Í dag mætti United í fyrsta leik tímabilsins en mótherjar dagsins voru lærisveinar Frank Lampard í Chelsea. Þetta var frumraun Lampard sem stjóri í ensku Úrvalsdeildinni. Ole Gunnar Solskjær stillti upp í 4-2-3-1 eins og í hart nær öllum leikjum undirbúningstímabilsins með Paul Pogba og Scott McTominay fyrir aftan Andreas Pereira á miðjunni. Gífurlega ungt lið United steig út á völlinn í dag en meðalaldur útileikmanna náði ekki 24 árum. Leikurinn var sá síðasti í fyrstu umferðinni en öll hin stóru liðin tóku 3 stig úr sínum leikjum og því enn mikilvægara að ná í öll þrjú stigin úr þessum leik fyrir bæði liðin.
Á bekknum voru þeir Romero, Mata(’86), Young, Tuanzebe, James(’74), Matic og Greenwood(’86).
Ekki frá því að aukinn fiðringur fylgdi leiknum í dag við að sjá Harry Maguire í United treyjunni loksins en hann byrjaði leikinn við hlið Lindelöf í hjarta varnarinnar. Snemma í leiknum tókst Chelsea að krækja í horn sem varnarmenn United skölluðu í burtu en Tammy Abraham var fyrstur á boltann eftir smá klafs og átti þrususkot í stöngina. Mikil barátta og leikurinn fjörugur strax frá upphafi.
Á 8. mínútu fengu United fyrstu marktilraunina eftir hörmulega sendingu Kurt Zouma eftir pressu frá United en veikt skot frá Anthony Martial var auðvelt fyrir Kepa Arrizabalaga. Bæði lið pressuðu ofarlega á völlinn og mikill hasar fyrstu mínúturnar. Stuttu siðar áttu gestirnir hættulega sókn þegar Jorginho renndi boltanum fyrir mark heimamanna en enginn sem náði til boltans. Chelsea virkuðu þó mun tilbúnari í leikinn og voru mun meira með boltann og áttu hættulegri færi.
Næst dróg til tíðinda á 17. mínútu þegar brotið var á Pereira en dómarinn leyfði leiknum sem betur fer að ganga og Marcus Rashford komst inn fyrir vörn gestanna, stoppaði þegar hann var kominn inn í teig og Zouma sparkaði þá í fótinn sem Rashford stóð í. Réttilega dæmd vítaspyrna og Rashford sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Arrizabalaga. 1-0 en örugglega ekki eina markið í þessum leik.
Það virtist gefa okkar mönnum heilmikið sjálfstraust að fá þetta mark og leikmenn liðsins snéru við blaðinu eftir að Chelsea var talsvert meira með boltann fyrstu 10-15 mínúturnar en næstu 10 var United um 70% með boltann. Chelsea misstu þó ekki haus og voru staðráðnir í að jafna leikinn fyrir hálfleik.
Aftur kom Rashford boltanum í markið á 35. mínútu en var réttilega dæmdur rangstæður enda um 4 metrum fyrir innan varnarlínu Chelsea en spurning hvort ekki hafi verið brotið á Pogba um meter fyrir utan teig áður en Rashford var rangstæður. Hinu megin á vellinum áttu gestirnir tvö ágæt skot og aftur eftir mikla pressu fengu þeir tvö önnur skotfæri, annað varði de Gea með fótunum og seinna skotið bergmálaði í stönginni. Aftur var ramminn að bjarga United og greinilegt að heppnin var okkur hliðholl í fyrri hálfleik.
Rétt fyrir hálfleik kom mikil pressa frá Chelsea en náðu ekki að skapa sér mikið og United fór með 1-0 forystu inn í leikhlé.
Seinni hálfleikur
Aftur byrjuðu gestirnir af krafti og áttu fyrstu mínúturnar og uppskar Jesse Lingard fyrsta gula spjald leiksins eftir að hann traðkaði á Mateo Kovacic. Stuttu síðar hélt United þungri pressu á Chelsea sem endaði með skoti frá Rashford sem fór beint í varnarmann. Chelsea fékk sín færi líka en de Gea var vandanum vaxinn í markinu og varði fast skot frá Emerson sem var einn líflegasti leikmaður Chelsea.
Á 58. mínútu braut Tammy Abraham á McTominay og fékk gult spjald fyrir og á sama tíma kom Christian Pulisic inn á, en stuðningsmenn binda miklar vonir við hann, sérstaklega í ljósi þess að Eden Hazard er farinn til Madrídar.
Chelsea hélt áfram að herja á United en áttu erfitt með að finna glufur á vörninni og eftir að Maguire hirti boltann af Abraham fyrir framan D-bogann á okkar vallarhelming, sendi hann boltann á Rashford sem bar hann hátt upp á völlinn og átti stungu á Lingard. Sá enski náði að senda boltann fyrir markið þar sem Martial kom á fleygiferð og setti boltann framhjá Arrizabalaga af stuttu færi.
Á meðan höfundur var enn að skrifa um annað markið kom perlusending frá Paul Pogba fyrir aftan vörn Chelsea og Rashford fyrstur á boltann með frábæra fyrstu snertingu og sendi boltann aftur framhjá markverði Lundúnarliðsins. Staðan skyndilega 3-0 fyrir United.
Á 74. mínútu kom Daniel James inn fyrir Pereira en sá velski fékk hlýlegar og góðar móttökur við skiptinguna. Sá átti eftir að setja sitt mark á leikinn því á 81. mínútu brunaði Pogba upp vinstri kantinn og tók þríhyrningsspil við Martial og var kominn einn inn fyrir en varnarmenn Chelsea hlupu hann uppi en James kom á sprettinum hinu megin og fékk boltann frá Pogba. James átti ekki frábæra snertingu en engu að síður tókst honum að koma boltanum í fjærhornið með örlítill viðkomu í varnarmanni. 4-0 og orðið heldur þungt yfir Lampard og félögum.
Síðust tvær skiptingar United komu í einu á 86. mínútu þegar Juan Mata og Mason Greenwood komu inn fyrir Rashford og Lingard. Chelsea tókst að koma sér í álitleg færi en de Gea varði allt sem kom á rammann og hélt búrinu tandurhreinu í dag.
Pælingar að leik loknum
Frábær leikur, frábær byrjun á tímabilinu og eflaust fáir stuðningsmenn sem bjuggust við 4-0 sigri gegn einu af sterkustu liðum deildarinnar. En lokatölur úr leiknum gefa ekki rétta mynd af leiknum því á köflum voru Chelsea einfaldlega betri aðilinn. Heppnin var með okkur í liði í dag en á sama tíma grátlegt fyrir gestina að stangirnar voru á sínum stað. Lampard getur tekið ýmislegt út úr leiknum en menn kannski furða sig á því hvers vegna Kante og Giroud byrjuðu ekki en Chelsea verða að öllum líkindum firnasterkir í vetur. Pulisic átti flotta innkomu og mun eflaust fá stórt hlutverk í vetur enda stórt skarð sem Hazard skilur eftir sig.
Kurt Zouma átti alls ekki góðan dag og var versti leikmaðurinn á vellinum í dag. Hann gaf United víti á silfurfati og kom ekki í veg fyrir fyrirgjöfina í næsta marki. Kepa Arrizabalaga átti ekkert sérstakan dag heldur og verður fróðlegt að sjá hvernig Lampard púslar vörninni saman fyrir næsta leik.
Vörnin hjá Manchester United var hins vegar talsvert öruggari og yfirvegaðari, þrátt fyrir að Maguire hefði aldrei spilað með Lindelöf, Shaw og wan-Bissaka áður. Það að hafa haldið hreinu þrátt fyrir það gefur vonandi góð fyrirheit fyrir komandi vetur þar sem liðið á eftir að slípast saman. Maguire hafði samt sem áður gríðarlega góð áhrif á vörnina strax í þessum fyrsta leik, var með mikla yfirburði í loftinu og með wan-Bissaka í hægri bakverðinum leit vörnin mjög vel út. Lindelöf var frábær í leiknum og virðist mun öruggari með Maguire sér við hlið.
Man Utd vs. Chelsea:
most clearances: Maguire (7)
most tackles won: AWB (6)
most interceptions: Maguire (4)
most blocks: Maguire (2)Man Utd’s new-look defence has impressed. 🙌 pic.twitter.com/XsPyIOCo79
— Statman Dave (@StatmanDave) August 11, 2019
Framlínan var líka mjög spræk, Martial og Rashford báðir á skotskónum og Lingard út um allan völl að valda Chelsea vandræðum. Hins vegar var miðjan ekki síðri. Scott McTominay var mjög öflugur og Pogba vaknaði til lífsins í síðari hálfleik og eignaði sér miðjuna. Það má segja að Chelsea hafi ekki séð til sólar í síðari hálfleik þökk sé þeim tveimur.
Mason Greenwood var sá eini af táningunum á bekknum sem fékk að koma inn á en fékk einungis örfáar mínútur og tókst ekki að setja mark sitt á leikinn. Hins vegar ef United spilar svona gegn minni liðunum þá er alveg öruggt að hann, Angel Gomes og Tahith Chong fá nóg af tækifærum.
Þó skulum við halda okkur á jörðinni, tímabilið vinnst ekki í fyrstu umferðinni en gríðarlega góður og sterkur sigur á Chelsea. Næsti leikur er erfiður útileikur á móti Úlfunum en þeir gerðu markalaust jafntefli við Leicester City í fyrstu umferðinni. Úlfarnir undir stjórn Espirito Santo reyndust okkur efiðir á síðasta tímabili og því verður líklega hörkuslagur á Molineux vellinum á mánudaginn eftir viku.
Helgi P says
Ef við vinnum ekki þetta chelsea lið þá getum við gleymdi þessu 4 sæti
Rúnar P says
Djöfull er Aaron Wan-Bissika öflugur!
Bjarni Ellertsson says
Heppnin með okkur i dag og þurfa menn hárblásara frá Ole í hálfleik.
Turninn Pallister says
Ekki mikið hægt að væla yfir þessu. Vörnin þarf að gélast aðeins betur saman (enda er þetta fyrsti leikurinn sem þessi lína spilar). Perreira að stíga upp, Scott hefur átt fínan leik og svo Rashford og Martial að skila mörkum. Wan Bissaka og Harry verið mjög flottir í fyrsta leik. Spennandi svo að sjá hvernig Daniel James mun standa sig í vetur. Virðist vera mikill hraði í þessum strák.
Veit að það vantar ögn meiri gæði inn á miðjuna
Turninn Pallister says
Já vá, takk Daniel James ;)
Helgi P says
Því líkur leikur hjá nýju mönnunum okkar
Valdi says
Geggjuð úrslit þótt þau segja ekki mikið og leikinn sjálfan. Vörnin þétt og gerði allt rétt fyrir utan 1-2 mistök. Miðjan greinilega, eins og allir vita, okkar veikleiki og sóknin skilaði sínu. Svona munum við vinna liðin fyrir neðan miðju, veit ekki hvað gerist þegar við mætum þeim betri.
Páll says
Pereira átti sendinguna góðu fyrir markið sem Martial skoraði úr.
Timbo says
Langt siðan að mér hefur liðið jafn vel eftir leik á old trafford. Þriðja markið hrein unun og gæsahúðar – moment þegar James fagnaði. Mctominay domineraði miðjuna i seinni hálfleik. Hellingur sem þarf að bæta en endorfin kick-ið er botni… Let the good times roll
Helgi P says
Við værum komið með nokkuð gott lið ef við kaupum 2 miðjumann til að vera með pogba
MSD says
…og Pogba nær að láta kastljósið beinast að sér eftir þessa flottu byrjun hjá liðinu.
https://www.mbl.is/sport/enski/2019/08/11/pogba_yjar_enn_ad_brottfor_fra_united/
Ekki séns að það verði samþykkt tilboð í hann þegar glugginn er lokaður á Englandi og ekki hægt að kaupa replacement í staðinn. Finnst þetta pínu kjánalegt með þessa gluggalokun, að hún sé fyrr á Englandi en annarsstaðar í Evrópu. Skil hugsunina á bak við það en þetta fellur pínu um sjálft sig þegar allir í löndunum í kringum þig mega ennþá versla.
Audunn says
Mjög góð úrslit í fyrsta leik, ekki hægt að biðja um betri byrjun á tímabilinu.
Manni leið alls ekkert vel fyrsta korterið eða reyndar stærsta hluta í fyrrihálfleik, það var þá aðalega miðjan sem manni þótti vera ótraust.
En þetta skánaði mikið í síðari hálfleik og leikur liðsins á köflum frábær.
Hef samt sem áður ákveðnar áhyggjur af miðjunni í vetur, hefðum þurft að versla einn sterkan miðjumann en það þýðir ekkert að fást um það úr þessu.
varðandi pogba og þetta sem hann lét út úr sér með að framtíðin væri ennþá stórt spurningarmerki þá get ég ekki ýmindað mér annað en að hann klári þetta tímabil og fari næsta sumar. Ætli það sé ekki nú þegar búið að lenda málinu á þann veg.
Nema hann fari hreinlega fram á sölu og fari í verkfall og verði með vesen, á síður von á að svo verði þar sem hann segist vera ánægður, amk kemur hvergi fram að hann sé óánægður í dag.
Það verður næsta stóra verkefni Ola Gunnar (verði hann ennþá stjóri) að taka til á miðjunni, Fred fær þetta tímabil til að gera eitthvað annars fer hann og Matic fer mjög líklega næsta sumar líka þannig að undirbúningur við að endurmanna miðjuna mun líklega fara í gang fljótlega ef hún er þá ekki þegar farin í gang.
En það er annað mál, klárum þetta tímabil fyrst :) áður en við spáum í það..