Þá er loksins biðin á enda, skrípaleikstímabilinu er lokið og enski boltinn farinn að rúlla á ný. Enska Úrvalsdeildin hófst í gær á Anfield þar sem heimamenn tóku á móti nýliðum kanarífuglanna í Norwich. Stórleikur helgarinnar er hins vegar leikur okkar manna gegn Chelsea á Old Trafford en leikurinn er sá síðast í fyrstu umferðinni.
Þetta verður í fyrsta sinn síðan á tímabilinu 2004/2005 þar sem þessi tvö lið mætast í fyrstu umferðinni en þeim leik lauk með 1-0 sigri Lundúnarliðsins með marki frá Eiði Smára Guðjohnsen. Þó að United hafi ekki tapað fyrir Chelsea í síðustu þremur viðureignum þessara liða þá hefur gengið brösuglega að ná í öll þrjú stigin í deildinni en í síðustu 13 úrvalsdeildarleikjum hefur United bara borið sigur úr býtum tvisvar sinnum.
Hins vegar er öldin önnur núna. Bæði lið hafa gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum, bæði á stjórum og starfsliði og ljóst að fyrri viðureignir hafa ekkert forspárgildi fyrir komandi viðureign. Fyrsta heila tímabil undir stjórn Ole Gunnar Solskjær (vonandi!) eftir að sá norski fékk að styrkja nokkrar stöður í sumar. Harry Maguire og Aaron wan-Bissaka koma að öllum líkindum beint inn í byrjunarliðið en Daniel James gæti þurft að bíða eftir tækifæri enda talsvert öflugri barátta um hans stöðu en hinar tvær.
Mótherjinn
En þá að Chelsea, sem að misstu Maurizio Sarri eftir að sá ítalski skilaði þeim Evrópudeildartitli og þriðja sætinu í deildinni, en í hans stað er komin goðsögn þeirra bláu, Frank Lampard. Lampard endaði sinn feril sem leikmaður hjá New York City í MLS deildinni en hafði spilað lengst af fyrir Chelsea ásamt því að eiga að baki yfir 100 leiki með enska landsliðinu. Lampard tók við Derby County í Championship deildinni fyrir síðasta leiktímabil og skilaði hann hrútunum í útsláttarkeppnina en kom þeim ekki upp í Úrvalsdeildina.
Í sumar tók hann svo við sem stjóri Chelsea þegar ljóst var að Juventus myndi fá Sarri. Þetta var þrælfín ákvörðun hjá stjórninni þar sem að Chelsea var dæmt í bann og má því ekki kaupa leikmenn, hvorki í sumar né í janúarglugganum, en goðsögnin fær eflaust meira rými en aðrir stjórar fengju og því kjörið tækifæri til að gefa honum tækifærið.
Eins og áður sagði er liðinu meinað að bæta við leikmönnum á sama tíma og þeirra langbesti maður, Eden Hazard, er farinn til Real Madrid, en það þarf þó ekki að þýða að liðið sé mun veikara en áður. Christian Pulisic var keyptur fyrir bannið auk þess sem Mateo Kovacic var keyptur en Chelsea gat klárað þessi kaup þar sem samninga voru í raun gerðir fyrir bannið. Þá er einnig fjöldi leikmanna sem kom til baka úr láni, leikmenn eins og Kurt Zouma, Tiémoué Bakayoko og Kenedy.
Hins vegar missti liðið David Luiz á loka degi gluggans, nokkuð sem kom að ég held flestum að óvöru, til Arsenal. Það er deginum ljósara að það Hazard er leikmaður sem hefur unnið leiki upp á sitt einsdæmi fyrir Chelsea og því verður fróðlegt að sjá hvernig liðinu vegnar án hans. Eins verður áhugavert að fylgjast með hvernig tiltölulega lítt reyndum stjóranum vegnar í deild þeirra bestu á Englandi en ég spái engu að síður Chelsea í Evrópudeildarbaráttu í vor.
Þegar kemur að byrjunarliðinu tel ég að Chelsea gæti byrjað í 4-2-3-1
Manchester United
Loksins getum við hætt að spá og spekúlera í slúðrinu, glugganum hefur verið lokað. Við fengum frábæran miðvörð, einn allra besta hægri bakvörð sem völ var á og öskufljótan og spennandi hráan kantmann frá Swansea. Nokkuð sem uppá vantaði en heilt yfir eru þetta stöður sem hafa verið vandamál hjá okkur síðustu ár. Ole Gunnar Solskjær hefur kannski ekki alveg staðið við stóru orðin í lok síðustu leiktíðar, þar sem nánast allir leikmennirnir eru hérna ennþá sem voru þá og sú grysjun sem margir vonuðust eftir hefur ekki átt sér stað. Fleiri leikmenn munu ekki koma en þó kunna einhverjir að vera á förum en til lítils að velta sér upp úr því.
Liðið fór í gegnum undirbúningstímabilið með því að vinna alla leikina (reyndar fór einn leikur í vítaspyrnukeppni og annar var hársbreidd frá því líka) en engu að síður „fullkomið“ undirbúningstímabil í flesta staði. Ungu leikmennirnir fengu gríðarlega mikilvægar mínútur og virtust nýta þær allar, liðið virtist í flottu standi og flestir virtust ekki láta skrípaleik slúðursins trufla sig að nokkru leyti.
Reyndar spilaði Lukaku ekki mínútu í sumar og Sanchez var/er meiddur og því opnuðust möguleikar framar á vellinum fyrir kjúklingana okkar sem gripu tækifærið. James Garner, Angel Gomes, Tahith Chong og Mason Greenwood heilluðu allir í sumar og var enginn þeirra nema Garner að spila með varaliði United í gær sem gefur ákveðna vísbendingu um að þeir verði í hóp á morgun.
Það verður að segjast eins og er að framlína með hraðann sem Anthony Martial, Marcus Rashford og Daniel James bjóða upp á er mjög aðlaðandi, sérstaklega í ljósi þess að þegar varnarmenn mótherjanna fer að þreytast að þá geta hungraði, ungir leikmenn á borð við Gomes, Chong og Greenwood komið inn og valdið usla.
Það er ljóst að við verðum að spila á þessum ungu leikmönnum þar sem hópurinn er þunnt skipaður og ljóst að Ole Gunnar Solskæjar bíður verðugt verkefni að rótera hópnum nægilega mikið til að þreyta taki ekki sinn toll af gengi liðsins. Það getur reynst ansi snúið að velja byrjunarlið fyrir leikinn gegn Chelsea en ég vona að Solskjær stilli upp eitthvað í líkingu við þetta:
Af okkar mönnum eru nokkrir að glíma við meiðsli, Alexis Sanchez er að jafna sig eftir að hann þurfti að fara útaf í undanúrslitunum í Ameríkubikarnum, Lee Grant er meiddur auk þess að Bailly meiddist á undirbúningstímabilinu og ekki er búist við honum fyrr en í desember. Þá var Paul Pogba að glíma við minniháttar bakmeiðsl en gæti náð leiknum og Timothy Fosu-Mensah er að jafna sig eftir hnjámeiðsl.
Flestir sparkspekingar virðast á einu máli um að efstu tvö sætin í deildinni séu fyrirfram ákveðin en næstu lið verða eflaust mun jafnari en oft áður. Tottenham hefur fengið flottan liðsstyrk í sumar, auk þess að Arsenal stoppaði í götin í vörninni sinni með Kieran Tierney og David Luiz auk þess að fá Nicolas Pepe frá Lille, Everton hefur raðað inn leikmönnum og hefðu hugsanlega geta gert atlögu að meistaradeildarsæti ef þeim hefði líka tekist að landa Wilfred Zaha frá Palace og Leicester gerði vel með því að kaupa Tielemans og Ayoze Pérez.
Chelsea verður meira spurningarmerki en oft áður og þá verður líka fróðlegt að sjá hvort Wolves ráða við að vera í Evrópudeildinni eða hvort það mun aftra þeim í deildinni. Það má því gera fastlega ráð fyrir mjög harðri keppni í deildinni í vetur og stjarnfræðilega litlar líkur á að það sama endurtaki sig undir lok tímabils þegar liðin virtust keppast við að kasta frá sér fjórða sætinu.
En þar sem hér er um að ræða heimaleik gegn einu af þeim liðum sem við verðum í baráttu við út tímabilið að öllum líkindum og í ljósi þess að United nældi bara í 7 stig í 10 leikjum gegn ‘stóru 6’ á síðustu leiktíð þá verður Solskjær og hans menn að mæta einbeittir og tilbúnir á völlinn í fyrsta leik og klára þrjú stig og halda hreinu. Varnarlína United hefur ekki litið eins vel út í mörg ár sem kveikir örlítinn vonarneista en United fékk á sig 54 mörk á síðustu leiktíð sem er engan veginn boðlegt. Kaupin á Maguire og wan-Bissaka eiga að vera svörin okkar við því og færa stöðugleika yfir öftustu línu en báðir þessir leikmenn spiluðu hart nær alla leiki á síðasta leiktímabili.
En vandamálin einskorðast ekki við vörnina. Við skoruðum einungis 65 mörk á síðasta tímabili en nú hefst fyrsta heila tímabilið hans Solskjær. Þegar hann tók við sem bráðabirgðastjóri United tókst honum að vera með að meðaltali 2,32 stig í leik og liðið skoraði oftar en ekki 3-4 mörk en eftir ráðninguna fengust einungis 0,80 stig að meðaltali í leik. Það er þó vonandi að honum hafi tekist að móta liðið betur í sumar eftir sinni taktík og við munum sjá frjálsan og hraðan bolta í vetur sem svipar til þess þegar hann tók við á síðasta ári.
Leikurinn hefst kl 15:30, Glory, glory.
Theodór says
2-0 fyrir united (rashford & pogba) og lampard fær fallexina frægu frá rússanum áður en tímabilið er allt.
Gisli G. says
Þessi fyrsti leikurinn er eitt stórt spurningarmerki fyrir gamlan United stuðningsmann.
Erum við að fara að tapa illa fyrir Chelsea eða erum við bara mættir til leiks að spila skemmtilegan fótbolta með skemmtilegum úrslitum ?
Ég bara veit ekki hvort ég á að vera bjartsýnn eða svartsýnn… held ég sé smá bjartsýnn en innst inni skíthræddur :-)
Vona a.m.k. að baráttan verði í fyrirrúmi – þá er mikið unnið – ég vil baráttuhunda í liðið og sýnist nýkeyptir vera þannig stemmdir.
Ég finn núna að ég er bara allt í einu orðinn helv… bjartsýnn.
gummi says
Hvernig er samningamálin hjá de gea var ekki betra látta hann skrifa undir áður en glugganum var lokað erum við ekki bara fara missa hann frít á næsta ári
Hjöri says
Það er bara orðið típiskt hjá Utd að draga og draga að fá undiskrift leikmanna, og svo fara þeir frítt.