Á morgun heldur Manchester United til West Yorkshire og heimsækir þar lánlaust lið Huddersfield United en leikur verður næst síðasti leikur United í deildinni á þessu tímabili. Liðið hefur verið á undanförnum vikum í sannkölluðu dauðafæri á að koma sér í bílstjórasætið í baráttunni við Arsenal og Chelsea (og reyndar Tottenham líka) um Meistaradeildarsæti en svo virðist sem ekkert af þessum liðum hafi löngun eða baráttuviljann sem þarf til þess að klára dæmið.
Öll hafa þau misstigið sig heiftarlega í síðustu umferðum og hreint með ólíkindum að ekkert liðið hafi gripið gæsina og neglt niður öruggt sæti í Meistaradeildinni.
United stimplaði sig eiginlega alveg út úr þessari baráttu í síðasta leik þegar Chelsea tókst að draga eitt stig heim með sér frá Old Trafford þökk sé mistökum frá David de Gea og tölfræðilegir möguleikar liðsins á Meistaradeild á næsta ári orðnir litlir sem engir.
Til þess þarf Arsenal að tapa stigum annað hvort á móti Brighton eða Burnley, Chelsea þarf að tapa stigum í báðum sínum leikjum OG United þarf að sigra báða sína leiki. Það er bara einfaldlega of mikið sem þarf að falla með okkur og miðað við lukku liðsins á undanförnum vikum þá segir eitthvað mér að við megum prísa okkur sæla með Evrópudeildina á næsta ári.
En að leiknum, United mætir Huddersfield á útivelli en ég skal éta hattinn minn ef við tökum ekki þrjú stig úr þeim leik. Hudderfield hafa hreinlega ekki mætt á völlinn síðan í nóvember á síðasta ári. Í síðustu 24 leikjum hefur liðið náð einum sigri (1-0 gegn Wolves) og einu jafntefli (markalaust gegn Cardiff) en í þessum 24 leikjum hafa þeir bara skorað 12 mörkum en fengið á sig 52 mörk.
Liðið hefur tapað 28 leikjum á tímabilinu en einungis Derby, Sunderland og Ipswich hefur tekist að tapa fleiri leikjum á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni (29). Huddersfield á enn eftir að spila tvo leiki svo þetta met gæti fallið. Liðið situr grafið á botni deildarinnar með einungis 14 stig úr 36 leikjum (W3 D5 L28) og hafa ekki veitt stuðningsmönnum sínum mikið til að gleðjast yfir á þessu tímabili.
Þeir virðast eiga langt í land og eiga alls ekki heima í deild þeirra bestu á Englandi en David Wagner sagði starfi sínu sem stjóri liðsins upp 14. janúar eftir að hafa farið í gegnum einn og hálfan mánuð án sigurs.
Það ætti því að vera öllum landsmönnum ljóst að það að taka ekki öll stigin þrjú á morgun er ekki í boði. Ef sú verður raunin þurfa allir leikmenn liðsins að ganga um með bréfpoka á hausnum þar til að næsta tímabil hefst og þá held ég að ansi margir leikmenn liðsins verði sendir í fallexi sumargluggans sökum metnaðar- og áhugaleysis.
Hugarfarsbreyting er það sem liðið vantar, það þarf að fara inn í alla leiki með eðli rándýrsins en ef við getum ekki hunskast til að jarða þetta sökkvandi skip (Huddersfield) sem nú þegar er komið á hafsbotninn, þá á þetta lið okkar ekkert erindi í einhverja toppbaráttuumræðu á næstu misserum.
Þegar kemur að byrjunarliðinu geri ég ekki ráð fyrir því að við sjáum neitt sem kemur á óvart. Ég býst við því að Ole Gunnar stilli aftur upp í hugsanlega 4-3-1-2 uppstillingu ef þetta verður byrjunarliðið hans, en mér væri hreinlega sama þótt hann byrjaði með Mason Greenwood, Tahith Chong, Angel Gomes og Ethan Hamilton alla í liðinu, ég myndi samt krefjast þess að liðið myndi valta yfir þetta Hudderfield lið, með fullri virðingu fyrir þeim þá voru þeir andlega fallnir fyrir mörgum mánuðum.
Ole Gunnar Solskjær hefur varið David de Gea með öllum tiltækum ráðum en ég held að engu síður sé þolinmæði þess norska orðin talsvert minni fyrir þessum mistökum hjá þeim spænska. Engu að síður er Sergio Romero að glíma við einhver minniháttar meiðsli og því verður de Gea að öllum líkindum í markinu á morgun.
Luke Shaw ætti að sitja sem fastast í vinstri bakvarðar stöðunni og Victor Lindelöf næstu við hans hlið. Hins vegar vandast málið á hinni hlið vallarins. Phil Jones hefur verið ágætur að undanförnu og mun að öllum líkindum byrja á morgun en ætli Ashley Young fái ekki enn eitt byrjunarliðssætið á kostnað Diogo Dalot, mörgum stuðningsmönnum til ama.
Á miðjunni munum við líklega sjá Paul Pogba og Ander Herrera en milli þeirra má gera ráð fyrir að Nemanja Matic fái pláss í liðinu þó persónulega myndi ég vilja sjá Scott McTominay sem er búinn að stíga virkilega upp að undanförnu. Fremsta línan hjá okkur hefur verið talsvert mikið í umræðunni en það er nokkuð ljóst að við erum einfaldlega ekki að skora nóg og þeir framherjar sem við erum með eru ekki að nýta færin nógu vel.
Romelu Lukaku byrjar ekki á morgun þar sem hann er á meiðslalistanum, svo líklega sjáum við Marcus Rashford og Alexis Sanchez saman fremsta með Juan Mata þar fyrir aftan. Það verður að teljast ólíklegt að Jesse Lingard byrji og sömuleiðis Anthony Martial en báðir þessir leikmenn hafa verið skugginn af sjálfum sér upp á síðkastið.
Huddersfield hafa verið að spila 4-5-1 og ég geri ráð fyrir því að Jan Siewert verði ekkert mikið að breyta því. Ben Hamer, Laurent Depoitre og Philip Billing verða allir frá en byrjunarlið Huddersfield gæti því litið svona út:
Leikurinn fer fram á The John Smiths’s Stadium í Huddersfield kl 13:00 á morgun og verður Lee Mason á flautunni.
Skildu eftir svar