Ole Gunnar Solskjær gerði eina breytingu á liðinu frá því um síðustu helgi, Daniel James kom inn í lið United fyrir Andreas, og Lingard færði sig inn á miðjuna, í tíu stöðuna. United byrjaði vel og hélt boltanum vel, og Wolves vörðust aftarlega, þó með ágætum rispum framávið. Þær strönduðu yfirleitt á vörninni, ef ekki öðruvísi þá með því að Harry Maguire skallaði frá.
Það voru engin færi að segja frá fyrsta kortérið eða svo, þangað til að Marcus Rashford lék Bennett illa úti við vítateigsmörk, fékk fría fyrirgjöf en Anthony Martial var aðeins of langt frá boltanum. Hefði kannske getað gert betur þar. Snemma í leiknum hafði Jon Mott sleppt að dæma þegar Daniel James féll við og um miðja hálfleikinn lét James sig detta auðveldlega þegar hann var að fara fram hjá varnarmanni og fékk gult fyrir. James þarf að passa sig að fá ekki orðspor á sig, hvort sem er réttilega eða ekki.
En sóknir United báru loks árangur þegar fyrsta skot þeirra á markið fór inn. Wolves höfðu verið í sókn og United byggði upp gagnsókn, ekki mjög hraða en nóg til að vörn Wolves var ekki orðin mjög djúp. Rashford fékk boltann utan við teig og áttin fullkomna sendingu inn fyrir, þar sem Martial kom og skoraði í fyrstu snertingu frá markteig. Frábær spilamennska.
Áfram hélt leikurinn á svipaðan hátt, enda ekki ástæða ennþá fyrir Wolves að hætta á meiri sóknarþunga og opna á gagnsóknir. United fékk engin færi fyrr en á síðustu sekúndu hálfleiksins þegar Martial fékk stungusendingu, varnarmaður kom í tæklinguna, hitti hvorki Martial né boltann en truflaði nóg til að Martial steig á boltann og færið fór forgörðum.
Fyrri hálfleikur var þannig frekar tíðindalaus, en vel spilaður, bæði lið héldu sig við sína taktík og spiluðu hana vel. United var traust fyrir í vörninni, Wan-Bissaka tæklaði allt sem þurfti og Maguire var sem veggur. Munurinn var síðan þessi eina stungusending og framherja mark Martial.
Wolves gerði breytingu á vörninni í hálfleik, Adama Traore kom inná fyrir Doherty. Sem fyrr segir var Wan-Bissaka búinn að vera traustur í vörninni en hann var ekki síður búinn að vera skæður á vallarhelmingi Wolves, og með flestar sendingar á sóknarþriðjungnum. Samspil hans við Daniel James kom honum upp kantinn snemma í seinni hálfleik og hann gaf fyrir í fyrsta þar sem Lingard átti að ná skoti en kingsaði illilega.
Nú var Wolves farið að setja meiri kraft framávið og úr aukaspyrnu átti Jiménes svaka skalla í stöng og þaðan í De Gea og út. Sóknin hélt áfram og Wolves unnu horn, eftir smá samspil var gefið út á Rúben Neves óvaldaðan utan teigs, öll vörnin var inni í teig og of lengi út á móti honum. Neves hafði því nægan tíma til að leggja boltann fyrir sig og hamra honum síðan í slá og inn. Dómarinn og VAR tóku mínútu í að ákveða að Wolves hefðu ekki verið rangstæðir í fyrrnefndu samspili og Úlfarnir búnir að jafna.
United hélt boltanum eftir markið en ekki jafn sannfærandi og í fyrri hálfleik og Wolves voru ákveðnari í aðgerðum. Sendingar United framávið voru ómarkvissar og jafnvel fálmandi, augljóst að liðið var slegið út af laginu. Engu að síður tókst þeim að vinna víti á 67. mínútu. Pogba kom upp, gaf veggsendingu á Rashford og þegar hann fékk boltann aftur sparkaði Coady í fót hans og víti réttilega dæmt. Pogba tók vítið sjálfur, sleppti tiplinu í þetta sinn, en hitti ekki nógu langt út að stöng og Rui Patrício varði vel. Ekki nógu gott víti.
United sótti en það var ekki alveg nógu beitt og þegar Wolves komu á móti vantaði svolítið upp á að miðjan væri nógu öflug. Fyrsta skiptingin kom ekki fyrr en á 80. mínútu þegar Jesse Lingard fór útaf fyrir Juan Mata. Alltof síðbúin skipting og sýnir kannske að varamannabekkurinn er ekki sá öflugasti.
United náði engum tökum á leiknum það sem eftir lifði leiks og ef eitthvað var voru Úlfarnir skeinuhættari. Síðasta tilraunin var að setja Mason Greenwood og Andreas inná fyrir Dan James og Rashford. Dómarinn bætti við fjórum mínútum en það nægði ekki. United átti loksins góða sókn á síðustu mínútunni en það var Luke Shaw sem fékk boltann og átti skot beint á markmanninn.
Kannske má líta á þetta sem skárri úrslit í síðustu tveimur leikjum á Molineux en lið hljóta að taka á móti United með von í brjósti eftir þetta. Miðjan var varla til, of mikið af sendingum fóru úrskeiðis og það vantar bit í sóknarleikinn. Vörnin var þokkaleg en það voru gríðarleg mistök að dekka ekki Neves í horninu.
Sanngjarnt jafntefli og United verður að gera betur í næstu leikjum sem eiga allir að vinnast. Á pappírnum. Sjáum til eftir þá hrinu.
Liðin:
Varamenn: Sergio Romero, Tuanzebe, Andreas, Young, Mata, Matic, Greenwood
Rúnar P says
Að við skildum hafa haft leikmann í 9 ár sem gat aðeins notað einn fót og Ashley Young sem backup í stöðu hægri bakverði???
Björn Friðgeir says
Rúnar: No value in the market!
Tómas says
Ekki alslæmt. Fannst við betri aðilinn gegn þrjósku liði úlfanna.
Vantaði að klára þetta. Agalegt að klikka á þessu víti.
Mctominay og Shaw voru slakir á kafla í seinni hálfleik.
Auðunn says
Afhverju tekur Pogba þetta víti?
Fjórða vítið sem hann klúðrar á 12 mánuðum…..
Hver tekur þessar ákvarðanir, bara sá sem það vill hverju sinni?
Í svona aðstæðum þá þarf að vera einhver alvöru leiðtogi innan sem utan vallar sem tekur svona ákvarðanir.
Pogba og hans egó á ekki að ráða þessu.. gjörsamlega óþolandi hvernig United hendir frá sér annars yfir heildina mjög góðum leik með barnalegri heimsku.
Í öllum liðum er ákveðinn leikmaður sem tekur vítin. Þetta á ekki að vera bara einhvernveginn eftir því hvað hverjum hentar hverju sinni…
Rúnar Þór says
OLE þarf að stíga upp og segja hver er vítaskytta liðsins = Rashford
Ekkert mig langar mig langar kjaftæði
Einar H says
Heilt yfir sanngjarnt! Ósáttur með að Pobga hafi tekið vítið en hefði hann skorað hvað þá ?
Audunn says
Ole Gunnar sagði á Sky eftir leikinn að þeir séu báðar vítaskyttur og að þeir ákveði þetta sín og milli.
Hvað er það? Er búið að innleiða 6.flokks reglur hjá Manchester United?
Erum við þá að fara að horfa upp á það í allan vetur að þeir ræði og rífist um hver á að taka víti í hvert einasta skipti sem United fær víti?
Það er algjörlega glórulaust.. Ole Gunnar verður að hafa pung til þess að taka alvöru ákvarðanir.
Ef hann er ekki maður til þess þá hefur hann ekkert i þetta starf að gera.
MSD says
Wolves eru gríðarlega þéttir til baka og ég óttaðist þennan leik talsvert. Það hentaði okkur betur að spila gegn Chelsea því þeir komu hærra á völlinn og við gátum nýtt okkur plássið bak við vörnina þeirra með hraðanum sem Martial, Rashford og James búa yfir. Það þarf öðruvísi nálgun á lið eins og Wolves.
Að því sögðu þá var þetta ekki slæmt en samt ekki nógu gott heldur. Finnst svolítið skrítið að vera með tvær vítaskyttur. Miðað við serimóníurnar sem Pogba hefur verið með varðandi þessi víti þá vil ég helst ekki sjá hann á punktinum. Pirraði mig óstjórnlega mikið þetta hæga skokk að boltanum í fyrra. Ég var því mjög ánægður að sjá Rashford taka vítið í síðasta leik.
Jákvæðir punktar eru þó þeir að vörnin lookar mun sterkari og samstilltari en í fyrra. Einungis draumaskot frá Neves náði í gegn í dag. Ég hef þó áhyggjur þegar við mætum liðum sem pakka í vörn gegn okkur og liggja aftarlega. Mér finnst okkur vanta meira creativity á miðjuna til að sprengja upp svoleiðis taktík gegn okkur. Það hefur reyndar verið vitað lengi…
Björn Friðgeir says
Ég er ánægður að sjá að það er ekki öll ykkar eins svartsýn yfir þessum leik og ég var. Verð að segja að það hjálpar og ég held að ég sé bjartsýnni í dag en ég var við lokaflaut í dag.
Poddum í vikunni og ræðum þetta.
Helgi P says
Ætla vona að þetta sé síðasta vítið sem Pogba tekur fyrir United
gummi says
Af hverju reyndi united ekki við Neves hann er leikmaður sem okkur vantar