Eftir að Manchester United mistók að viðhalda Meistaradeildardrauminum eftir afdrifarík einstaklingsmistök á þriðjudaginn síðast liðinn var ljóst að liðið mun ekki fagna neinum titli í ár. Ef litið er á björtu hliðina þá gefst meiri tími til að einblína á deildina en sem stendur er liðið í granítharðri baráttu við Tottenham, Arsenal og Chelsea um 3. og 4. sætið. Einungis 3 stig skilja þessi lið að og öll hafa liðin leikið 33 leik að undanskildu Chelsea sem hefur spilað leik meira.
Eftir úrslit vikunnar er þó ljóst að United er eina liðið af þessum fjórum liðum sem ekki er lengur í Evrópukeppni. Vonandi verður það til þess að liðið nái að einbeita sér alfarið að síðustu leikjum sínum en næstu umferðir munu hafa gríðarlegt vægi í þessari baráttu og hafa áhrif á titilbaráttuna um leið.
Á laugardaginn taka ríkjandi meistarar í Manchester City á móti Tottenham í þriðja skiptið á skömmum tíma en Tottenham skellti Pep Guardiola og hans mönnum úr Meistaradeildinni eftir gríðarlega skemmtilegt einvígi en City, sem er í harðri titilbaráttu við Liverpool í ensku deildinni, þarf nauðsynlega á öllum 3 stigunum að halda enda með erfiðari viðureignir framundan, a.m.k. á blaði.
Á hádegi á páskadag taka Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans hjá Everton á móti okkar mönnum en síðar þann daginn taka Arsenal á móti Crystal Palace. Chelsea spilar svo ekki fyrr en á mánudaginn en þá mæta þeir Burnley sem er svo gott sem búið að tryggja áframhaldandi veru sína í deildinni.
Leikir sem liðin eiga eftir:
3. sæti Tottenham 67 stig : Man. City (ú), Brighton (h), West Ham (h), Bournemouth (ú), Everton (h)
4. sæti Arsenal 66 stig : Crystal Palace (h), Wolves (ú), Leicester City (ú), Brighton (h), Burnley (ú)
5. sæti Chelsea 66 stig : Burnley (h), Man. United (ú), Watford (h), Leicester City (ú)
6. sæti Man. United 64 stig : Everton (ú), Man. City (h), Chelsea (h), Huddersfield (ú), Cardiff (h)
Það er því ljóst að það má lítið sem ekkert gefa eftir á síðustu metrunum enda eiga öll þessi lið erfiða leiki framundan, en ég tel að þau öll komi til með að tapa einhverjum stigum á lokasprettinum. Arsenal á 3 útileiki eftir en þeim hefur gengið illa að safna stigum á útivöllunum á þessu tímabili, Tottenham eiga eftir útileik við meistarana og Lundúnarslag, Chelsea á færri leiki eftir og einn af þeim verður 6 stiga leikur á Old Trafford. En áður en við gleymum okkur í pælingum um hvað og ef þá skulum við kíkja á leik morgundagsins.
Everton
Everton liðið ætlaði sér stóra hluti á þessu tímabili, þeir réðu Marco Silva sem stjóra liðsins í maí 2018 og eyddi stórum upphæðum á leikmannamarkaðinum það sumar og keyptu t.a.m. Richarlison (£35M), Yerri Mina (£27M) og Lucas Digne (£18M) auk Bernard (frítt) en mistókst að vinna leik á undirbúningstímabilinu fyrir utan einn 0-22 leik gegn smáliðinu Irding. Gengi liðsins í deildinni hefur verið eins og Yo-yo, en liðið fékk t.d. á sig 6 mörk í leik gegn Tottenham en vann svo næsta leik 5-1.
Stöðugleiki er eitthvað sem liðið þráir en á síðustu vikum hefur þeim hins vegar tekist að sigra Chelsea, Arsenal, West Ham og náðu í stig gegn Liverpool en svo töpuðu þeir fyrir Fulham í síðustu umferð. Það virðist sem svo að verulegur dagamunur sé á þessum leikmönnum og suma daga einfaldlega finni þeir fjölina sína en aðra ekki. Það verður því áhugavert að sjá hvort liði mætir á morgun til að taka á móti okkar mönnum en svona leit liðið út sem tapaði fyrir Fulham á laugardaginn var.
Einn leikmaður Everton liðsins sem íslenskir United stuðningsmenn þekkja eflaust betur en aðrir er Gylfi Þór Sigurðsson en sá hefur reynst okkur erfiður í gegnum tíðina og þó að United blóð renni í æðum hans þá virðist honum þykja fátt skemmtilegra en að skora eða leggja upp gegn United.
Íslenski landsliðsfyrirliðinn hefur skorað samtals fjögur mörk og lagt upp þrjú í viðureignum sínum við United en hann er jafnframt markahæsti maður Everton ásamt Richarlison.
Hins vegar er ljóst að André Gomes verður ekki með þar sem hann tekur út leikbann og þá er Yerri Mina enn á meiðslalistanum en aðrir ættur að vera klárir. Marco Silva mun því þurfa að gera einhverjar breytingar en byrjunarliðið gæti litið svona út:
Manchester United
Það verður í það minnsta áhugavert að sjá hvernig Ole Gunnar Solskjær stillir upp liðinu en eftir leikinn gegn Barcelona tók hann sig til og gagnrýndi leikmenn sína nokkuð og sagði að þeir gætu ekki falið sig þegar þeir væru á mála hjá liði eins og United. Sérstaklega minntist hann á Anthony Martial og vildi sjá meira frá honum og reyndar fleiri leikmönnum liðsins. Paul Pogba hefur líka fengið sinn skerf af gagnrýni en eftir óhemjugóða byrjun undir nýjum stjóra hefur heimsmeistarinn ekki verið upp á sitt besta og hefur átt það til að týnast í leikjum.
Ashley Young átti hörmulegan leik á móti Barcelona og jafnvel þótt Luke Shaw sé í leikbanni þá vil ég ekki sjá Young aftur í vinstri bakverði, en frammistaða hans hlýtur að undirstrika þörf okkar á bakvörðum. Sjaldséð sjón blasti við áhorfendum í sama leik, þegar David de Gea gerðist sekur um hræðileg mistök og verður fróðlegt að sjá hvort Romero fái tækifærið eða hvort Ole treystir á spánverjann sem er augljóslega ekki að eiga sitt besta tímabil síðan hann kom til United.
Lingard var sömuleiðis óvenju týndur í leiknum en sökum þess hve fámenn baráttan er um hægri kantmannsstöðuna í byrjunarliðinu (*hóst* Jadon Sancho? *hóst*) þykir mér ekki ólíklegt að hann byrji á kostnað Juan Mata.
Gengi liðsins hefur tekið dýfu og nú er það undir leikmönnunum og stjóranum komið að rífa liðið upp á endasprettinum, klára leiktíðina með stæl og stela Meistaradeildarsætinu af einhverju af Lundúnarliðunum.
Dómari leiksins verður Paul Tierney en hann mun flauta til leiks kl 12:30 að íslenskum tíma.
Óskar G Óskarsson says
do er die leikur ! ef þessi vinnst ekki þá getum við gleymt topp 4 !
Guð hjálpi okkar ef Rojo startar, held að það væri skárra að starta Darmian, hann er ólíklegastur af þeim til að gera einhver stór mistök !
annars veltur þessi leikur rosalega mikið á því hvort pogba sé með hausinn enþá fastan uppí rassgatinu á sér ! hann var nu úti að borða með kurt zouma i gær, þannig að þeir koma væntanlega vel gíraðir eftir að hafa átt kósýstund saman (afsakið meðan ég æli) mátti þetta ekki bíða fram yfir leik eða bara i nokkrar vikur ? kannski er ég bara af gamla skólanum, en mér finnst þetta ógeðslegt ! hefði maður séð keane, Scholes, Neville, Giggs, Rio fara út að borða með mótherja 2 dögum fyrir mikilvægan leik ?
MSD says
Við þurfum 3 stig og ekkert annað ef við ætlum að eiga séns í að enda í topp 4.
Gleymum því ekki að við eigum líka eftir að spila við Chelsea og City. Ég er ekki að sjá okkur ná fullu húsi stiga úr þessum 4 leikjum sem eru eftir.
Vona að Shaw og Dalot verði í bakvarðarstöðunum.
gummi says
Óli Gunnar þarf bara hætta þessari ást sína á young