Það hefur verið þema undanfarið að þegar United liðið tekur eitt skref framávið með góðri frammistöðu í leik að sá árangur gengur til baka í næsta leik á eftir. Eftir góðan sigur gegn Tottenham í síðasta leik er því prófraunin meiri þegar haldið skal á Etihad á morgun.
Meistarar Manchester City hafa ekki verið mjög meistaralegir í haust og sitja í þriðja sæti, ellefu stigum á eftir meistarakandídötum Liverpool. Það hefur helst verið vörnin sem hefur veirð Akkilesarhæll City í vetur. Aymeric Laporte meiddist snemma í haust og verður frá fram yfir nýárið og skarð hans hefur ekki verið fyllt almennilega. Oleksandr Zinchenko hefur líka verið meiddur en verður hugsanlega með á morgun eftir sex vikna fjarveru. Hann kemur inn í vinstri bakvörð og það breytir því ekki að bæði Otaemendi og Stones hafa verið slakir í miðverðinum og því hefur Guardiola þurft að nota Fernandinho þar í stað annars hvors og miðjan þannig veikst.
Eins verður Sergio Agüero ekki með á morgun vegna meiðsla en hugsanlegt að Ilkay Gündogan komi inn í liðið eftir leikbann. Framlínan verður samt ekki vandamál hjá City, þó að stöku raddir heyrist að Gabríel Jesús mætti vera beittari. Það er erfitt að reikna með því að United haldi hreinu sem yrði þá í þriðja sinn í síðustu 27 leikjum.
Engu að síður er alveg óhætt að segja að á pappírnum sé Manchester City sterkara en lið United. En efins og bent hefur verið á bæði fyrir og eftir leikinn gegn Tottenham þá hefur United gengið mun betur gegn sterkari liðum og þá helst þegar hitt liðið vill halda boltanum. Sú kenning veiktist þó aðeins í fyrri hálfleiknum á miðvikudaginn þegar United var meira með boltann en Spurs og voru mun betri. Á morgun búumst við þó við því að City haldi boltanum og United þurfi að verjast og beita skyndisóknum. Það mun mikið mæða á McTominay og Fred á miðjunni. Endurkoma McSauce á miðjuna var ekki síst það sem færði United það sem þurfti til sigurs, það er allt annað að sjá til liðsins þegar hann er með. Fred hefur verið að bæta sig eftir því sem hann hefur fengið traustið til að spila leikina og þegar McTominay var kominn við hliðina á honum átti hann einn sinn besta leik fyrir liðið. Það verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur gegn David Silva, De Bruyne og Rodri, en sá síðastnefndi er að koma sterkari og sterkari inn hjá City.
Vörnin verður óbreytt hjá okkar mönnum. Það styttist í að Axel Tuanzebe komi inn á fullu og ýti þá annað hvort Lindelöf eða jafnvel Maguire út úr liðinu en leikurinn á morgun er ekki leikurinn til að gera þá breytingu nema nauðsyn krefji. Eins verður reynsla Ashley Young þyngst á metunum í valinu í vinstri bakvörð.
Jesse Lingard er líklega sá leikmaður sem mest hefur fengið að kenna á því á netinu í vetur en hann var bara fínn í síðasta leik og ef það er eitthvað sem hann getur þá er það að stíga upp í stóru leikjunum. Anthony Martial er víst ekki mikið meiddur og á að geta leikið á morgun en líklega ekki nema sem varamaður sagði Solskjær í morgun.
Liðið verður því óbreytt frá á miðvikudaginn
Þetta varður spennandi, verður það United frá því að miðvikudaginn sem lætur sjá sig eða dettur liðið aftur niður í meðalmennskuna? Það fáum við að sjá frá klukkan 17:30 á morgun laugardag.
Sigurjon Arthur says
Takk fyrir fína upphitun. Mér er slétt sama þó að Young sé reynslubolti, hann er einfaldlega lélegur í fótbolta og við erum með tvo aðra betri valkosti í stöðunni. Það eina sem fær mig til að efast (örlítið) um OGS er þessi ást hans á Young og að láta sig dreyma um að Pereira verði einhvern tímann sæmilegur í fótbolta.
Hef mikla trú á öllum öðrum í hópnum nema Lingard….hann getur hlaupið og pressað en boltatæknin er einfaldlega ekki á United leveli, því miður. Sá leikmaður sem hefur komið mér mest jákvætt á óvart í vetur er Fred, yfirferðin á honum í leikjum er farin að minna á nafna hans Flinstone á bílnum sínum 😀
Mér finnst framfarirnar á liðinu miklar undir stjórn OGS, þrír leikmenn til viðbótar og við erum komnir í baráttu um titla 💪 Áfram Manchester United alltaf !
Kv,
SAF