upp önnur 11. Þá átti Fred mjög fínan leik við hlið Pogba en reikna má með því að þeir félagar byrji báðir leikinn á Nývangi. Með þeim á miðjunni verður svo Scott McTominay sem er hægt og rólega að verða uppáhald margra stuðningsmanna enda má segja að hann sé Darren Fletcher. Hann spilaði stóran þátt í því að miðja Börsunga var jafn hljóðlát og raun bar vitni á Old Trafford.
Started off as a joke now I've even got Lingard saying McSauce 😂
pic.twitter.com/TgcbCaw9WJ— ManUtdMindset (@ManUtdMindset) April 13, 2019
Ef United á að eiga möguleika gegn Barcelona þarf McTominay að hlaupa á við veðhlaupahest í allavega 90 mínútur. Þá þurfa framherjar liðsins að bjóða upp á meira en þeir hafa gert undanfarið en bæði Romelu Lukaku og Anthony Martial hafa verið mjög hljóðlátir að undanförnu.
Hvað gera Ole og félagar?
Ole Gunnar, og meistari Mike Phelan, hafa verið duglegir spila ýmis leikkerfi síðan þeir tóku við keflinu. Gegn PSG í París var Ashley Young einhverskonar blanda af hægri bakverði og hægri kantmanni. Eric Bailly var þá spilað sem utan á liggjandi miðverði en Fílbeinsstrendingurinn átti átakanlegan leik og var kippt út af í hálfleik. Young var svo orðinn hálfgerður miðvörður gegn Wolves nú nýverið en þá var Diego Dalot í hlutverki vængbakvarðar sem og kantmanns. Það sama má segja um leikinn gegn Barcelona á Old Trafford nema þá var Dalot vinstra megin að hjálpa Luke Shaw.
Shaw er að sjálfsögðu í banni á morgun og því áhugavert að sjá hvernig varnarlína United verður. Marcos Rojo lék sem vinstri bakvörður gegn West Ham um helgina en ég ætla að leyfa mér að efast um að hann byrji gegn Börsungum. Þá voru þeir Victor Lindelöf og Scott McTominay á bekknum gegn West Ham svo reikna má með þeim í byrjunarliðinu þegar flautað verður til leiks á Nývangi.
Another special night at the Nou Camp on Tuesday? @LukeShaw23 #MUFC #UCL pic.twitter.com/PTHVR83z6A
— Manchester United (@ManUtd) April 14, 2019
Meiðslalistinn fer minnkandi og bæði Alexis Sanchez og Nemanja Matic ættu að vera leikfærir.
Persónulega held ég að þjálfarateymið fari aftur í svipað kerfi og virkaði þegar þeir tóku við í desember. Það er hins vegar áhyggjuefni hversu þreyttur Paul Pogba virkar og hversu slakur Jesse Lingard hefur verið undanfarið. Mögulega gæti Andreas Pereira byrjað leikinn við hlið Fred og McSauce til þess að gefa Paul Pogba meira svigrúm sóknarlega. Hins vegar gæti hlaupageta og vinnusemi Lingard verið lykillinn að því að koma Spánarmeisturunum á óvart.
Barcelona leggur allt undir
Eftir 2-0 sigur gegn Atletico Madrid var í raun ljóst að Spánarmeistaratitillinn væri Börsunga í ár. Ernesto Valverde gerði sér því lítið fyrir og hvíldi nær allt byrjunarlið sitt gegn SD Huesca um helgina. Lokatölur þar 0-0 og Börsungar því með níu stiga forystu í deildinni þegar sex umferðir eru eftir. Hvorki Lionel Messi né Luis Suarez voru í hóp og þá voru leikmenn í byrjunarliðinu sem undirritaður hefur ekki heyrt nefnda áður [Jean-Clair Todibo, Moussa Wague og Riqui Puig].
Það er því ljóst að Börsungar ætla ekki að láta söguna endurtaka sig en liðið datt út úr 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð í einhverri ótrúlegustu rimmu sögunnar. Eftir að hafa unnið heimaleikinn gegn Roma 4-1 þá tapaði liðið á einhvern ótrúlegan hátt 0-3 í Róm og datt út á útivallarmarkareglunni. Það væri eftir því ef United myndi slá annað liðið í röð út þökk sé þeirri blessuðu reglu. Líkt og í fyrra er ljóst að sigurvegarinn úr rimmu Barcelona í 8-liða úrslitum mætir Liverpool í undanúrslitum.
Líklegt byrjunarlið Barcelona á morgun er líklega svipað og á Old Trafford nema að Samuel Umtiti gæti komið inn í vörn heimamanna. Það er því vonandi að Ole, ásamt Phelan og Michael Carrick, séu búnir að kortleggja lið Börsunga það vel að finna megi glufur á þessu ógnarsterka liði. Það er því aldrei að vita nema eftir 20 ár verði talað um 16. apríl 2019 sem merkan dag í sögu Manchester United alveg eins og við tölum um 26. maí í dag.
Sagan hefur allavega sýnt okkur að það er allt hægt.
OLE’S AT THE WHEEL… 🔥🔥🔥 #mufc #ggmu pic.twitter.com/izVVFEUR4n
— POG[BA}ILLY (@RiShstA) March 6, 2019
Helgi P says
Fórum við ekki í 8 liða úrslit með Moysaranum