Á sama tíma og við óskum landsmönnum gleðilegs nýs árs opnar janúarglugginn sem eflaust einhverjir ef ekki allir stuðningsmenn United hafa beðið eftir. Tímabilið fram til þessa hefur einkennst af miklum sveiflum hvað varðar spilamennsku og nær flest allt tengt liðinu.
Á meðan liðið hefur ekki ennþá tapað fyrir einu af „stóru liðunum“ hefur stigasöfnun gegn neðri hluta deildarinnar vera óboðlegur svo ekki verði meira sagt. Liðið hefur lagt öll toppliðin fyrir utan Liverpool en tapar svo fyrir West Ham, Newcastle og Watford sem öll hafa verið í nokkrum vandræðum á tímabilinu.
Mikið hefur verið rætt um leikmannaglugga sumarsins, bæði þá sem komu og komu ekki en eflaust eru margir sammála því að Ole Gunnar og stjórn félagsins hafi gert vel en ekki nóg. Kaupin hafa reynst góð en í fjarveru lykilmanna eins og Scott McTominay og Paul Pogba hefur það komið bersýnilega í ljós að miðjan okkar er afar þunnskipuð og í raun ótrúlegt að Solskjær og félagar hafa haldið að þeir kæmust upp með að kaupa ekki leikmenn í stað Ander Herrera og Marouane Fellaini.
Liðið hefur fengið nokkra skelli vegna þess hve breiddin er lítil og því verður einfaldlega að vera krafa um það að nýjir leikmenn verði keyptir í þessum glugga. Sérstaklega í þeim leikjum þar sem liðið hefur verið meira með boltann hefur það sýnt sig að okkur vantar sárlega eins og einn skapandi miðjumann til að brjóta upp vörn mótherjanna þegar rútunni hefur verið lagt þvert fyrir markið. Þá þyrfti líka sóknarmann til að létta á sóknarþríeykinu okkar og veita Martial og Rashford heilbrigða og góða samkeppni.
Það verður því áhugavert að sjá hvað mun gerast í janúarmánuði, við höfum nú þegar fengið fyrsta skellinn þegar fréttir bárust þess efnis að Erling Braut Håland hefði ákveðið að semja við Dortmund en ekki Manchester United.
Fyrr í desember fengust þær fréttir líka að Mario Mandzukic hefði skrifað undir hjá Al-Duhail í Katar en þessir tveir hafa sterklega verið orðaðir við okkur undanfarið en allt kom fyrir ekki.
En þá að leiknum sem er af stærri gerðinni. United fer til Lundúna þar sem liðið mætir gömlu erkifjendunum í Arsenal á Emirates vellinum. Fyrir tæpum tveimur áratugum hefði þessi leikur eflaust verið einn sá allra stærsti á tímabilinu þar sem tveir risar í enska boltanum tækjust á í toppbaráttunni. Í dag er annað upp á teningnum þar sem liðið sitja í 5. og 12. sæti deildarinnar.
Mótherjinn
Arsenal hefur munað sinn fífil fegurri en liðið rak Unai Emery á dögunum eftir 7 leiki án sigurs og þá sat liðið í 8. sæti deildarinnar og var svo gott sem komið áfram í Evrópudeildinni. Engu að síður var stjórinn látinn taka pokann sinn og Freddie Ljungberg tók við sem bráðabirgðastjóri en vandræði liðsins héldu áfram. Í þeim fimm leikjum sem Ljungberg stýrði liðinu tókst þeim einungis í eitt sinn að bera sigur úr býtum gegn öðru Lundúnarliði í vandræðum, West Ham.
Mikel Arteta tók við liðinu þann 20. desember en fyrsta viðureign liðsins undir hans stjórn var gegn Everton sem einnig var undir stjórn nýs stjóra. Steindautt og bragðlaust markalaust jafntefli var niðurstaðan en í kjölfarið fylgdi jafntefli gegn Bournemouth og grátlegt tap gegn Chelsea.
Þó úrslitin hafi alls ekki fallið með Arsenal á síðustu vikum var talsvert annað að sjá til liðsins og greinilegt að áhrif Arteta hafa ekki látið standa á sér. Liðið var mjög sprækt gegn Chelsea en sjaldséð mistök hjá Bernd Leno í markinu og svo banvæn skyndisókn sáu til þess að stigin þrjú fóru með gestunum og það skyggði á annars góða frammistöðu.
Arsenal hefur verið í miklum vandræðum varnarlega en fyrir tímabilið fengu þeir ágætis liðsstyrk með David Luiz, Kieran Tierney og William Saliba (sem var reyndar lánaður til baka til Saint-Étienne út tímabilið) en engu að síður hefur ekki tekist að stoppa upp í götin en liðið hefur fengið á sig 30 mörk í 20 leikjum.
Það verður því líklega eitt fyrsta verkefni nýja stjórans að glíma við það vandamál en fram á við hafa vandræðin verið minni. Aubameyang er til að mynda næst markahæstur í deildinni og þá hefur Lacazette verið að sækja í sig veðrið.
Þó að leikir þessara liða hafi eflaust verið stærri en leikurinn á morgun þá er ýmislegt undir fyrir bæði lið. Tapi Arsenal leiknum verður United með 10 stiga forskot á „skytturnar“ og við höldum fast í vonina um að draga enn frekar á fjórða sætið og þar með þátttöku í Meistaradeildinni á næsta ári.
Hins vegar ef United tapar leiknum fá ef til vill einhverjir dejavú frá því í vor þegar United lagði sig fram við að kasta frá sér meistaradeildarsætinu þrátt fyrir fjölmörg tækifæri til að stela því. Fyrir Arsenal liggur annað undir. Gengi liðsins hefur ekki verið svona slæmt frá því Úrvalsdeildin var sett á laggirnar og með því að tapa á morgun verður baráttan um Evrópusætið ansi snúin.
Liðið þarf virkilega á því að halda að sigra á morgun þó ekki væri nema bara til að halda andliti og sanna fyrir stuðningsmönnum sínum að miðjumoð sé ekki komið til að vera hjá liðinu. Arsenal hefur átt erfitt með að landa toppleikmönnum síðan þeir misstu áskriftina af Meistaradeildinni undir stjórn Wenger og endurnýjun hópsins hefur liðið fyrir það.
Sem betur fer fyrir Ole og hans menn þá eru meiðslavandræði hjá Arsenal, sérstaklega í öftustu línu, þar sem þeir Hector Bellerín, Kieran Tierney og Sead Kolasinac eru allir frá vegna meiðsla sem gerði það að verkum að Bukayo Saka og Maitland-Niles voru tilneyddir til að spila 90 mínútur gegn Chelsea og munu þurfa að gera svipað núna á morgun.
Þá gæti verið að Sokratis verði ekki búinn að jafna sig eftir höfuðhögg sem hann hlaut en þá má gera ráð fyrir að Rob Holding eða Shkodran Mustafi muni standa vaktina með David Luiz í vörninni.
Það verður því að teljast líklegt að þessi leikur komi til með að henta okkur vel, Arsenal mun sækja þar sem Arteta á enn eftir að sækja sinn fyrsta sigur og hvar betra en á heimavelli gegn United. Það í bland við varnarlínu sem er ekki vön að spila saman gefur sóknarþríeykinu okkar vonandi nóg pláss til að athafna sig og nýta hraðann. Annars geri ég ráð fyrir að Arteta stilli upp liðinu eitthvað í líkingu við þetta:
United
Eftir tapið gegn Watford komu sterkir sigrar, 4-1 gegn Newcastle og 0-2 gegn Burnley en í báðum leikjum skoruðum við mörk eftir pressu og vonandi höldum við áfram þeirri ákefð sem var til staðar í þeim leikjum. Það er ekki hægt að segja að United sé komið á siglingu því liðið hefur ekki enn náð að sigra meira en 2 leiki í röð í deildinni.
Þetta verður því kjörinn leikur fyrir rauðu djölfana til að láta kné fylgja kviði og halda áfram baráttunni um meistaradeildarsætið sem mörgum fannst hafa runnið okkur úr greipum fyrr á leiktíðinni.
Meiðslalistinn er eitthvað að styttast hjá okkur en Eric Bailly, Marcos Rojo og Timothy Fosu-Mensah eru enn á listanum og skotinn okkar McTominay verður líka frá í að minnsta kosti 4 vikur. Hins vegar er ekki víst hvort Pogba komi inn í liðið en fréttir þess efnis að hann hafi ekki ferðast með hópnum sem mætir Arsenal á morgun hafa sprottið upp nú síðdegis en það kemur betur í ljós á morgun.
Þá gæti Jesse Lingard komið inn í stað Pereira sem átti þá fínan leik gegn bæði Newcastle og Burnley en sá enski vill ábyggilega ólmur gleyma 2019 hið fyrsta og hefja 2020 með pompi og prakt með stórleik gegn Arsenal. Annars spái ég liðinu nokkuð óbreyttu:
Leikurinn hefst kl 20:00 en dómari leiksins er Chris Kavanagh.
Alexander Hurra says
PP er seldur! Þađ kemur ekkert annađ til greina afhverju hann ferđađist ekki međ liđinu
Audunn says
Arsenal spilaði virkilega vel gegn Chelsea um daginn og áttu aldrei skilið að tapa þeim leik.
Held að þeir hafi lært ansi mikið í þeim leik og munu ekki tapa þessum leik líka.
Jafntefli yrði fín úrslit fyrir Manchester United en ég óttast vont tap sérstaklega í ljósi hvernig staðan er á miðjumönnum okkar.
Afhverju ferðaðist Pogba ekki með til London? Er Ole ruglaður? Vill Pogba ekki spila eða vill Ole ekki nota hann? Afhverju getur Ole Gunnar ekki drullast til að segja stuðningsmönnum sannleikann? Þvílík framkoma að hans hálfu. Hann hlýtur að vera orðin uppiskroppa með lygarsögur.
Veikur, meiddur, þreyttur osfrv. Allt tóm djöfs della og lýgi.
Og það er líka magnað að Ole skuli þá ekki vera ennþá búinn að finna annan miðjumann eða menn því hann er búinn að hafa marga mánuði til þess.
Og ekki bætir úr skák ummæli Riola ( hvernig sem það helv nafn er nú skrifað) í garð United.
Ekki það að sá skratti sé hreinn og beinn.. langt því frá. En hann hefur gífurlega völd í þessum leikmanna bransa og því miður þá er hlustað á hvað þessi maður segir.
United er því miður í helv slæmum málum innan sem utan vallar og verkefnin sem þarf að leysa eru risa risa stór.
Það sem er kannski það sárast er að þau eru öll heimatilbúin og hefur hingað til verið sópuð undir teppið í stað þess að gengið sé í að laga þau og bæta.
Hjöri says
Gleðilegt ár félagar. Eigum við ekki að vera svolítið jákvæðir svona á fyrstu dögum nýs árs? En ég er sammála þér Auðunn með þennan Raiola, að hann sé ekki hreinn og beinn er eflaust einn peningur, og hef ég oft hugleitt að leikmenn skuli sækja til hans sem umboðsmanns, en kanski er það v/þess að hann nær góðum samningum (peningalega) fyrir leikmenn. Ef ég man rétt þá var Ferguson ekki hrifinn af þessum manni. En hvað leikinn varðar í kvöld, þá vonandi náum við eitthvað út úr þeirri viðureign. Svo er það með hann blessaðan Pogba, maður veit eiginlega ekki hvort hann er að fara eða vera, miðað við upplýsingar í miðlunum, og best held ég fyrir liðið að hann færi, en það hefur gengið ágætlega án hans. En hvað ræður Ole miklu hjá félaginu? Hann hefur ábyggilega ekki sömu völd og Ferguson hafði. Með von um góð úrslit í kvöld. Góðar stundir.