Eftir þá rússíbanaferð sem sumarglugginn bauð okkur upp á þar sem United virtist vera á höttunum eftir öðrum hverjum leikmanni Evrópu og undirbúningstímabil með sex sigrum í jafnmörgum leikjum og markatöluna 12-3 voru jafnvel svartsýnustu stuðningsmenn United tilbúnir til að gefa Ole Gunnar Soskjær og liðinu svigrúm til að sýna hvað í því býr.
Leikarnir hófust á Old Trafford, sem kannski mun bera annað nafn í framtíðinni en það er saga fyrir annan dag, þar sem United tók á móti Chelsea í fyrsta stórleik tímabilsins. Þar mættust tvö áþekka lið sem bæði eru að ganga í gegnum ákveðið skeið breytinga með gamlar kempur við stjórnvölinn.
Okkar menn byrjuðu tímabilið með kraftmiklum 4-0 sigri í þeim leik en síðan hefur leiðin legið niður á við þar sem við tók jafntefli í leiknum við Wolves, sem þó eru ekki alslæm úrslit enda náðu þeir 7. sætinu á síðasta ári og svo grátlegt tap fyrir Crystal Palace á heimavelli 1-2.
Þetta var í fyrsta sinn sem United tapar fyrir Palace í ensku Úrvalsdeildinni og mikil reiði stuðningsmanna braust út í kjölfarið enda fóru tvær vítaspyrnur í súginn í þessum leikjum, ein í hvorum leik. Það skal þó taka það fram að í fyrra tók United einungis 2 stig út úr þessum 3 viðureignum og því um bætingu að ræða þó vissulega hefðum við haft góð tækifæri til að ná í öll 3 stigin í öllum leikjunum.
Ole Gunnar Solskjær hefur fengið mikla gagnrýni á sig fyrir að hafa ekki verið búinn að útnefna vítaskyttu liðsins fyrir leikinn gegn Úlfunum þar sem Paul Pogba klúðraði enn einni vítaspyrnunni en ekki batnaði það þegar Marcus Rashford setti boltann í stöngina úr sinni vítaspyrnu gegn Palace. Færa má rök fyrir því að báðar spyrnurnar hafi kostað okkur sigur, í það minnsta einhver stig.
Ekki batnaði ástandið fyrir Solskjær þegar bæði Luke Shaw og Anthony Martial meiddust í síðasta leik liðsins, en fyrir leik var leikmannahópurinn nokkuð þunnur en þetta bætti gráu ofan á svart. Nú virðisti Chris ‘Mike‘ Smalling vera að fara til Roma á Ítalíu á lán og svo er Alexis Sanchez á leið til Inter Milan þar sem hann hittir fyrir Romelu Lukaku sem fór þangað á lokadegi enska leikmannagluggans.
Þá er Diogo Dalot meiddur og leikmannahópurinn orðinn ansi fámennur og því gæti Solskjær neyðst til þess að hætta við að selja Matteo Darmian og/eða Marcos Rojo sem ættu samkvæmt öllu að vera löngu farnir frá Manchesterborg. Við skulum þó vona að ekki þurfi að grípa til slíkra neyðaraðgerða en stutt er í að leikmannagluggar í helstu deildum Evrópu loki og því þarf að taka ákvarðanir á allra næstu dögum hvað þessi mál varðar.
En bjartsýnisplebbar á borð við mig líta á svona vandræði sem tækifæri, tækifæri fyrir unga og efnilega leikmenn að sýna hvað í þeim býr. Mikið hefur verið rætt og ritað um að nú hafi hugsanlega skapast tækifæri fyrir Brandon Williams, í kjölfar meiðsla Luke Shaw.
Téður Williams er 18 ára gamall og hefur heillað með unglingaliði United á undanförnum vikum. Hann var í leikmannahópnum sem fór til Frakklands þegar United skellti PSG á svo eftirminnilegan hátt úr Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. Þó verður að teljast líklegra að reynsluboltinn Ashley Young, fyrirliði liðsins, verði sá sem fyllir það skarð sem Shaw skilur eftir sig.
Þar sem Martial verður ekki með og Sanchez er farinn verður áhugavert að sjá hvernig Solskjær stillir upp liðinu en í síðustu tveimur leikjum hefur liðið skort alla sköpunargleði fram á við. Sóknarleikur liðsins hefur virkað ryðgaður, fyrirsjáanlegur og einhæfur sem undirstrika það að skapandi sóknarmiðjumann vantar í hópinn, sérstaklega í ljósi þess hve slakur Jesse Lingard hefur verið fyrir okkur undanfarið.
Þá er ég ekki viss um að Mason Greenwood, Tahith Chong og Angel Gomez séu tilbúnir í ensku deildina þó vissulega gætu þeir í neyð leyst þessa vandræðastöðu fyrir okkur til skamms tíma. Juan Mata hefði að mínu mati hentað betur gegn Crystal Palace þar sem hann hefur næmt auga fyrir sendingum gegn liðum sem liggja aftarlega og verjast með 10-0-0 uppstillinguna en á sama tíma er hann mjög hægur og hentar ekki í pressuboltann sem Solskjær vill spila, tala nú ekki um þegar hann hleypur jafnhratt á hnjánum og uppréttur.
Þegar kemur að uppstillingu liðsins gegn Southampton á laugardaginn væri ég til í að sjá 4-2-3-1, kerfið sem Ole Gunnar hefur notast hvað mest við undanfarið, þar sem Rashford, Greenwood og James myndu leiða sóknarlínuna með Mata fyrir aftan þá. Þá með möguleikanum á að Angel Gomez kæmi inn fyrir spænska galdramanninn eftir um klukkustundarleik. Hins vegar ætla ég að spá liðinu svona:
Fred gæti alveg gert tilkall til þess að spila þennan leik en þrálátur orðrómur um að hann sé á leið frá Manchester gæti verið að valda honum hugarangri svo hugsanlega væri hann ekki góður kostur í þennan leik. Eins með Rojo og Darmian, sem virðast báðir vera að reyna að komast frá United enda ekki í plönum hans Solskjær.
Southampton
Gestgjafarnir að þessu sinni eru Southampton en dýrlingarnir, einsog þeir eru gjarnan kallaðir, sitja í fallsæti eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Stjórinn, hinn austríski Ralph Hassenhuttl, tók við liðinu 5. desember s.l. þegar Mark Hughes var rekinn en þá sátu þeir í fallsæti en honum tókst að halda þeim uppi með herkjum.
Í síðasta leik lögðu þeir arfaslakt lið Fulham 0-1 á útivelli í deildarbikarnum en Fulham gerðu 9 breytingar á liði sínu og leyfðu ungum leikmönnum að spreyta sig. Hassenhuttl sagði fyrir leikinni að þeir hyggðust leggja mikið púður í Carabao deildarbikarinn í ár og taka keppnina alvarlega en í fyrra duttu þeir út í 4. umferð bikarsins eftir vítaspyrnukeppni við Leicester City.
Deildin í ár virðist hins vegar ekki fara eins vel af stað fyrir lærisveina Hassenhuttl en svo virðist sem hann sé ekki enn búinn að ákveða hvaða leikkerfi þeir munu spila í vetur en hann hefur gert tilraunir með útfærslur á 3-4-2-1 og 3-5-2 en í 3. umferðinni notaðist hann við 4-2-2-2. Þá notaði hann það kerfi einnig gegn Fulham með góðum árangri og því má gera ráð fyrir því að hann muni styðjast við það gegn United.
Þeir byrjuðu á að tapa 3-0 gegn Burnley (3-4-2-1) í fyrstu umferðinni en fengu því næst Evrópumeistarana í Liverpool (3-5-2) í heimsókn og hefðu auðveldlega geta stolið stigi úr þeim leik ef Danny Ings hefði ekki ennþá borið taugar til sinna gömlu félaga og ákveðið að jafna ekki leikinn úr sannkölluðu dauðafæri undir lok leiks.
Í þriðju umferðinni mættu þeir mávunum í Brighton and Hove Albion (4-2-2-2) og unnu 0-2 útisigur en sjálfsagt hefur það ekki hjálpað heimamönnum í Brighton að Florin Andone fékk að líta rauða spjaldið á 30. mínútu.
Sá leikur var raunar mun jafnari en lokatölur gefa til kynna en tíu Brighton menn áttu 12 marktilraunir eins og Southampton, voru 51% með boltann á meðan gestirnir 49% og áttu 392 heppnaðar sendingar á móti 391. Mörkin komu frá Nathan Redmond og nýja leikmanninum, Moussa Djenepo, sem stuðningsmenn Southampton binda miklar vonir við.
Djenepo er 21 árs gamall vængmaður frá Malí sem kom frá Standard Liege í Belgíu í sumar fyrir um 15 milljónir punda. Sá á að fylla í skarðið sem Sadio Mané skildi eftir sig svo búist er við miklu af stráknum sem skoraði 8 mörk í 35 leikjum fyrir Standard Liege.
Annar leikmaður sem vonast er eftir að muni skína hjá dýrlingunum er Che Adams, 22 ára gamall framherji, sem spilaði fyrir Birmingham á síðustu leiktíð. Mikið var talað um Che, enda orðaður við mörg stærri lið en Southampton, með fullri virðingu fyrir dýrlingunum.
Þá keypti liðið Danny Ings frá Liverpool á 20 millj. punda eftir að hafa verið á láni hjá dýrlinginum á síðasta tímabili en sá enski skoraði á móti sínum gömlu vinnuveitendum á dögunum eftir afleit mistök hjá Adrian í markinu en mistókst að skora framhjá honum síðar í leiknum og tryggja Southampton eitthvað út úr leiknum.
Þessir þrír leikmenn verða allir klárir fyrir leikinn á morgun en ég spái því að þeir munu allir koma við sögu í leiknum, hvort sem það verði af bekknum eða í byrjunarliðinu. Þá verður Nathan Redmond án vafa á sínum stað en leikmaðurinn byrjaði inn á í 36 deildarleikjum á síðasta tímabili og var lykilmaður fyrir liðið þegar það rétt klóraði sig upp úr fallsæti með herkjum.
Líklegast munu Southampton byrja á að liggja aftarlega, leyfa United að vera talsvert meira með boltann og beita svo skyndisóknum og nýta sér hraða leikmanna á borð við Redmond og Che Adams.
Það hlýtur að gefa dýrlingunum sjálfstraust til að verjast aftarlega að horfa upp á síðasta leik United gegn Palace þar sem við héldum boltanum nánast allan leikinn en gerðum ekki mikið við hann, sköpuðum fá færi og borum ekki mjög beittir fram á við á sama tíma og við virkuðum brothættir í öftustu línu.
Hins vegar hafa Southampton ekki unnið United á Saint Mary‘s í deildinni í síðustu átta viðureignum liðanna (fimm töp og 3 jafntefli). Þá hefur United hvergi átt jafn mikilli velgengni að fagna í ensku Úrvalsdeildinni á útivelli eins og á heimavelli dýrlinganna en tíu United sigrar hafa litið dagsins ljós þar.
Heimamenn hafa þó verið duglegir að skora á heimavelli upp á síðkastið en þeim hefur ekki mistekist að skora á St. Mary’s síðan í október þegar liðið gerði 0-0 jafntefli við Newcastle. Það verður því hægara sagt en gert að leggja Southampton að velli á laugardaginn en leikurinn hefst 11:30 og dómari leiksins verður Mike Dean.
Ef svo ólíklega vildi til að við fengjum vítaspyrnu fjórða leikinn í röð, hver ætti þá að stíga upp og taka hana fyrst að Pogba og Rashford hafa báði misnotað síðustu spyrnur sínar og enginn Martial verður í hópnum á laugardaginn?
Gisli G. says
Ég er nú í eldri kantinum, hef stutt M.United í yfir 50 ár.
Hef upplifað ýmislegt sem stuðningsmaður bæði gott og slæmt en lang mest þó gott.
Maður er vanur góðu og þekkir varla annað og vill ekkert annað en gott gengi United.
Attack – Attack – Attack – hraði og læti og fullt af mörkum – það er það sem maður vill sjá.
Eitt af því sem mér finnst hafa breyst til hins verra í seinni tíð er hvað leikmenn eru orðnir næs við andstæðingana í göngunum, alltof næs – ég sakna þess að sjá ekki neista á milli manna !
A la Roy Keane og Patrick Vieira.
Af hverju geta menn ekki verið svolítið pirraðir og brjálaðir útí andstæðingana svona af og til – koma sér í gírinn fyrir leikinn – hættið að vera svona helv… næs strákar, segi ég.
En hvað stöðuna í dag varðar þá er hún svolítið þokukennd fyrir mér.
United er í raun óheppið að vera ekki með 9 stig eftir fyrstu 3 leikina… stjórnuðu alveg leikjunum á móti Wolves og Crystal Palace en þetta féll ekki með okkur.
Mér finnst við vera með alltof litla breidd. Það vantar öflugan miðjumann, miðjumann sem skorar og drífur liðið áfram og kveikir í Pobga, það vantar heimsklassa vinstri bakvörð – Luke Shaw er bara alls ekki nógu góður og of oft meiddur.
Og það vantar striker, og helst tvo – Van Nistelrooy – Andy Cole – Van Persie týpuna – striker sem við getum treyst á að skori nánast í hverjum leik.
Hvað veikustu hlekkina varðar, þá er hann Jesse Lingard bara alls ekki nógu góður, punktur.
McTominay lofar góðu en hefur verið arfaslakur í fyrstu leikjunum, horfið bara á sendingarnar, 80% í lappir andstæðinganna – ég fæ bara grænar bólur að horfa uppá svona.
Við eigum Matic og Mata en þeir eru bara of hægir og farnir að dala báðir.
Fred er stórt spurningarmerki – hefur sýnt alveg ágætis takta frá því hann kom en einnig mjög slaka frammistöðu – og er ekki kominn í gang ennþá.
Við eigum fultt af ungum efnilegum leikmönnum en kannski ekki hægt að reikna með miklu frá þeim í vetur í aðal liðinu.
Við virðumst vera í vandræðum að stilla upp liði þegar 2 leikmenn meiðast – það vantar breidd.
Ef menn hefðu drullast til að kaupa 3 öfluga leikmenn í þessar stöður sem ég hef nefnt hér, þá værum við í allt öðrum málum.
Ég held við séum ekki að fara að gera neitt sérstakt mót í vetur og verðum einhvers staðar um miðja deild eftir tímabilið – búið að reka Solskjaer og þurfum að byrja á núll punkti aftur.
Ég geri mér grein fyrir því að ég er einhverju svartsýniskasti í morgunsárið en það er hádegisleikur á eftir og hann á kannski og vonandi eftir að sýna mér að allt sem ég er að segja hér sé bara tóm steypa.